Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • bt kafli 27 bls. 211-217
  • „Hann … vitnaði ítarlega“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Hann … vitnaði ítarlega“
  • Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Páll þakkaði Guði og fékk nýjan kraft‘ (Post. 28:14, 15)
  • „Þessum sértrúarflokki er alls staðar mótmælt“ (Post. 28:16–22)
  • Páll er okkur góð fyrirmynd með því að ‚vitna ítarlega‘ (Post. 28:23–29)
  • „Hann boðaði þeim ríki Guðs“ (Post. 28:30, 31)
  • Páll í Róm
    Biblíusögubókin mín
  • Verum hughrökk – Jehóva hjálpar okkur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
  • Boðið ríki Jehóva með djörfung!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • „Ég er hreinn af blóði allra“
    Vitnum ítarlega um ríki Guðs
Sjá meira
Vitnum ítarlega um ríki Guðs
bt kafli 27 bls. 211-217

27. KAFLI

„Hann … vitnaði ítarlega“

Páll situr í stofufangelsi í Róm en heldur áfram að boða trúna

Byggt á Postulasögunni 28:11–31

1. Hverju treysta Páll og félagar hans og hvers vegna?

SKIP með stafnlíkan „sona Seifs“, líklega stórt kornskip, er á siglingu frá eyjunni Möltu í Miðjarðarhafi til Ítalíu. Þetta er um árið 59. Um borð eru Páll postuli og trúbræður hans, þeir Lúkas og Aristarkus, en Páll er fangi í fylgd varða. (Post. 27:2) Ólíkt áhöfninni treysta trúboðarnir ekki á vernd sona gríska guðsins Seifs – tvíburabræðranna Kastors og Pollux. (Sjá skýringu við Postulasöguna 28:11 í námsútgáfu Biblíunnar á erlendum málum.) Páll og félagar hans þjóna Jehóva en hann hafði látið Pál vita að hann myndi vitna um sannleikann í Róm og ganga fyrir keisarann. – Post. 23:11; 27:24.

2, 3. Hvaða leið siglir Páll og hvaða stuðnings hefur hann notið frá upphafi?

2 Skipið hefur þriggja daga viðdvöl í Sýrakúsu, fallegri borg á Sikiley sem þótti næstum jafn mikilvæg og Aþena og Róm, en siglir síðan til Regíum yst á Ítalíuskaga. Þaðan er siglt í sunnanvindi á mettíma til ítölsku hafnarborgarinnar Púteólí (nálægt nútímaborginni Napólí). Leiðin er 320 kílómetrar en þeir ná þangað daginn eftir. – Post. 28:12, 13.

3 Páll er nú á síðasta leggnum á leiðinni til Rómar þar sem hann á að ganga fyrir Neró keisara. „Guð allrar huggunar“ hefur verið með Páli frá upphafi til enda. (2. Kor. 1:3) Eins og við munum sjá heldur Jehóva áfram að styðja Pál og áhugi Páls á trúboðsstarfinu dvínar ekki.

‚Páll þakkaði Guði og fékk nýjan kraft‘ (Post. 28:14, 15)

4, 5. (a) Hvernig var Páli og félögum sýnd gestrisni í Púteólí og hver kann að vera ástæðan fyrir því að hann hafði svona mikið frjálsræði? (b) Hvernig getur góð hegðun kristinna manna haft jákvæð áhrif jafnvel þegar þeir sitja í fangelsi?

4 Páll og félagar hans ‚fundu bræður í Púteólí sem hvöttu þá til að staldra við í viku‘. (Post. 28:14) Er þetta ekki prýðisdæmi um gestrisni meðal trúsystkina? Gestrisnin hefur eflaust skilað sér margfalt til baka þegar Páll og félagar hans hvöttu þá og uppörvuðu. En af hverju skyldi fangi hafa fengið svona mikið frjálsræði? Kannski vegna þess að hann hafði áunnið sér traust rómversku varðanna.

5 Þjónar Jehóva sem hafa verið í fangelsum og fangabúðum nú á dögum hafa líka oft fengið mikið frjálsræði og notið forréttinda vegna góðrar hegðunar sinnar. Maður í Rúmeníu sem var að afplána 75 ára dóm fyrir rán fór að kynna sér Biblíuna og það hafði stórkostleg áhrif á persónuleika hans. Forstöðumenn fangelsisins tóku eftir því og fólu honum að fara í verslunarferðir – án eftirlits – til að kaupa inn fyrir fangelsið. En það mikilvægasta er auðvitað að góð hegðun okkar er Jehóva til lofs. – 1. Pét. 2:12.

6, 7. Hvernig sýndu bræður og systur í Róm kærleika sinn í verki?

6 Frá Púteólí gengu Páll og félagar hans líklega um 50 kílómetra leið eftir Appíusarvegi og komu þá til Kapúa. Þessi frægi vegur sem lá til Rómar var lagður stórum hraunhellum og þaðan var fallegt útsýni yfir ítölsku sveitirnar og sums staðar yfir Miðjarðarhaf. Vegurinn lá einnig um Pontine-mýrarnar, um 60 kílómetra frá Róm, en þar var Appíusartorg. Lúkas skrifar að þegar bræður og systur í Róm ‚hafi frétt af þeim‘ hafi sumir komið á móti þeim alla leið til Appíusartorgs en aðrir hefðu beðið þeirra við Þríbúðir sem var viðkomustaður ferðamanna um 50 kílómetra frá Róm. Þau sýndu sannarlega kærleika sinn í verki! – Post. 28:15.

7 Appíusartorg var ekki notalegur staður fyrir ferðamenn til að hvíla lúin bein. Rómverska skáldið og háðsádeiluhöfundurinn Hóratíus lýsir torginu svo að þar hafi verið „krökkt af sjómönnum og önugum kráareigendum“. Hann segir að „vatnið hafi verið viðbjóðslegt“. Og hann vildi ekki snerta matinn þar. En þrátt fyrir öll óþægindin beið hópurinn frá Róm eftir Páli og félögum hans til að geta fylgt þeim síðasta áfanga leiðarinnar.

8. Hvers vegna þakkaði Páll Guði þegar hann sá trúsystkini sín?

8 Þegar Páll sá trúsystkini sín „þakkaði hann Guði og fékk nýjan kraft“. (Post. 28:15) Já, það eitt að sjá þessi yndislegu trúsystkini styrkti Pál og hughreysti. Vera má að hann hafi þekkt sum þeirra persónulega. En hvers vegna þakkaði Páll Guði? Hann vissi að óeigingjarn kærleikur er þáttur í ávexti andans. (Gal. 5:22) Heilagur andi hvetur líka kristna menn nú á dögum til að færa fórnir hver fyrir annan og hughreysta þá sem þurfa á því að halda. – 1. Þess. 5:11, 14.

9. Hvernig getum við líkt eftir þeim sem komu á móti Páli?

9 Heilagur andi getur til dæmis hvatt bræður og systur til að vera gestrisin við farandhirða, gestkomandi trúboða og aðra sem þjóna í fullu starfi en margir þeirra hafa fært miklar fórnir til að geta varið meiri tíma í þjónustu Jehóva. Spyrðu þig hvort þú getir gert meira til að styðja farandhirðinn og sýna honum og konu hans gestrisni ef hann er giftur. Geturðu tekið þátt í boðuninni með þeim? Það gæti orðið þér til mikillar blessunar. Hugsaðu þér hve ánægjulegt og trústyrkjandi það hefur verið fyrir bræður og systur frá Róm að hlusta á Pál og félaga segja frá sumu af því sem þeir höfðu upplifað. – Post. 15:3, 4.

„Þessum sértrúarflokki er alls staðar mótmælt“ (Post. 28:16–22)

10. Við hvaða aðstæður bjó Páll í Róm og hvað gerði hann skömmu eftir að hann kom þangað?

10 Þegar ferðalangarnir komu að lokum til Rómar var Páli leyft að „búa út af fyrir sig ásamt hermanninum sem gætti hans“. (Post. 28:16) Maður sem var í stofufangelsi var venjulega hlekkjaður við vörðinn til að hann gæti ekki flúið. En Páll var boðberi Guðsríkis og hlekkir gátu ekki þaggað niður í honum. Hann leyfði sér að hvíla sig í þrjá daga eftir ferðina en kallaði svo til sín forystumenn Gyðinga í Róm til að kynna sjálfan sig og vitna fyrir þeim.

11, 12. Hvernig reyndi Páll að vinna bug á hugsanlegum fordómum þegar hann talaði við Gyðingana?

11 „Menn, bræður,“ sagði Páll, „þó að ég hafi ekkert brotið gegn þjóð okkar eða siðum forfeðranna var ég tekinn til fanga í Jerúsalem og framseldur Rómverjum. Eftir að hafa yfirheyrt mig vildu þeir láta mig lausan þar sem engin forsenda var fyrir því að taka mig af lífi. En þegar Gyðingar andmæltu því neyddist ég til að skjóta máli mínu til keisarans. Það var þó ekki af því að ég vildi ákæra þjóð mína.“ – Post. 28:17–19.

12 Með því að ávarpa Gyðingana „bræður“ reyndi Páll að leggja sameiginlegan grundvöll og vinna bug á hugsanlegum fordómum. (1. Kor. 9:20) Hann tók líka skýrt fram að hann væri ekki kominn til að ásaka Gyðinga heldur til að verja mál sitt fyrir keisaranum. Gyðingar í Róm höfðu þó ekki frétt af þessari áfrýjun Páls. (Post. 28:21) Hvers vegna höfðu Gyðingar í Júdeu ekki upplýst þá um þetta? Heimildarrit segir: „Skipið sem Páll kom með hlýtur að hafa verið eitt af fyrstu skipunum sem kom til Ítalíu að loknum vetri og fulltrúar yfirvalda í Jerúsalem höfðu ekki komist þangað né hafði bréf getað borist um málið.“

13, 14. Hvernig bryddar Páll upp á boðskapnum um ríkið og hvernig getum við líkt eftir honum?

13 Páll bryddar nú upp á boðskapnum um ríki Guðs og orð hans hljóta að hafa vakið forvitni Gyðinganna sem voru gestir hans. Hann sagði: „Ég ber þessa hlekki vegna vonar Ísraels og það er þess vegna sem ég bað um að fá að hitta ykkur og tala við ykkur.“ (Post. 28:20) Þessi von byggðist að sjálfsögðu á Messíasi og ríki hans sem kristni söfnuðurinn boðaði. Öldungar Gyðinga svöruðu Páli: „Okkur finnst rétt að heyra frá þér hverjar skoðanir þínar eru því að við vitum vel að þessum sértrúarflokki er alls staðar mótmælt.“ – Post. 28:22.

14 Þegar við fáum tækifæri til að segja frá fagnaðarboðskapnum getum við líkt eftir Páli og reynt að vekja áheyrendur til umhugsunar með áhugaverðum staðhæfingum eða spurningum. Hægt er að finna góðar tillögur í ritum eins og Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum og Leggðu þig fram við að lesa og kenna. Notarðu þessi hjálpargögn vel?

Páll er okkur góð fyrirmynd með því að ‚vitna ítarlega‘ (Post. 28:23–29)

15. Nefndu fernt sem við lærum af því hvernig Páll boðaði trúna.

15 Á umsömdum degi „komu enn fleiri“ Gyðingar til Páls þar sem hann bjó. „Hann útskýrði málið fyrir þeim og vitnaði ítarlega um ríki Guðs frá morgni allt til kvölds. Hann notaði bæði lög Móse og spámennina til að reyna að sannfæra þá um að þeir ættu að trúa á Jesú.“ (Post. 28:23) Við getum lært fernt af því hvernig Páll vitnaði fyrir Gyðingunum. Í fyrsta lagi lagði hann áherslu á ríki Guðs. Í öðru lagi reyndi hann að höfða til áheyrenda sinna með sannfærandi rökum. Í þriðja lagi rökræddi hann út frá Ritningunum. Í fjórða lagi var hann óeigingjarn og ræddi við þá „frá morgni allt til kvölds“. Hann er okkur frábær fyrirmynd. Fyrir vikið ‚trúðu sumir‘ en aðrir ekki. Menn voru ósammála sín á milli og ‚fóru að tínast burt‘, segir Lúkas. – Post. 28:24, 25a.

16–18. Af hverju komu neikvæð viðbrögð Gyðinga í Róm Páli ekki á óvart og hvernig eigum við að bregðast við þegar fólk hafnar boðskapnum?

16 Þessi viðbrögð komu Páli ekki á óvart því að þau komu heim og saman við spádóma Biblíunnar og hann hafði líka upplifað þetta áður. (Post. 13:42–47; 18:5, 6; 19:8, 9) Hann sagði því við þá sem höfnuðu boðskapnum og sýndu á sér fararsnið: „Heilagur andi sagði forfeðrum ykkar réttilega fyrir milligöngu Jesaja spámanns: ‚Farðu til þessa fólks og segðu: „Þið munuð vissulega heyra en alls ekki skilja og horfa en alls ekki sjá. Hjörtu þessa fólks eru orðin ónæm.“‘“ (Post. 28:25b–27) Frummálsorðið sem er þýtt „ónæm“ gefur til kynna að hjartað hafi „þykknað“ eða „fitnað“ þannig að boðskapurinn um ríkið náði ekki í gegn. Þetta var dapurlegt.

17 Ólíkt Gyðingunum ‚myndu þjóðirnar hlusta‘, sagði Páll að lokum. (Post. 28:28; Sálm. 67:2; Jes. 11:10) Hann vissi hvað hann var að tala um því að hann hafði sjálfur séð marga af þjóðunum taka við boðskapnum um ríkið. – Post. 13:48; 14:27.

18 Páll tók það ekki nærri sér þegar fólk hafnaði fagnaðarboðskapnum og við skulum ekki gera það heldur. Við vitum að tiltölulega fáir finna veginn til lífsins. (Matt. 7:13, 14) Þegar fólk með rétt hugarfar ákveður að þjóna Jehóva getum við hins vegar glaðst og tekið því opnum örmum. – Lúk. 15:7.

„Hann boðaði þeim ríki Guðs“ (Post. 28:30, 31)

19. Hvernig nýtti Páll sér aðstæður sínar sem best?

19 Lúkas lýkur frásögn sinni á mjög jákvæðum og hlýlegum nótum: „[Páll] dvaldist þar í heil tvö ár í húsi sem hann leigði og tók vel á móti öllum sem komu til hans. Hann boðaði þeim ríki Guðs og fræddi þá djarfmannlega um Drottin Jesú Krist án nokkurrar hindrunar.“ (Post. 28:30, 31) Hann er okkur frábært fordæmi um gestrisni, trú og eldmóð!

20, 21. Nefndu nokkra sem nutu góðs af boðun Páls í Róm.

20 Einn þeirra sem Páll tók vel á móti var maður sem hét Onesímus en hann var strokuþræll frá Kólossu. Páll aðstoðaði Onesímus við að taka kristna trú og Onesímus varð honum mjög kær. Hann kallar hann ‚trúan og elskaðan bróður sinn‘. Páll talar jafnvel um hann sem ‚barnið sitt‘ og segist hafa ‚orðið honum sem faðir‘. (Kól. 4:9; Fílem. 10–12) Onesímus hlýtur að hafa verið Páli til mikillar uppörvunar.a

21 Aðrir nutu líka góðs af fordæmi Páls. Hann skrifaði Filippímönnum: „Aðstæður mínar hafa í rauninni orðið fagnaðarboðskapnum til framdráttar. Það er orðið alkunnugt meðal lífvarðarsveitar keisarans og allra annarra að ég er í fjötrum vegna Krists. Flest bræðranna og systranna í þjónustu Drottins hafa styrkst vegna fjötra minna, orðið hugrakkari og boða orð Guðs óttalaust.“ – Fil. 1:12–14.

22. Hvernig notaði Páll tímann meðan hann var í stofufangelsi í Róm?

22 Páll notaði tímann sem hann var í stofufangelsi í Róm til að skrifa mikilvæg bréf sem tilheyra nú Grísku ritningunum.b Kristnir menn á fyrstu öld sem fengu bréfin höfðu mikið gagn af þeim. Við njótum líka góðs af þessum innblásnu bréfum því að ráðin sem Páll gaf eiga jafn vel við nú á dögum og á fyrstu öld. – 2. Tím. 3:16, 17.

FIMM BRÉF SEM PÁLL SKRIFAÐI Í FYRRI FANGAVISTINNI Í RÓM

Páll postuli skrifaði fimm af bréfum sínum á árabilinu 60–61 meðan hann var fangi í Róm í fyrra skiptið. Í bréfinu til Fílemons, trúbróður síns, segir Páll frá því að Onesímus, strokuþræll hans, hafi tekið kristna trú. Páll var andlegur faðir Onesímusar. Áður hafði Onesímus ekki komið eiganda sínum að neinu gagni en nú sendir Páll hann aftur til hans sem trúbróður. – Fílem. 10–12, 16.

Í bréfinu til Kólossumanna segir Páll um Onesímus: „[Hann] er úr ykkar hópi.“ (Kól. 4:9) Trúbræðrunum Onesímusi og Týkíkusi var trúað fyrir að afhenda bæði fyrrnefndu bréfin og bréfið sem Páll skrifaði söfnuðinum í Efesus. – Ef. 6:21.

Þegar Páll skrifar Filippímönnum nefnir hann fjötra sína og minnist aftur á aðstæður bréfberans sem var Epafrodítus í þetta sinn. Filippímenn höfðu sent hann til að aðstoða Pál. En Epafrodítus hafði veikst og verið nær dauða en lífi. Hann hafði líka orðið dapur yfir því að Filippímenn skyldu „heyra að hann hefði veikst“. Páll sagði þeim að ‚meta menn eins og hann mikils‘. – Fil. 1:7; 2:25–30.

Hebreabréfið er stílað á kristna Hebrea í Júdeu. Þótt ekki sé tekið fram í bréfinu hver skrifaði það bendir allt til þess að það hafi verið Páll. Stíllinn er einkennandi fyrir Pál. Hann sendir líka kveðjur frá Ítalíu og nefnir Tímóteus sem var með honum í Róm. – Fil. 1:1; Kól. 1:1; Fílem. 1; Hebr. 13:23, 24.

23, 24. Hvernig hafa margir vottar nú á dögum líkt eftir Páli meðan þeir sátu í fangelsi?

23 Þess er ekki getið í Postulasögunni að Páll hafi verið látinn laus en þegar það gerðist hafði hann verið fangi í um það bil fjögur ár – tvö í Sesareu og tvö í Róm.c (Post. 23:35; 24:27) Hann var samt alltaf jákvæður og gerði allt sem hann gat í þjónustu Guðs. Margir af þjónum Jehóva á okkar dögum hafa líka varðveitt gleðina og haldið áfram að boða trúna þótt þeir hafi setið í fangelsi fyrir trú sína. Adolfo er dæmi um það, en hann sat í fangelsi á Spáni þar sem hann vildi ekki hvika frá hlutleysi sínu. „Þú ert ótrúlegur,“ sagði einn af liðsforingjunum. „Við gerðum þér lífið óbærilegt en því verr sem við fórum með þig því meira brostirðu og því vingjarnlegri varstu við okkur.“

24 Með tímanum ávann Adolfo sér svo mikið traust hermannanna að þeir skildu klefadyrnar eftir opnar. Sumir þeirra litu stundum við hjá honum til að spyrja spurninga um Biblíuna. Einn af vörðunum kom jafnvel oft inn í klefann til Adolfos til að lesa í Biblíunni og Adolfo stóð vörð á meðan. Nú var fanginn farinn að „gæta“ varðarins. Fordæmi trúfastra votta eins og hans getur hjálpað okkur að vera „hugrakkari og boða orð Guðs óttalaust“, jafnvel við erfiðar aðstæður.

25, 26. Hvaða spádóm hafði Páll séð rætast á innan við 30 árum og hvernig má líkja því við það sem hefur gerst á okkar tímum?

25 Postuli Krists í stofufangelsi boðar öllum sem koma til hans ríki Guðs – þannig lýkur spennandi frásögu Postulasögunnar með mjög hlýlegum hætti. Í fyrsta kaflanum lesum við um verkefnið sem Jesús fól fylgjendum sínum þegar hann sagði: „Þið fáið kraft þegar heilagur andi kemur yfir ykkur og þið verðið vottar mínir í Jerúsalem, í allri Júdeu og Samaríu og til endimarka jarðar.“ (Post. 1:8) Núna, innan við 30 árum síðar, er búið að boða ríki Guðs „allri sköpun undir himninum“.d (Kól. 1:23, neðanmáls) Hvílíkur vitnisburður um þann kraft sem andi Guðs býr yfir! – Sak. 4:6.

26 Nú á dögum hefur þessi sami andi gefið þeim sem eftir eru af bræðrum Krists og félögum þeirra af ‚öðrum sauðum‘ kraft til að halda áfram að ‚vitna ítarlega um ríki Guðs‘ í 240 löndum. (Jóh. 10:16; Post. 28:23) Tekur þú eins mikinn þátt og þú getur í þessu starfi?

HVAÐ GERÐI PÁLL EFTIR ÁRIÐ 61?

