Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.5. bls. 15-20
  • Íklæðist mildi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Íklæðist mildi
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Þörf er á hirðum sem eru mildir í lund
  • Mildi leiðbeinir vitrum ráðgjafa
  • Gildi margra ráðgjafa
  • Boðunarstarf unnið með mildi
  • Mildi er krafist af öllum
  • Sælir eru mildir í lund
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Sýnið „hvers konar hógværð við alla menn“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Hógværð — mikilvæg fyrir kristinn mann
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Mildi – hvernig er hún okkur til góðs?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.5. bls. 15-20

Íklæðist mildi

„Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð [„mildi,“ NW] og langlyndi.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:12.

1-3. Hvað sagði Páll postuli í Kólossubréfinu 3:12-14 um mildi og aðra eiginleika Guði að skapi?

JEHÓVA gefur þjónum sínum bestu táknrænu fötin sem hægt er að fá. Reyndar verða allir sem þrá velvild hans að klæðast fötum sem eru ofin með sterkum þráðum mildinnar. Þessi eiginleiki er hughreystandi vegna þess að hann dregur úr spennu þegar við erum undir álagi. Hann veitir líka vernd vegna þess að hann bægir frá erjum og átökum.

2 Páll postuli hvatti smurða meðbræður sína: „Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð [„mildi“, NW] og langlyndi.“ (Kólossubréfið 3:12) Tíð grísku sagnarinnar, sem þýdd er „íklæðist,“ gefur í skyn að athöfnin sé áríðandi. Smurðir kristnir menn, sem voru útvaldir, heilagir og elskaðir af Guði, áttu ekki að draga það að íklæðast eiginleikum eins og mildi.

3 Páll bætti við: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ (Kólossubréfið 3:13, 14) Kærleikur, mildi og aðrir eiginleikar Guði að skapi gera vottum Jehóva kleift að „búa saman í einingu.“ — Sálmur 133:1-3, NW.

Þörf er á hirðum sem eru mildir í lund

4. Úr hvaða eiginleikum eru táknræn klæði sannkristinna manna ofin?

4 Sannkristnir menn kappkosta að ‚deyða hið jarðneska í fari sínu, hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd,‘ og þeir vinna að því að afkæðast hverjum þeim gömlu flíkum sem eru spunnar úr reiði, bræði, vonsku, lastmælgi og svívirðilegu orðbragði. (Kólossubréfið 3:5-11) Þeir afklæðast „hinum gamla manni“ og íklæðast „hinum nýja manni“ sem er sæmandi búningur. (Efesusbréfið 4:22-24) Nýi búningurinn þeirra, sem er ofinn úr meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð (eða mildi) og langlyndi, auðveldar þeim að leysa vandamál og lifa eins og Guð vill að þeir geri. — Matteus 5:9; 18:33; Lúkas 6:36; Filippíbréfið 4:2, 3.

5. Hvað er það í starfi kristna safnaðarins sem gerir það ánægjulegt að vera hluti af honum?

5 Menn sem að áliti heimsins vegnar vel eru oft harðir, jafnvel grimmir. (Orðskviðirnir 29:22) Það er sannarlega hressandi að vera meðal þjóna Jehóva! Kristni söfnuðurinn starfar ekki eins og sumir menn reka fyrirtæki — með skilvirkni en slíkri hörku að fólki líður oft illa. Nei, það er ánægjulegt að tilheyra söfnuðinum. Ein ástæðan er sú að mildi er einn þáttur viskunnar sem kristnir menn yfirleitt sýna, sér í lagi þeir sem eru hæfir til að kenna trúbræðrum sínum. Já, það skapar gleði þegar hinir útnefndu öldungar kenna með ‚hóglátri speki.‘ — Jakobsbréfið 3:13.

6. Hvers vegna verða kristnir öldungar að vera mildir í lund?

6 Andi eða ríkjandi viðhorf þjóna Guðs útheimtir að þeir sem trúað er fyrir umsjónarstarfi í söfnuðinum séu mildir í lund, sanngjarnir og skilningsríkir. (1. Tímóteusarbréf 3:1-3) Þjónar Jehóva eru eins og þægir sauðir, ekki eins og þrjóskar geitur, þráir múlasnar eða gráðugir úlfar. (Sálmur 32:9; Lúkas 10:3) Með því að þeir eru sauðumlíkir þarf að sýna þeim mildi og blíðu. (Postulasagan 20:28, 29) Já, Guð ætlast til þess að öldungar séu mildir, vingjarnlegir, kærleiksríkir og þolinmóðir við sauði hans. — Esekíel 34:17-24.

