-
Andrúmsloft þessa heims er banvænt!Varðturninn – 1988 | 1. apríl
-
-
Andrúmsloft þessa heims er banvænt!
„Og ykkur lífgaði Guð þótt þið væruð dauðir í yfirtroðslum ykkar og syndum sem þið eitt sinn genguð í . . . að vilja stjórnandans yfir valdi loftsins..“ — EFESUSBRÉFIÐ 2:1, 2, NW.
1. Hvers vegna er andrúmsloftið sums staðar orðið lífshættulegt?
HVERSU hressandi er ekki að komast út í ferskt loft eftir að hafa verið í herbergi þar sem loftið er þungt og þjakandi! En jafnvel úti undir berum himni er loftmengun mikil. Víða um heim er eiturefnum spúið út í andrúmsloftið í ógnvekjandi magni. Eitraðar gufur, geislavirkt ryk, sýklar og ýmsar veirur berast með loftinu. Græðgi mannsins og kæruleysi er smám saman að gera andrúmsloftið, sem okkar ástríki skapari gaf okkur af slíku örlæti, banvænt.
2. Hvaða ‚loft‘ er enn hættulegra en hið mengaða loft sem við öndum að okkur?
2 Þótt loftmengun sé hættuleg er til önnur og enn banvænni ‚loftmengun.‘ Þar er ekki um að ræða mengað loft eftir kjarnorkuslysið í Chernobyl eða reykmettað stórborgarandrúmsloft eins og í Los Angeles. Við eigum á hættu að anda að okkur miklu banvænna ‚andrúmslofti.‘ Páll postuli minntist á það þegar hann sagði kristnum bræðrum sínum: „Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda, sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu [stjórnandans yfir valdi loftsins, NW], anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.“ — Efesusbréfið 2:1, 2.
3, 4. (a) Hver er ‚stjórnandinn yfir valdi loftsins‘? (b) Hvers vegna er ‚loftið‘ í Efesusbréfinu 2:1, 2 ekki bústaður illra anda?
3 Hvaða ‚loft‘ er þetta? Páll segir að það hafi ‚vald‘ eða afl og að yfir því sé ‚stjórnandi.‘ Við þurfum ekki að vera í vafa um hver þessi stjórnandi er. Það er Satan djöfullinn, hann sem Jesús Kristur kallaði „höfðingja þessa heims.“ (Jóhannes 12:31) Biblíufræðingum er það ljóst og því hafa sumir haldið því fram að Páll hafi tekið hér að láni tungutak Gyðinga eða heiðingja og talað um andrúmsloftið sem bústað illra anda er djöfullinn fer með völd yfir. Margar biblíuþýðingar endurspegla þetta sjónarmið. En þetta ‚loft‘ er ekki hið sama og ‚himingeimurinn‘ þar sem „andaverur vonskunnar“ búa. — Efesusbréfið 6:11, 12.
4 Þegar Páll skrifaði kristnum mönnum í Efesus voru Satan og illir andar hans enn á himnum, þótt velþóknun Guðs næði ekki til þeirra. Enn var ekki búið að kasta þeim niður af himnum í nágrenni við jörðina. (Opinberunarbókin 12:7-10) Loftið beinist meira að mönnum en andaverum. Það voru mennirnir sem áttu að finna fyrir því þegar síðustu reiðiskál Guðs yrði úthellt „yfir loftið.“ — Opinberunarbókin 16:17-21.
5. Hvaða ‚loft‘ er hér um að ræða og hvaða áhrif hefur það á fólk?
5 Svo er að sjá sem Páll noti hér hið bókstaflega loft, andrúmsloftið, til tákns um hinn almenna anda, hið ríkjandi hugarfar eigingirni og óhlýðni sem einkennir þá er ekki þekkja Guð. Það er hið sama og ‚andi þess sem nú starfar í þeim sem ekki trúa,‘ og ‚andi heimsins.‘ (Efesusbréfið 2:2; 1. Korintubréf 2:12) Á sama hátt og hið bókstaflega andrúmsloft er alls staðar og bíður þess að við öndum því að okkur, eins er ‚andi heimsins‘ alls staðar. Hann gagnsýrir og mótar hugsunarhátt manna frá vöggu til grafar og birtist í því hvernig þeir reyna að láta vonir sínar, óskir og metnaðarlanganir rætast.
6. (a) Hvað eykur áhrif þessa ‚lofts‘ heimsins og hvernig fer það með eins konar yfirvald? (b) Hvernig getur það fengið menn til að líkja eftir uppreisnarhug djöfulsins ef þeir anda að sér þessu ‚lofti‘?
6 Þessi andi syndar og uppreisnar drottnar yfir ófullkomnu mannfélagi. Menn anda að sér þessu ‚lofti‘ og eituráhrif þess magnast vegna þvingunar og þrýstings frá öðrum mönnum og síaukinnar löngunar í holdlegan munað. Því er þetta loft eins og ‚valdhafi‘ yfir fólki. (Samanber Rómverjabréfið 6:12-14.) Djöfullinn er að sjálfsögðu frumkvöðull alls þess sem illt er. (Jóhannes 8:44) Hann hefur því þau áhrif á menn að þeir líkja eftir uppreisnargirni hans, og hann innblæs, mótar og stýrir þessum ‚anda‘ eða ‚lofti‘ samfélagsins. Satan er ‚valdhafinn‘ eða ‚stjórnandinn‘ yfir þessu óhugnanlega afli og notar það til að stýra hugsun manna. Frumefni þess eru þannig gerð að þau haldi fólki uppteknu við að fullnægja löngunum holdsins og keppa eftir veraldlegum hagsmunamálum, þannig að það hafi engan tíma eða tilhneigingu til að kynnast Guði og beygja sig fyrir heilögum anda hans, ‚andanum sem lífgar.‘ (Jóhannes 6:63) Í andlegum skilningi eru þeir dauðir.
7. (a) Í hvaða skilningi voru kristnir menn einu sinni „börn reiðinnar“? (b) Hvaða breyting átti sér stað þegar við tókum kristna trú?
7 Kristnir menn höfðu líka verið undir yfirvaldi eða stjórn þessa mengaða ‚lofts‘ áður en þeir lærðu sannleikann í orði Guðs og fóru að samlaga sig réttlátum stöðlum hans. „Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir [veraldlegt fólk] í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.“ En þegar við gerðumst kristin hættum við að anda að okkur þessu banvæna ‚lofti‘ heimsins. Við ‚afklæddumst hinum gamla persónuleika ásamt okkar fyrri breytni og íklæddumst nýjum persónuleika sem var skapaður eftir vilja Guðs í réttlæti og heilagleika sannleikans.‘ — Efesusbréfið 2:3; 4:22-24.
8. Hvernig er líkt komið fyrir okkur núna og Ísraelsmönnum í eyðimörkinni?
8 Sú hætta er á ferðum að við látum tælast aftur út í hið mengaða andrúmsloft heimsins, eftir að vera sloppin úr því. Nú er langt liðið á tíma endalokanna og við stöndum á þröskuldi nýs heims. (Daníel 12:4) Við viljum sannarlega ekki missa af honum með því að falla í sömu gildruna og Ísraelsmenn. Eftir að þeir höfðu með undraverðum hætti verið frelsaðir úr Egyptalandi og voru komnir að landamærum fyrirheitna landsins voru þúsundir þeirra ‚fallnar í eyðimörkinni.‘ Hvers vegna? Vegna þess að sumir höfðu farið að dýrka skurðgoð, aðrir gerst sekir um saurlifnað og enn aðrir freistað Jehóva með mögli sínu. Páll bendir á mikilvægt atriði þegar hann segir: „Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.“ — 1. Korintubréf 10:1-11.
9. (a) Hvernig er hægt að vera í heiminum án þess að tilheyra honum? (b) Fyrir hverju þurfum við að gæta okkar?
9 Jesús bað fyrir lærisveinum sínum: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.“ (Jóhannes 17:14, 15) Jehóva Guð mun vernda okkur og gæta, en hann leggur ekki „skjólgarð“ um okkur eða skýlir okkur með undraverðum hætti fyrir ‚andrúmslofti‘ þessa heims. (Jobsbók 1:9, 10) Sú áskorun, sem við þurfum að taka, er að vera í heimi Satans án þess að vera hluti af honum, að vera umkringd menguðu ‚lofti‘ hans án þess að anda því að okkur. Þegar við lesum veraldleg blöð og tímarit, horfum á sjónvarpið eða förum eitthvað okkur til skemmtunar er líklegt að ‚andrúmsloft‘ þessa heims mæti okkur. Við getum ekki komist hjá því að hafa einhver tengsl við fólk heimsins — í vinnu, skóla og við önnur tækifæri — en við verðum að vera vökul til að láta ekki sogast aftur út í hið banvæna andrúmsloft þessa heims. — 1. Korintubréf 15:33, 34.
10, 11. (a) Hvað er líkt með því að vera í andlegri paradís Jehóva og á svæði ætlað þeim sem ekki reykja? (b) Hvað ber okkur að gera ef eitthvað af ‚lofti‘ þessa heims berst fyrir vit okkar?
10 Við gætum líkt aðstöðu okkar við það að við sætum í veitingasal sem er skipt milli reykingamanna og þeirra sem ekki reykja. Eins og okkur ber höldum við okkur í þeim hluta salarins þar sem reykingar eru ekki leyfðar, í andlegri paradís Jehóva, fjarri anda þessa heims. Við myndum örugglega ekki af ásettu ráði fá okkur sæti á reykingasvæði. Það væri heimskulegt. En hvað gerist oft þegar við sitjum á reyklausu svæði í veitingahúsi? Reykmettað, óhreint loft berst yfir til okkar. Njótum við þess? Drögum við djúpt að okkur andann með velþóknun? Reynum við ekki frekar að koma okkur burt þaðan eins fljótt og við getum?
11 En hvað gerir þú þegar eimur af ‚lofti‘ þessa heims berst fyrir vit þér? Forðar þú þér samstundis frá slæmum áhrifum þess? Ef þú dokar við og andar því að þér, þá máttu vera viss um að það hefur áhrif á hugsun þína. Því lengur sem þú andar því að þér, þeim mun betur þolir þú það. Smám saman hættir þér að finnast það óþægilegt; þér fer að finnast það lokkandi, ölvandi og höfða til holdsins. Það getur magnað með þér einhverja leynda löngun sem þú hefur verið að berjast gegn.
12. Hvað þarf að gera til að láta ekki þá efnisþætti þessa ‚lofts,‘ sem erfitt er að greina, hafa áhrif á okkur?
12 Sum hinna banvænu mengunarefna í ‚lofti‘ þessa heims eru ekki auðgreind. Sum bókstafleg mengunarefni, svo sem kolsýringur, eru lyktar- og bragðlaus. Sú hætta er því fyrir hendi að við greinum ekki hin banvænu mengunarefni fyrr en þau hafa bugað okkur. Við þurfum því að vera sívakandi til að undanlátsöm viðhorf þessa heims og óhlýðni við réttláta staðla Guðs leiði okkur ekki í dauðagildru. Páll hvatti kristna bræður sína til að ‚áminna hver annan hvern dag til þess að enginn forhertist af táli syndarinnar.‘ — Hebreabréfið 3:13; Rómverjabréfið 12:2.
Hvernig er ‚loft‘ þessa heims samsett?
13. (a) Nefnið einn efnisþátt í ‚lofti‘ heimsins sem við þurfum að vara okkur á. (b) Af hverju er ljóst að þetta ‚loft‘ hefur haft áhrif á suma þjóna Jehóva?
13 Hvaða algeng viðhorf gætum við farið að tileinka okkur, jafnvel án þess að gera okkur það ljóst, vegna sterkra áhrifa frá andrúmslofti þessa heims? Af þeim má nefna löngun til að leika sér að því sem siðlaust er. Hugmyndir þessa heims um siðferði og kynlíf eru alls staðar í kringum okkur. Margir segja: ‚Það er allt í lagi að vera lauslátur, eignast börn utan hjónabands eða vera kynvillingur. Við erum bara að gera það sem er eðlilegt.‘ Hefur þetta andrúmsloft, þessi veraldlegi andi haft áhrif á þjóna Jehóva? Já, því miður. Á þjónustuárinu 1986 þurfti að gera 37.426 einstaklinga ræka úr kristna söfnuðinum, flesta vegna siðleysis. Og þá eru ekki taldir þeir mörgu sem fengu áminningu fyrir siðleysi en voru ekki gerðir rækir sökum einlægrar iðrunar sinnar. Þeir voru enn fleiri. — Orðskviðirnir 28:13.
14. Hvers vegna fara sumir kristnir menn á villigötur í siðferðismálum og hvaða ráðum Ritningarinnar hafna þeir?
14 Hvernig ber það til að sumir skuli láta leiða sig út í siðleysi? Þegar málsatvik eru skoðuð kemur oft í ljós að þeir hafa byrjað aftur að anda að sér banvænu andrúmslofti þessa heims. Þeir hafa leyft veraldlegum viðhorfum að breyta þeim stöðlum sem þeir fylgja. Til dæmis gætu þeir farið að horfa á kvikmyndir sem þeir hefðu ekki viljað sjá nokkrum árum áður. Enn verra er að þeir gætu farið að horfa á kvikmyndir af myndböndum heima hjá sér sem eru alls ekki við hæfi kristinna manna. Það að leika sér þannig að siðleysi gengur þvert á hvatningarorð Biblíunnar: „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé.“ — Efesusbréfið 5:3, 4.
15. Hvernig gæti freistingin til að gæla við siðleysi byrjað ‚sakleysislega‘?
15 Þú værir kannski fljótur til að segja nei ef einhver byði þér beint og opinskátt að fremja saurlifnað með sér. En hvað gerir þú ef einhver í skólanum eða á vinnustað reynir að daðra við þig, er nærgöngull eða biður þig að fara út með sér? Þá slær andrúmslofti þessa heims fyrir vit þér. Leyfir þú þér að njóta þeirrar athygli sem þú færð, eða jafnvel að hvetja til hennar? Samkvæmt skýrslum öldunga hefst röng breytni oft með svona ‚meinleysislegum‘ hætti. Maður úr heiminum segir kannski við kristna konu: „Þú lítur vel út í dag!“ Henni fellur það kannski vel, einkanlega ef hún er eilítið einmana. Enn alvarlegra er að sumar kristnar konur hafa ekki hagað sér viturlega þegar menn úr heiminum hafa reynt að snerta þær með óviðeigandi hætti. Þær hafa kannski hreyft andmælum en með svo hálfum huga að veraldlegir menn skoða það sem hvatningu til að halda áfram. Hvað á kristin kona að gera ef slíkir siðlausir tilburðir við hana halda áfram, líkt og stór ský af menguðu lofti verði á vegi hennar? Með einurð ætti hún að segja manninum að hún kæri sig ekki um athygli hans og vilji að hann hætti þessu. Ef hún heldur áfram að anda að sér þessu ‚lofti‘ er líklegt að mótspyrna hennar bresti. Hún gæti leiðst út í siðleysi eða jafnvel óhyggilegt hjónaband. — Samanber Orðskviðina 5:3-14; 1. Korintubréf 7:39.
16. Hvað þarf til að geta verið ‚góðilmur Krists‘?
16 Vertu því skjótur til að hafna siðlausu, banvænu ‚lofti‘ þessa heims. Í stað þess að láta undan lokkandi angan þess og setja smánarblett á nafn Jehóva og skipulag, þá skalt þú vera þægilegur ilmur fyrir Guði með guðhræddum viðhorfum þínum og breytni. Páll orðaði það þannig: „Vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, sem glatast; þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs.“ (2. Korintubréf 2:15, 16) Hvaða máli skiptir það þótt einhverjir fitji upp á nefið gagnvart kristinni lífsbreytni? (1. Pétursbréf 4:1-5) Við skulum láta heiminn fara sína leið og uppskera sinn slæma ávöxt í mynd sundraðra heimila, barna utan hjónabands, samræðissjúkdóma svo sem alnæmis, og fjölda annarra tilfinningalegra og líkamlegra hörmunga. Þú munt ekki aðeins fá umflúið margs kyns kvöl og sársauka heldur líka njóta hylli Guðs. Auk þess munu í það minnsta sumir verða snortnir af góðri breytni þinni og boðskapnum um Guðsríki, sem þú flytur, og finnast ‚ilmurinn af lífi til lífs‘ aðlaðandi.
Andrúmsloft veraldlegra tískufyrirbæra
17. Hvernig getur klæðaburður gefið til kynna að við höfum látið anda þessa heims hafa áhrif á okkur?
17 Annar þáttur í andrúmslofti þessa heims snýr að klæðaburði. Margir í heiminum reyna að vera lokkandi og tælandi í klæðaburði. Jafnvel börn, sem enn hafa ekki náð táningaaldri, reyna að klæða sig þannig að þau líti út fyrir að vera eldri en þau eru, og að leggja áherslu á hið kynferðislega. Lætur þú þetta andrúmsloft hafa áhrif á þig? Reynir þú að klæðast þannig að hinu gagnstæða kyni finnist þú kynferðislega lokkandi? Ef svo er ert þú að leika þér að eldinum. Ef þú andar að þér þessu ‚lofti‘ mun það kæfa hæversku þína og sómatilfinningu, löngun þína til að vera hreinlífur. (Míka 6:8) Þá munu þeir sem hafa anda heimsins laðast að þér. Af háttarlagi þínu munu þeir draga þá ályktun að þú sért til í að taka þátt í siðleysi. En hvaða ástæða er til að fara inn á þessa braut, með því að láta andrúmsloft heimsins lokka þig til að gera það sem er illt í augum Guðs?
18. Hvernig getur það að hafa alltaf í huga að við erum fulltrúar Jehóva hjálpað okkur til að velja viðeigandi klæðnað?
18 Við þurfum ekki að vera illa til fara eða óaðlaðandi í klæðaburði til að vera látlaus. Líttu á hvernig yfirgnæfandi meirihluti votta Jehóva klæðist. Þeir forðast öfgar þessa heims en eru snyrtilega til fara og hafa stöðugt í huga að þeir eru þjónar og fulltrúar æðsta drottinvalds alheimsins, Jehóva. Hvaða máli skiptir það þótt gamli heimurinn gagnrýni snyrtilegan og smekkvísan klæðaburð þeirra? Þeir voga sér ekki að láta viðhorf þessa heims breyta þeim stöðlum sem þeir hafa sett sér. „Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins,“ skrifaði Páll postuli. „Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus, skilningur þeirra blindaður . . . Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.“ (Efesusbréfið 4:17-19) Þroskaðir kristnir menn eru sómasamlega til fara og hegða sér ekki eins og þjóðirnar gera. — 1. Tímóteusarbréf 2:9, 10.
19. Hvernig er ljóst af því sem við höfum þegar rætt um ‚loft‘ heimsins að það er hættulegt að anda því að sér?
19 Enn sem komið er höfum við athugað aðeins tvennt sem einkennir andrúmsloft þessa heims. Þó höfum við séð að þetta andrúmsloft er mjög skaðlegt andlegri heilsu manna. Í greininni á eftir munum við ræða ýmsa aðra efnisþætti þessa banvæna ‚lofts‘ sem djöfullinn og heimur hans blása stöðugt í áttina til kristinna manna í von um að þeir verði því að bráð. Sannarlega er þýðingarmikið að við forðumst slíkt ‚loft‘ því að ef við öndum að okkur anda þessa heims er það eins og að anda að sér banvænum eiturgufum!
-
-
Lútum ‚andanum sem lífgar‘Varðturninn – 1988 | 1. apríl
-
-
Lútum ‚andanum sem lífgar‘
„Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert.“ — JÓHANNES 6:63.
1. (a) Hvernig hjálpar Jehóva þjónum sínum að standa gegn ‚lofti‘ þessa heims og áhrifum þess? (b) Hvernig hjálpar það okkur að hafa rétt viðhorf ef við ræktum ávexti anda Guðs?
HEILAGUR andi Jehóva Guðs er okkur lífsnauðsyn ef við eigum að standa á móti áhrifum frá ‚lofti‘ eða viðhorfum þessa heims. (Efesusbréfið 2:1, 2) Við þurfum líka Biblíunnar með, en hún geymir hugsanir Guðs skráðar undir leiðsögn heilags anda. Auk þess þurfum við að hafa auðmjúkt, kristið hugarfar, þroskað við það að rækta ávexti anda Guðs — ‚kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trú, hógværð og sjálfstjórn.‘ Páll postuli hvatti: „Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðrum, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið.“ — Galatabréfið 5:16, 17, 22, 23.
2. Hvernig er það sem andi Guðs gefur af sér ólíkt því sem ‚andi heimsins‘ hefur í för með sér?
2 Páll skrifaði líka: „Vér höfum ekki hlotið anda heimsins, heldur andann, sem er frá Guði.“ (1. Korintubréf 2:12) ‚Andi‘ eða hugarfar þessa heims er banvænt, en Guð gefur eilíft líf þeim sem taka á móti anda hans. Jesús sagði: „Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert. Orðin, sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf.“ (Jóhannes 6:63) Þar eð „holdið megnar ekkert“ þörfnumst við hjálpar Guðs til að sigrast á syndinni og standa á móti anda heimsins.
3, 4. (a) Hvað er ágirnd og hvernig spilar ‚stjórnandinn yfir valdi loftsins‘ á löngun holdsins í efnislega hluti? (b) Í hvaða skilningi er ágjarn maður skurðgoðadýrkandi?
3 Í greininni á undan ræddum við um tvo hættulega efnisþætti í ‚lofti‘ þessa heims — að leika sér að því sem siðlaust er og óviðeigandi klæðnað. En efnisþættirnir eru miklu fleiri. Til dæmis er andrúmsloft þessa heims gagnsýrt ágirnd, ákafri, eigingjarnri löngun í efnislega hluti eða það að standa öðrum framar í því sambandi. ‚Stjórnandinn yfir valdi loftsins‘ hefur séð svo um að áróður og auglýsingar þessa heims gefi þér þá tilfinningu að þú njótir ekki lífsfyllingar nema þú eigir sem mest efnislegra hluta. Þessi efnisþáttur ‚lofts‘ þessa heims getur eitrað þig með þeirri hugmynd að þetta sé það sem máli skiptir í lífinu. Hefur þessi efnishyggjuandi haft einhver áhrif á þig?
4 Biblían segir: „Enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn, — sem er sama og að dýrka hjáguði, — á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.“ (Efesusbréfið 5:5) Taktu eftir að ágirnd er lögð að jöfnu við hjáguðadýrkun. Þú hugsar kannski: ‚Auðvitað geng ég ekki svo langt að verða hjáguðadýrkandi.‘ En hvað er hjáguða- eða skurðgoðadýrkun? Er hún ekki það að setja eitthvað annað í stað Jehóva og tilbeiðslunnar á honum, að gefa því gaum í stað Guðs og þjónustunnar við hann? Ágirnd getur falið í sér nánast tilbeiðslu á peningum og því valdi og áhrifum sem þeim fylgir. Ef þú lætur það að eignast nýjan bíl, myndbandstæki eða einhverja aðra efnislega hluti ganga fyrir því að auka möguleika þína í þjónustunni við Jehóva, er það þá ekki merki þess að ‚loft‘ þessa heims hafi haft einhver skaðleg áhrif á þig? Eru þá ekki efnislegir hlutir að verða eins og skurðgoð fyrir þér?
5. Á hvaða vegu hefur ‚loft‘ þessa heims fyllst eigingjarnri löngun í efni og auð?
5 Ef þú stefnir að æðri menntun eða vellaunuðu starfi, er það þá lífsþægindagræðgi sem kemur þér til þess, löngun til að hafa meira en þú þarft? Vekja tilboð um leiðir til að auðgast með skjótum hætti áhuga þinn? ‚Loft‘ þessa heims er gagnsýrt eigingjarnri löngun í peninga, og skattsvik eru frekar talin dyggð en löstur. Í þessu andrúmslofti blómstra fjárhættuspil og annað af því tagi. Láttu ekki freistast. Þeir sem forðast áhrif þessa ágjarna andrúmslofts uppskera þá ósviknu hamingju sem felst í því að láta sér nægja lífsnauðsynjar og setja hagsmunamál Guðsríkis á oddinn. — Matteus 6:25-34; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
Rétt notkun tungunnar
6. Hvaða áhrif getur málfar þessa heims haft á kristna menn?
6 Hvernig er málfar þitt? ‚Loft‘ þessa heims er stórlega mengað klúru tali, reiðilegum orðum og lygum. Jafnvel fáeinir, sem tengdir eru kristna söfnuðinum, eru stundum ruddalegir eða jafnvel klúrir í tali. Lærisveinninn Jakob áminnir okkur harðlega: „Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir. Gefur lindin úr sama uppsprettuauga bæði ferskt og beiskt vatn?“ (Jakobsbréfið 3:10, 11) Hefur þú tekið upp eitthvað af blendingsmáli eða slanguryrðum þessa heims? Hefur þú tvenns konar orðaforða, annan til að nota meðal kristinna manna, hinn til að nota annars staðar? Páll skrifaði: „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ (Efesusbréfið 4:29) Það er mikilvægt að málfar okkar sé hreint og viðeigandi undir öllum kringumstæðum!
7. Hvað felst í því að ‚leggja af lygina og tala sannleika‘?
7 Við þurfum líka að gæta þess að vera alltaf sannsögul. Það að blekkja aðra af ásettu ráði, í því skyni að komast hjá afleiðingum gerða sinna, jafngildir því að segja ósatt. Gættu þess vendilega að fara eftir ráðum Páls: „Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.“ — Efesusbréfið 4:25; Orðskviðirnir 3:32.
8. (a) Hvernig bregst margt veraldlegt fólk við áreitni? (b) Hvað ættum við að gera ef við erum reitt til reiði?
8 Stjórnlaus reiðiköst er annað sem einkennir anda þessa heims. Margt fólk í heiminum missir auðveldlega stjórn á sér. Það rýkur upp og afsakar sig svo á eftir með því að það hafi bara verið að ‚dampa út.‘ En Páll réði okkur annað: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.“ (Efesusbréfið 4:31) En hvað getur þú gert ef þú finnur ólga með þér reiði þrátt fyrir að þú ræktir sjálfstjórn og aðra ávexti anda Guðs? „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki,“ sagði Páll. „Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ (Efesusbréfið 4:26, 27) Ef við erum reitt til reiði ættum við að útkljá málið sem fljótast, í það minnsta áður en dagurinn er úti. Að öðrum kosti getur beiskja og gremja tekið sér bólfestu í hjartanu og slíkar tilfinningar er erfitt að uppræta. Gættu þess að anda ekki að þér reiðilegu og hefnigjörnu ‚lofti‘ þessa heims! — Sálmur 37:8.
9. Hvaða viðhorf hafa margir til vinnu sinnar og vinnuveitanda og hvers vegna ber okkur að skoða vinnulag okkar gagnrýnu auga?
9 Hvað um vinnuhætti þína? Slæpingsháttur á vinnustað og þjófnaður frá vinnuveitanda er algengur nú á tímum. Hefur þú andað að þér einhverju af þessu ‚lofti‘? Hefur það hugarfar að ‚allir geri þetta‘ haft einhver áhrif á þig? Gleymdu aldrei að vinnuhættir okkar sem kristinna manna geta sýnt Jehóva og sanna guðsdýrkun í góðu eða slæmu ljósi. Myndir þú vilja að einhver hafnaði sannleikanum, sem einhver votta Jehóva ber heim að dyrum hans, vegna hátternis þíns á vinnustað? „Hinn stelvísi hætti að stela,“ sagði Páll, „og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.“ — Efesusbréfið 4:28.
10. Hvernig getum við sýnt að við erum ekki undir áhrifum af eigingjörnu ‚lofti‘ þessa heims í sambandi við veraldlega vinnu?
10 Enda þótt þrælahald, eins og tíðkaðist á fyrstu öld, sé sjaldgæft nú orðið, geta kristnir verkamenn lært ýmislegt af því sem Páll skrifaði kristnum þrælum í Efesusbréfinu 6:5-8. Þar er verkamönnum sagt að ‚hlýða þeim sem þeir vinna fyrir, ekki eins og þeir er mönnum vilja þóknast heldur sem þrælar Krists.‘ Kristinn maður ætti því aldrei að reyna að komast hjá því að skila fullu dagsverki, eða þá að afhenda vörur eða veita þjónustu sem lofað hefur verið. Ef við gerum allt ‚eins og Jehóva ætti í hlut,‘ þá höfum við rétt viðhorf og látum ekki hið eigingjarna andrúmsloft þessa heims og leti hans hafa áhrif á okkur.
Matur, drykkur og skemmtun
11. Hvaða áhrif höfðu veraldleg viðhorf til matar og drykkjar á suma af þjónum Jehóva á biblíutímanum?
11 Hefur óhóf í mat og drykk, eins og tíðkast í heiminum, haft áhrif á þig? Viðhorf heimsins er að ‚eta, drekka og vera glaður, því að á morgun deyjum vér.‘ (1. Korintubréf 15:32) Þessi andi hefur haft áhrif á suma þjóna Guðs allt frá fornu fari. Mundu eftir því sem gerðist í eyðimörkinni þegar Ísraelsmenn ‚settust niður til að eta og drekka og stóðu síðan upp til að leika,‘ til að skemmta sér. (2. Mósebók 32:6) Sú ‚skemmtun‘ leiddi til taumleysis og skurðgoðadýrkunar með þeim afleiðingum að reiði Guðs blossaði gegn þeim. Við skulum aldrei fylgja fordæmi þeirra. — 1. Pétursbréf 4:3-6.
12. Hvað ættum við að gera ef við þurfum að bæta matar- og drykkjarvenjur okkar?
12 Jehóva hefur gefið okkur geysimikla fjölbreytni í ljúffengum, litríkum og næringarríkum mat og drykk, en hann vill að við notum þessar gjafir í hófi. Biblían fordæmir ofát og drykkjuskap. (Orðskviðirnir 23:20, 21) Vertu því heiðarlegur og spyrðu þig: Get ég bætt matar- og drykkjarvenjur mínar? Ef þú þarft að iðka meiri sjálfstjórn skaltu viðurkenna það og hegða þér í samræmi við bænir þínar um hjálp anda Guðs til að sigrast á vandamálinu. „Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum,“ sagði Páll. (Efesusbréfið 5:18) Já, láttu anda Guðs fylla þig, ekki hinn hömlulausa anda þessa heims! „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ (1. Korintubréf 10:31) Ef þú átt við að glíma þrálát vandamál á þessu sviði skaltu leita hjálpar andlega þroskaðra manna í söfnuðinum. — Galatabréfið 6:1; Jakobsbréfið 5:14, 15.
13. (a) Á hverju er ljóst að djöfullinn hefur spillt stórum hluta þeirrar skemmtunar sem er í boði nú á dögum? (b) Hvernig getum við forðast viðhorf þessa heims til skemmtunar?
13 Þessi heimur er í fíkniánauð íþrótta, tónlistar og margs kyns skemmtunar. Ekkert af þessu þarf að vera rangt svo lengi sem það gengur ekki í berhögg við meginreglur Ritningarinnar. Vandinn er hins vegar sá að Satan ‚stjórnandinn yfir valdi loftsins,‘ hefur spillt stórum hluta þeirrar skemmtunar sem mönnum stendur nú til boða. (Efesusbréfið 2:2) Oft er ýtt undir siðleysi, ofbeldi sýnt í jákvæðu ljósi og árangur og velgengni er tryggð með blekkingum, svikum og jafnvel morði. Þegar við látum mata okkur á slíku skemmtiefni erum við að anda djúpt að okkur þessum viðhorfum og eituráhrif þeirra hljóta að skaða okkur. Jafnvel þegar ekki er hægt á biblíulegum forsendum að finna neitt að skemmtuninni er hætta á að við verðum háð henni, þannig að lítill tími verði eftir til andlegra hluta. Við þurfum því að vera vandfýsin. Taktu þér tíma til að njóta heilnæmrar og góðrar skemmtunar í hófi en forðastu að líkja eftir óhófi heimsins. Hvort sem ‚loft‘ þessa heims lyktar vel eða illa er það mengað og banvænt! — Orðskviðirnir 11:19.
Þjóðernishyggja og kynþáttaremba
14. Hvernig gæti ‚loft‘ þessa heims haft áhrif á okkur í sambandi við þjóðfélagsvandamál?
14 Annað mengunarefni í ‚lofti‘ þessa heims, þjóðernishyggja og kynþáttaremba, er mun hættulegra en virðist við fyrstu sýn. Sumir hafa þá röngu hugmynd að ákveðnir kynþættir séu öðrum æðri og fremri. Þjóðernishyggja hvetur fólk til að líta á sína þjóð sem öllum öðrum fremri. Margir þurfa að þola þarflausar þjáningar og fá ekki notið sjálfsögðustu mannréttinda sökum eigingirni og fordóma annarra. Afleiðingin er oft beiskja og jafnvel ofbeldisverk. Margir taka lögin í sínar hendur í trausti þess að þeir geti leyst þjóðfélagsvandamálin eftir sínum leiðum. Við gætum líka látið þessar hugmyndir hrífa okkur með sér. Þegar við horfum upp á eða líðum órétt, og heyrum síðan mál þeirra sem knýja á um þjóðfélagsbreytingar, þá gæti það haft áhrif á okkur ef við erum ekki varkár. Við gætum byrjað að víkja frá hlutleysi okkar og taka afstöðu. (Jóhannes 15:19) Enn alvarlegra er að við gætum fundið fyrir freistingu til að taka þátt í baráttu og mótmælaaðgerðum, eða jafnvel ofbeldisaðgerðum til að knýja fram breytingar.
15. Hvað ræður Biblían okkur ef við finnum tilhneigingu til að ‚hefna okkar‘?
15 Þjóðernishyggja eða kynþáttafordómar geta haft stórskaðleg áhrif á anda safnaðarins. (Samanber Postulasöguna 6:1-7.) En við höfum rétt hugarfar ef við förum eftir þessari áminningu: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir [Jehóva].‘“ (Rómverjabréfið 12:18, 19) Þar eð allir kynþættir eru komnir af fyrstu mannlegu hjónunum og Guð fer ekki í manngreinarálit á þjóðernishyggja eða kynþáttaremba ekki heima í kristna söfnuðinum. — Postulasagan 10:34, 35; 17:26; Rómverjabréfið 10:12; Efesusbréfið 4:1-3.
Andaðu að þér ‚loftinu‘ sem lífgar
16. Hvað getur hjálpað okkur að forðast að andi þessa heims hafi áhrif á okkur?
16 Við höfum rætt um hina helstu, banvænu efnisþætti sem ‚loft‘ eða andi þessa heims er samsett úr. Þetta fúla ‚loft‘ umkringir okkur og þrýstir svo á frá öllum hliðum að það fyllir snarlega hvert það tómarúm sem við leyfum að myndist í andlegu hugarfari okkar. Hversu vel okkur tekst að standa gegn því er að miklu leyti undir því komið hve heitt við elskum það sem er hreint og réttlátt og hve mjög við hötum það sem er óhreint og illt. Ef við leggjum rækt við rétt hugarfar, í samræmi við handleiðslu anda Jehóva, þá höldum við áfram að anda að okkur réttu ‚lofti.‘ — Rómverjabréfið 12:9; 2. Tímóteusarbréf 1:7; Galatabréfið 6:7, 8.
17. Hvað ættum við að gera samstundis ef við veitum athygli að ‚loft‘ heimsins berst í átt til okkar?
17 Gættu þess vendilega að þér fari ekki að finnast góður ilmur af menguðu og fúlu ‚lofti‘ þessa heims. Stjórnandinn yfir valdi þessa ‚lofts‘ veit nákvæmlega hvað er lokkandi fyrir skilningarvitin og getur vakið löngun og girnd sem oft leiðir til syndar. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Haltu þig á „reyklausa svæðinu,“ í andlegri paradís Jehóva. Finnir þú eim af ‚lofti‘ þessa heims bera fyrir vit þér skalt þú forða þér eins og væri það banvænt eitur. „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji [Jehóva].“ — Efesusbréfið 5:15-17.
18. Hvernig verður andi þeirra sem fá þau sérréttindi að lifa á hreinsaðri jörð?
18 Það er vilji Guðs að við þjónum honum í ráðvendni. Það hefur líf í för með sér í nýrri skipan hans sem nú er mjög nálæg. Loftið, sem við munum þá anda að okkur, verður hressandi og heilnæmt! Þar verða engin mengunarefni, aðeins hreint, lífgandi loft. Bæði hið bókstaflega andrúmsloft, og ekki síður andlegt andrúmsloft þeirra sem fá að lifa á hreinsaðri jörð, verður þannig. Þeir menn verða hlýðnir, auðmjúkir og móttækilegir fyrir handleiðslu Guðs. ‚Loft‘ þessa heims, fyllt uppreisnarhug, spillingu og óguðlegum áhrifum, verður horfið. — Opinberunarbókin 21:5-8.
19. Hverjir munu fá að lifa inn í nýja skipan Jehóva?
19 Við viljum að sjálfsögðu ekki vera meðal þeirra sem anda að sér ‚lofti‘ þessa heimskerfis þegar Jehóva í Harmagedónstríðinu hreinsar burt bæði mengunina og þá sem valda henni. Hvílíkur léttir verður það þegar gamli heimurinn er horfinn og ‚stjórnandinn yfir valdi loftsins‘ fjötraður í undirdjúpi! Allir sem elska Jehóva og það sem er hreint, gott og réttlátt verða þar. Jehóva vill hafa þá þar og mun hjálpa þeim til þess með anda sínum. Hann mun gefa þeim eilíft líf í hreinni, heilbrigðri, nýrri heimsskipan. Missum ekki þessi sérréttindi úr höndum okkar með því að anda að okkur banvænu ‚lofti‘ þessa gamla heimskerfis!
-