Páll var leiddur fyrir Neró keisara, líklega árið 61, og Neró virðist hafa sýknað hann. Við vitum lítið um hvað hann gerði eftir það. Ef hann fór til Spánar eins og hann hafði hugsað sér hefur það verið á þessum tíma. (Rómv. 15:28) Klemens frá Róm skrifaði um árið 95 að Páll hafi ferðast „til ystu endimarka í vestri“.

Af þeim þrem bréfum sem Páll skrifaði eftir að hann var látinn laus – Tímóteusarbréfunum tveim og Títusarbréfinu – má sjá að hann fór til Krítar, Makedóníu, Nikópólis og Tróas. (1. Tím. 1:3; 2. Tím. 4:13; Tít. 1:5; 3:12) Ef til vill var það í Nikópólis í Grikklandi sem hann var handtekinn á ný. Hvað sem því líður var hann kominn aftur í fangelsi í Róm um árið 65. En í þetta sinn sýndi Neró enga miskunn. Að sögn rómverska sagnaritarans Tacítusar kenndi Neró kristnum mönnum um eldsvoðann mikla í Róm árið 64 og hóf grimmilegar ofsóknir á hendur þeim.

Í síðara bréfinu til Tímóteusar biður Páll þá Markús að koma til sín sem fyrst því að hann býst við að fljótlega verði hann tekinn af lífi. Hugrekki Lúkasar og Ónesífórusar er eftirtektarvert en þeir settu sig í lífshættu til að geta hughreyst Pál. (2. Tím. 1:16, 17; 4:6–9, 11) Sá sem játaði kristna trú opinberlega átti á hættu að vera handtekinn og pyntaður til dauða. Páll dó líklega píslarvættisdauða um árið 65, stuttu eftir að hann skrifaði síðasta bréf sitt en það var til Tímóteusar. Sagt er að Neró hafi fyrirfarið sér um þrem árum eftir að Páll dó píslarvættisdauða.

FAGNAÐARBOÐSKAPURINN „BOÐAÐUR ALLRI SKÖPUN UNDIR HIMNINUM“

Um árið 61, meðan Páll postuli var fangi í Róm, skrifaði hann að fagnaðarboðskapurinn hefði verið „boðaður allri sköpun undir himninum“. (Kól. 1:23, neðanmáls) Hvernig eigum við að skilja það?

Páll virðist hafa verið að lýsa í stórum dráttum hve víða fagnaðarboðskapurinn hafði borist. Alexander mikli hafði lagt undir sig hluta Asíu allt að landamærum Indlands á fjórðu öld f.Kr. Júlíus Sesar hafði ráðist inn í Bretland árið 55 f.Kr. og Kládíus hafði lagt suðurhluta eyjarinnar undir Rómaveldi árið 43 e.Kr. Austurlönd fjær voru einnig þekkt því að þangað sóttu menn silki af fínustu gerð.

Var búið að boða fagnaðarboðskapinn á Bretlandi, í Kína og Austurlöndum fjær? Það er ólíklegt. Þegar Páll skrifaði Kólossubréfið hafði hann enn ekki náð markmiði sem hann setti sér um árið 56, að boða trúna á Spáni sem var þá „ósnert svæði“. (Rómv. 15:20, 23, 24) Boðskapurinn um ríkið hafði þó borist mjög víða árið 61. Hann hafði að minnsta kosti borist til heimalanda þeirra Gyðinga og trúskiptinga sem skírðust á hvítasunnu árið 33, og til landa sem postular Jesú höfðu heimsótt. – Post. 2:1, 8–11, 41, 42.

a Páll hefði viljað halda Onesímusi hjá sér en þá hefði hann brotið gegn rómverskum lögum og gengið á rétt Fílemons, trúbróður síns, sem var húsbóndi Onesímusar. Onesímus sneri því aftur til Fílemons og hafði með sér bréf þar sem Páll hvetur Fílemon til að taka vel á móti þræli sínum sem nú var orðin trúbróðir hans. – Fílem. 13–19.

b Sjá rammann „Fimm bréf sem Páll skrifaði í fyrri fangavistinni í Róm“.

c Sjá rammann „Hvað gerði Páll eftir árið 61?“

d Sjá rammann „Fagnaðarboðskapurinn ‚boðaður allri sköpun undir himninum‘“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila