Vinnið kappsamlega að hjálpræði fjölskyldu ykkar
„Alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ — EFESUSBRÉFIÐ 6:4.
1, 2. Hvaða vandi blasir við foreldrum nú á dögum?
VINSÆLT tímarit talar um byltingu. Það var gert í grein sem fjallaði um þær gríðarlegu breytingar sem átt hafa sér stað í fjölskyldumálum á síðustu árum. Sagt var að þær orsökuðust „af faraldri skilnaða, nýrra giftinga, nýrra skilnaða, barna fæddra utan hjónabands og nýrri spennu innan fjölskyldna sem enn eru í heilu lagi.“ Slík spenna og álag kemur ekki á óvart því að Biblían spáði að „örðugar tíðir“ myndu koma yfir fólk núna á „síðustu dögum.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
2 Foreldrar standa því frammi fyrir vanda núna sem fyrri kynslóðir þekktu ekki. Sumir foreldrar okkar á meðal hafa alið börn sín upp í guðrækni „frá blautu barnsbeini,“ en margar fjölskyldur eru líka nýlega byrjaðar að ‚lifa í sannleikanum.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:15; 3. Jóhannesarbréf 4) Börnin voru kannski orðin stálpuð þegar foreldrarnir byrjuðu að kenna þeim vegu Guðs. Auk þess fjölgar einstæðum foreldrum og stjúpfjölskyldum okkar á meðal. Hverjar svo sem aðstæður þínar eru eiga hvatningarorð Páls postula vel við: „Alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ — Efesusbréfið 6:4.
Kristnir foreldrar og hlutverk þeirra
3, 4. (a) Hvað hefur átt sinn þátt í að draga úr mikilvægi föðurhlutverksins? (b) Af hverju verða kristnir feður að vera meira en fyrirvinna?
3 Tökum eftir að Páll beindi orðum sínum í Efesusbréfinu 6:4 fyrst og fremst til feðra. Bókarhöfundur einn segir að meðal fyrri kynslóða hafi „feður borið ábyrgð á siðferðilegu og andlegu uppeldi barna sinna; feður báru ábyrgð á menntun barna sinna. . . . En iðnbyltingin sleit þessi nánu bönd; feður yfirgáfu bújarðir sínar og vinnustofur, yfirgáfu heimili sín til að vinna í verksmiðjum og síðar á skrifstofum. Mæður tóku á sig margar af þeim skyldum sem feður báru áður. Föðurhlutverkið varð í vaxandi mæli fræðilegt hugtak.“
4 Kristnir feður: Látið ykkur ekki nægja að vera bara fyrirvinna og láta konurnar sjá algerlega um uppeldi og umönnun barnanna. Orðskviðirnir 24:27 hvöttu feður til forna: „Annastu verk þitt utan húss og ljúk því á akrinum, síðan getur þú byggt hús þitt [„uppbyggt fjölskyldu þína,“ NW].“ Vel má vera að þú þurfir að vinna langan vinnudag til að sjá fjölskyldu þinni farborða. (1. Tímóteusarbréf 5:8) En eftir að vinnudegi lýkur skaltu samt taka þér tíma til að ‚uppbyggja fjölskyldu sína‘ — tilfinningalega og andlega.
5. Hvernig geta kristnar eiginkonur unnið að hjálpræði fjölskyldna sinna?
5 Kristnar eiginkonur: Þið verðið líka að vinna kappsamlega að hjálpræði fjölskyldu ykkar. Orðskviðirnir 14:1 segja: „Viska kvennanna reisir húsið.“ Sem hjón berið þið bæði ábyrgð á uppeldi barna ykkar. (Orðskviðirnir 22:6; Malakí 2:14) Það getur falið í sér að aga börnin, hafa þau til fyrir kristnar samkomur og boðunarstarfið, eða jafnvel að stjórna fjölskyldunáminu þegar eiginmaðurinn hefur ekki tök á að gera það. Þið getið gert margt til að kenna börnunum heimilisstörf, góða mannasiði, líkamlegt hreinlæti og margt annað gagnlegt. (Títusarbréfið 2:5) Þegar hjón vinna saman á þennan hátt geta þau betur fullnægt þörfum barna sinna. Hverjar eru þessar þarfir?
Tilfinningalegum þörfum þeirra fullnægt
6. Hvaða hlutverki gegna mæður og feður í tilfinningaþroska barna sinna?
6 ‚Þegar móðir hlúir að börnum sínum‘ finna þau til öryggiskenndar og ástar. (1. Þessaloníkubréf 2:7; Sálmur 22:10) Fáar mæður geta staðist þá löngun að gæla löngum stundum við ungbörn sín. Spámaðurinn Jesaja spurði: „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?“ (Jesaja 49:15) Mæður gegna þannig þýðingarmiklu hluverki í tilfinningaþroska barna. En feður gegna þar einnig mikilvægu hlutverki. Fjölskylduráðgjafinn Paul Lewis segir: „Ég hef ekki haft með að gera einn einasta félagsráðgjafa með mál nokkurs [afbrota-] unglings sem átti gott samband við föður sinn. Ekki einn ungling af mörg hundruð.“
7, 8. (a) Hvað sýnir að það er náið samband milli Jehóva Guðs og sonar hans? (b) Hvernig geta feður myndað náin tengsl við börn sín?
7 Það er þess vegna nauðsynlegt að kristnir feður rækti samviskusamlega ástrík tengsl við börnin sín. Tökum Jehóva Guð og Jesú Krist sem dæmi. Jehóva lýsti yfir við skírn Jesú: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ (Lúkas 3:22) Þessi fáu orð segja mikið! Jehóva (1) viðurkenndi son sinn, (2) lét opinskátt í ljós elsku sína á Jesú og (3) lét aðra heyra að hann hefði velþóknun á honum. En þetta var ekki eina skiptið sem Jehóva lét í ljós elsku sína til sonar síns. Jesús sagði síðar við föður sinn: „Þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims.“ (Jóhannes 17:24) En þurfa ekki allir hlýðnir synir og dætur viðurkenningu, ást og velþóknun feðra sinna?
8 Ef þú ert faðir getur þú trúlega gert margt til að mynda náin kærleikstengsl við börnin þín með því að tjá þeim ást þína reglulega með snertingu og orðum. Sumir karlmenn eiga að vísu erfitt með að sýna væntumþykju, einkum ef feður þeirra sýndu þeim aldrei opinskátt ástúð. En jafnvel klaufaleg tilraun til að tjá börnum sínum ást sína getur haft mikil áhrif. „Kærleikurinn byggir upp“ þegar öllu er á botninn hvolft. (1. Korintubréf 8:1) Ef börnin finna til öryggiskenndar vegna föðurástar þinnar eiga þau auðveldara með að gera þig að trúnaðarvini sínum.
Andlegum þörfum þeirra sinnt
9. (a) Hvernig önnuðust guðhræddir, ísraelskir foreldrar andlegar þarfir barna sinna? (b) Hvaða tækifæri hafa kristnir foreldrar til að kenna börnum sínum óformlega?
9 Börn hafa líka andlegar þarfir. (Matteus 5:3, NW) Móse hvatti ísraelska foreldra: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ (5. Mósebók 6:6, 7) Ef þú ert kristið foreldri getur þú haft stóran hluta kennslunnar óformlegan, til dæmis „þegar þú ert á ferðalagi.“ Tíminn sem þið ferðist með börnum ykkar í bíl, verslið saman eða gangið með þeim hús úr húsi í hinni kristnu þjónustu býður upp á heilnæm tækifæri til að fræða þau við þægilegar aðstæður. Matartímarnir eru sérstaklega góður tími fyrir fjölskylduna til að ræða saman. „Við notum matartímana til að tala um viðburði dagsins,“ segir móðir.
10. Af hverju er fjölskyldunám stundum krefjandi, og hverju verða foreldrar að vera staðráðnir í?
10 En formleg fræðsla með reglubundnu biblíunámi með börnunum er einnig nauðsynleg. Vissulega ‚situr fíflska föst í hjörtum‘ barna. (Orðskviðirnir 22:15) Sumir foreldrar segja að börn þeirra geti auðveldlega spillt fjölskyldunáminu. Hvernig? Með því að vera eirðarlaus eða sýna greinilega að þeim leiðist, með því að valda þreytandi truflunum (svo sem með hnippingum við systkini sín) eða með því að þykjast ekki þekkja undirstöðusannindi Biblíunnar. Ef úr verða átök um það hver sé viljasterkastur verður vilji foreldranna að hafa yfirhöndina. Kristnir foreldrar mega ekki gefast upp og láta börnin stjórna heimilinu. — Samanber Galatabréfið 6:9.
11. Hvernig er hægt að gera fjölskyldunám ánægjulegt?
11 Ef börnin þín hafa ekki gaman af fjölskyldunáminu er kannski hægt að breyta einhverju. Er námið til dæmis notað sem tilefni til að rifja upp síðustu mistök barnanna? Kannski væri best að ræða slík vandamál í einrúmi. Er námið haldið reglulega? Ef þú sleppir því til að horfa á uppáhalds-sjónvarpsþátt eða íþróttakappleik er ekki líklegt að börnin taki námið sérlega alvarlega. Stjórnar þú náminu með eldmóði og kostgæfni? (Rómverjabréfið 12:8) Já, námið ætti að vera ánægjulegt. Reyndu að láta öll börnin taka þátt í því. Vertu jákvæður og uppbyggjandi og hrósaðu börnunum hlýlega fyrir þátttöku þeirra. Það er auðvitað ekki nóg að fara bara yfir efnið heldur þarf að reyna að ná til hjartans. — Orðskviðirnir 23:15.
Ögun í réttlæti
12. Hvers vegna felst agi ekki alltaf í líkamlegri hirtingu?
12 Börn hafa líka mikla þörf fyrir aga. Sem foreldrar ættuð þið að setja þeim takmörk. Orðskviðirnir 13:24 segja: „Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.“ Biblían á hins vegar ekki við það að agi jafngildi alltaf flengingu. Orðskviðirnir 8:33 segja: „Hlýðið á aga,“ og okkur er sagt að ‚ávítur fái meira á hygginn mann en hundrað högg á heimskingja.‘ — Orðskviðirnir 17:10.
13. Hvernig ætti að aga börn?
13 Stundum getur þurft að beita einhverjum líkamlegum aga. En ef honum er beitt í reiði er hætt við að hann fari út í öfgar og skili ekki árangri. Biblían varar við: „Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ (Kólossubréfið 3:21) Svo sannarlega ‚gerir kúgun vitran mann að heimskingja.‘ (Prédikarinn 7:7) Bitur unglingur getur jafnvel risið öndverður gegn réttlátum lífsreglum. Foreldrar ættu því að nota Ritninguna til að aga börnin með festu í réttlæti en þó öfgalaust. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Aga Guðs er beitt með kærleika og mildi. — Samanber 2. Tímóteusarbréf 2:24, 25.a
14. Hvað ættu foreldrar að gera ef þeim finnst þeir hafa tilhneigingu til að láta reiði hlaupa með sig í gönur?
14 Að sjálfsögðu ‚hrösum vér allir margvíslega.‘ (Jakobsbréfið 3:2) Jafnvel foreldri, sem er að jafnaði ástríkt, getur látið undan álagi líðandi stundar og sagt eitthvað óvingjarnlegt eða fengið reiðikast. (Kólossubréfið 3:8) Ef það gerist skaltu ekki láta sólina setjast meðan þú ert sjálfur reiður og barnið þitt í uppnámi. (Efesusbréfið 4:26, 27) Útkljáðu málið við barnið og biðstu afsökunar ef við á. (Samanber Matteus 5:23, 24.) Slík auðmýkt getur styrkt böndin milli þín og barnsins. Ef þér finnst þú ekki getað hamið skapsmuni þína og eigir til að missa stjórn á skapi þínu skaltu leita hjálpar hinna útnefndu öldunga safnaðarins.
Einstæðir foreldrar og stjúpfjölskyldur
15. Hvernig er hægt að hjálpa börnum einstæðra foreldra?
15 En ekki njóta öll börn stuðnings beggja foreldra sinna. Í Bandaríkjunum elst fjórða hvert barn upp hjá einstæðu foreldri. Föðurlaus og munaðarlaus börn voru algeng á biblíutímanum og Biblían nefnir aftur og aftur að þeim skuli sýnd umhyggja. (2. Mósebók 22:22) Einstæðir kristnir foreldrar og börn þeirra verða líka fyrir álagi og erfiðleikum, en það hughreystir þau að vita að Jehóva „er faðir föðurlausra, vörður ekknanna.“ (Sálmur 68:6) Kristnir menn eru hvattir til að „vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra.“ (Jakobsbréfið 1:27) Trúbræður geta gert margt til að hjálpa einstæðum foreldrum og börnum þeirra.b
16. (a) Hvað ættu einstæðir foreldrar að gera fyrir fjölskyldu sína? (b) Af hverju getur verið erfitt að beita aga en af hverju verður að gera það?
16 Hvað getur þú gert fjölskyldu þinni til gagns ef þú ert einstæður faðir eða móðir? Þú þarft að vera iðinn við fjölskyldubiblíunám, samkomusókn og starfið á akrinum. En það getur verið sérstaklega erfitt að beita aga. Kannski syrgirðu enn dauða ástkærs maka þíns. Kannski ertu að takast á við sektarkennd eða reiði yfir sundruðu hjónabandi. Ef fyrrverandi maki þinn hefur umgengnisrétt við barnið óttastu kannski jafnvel að það vilji heldur vera hjá honum en þér. Slíkt ástand getur gert þér tilfinningalega erfitt að beita öfgalausum aga. En Biblían segir okkur að ‚agalaus sveinn gjöri móður sinni skömm.‘ (Orðskviðirnir 29:15) Láttu því ekki undan sektarkennd, eftirsjá eða tilfinningaálagi frá fyrrverandi maka þínum. Settu börnunum sanngjarnar lífsreglur og vertu sjálfum þér samkvæmur. Slakaðu ekki á meginreglum Biblíunnar. — Orðskviðirnir 13:24.
17. Hvernig gæti hlutverkaskipting foreldra og barna orðið óskýr á heimilum einstæðra foreldra, og hvað getur komið í veg fyrir það?
17 En vandamál geta komið upp ef einstæð móðir kemur fram við son sinn sem varahúsbóndann — karlmanninn á heimilinu — eða dóttur sína sem trúnaðarvinkonu og íþyngir henni með sínum innstu vandamálum. Það er óviðeigandi og ruglar barnið. Þegar hlutverkaskipting foreldra og barns verður óskýr getur aginn runnið út í sandinn. Láttu það vera ljóst að þú sért foreldrið. Ef þú ert móðir og þarfnast biblíulegra ráðlegginga skaltu leita þeirra hjá öldungunum eða kannski þroskaðri, eldri trúsystur. — Samanber Títusarbréfið 2:3-5.
18, 19. (a) Nefndu nokkur vandamál sem blasa við stjúpfjölskyldum. (b) Hvernig geta foreldrar og börn í stjúpfjölskyldu sýnt visku og dómgreind?
18 En vandamál geta líka komið upp í stjúpfjölskyldum. Það er sjaldgæft að stjúpbörn fái tafarlaust ást á stjúpforeldri sínu. Stjúpbörn geta til dæmis verið mjög viðkvæm fyrir því ef þeim finnst að verið sé að hygla stjúpsystkinum sínum. (Samanber 1. Mósebók 37:3, 4.) Stjúpbarn er kannski að glíma við sorgina sem fylgir því að missa foreldri sitt, og óttast að það beri vott um einhvers konar óhollustu við kynföður sinn eða móður ef því þykir vænt um stjúpforeldri sitt. Tilraunum til að beita nauðsynlegum aga er kannski mætt með hvassri áminningu frá barninu: ‚Þú ert ekki pabbi minn/mamma mín!“
19 Orðskviðirnir 24:3 segja: „Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast.“ Já, það kostar visku og dómgreind af hálfu allra að byggja upp farsæla stjúpfjölskyldu. Börnin þurfa með tímanum að sætta sig við þá staðreynd að hlutirnir hafa breyst, og það er ekki alltaf sársaukalaust. Stjúpforeldrar geta líka þurft að læra að vera þolinmóðir og umhyggjusamir, og móðgast ekki samstundis og þeim finnst sér hafnað. (Orðskviðirnir 19:11; Prédikarinn 7:9) Áður en stjúpforeldri tekur á sig hlutverk uppalanda þarf það að eignast vináttu stjúpbarnsins og það kostar vinnu. Uns slík bönd hafa myndast álíta sumir kannski best að láta kynforeldrið sjá um agann. Þegar togstreita myndast þarf að leggja sig fram við að ræða saman og skiptast á skoðunum. „Hjá ráðþægnum mönnum er viska,“ segja Orðskviðirnir 13:10.c
Haltu áfram að vinna að hjálpræði fjölskyldu þinnar
20. Hvað ættu kristin fjölskylduhöfuð að halda áfram að gera?
20 Kristnar fjölskyldur verða ekki sterkar af sjálfu sér. Þið sem eruð fjölskylduhöfuð verðið að halda áfram að vinna kappsamlega að hjálpræði fjölskyldna ykkar. Verið árvakrir og vakandi fyrir óheilnæmum einkennum eða veraldlegum tilhneigingum. Setjið gott fordæmi í tali, hegðun, kærleika, trú og hreinleika. (1. Tímóteusarbréf 4:12) Sýnið ávexti anda Guðs. (Galatabréfið 5:22, 23) Þolinmæði, tillitssemi, fyrirgefning og blíða styrkir viðleitni ykkar til að kenna börnum ykkar vegu Guðs. — Kólossubréfið 3:12-14.
21. Hvernig er hægt að viðhalda hlýju og ánægjulegu andrúmslofti á heimili sínu?
21 Reynið með Guðs hjálp að viðhalda ánægjulegum og hlýlegum anda á heimilinu. Verið saman sem fjölskylda og reynið að borða að minnsta kosti eina máltíð saman á hverjum degi. Kristnar samkomur, boðunarstarf og fjölskyldunám er nauðsynlegt. En það hefur líka sinn tíma „að hlæja . . . að dansa.“ (Prédikarinn 3:1, 4) Já, skipuleggið líka uppbyggjandi afþreyingu. Að skoða söfn eða fara í dýragarða og á aðra slíka staði er ánægjulegt fyrir alla fjölskylduna. Þið gætuð líka slökkt á sjónvarpinu og notað stund saman til að syngja, hlusta á tónlist, fara í leiki og tala saman. Það getur hjálpað fjölskyldunni að tengjast nánari böndum.
22. Af hverju ættir þú að vinna kappsamlega að hjálpræði fjölskyldu þinnar?
22 Megið þið öll, sem eruð kristnir foreldrar, halda áfram að leggja ykkur fram við að þóknast Jehóva fyllilega, ‚bera ávöxt í öllu góðu verki og vaxa að þekkingu á Guði.‘ (Kólossubréfið 1:10) Byggið fjölskyldur ykkar á sterkum grunni hlýðni við orð Guðs. (Matteus 7:24-27) Og verið þess fullviss að viðleitni ykkar til að ala börnin ykkar upp „með aga og umvöndun [Jehóva]“ hafi velþóknun hans. — Efesusbréfið 6:4.
[Neðanmáls]
a Sjá greinina „The Bible’s Viewpoint: ‚The Rod of Discipline‘ — Is It Out-of-Date?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) þann 8. september 1992.
b Sjá Varðturninn 1. mars 1982, bls. 3-15.
c Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. október 1984, bls. 21-5.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig geta hjón unnið saman að uppbyggingu fjölskyldu sinnar?
◻ Nefndu sumar af tilfinningalegum þörfum barna og hvernig hægt er að fullnægja þeim.
◻ Hvernig geta fjölskylduhöfuð kennt börnum sínum bæði formlega og óformlega?
◻ Hvernig geta foreldrar agað í réttlæti?
◻ Hvað getur orðið einstæðum foreldrum og stjúpfjölskyldum að liði?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Ást og velþóknun föðurins er mikilvæg fyrir tilfinningaþroska barns.