7. Hvernig ættu öldungar að fræða aðra eða hjálpa andlega sjúkum?

7 Sem „þjónn Drottins“ þarf öldungur að vera „ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum, hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti. Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti, sem leiddi þá til þekkingar á sannleikanum.“ (2. Tímóteusarbréf 2:24, 25) Kristnir hirðar ættu að vera tillitssamir þegar þeir reyna að hjálpa þeim sem eru andlega sjúkir, því að sauðirnir tilheyra Guði. Öldungarnir mega ekki koma fram við þá eins og leiguþý myndi gera heldur þurfa þeir að vera mildir eins og góði hirðirinn, Jesús Kristur. — Jóhannes 10:11-13.

8. Hvað kom fyrir Móse, þótt hann væri mildur að eðlisfari, og hvers vegna?

8 Öldungi getur stundum fundist erfitt að vera sífellt mildur. „Maðurinn Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“ (4. Mósebók 12:3) Samt sem áður þráttuðu Ísraelsmenn við Móse þegar vatnsskortur blasti við í Kades, og þeir sökuðu hann um að hafa leitt þá út úr Egyptalandi út í gróðursnauða eyðimörk. Þrátt fyrir allt það sem Móse hafði þolað hógvær í bragði var hann nú hranalegur og fljótfærnislegur í tali. Hann og Aron stóðu frammi fyrir lýðnum og beindu athyglinni að sjálfum sér. Móse sagði: „Heyrið þér þrjóskir menn. Hvort munum vér leiða mega vatn út af kletti þessum handa yður?“ Síðan sló Móse klettinn tvisvar með staf sínum og Guð lét „vatn mikið“ spretta fram handa þjóðinni og fénaði hennar. Með því að helga ekki Jehóva misþóknuðust þeir Móse og Aron honum og Móse fékk þar af leiðandi ekki þau sérréttindi að leiða Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið. — 4. Mósebók 20:1-13; 5. Mósebók 32:50-52; Sálmur 106:32, 33.

9. Hvernig getur reynt á mildi kristins öldungs?

9 Það getur einnig reynt á mildi kristins öldungs á ýmsa vegu. Til dæmis varaði Páll Tímóteus við því að menn kynnu að „ofmetnast“ og sumir kynnu að verða ‚sóttteknir af þrætum og orðastælum.‘ Hann bætti við: „Af þessu fæðist öfund, deilur, lastmæli, vondar hugsanir, þjark og þras hugspilltra manna, sem eru sneyddir sannleikanum.“ Umsjónarmaðurinn Tímóteus átti ekki að vera hörkulegur heldur að ‚forðast þetta‘ og hann átti að „stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:3-5, 11.

10. Hvað átti Títus að minna söfnuðina á?

10 Enda þótt öldungar þurfi að vera mildir verða þeir að vera fastir fyrir gagnvart því sem rétt er. Það gerði Títus. Hann minnti þá sem tilheyrðu söfnuðinum á Krít á að „lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn.“ (Títusarbréfið 3:1, 2) Títus átti að benda á hve góðgjarn og elskuríkur Jehóva hefði verið og sýna kristnum mönnum þannig hvers vegna þeir ættu að vera mildir við alla. Guð hafði ekki frelsað hina trúuðu vegna einhverra réttlætisverka af þeirra hálfu heldur vegna miskunnar sinnar fyrir milligöngu Jesú Krists. Mildi og langlyndi Jehóva hefur líka í för með sér hjálpræði fyrir okkur. Nútímaöldungar ættu því, líkt og Títus, að minna söfnuðina á að vera undirgefnir Guði og líkja eftir honum með því að vera mildir í samskiptum við aðra. — Títusarbréfið 3:3-7; 2. Pétursbréf 3:9, 15.

Mildi leiðbeinir vitrum ráðgjafa

11. Hvernig ætti að veita ráð að sögn Galatabréfsins 6:1, 2?

11 Hvað gerir öldungur ef táknrænn „sauður“ hefur syndgað? Páll sagði: „Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka. Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Galatabréfið 6:1, 2) Heilræði eru áhrifaríkari ef þau eru veitt mildilega. Jafnvel þótt öldungar séu að leiðbeina reiðum manni ættu þeir að sýna sjálfstjórn og hafa hugfast að „mjúk tunga mylur bein.“ (Orðskviðirnir 25:15) Mild orð geta stundum mýkt mann sem er harður eins og bein og gert hann meðfærilegan.

12. Hvernig getur mildi verið gagnleg fyrir ráðgjafa?

12 Jehóva er mildur fræðari og mildileg kennsluaðferð hans reynist áhrifarík í söfnuðinum, einkum þegar nauðsynlegt er fyrir öldungana að leiðbeina þeim sem þarfnast andlegrar hjálpar. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki [„mildi sem heyrir viskunni til,“ NW].“ Mildi er sprottin af virðingu og þakklæti fyrir ‚spekina sem að ofan er‘ ásamt því að viðurkenna í auðmýkt takmörk sín. Mildur og auðmjúkur andi forðar leiðbeinandanum frá meiðandi orðum og ráð hans verða meðtækilegri fyrir vikið. — Jakobsbréfið 3:13, 17.

13. Hvaða áhrif hefur „mildi sem heyrir viskunni til“ á það hvernig ráð eru gefin?

13 „Mildi sem heyrir viskunni til“ kemur í veg fyrir að leiðbeinandinn sé, sökum hugsunarleysis, ónærgætinn eða hranalegur. En öldungur má ekki heldur láta vináttu eða löngun til að eiga hylli einhvers koma sér til að segja það sem þóknast honum í staðinn fyrir að koma mildilega fram með heiðarlegar ráðleggingar byggðar á orði Guðs. (Orðskviðirnir 24:24-26; 28:23) Þær ráðleggingar, sem Amnon fékk frá frænda sínum, fullnægðu fýsnum hans en kostuðu hann lífið. (2. Samúelsbók 13:1-19, 28, 29) Öldungar nútímans mega því ekki útvatna meginreglur Biblíunnar til að friða samvisku einhvers, því að það gæti stefnt lífi hans í voða. Líkt og Páll mega öldungar ekki veigra sé við að segja öðrum „allt Guðs ráð.“ (Postulasagan 20:26, 27; 2. Tímóteusarbréf 4:1-4) Þroskaður kristinn ráðgjafi sýnir guðsótta og gefur réttlátar ráðleggingar með hóglátri speki.

14. Hvers vegna ætti öldungur að gæta þess að taka ekki ákvarðanir fyrir aðra sem þeim ber sjálfum að taka?

14 Mildi samfara himneskri visku kemur í veg fyrir að öldungur geri ósanngjarnar kröfur. Hann ætti líka að gera sér ljóst að það er óviturlegt og óviðeigandi af hans hálfu að taka ákvörðun fyrir annan mann sem sá ætti að taka sjálfur. Öldungur myndi vera ábyrgur fyrir afleiðingunum ef hann tæki ákvarðanir fyrir aðra og hann myndi eiga nokkra sök á hverju því sem illa færi. Öldungur getur vakið athygli á því sem Biblían segir, en segi hún ekkert afdráttarlaust um málið verður dómgreind einstaklingsins sjálfs og samviska að segja honum hvað hann eigi að gera. Eins og Páll sagði: „Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ (Galatabréfið 6:5; Rómverjabréfið 14:12) Hins vegar getur öldungur hjálpað þeim sem leitar ráða hjá honum að taka rétta ákvörðun með því að spyrja hann spurninga sem auðvelda honum að rökhugsa út frá ritningargreinum er tengjast þeim valkostum sem hann stendur frammi fyrir.

15. Hvað ætti öldungur að gera ef hann veit ekki svar við spurningu?

15 Ef öldungur veit ekki svarið við spurningu ætti hann ekki að svara til þess eins að halda andlitinu. Hóglát speki ætti að hindra hann í að giska á svarið og gefa ef til vill rangt svar sem gæti síðar haft óheppilegar afleiðingar. „Að þegja hefir sinn tíma og að tala hefir sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:7; samanber Orðskviðina 21:23.) Öldungur ætti að tala aðeins þegar hann veit svarið við spurningu eða hefur kynnt sér málið nægilega til að gefa nákvæmt svar. Það er viturlegt að láta vafasömum spurningum ósvarað. — Orðskviðirnir 12:8, NW; 17:27; 1. Tímóteusarbréf 1:3-7; 2. Tímóteusarbréf 2:14.

Gildi margra ráðgjafa

16, 17. Hvers vegna er viðeigandi fyrir öldunga að ráðfæra sig hver við annan?

16 Bæn og nám hjálpar öldungum að svara spurningum og taka á erfiðum vandamálum, en þeir ættu að hafa hugfast að „ef margir leggja á ráðin fá [áformin] framgang.“ (Orðskviðirnir 15:22) Með því að ráðfæra sig við aðra öldunga má njóta góðs af visku þeirra. (Orðskviðirnir 13:20) Það búa ekki allir öldungar yfir jafnmikilli reynslu og biblíuþekkingu. Hóglát speki ætti því að koma reynsluminni öldungum til að ráðfæra sig við öldunga sem búa yfir meiri þekkingu og reynslu, einkum þegar alvarleg mál eru annars vegar.

17 Þegar öldungar eru valdir til að taka á alvarlegu máli geta þeir samt sem áður ráðfært sig í trúnaði við aðra. Móse valdi „dugandi menn og guðhrædda, áreiðanlega menn og ósérplægna“ til að aðstoða sig við að dæma Ísraelsmenn. Þótt þeir væru öldungar bjuggu þeir ekki yfir jafnmikilli reynslu og þekkingu og Móse. Þess vegna ‚skutu þeir erfiðum vandamálum til Móse en sjálfir dæmdu þeir í hinum smærri málum.‘ (2. Mósebók 18:13-27) Það er því skynsamlegt af öldungum, sem þurfa að fjalla um erfitt mál, að ráðfæra sig við reyndari umsjónarmenn, þótt þeir taki sjálfir endanlega ákvörðun.

18. Hvað ræður úrslitum um rétta ákvörðun í dómsmálum?

18 Mísnalög Gyðinganna segja að mismargir hafi setið í dómstólum bæjanna í Ísrael eftir því hve alvarleg mál voru til umfjöllunar. Það hefur sitt gildi að hafa marga ráðgjafa enda þótt fjöldinn einn tryggi ekki réttan dóm, því að meirihlutinn getur haft rangt fyrir sér. (2. Mósebók 23:2) Það sem ræður úrslitum um að ákvörðunin sé rétt er Ritningin og andi Guðs. Viska og mildi koma kristnum manni til að lúta hvoru tveggja.

Boðunarstarf unnið með mildi

19. Hvernig hjálpar mildi þjónum Jehóva að bera vitni fyrir öðrum?

19 Mildi hjálpar þjónum Jehóva einnig að bera vitni fyrir fólki með alls konar lundarfar. (1. Korintubréf 9:22, 23) Jesús kenndi með mildi og þess vegna var almúgafólk ekki smeykt við hann eins og við hina ströngu trúarleiðtoga. (Matteus 9:36) Mildi hans laðaði að sjálfsögðu að „sauðina“ en ekki hina illu „hafra.“ (Matteus 25:31-46; Jóhannes 3:16-31) Enda þótt Jesús hafi verið ómyrkur í máli við hina hræsnisfullu ‚hafra‘ verða vottar Jehóva að vera mildir er þeir boða dómsboðskap Guðs nú á dögum, vegna þess að þeir búa ekki yfir sama innsæi og valdi og Jesús. (Matteus 23:13-36) Er menn heyra boðskapinn um Guðsríki prédikaðan mildilega ‚taka þeir trú sem réttilega hneigjast til eilífs lífs,‘ eins og sauðumlíkir menn gerðu á dögum Jesú. — Postulasagan 13:48.

20. Hvaða gagn hefur biblíunemandi af því ef honum er kennt mildilega?

20 Góður árangur næst með því að bera vitni og fræða aðra með mildi og með því að höfða til þeirra með rökum, meginreglum Biblíunnar og sannleika. „Helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar“ skrifaði Pétur, „verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni sem í yður er. En gjörið það með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:15) Nemandi, sem kennt er mildilega, getur einbeitt sér að efninu í stað þess að láta hranalegt eða þrætugjarnt viðmót trufla sig eða jafnvel hneyksla. Þjónar orðsins, sem kenna mildilega, geta sagt eins og Páll: „Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti.“ (2. Korintubréf 6:3) Jafnvel andstæðingar bregðast stundum jákvætt við þeim sem fræða mildilega.

Mildi er krafist af öllum

21, 22. Hvernig er mildi öllum þjónum Jehóva til góðs?

21 Kristinn maður má ekki bregða yfir sig mildi til þess eins og sýna sig fyrir þeim sem standa utan skipulags Jehóva. Þessi eiginleiki er einnig nauðsynlegur í samskiptum milli þjóna Guðs. (Kólossubréfið 3:12-14; 1. Pétursbréf 4:8) Það uppbyggir söfnuðina andlega þegar mildir öldungar og safnaðarþjónar vinna vel saman. Mildi og aðrir eiginleikar Guði að skapi eru mikilvægir fyrir einn og sérhvern af þjónum Jehóva vegna þess að „sömu lög“ gilda um alla. — 2. Mósebók 12:49; 3. Mósebók 24:22.

22 Mildi stuðlar að friði og hamingju þjóna Guðs. Það ætti því að vera hluti þeirra klæða sem allir kristnir menn bera heima hjá sér, í söfnuðinum og annars staðar. Já, allir þjónar Jehóva þurfa að íklæðast mildi.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvers vegna verða kristnir öldungar að vera mildir í lund?

◻ Hvernig er mildi vitrum ráðgjöfum til leiðsagnar?

◻ Hvers vegna er það verðmætt að hafa marga ráðgjafa?

◻ Hvers vegna er gagnlegt að boða trúna mildilega?

[Mynd á blaðsíðu 17]

Fara þarf mildilega með þjóna Jehóva, táknræna sauði hans.

[Rétthafi]

Garo Nalbandian

[Mynd á blaðsíðu 19]

Mildi hjálpar þjónum Jehóva að ná sambandi við fólk með ýmiss konar lundarfar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila