„Mál yðar sé ætíð . . . salti kryddað“
1. Hvað merkir það að ‚krydda mál okkar með salti‘?
1 „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ (Kól. 4:6) Að krydda mál okkar með salti merkir að velja rétt orð og tala þannig að ánægjulegt sé að hlýða á. Þetta er mjög mikilvægt þegar við erum í boðunarstarfinu.
2. Hvernig vitnaði Jesús fyrir samverskri konu?
2 Fordæmi Jesú: Þegar Jesús hvíldist einu sinni við brunn nokkurn tók hann tali samverska konu sem kom til að sækja vatn. Meðan á samtalinu stóð minntist hún nokkrum sinnum á atriði sem vitnuðu um langvarandi óvild milli Gyðinga og Samverja. Hún sagðist einnig trúa því að Samverjar væru afkomendur Jakobs þótt Gyðingar teldu að Samverjar væru útlendingar. Jesús andmælti henni ekki heldur hélt áfram að tala vingjarnlega við hana. Með því móti gat hann gefið vitnisburð sem varð henni og samborgurum hennar til góðs. — Jóh. 4:7-15, 39.
3. Hvernig getum við fylgt fordæmi Jesú þegar við erum í boðunarstarfinu?
3 Þegar við erum í boðunarstarfinu ættum við að hafa í huga markmið okkar — að „færa fagnaðarboðin góðu“. (Rómv. 10:15) Okkur langar til segja húsráðandanum frá einhverju ánægulegu og uppbyggjandi frá Biblíunni en ekki láta honum finnast við vera að gagnrýna trú hans. Við þurfum ekki að leiðrétta hann í snatri þótt hann láti í ljós röng sjónarmið. Getum við verið sammála honum um eitthvað eða fundið eitthvað til að hrósa honum fyrir? Við gætum ef til vill sýnt honum ritningarstað og sagt: „Hefurðu hugleitt þennan möguleika?“
4. Hvað eigum við að gera ef húsráðandinn er ókurteis?
4 En hvað er til ráða ef húsráðandi er mjög ókurteis eða langar greinilega bara til að rífast? Við ættum að halda áfram að vera mild og hlýleg í framkomu og tali. (2. Tím. 2:24, 25) Ef einhver hefur ekki áhuga á fagnaðarboðskapnum er best að kveðja kurteislega. — Matt. 7:6; 10:11-14.
5. Hvaða árangur bar það að systir svaraði vingjarnlega?
5 Góður árangur: Þegar systir reyndi að vitna fyrir nágrannakonu reiddist konan og viðhafði ljótt orðbragð. Systir okkar sagði vingjarnlega: „Mér þykir leitt að þér skuli finnast þetta. Bless og hafðu það gott.“ Tveim vikum síðar bankaði konan upp á hjá systurinni, afsakaði framkomu sína og sagðist langa til að hlusta á það sem systirin hafði ætlað að segja. Það ber oft góðan árangur að svara vingjarnlega. — Orðskv. 15:1; 25:15.
6. Hvers vegna er mikilvægt að mál okkar sé salti kryddað þegar við erum í boðunarstarfinu?
6 Reynum alltaf að hafa mál okkar salti kryddað þegar við boðum fagnaðarerindið. Þó að húsráðandi sýni engan áhuga hlustar hann kannski frekar þegar vottar Jehóva heimsækja hann næst.