-
Verum menn trúarinnarVarðturninn – 1999 | 1. desember
-
-
16, 17. (a) Hvernig fékk Páll djörfung í boðunarstarfinu? (b) Hvaða ráðstafanir ættum við að gera ef einhver þáttur boðunarstarfsins vex okkur í augum?
16 Hann skrifaði kristnum mönnum í Þessaloníku: „Yður er kunnugt, að vér höfðum áður þolað illt og verið misþyrmt í Filippí, en Guð gaf oss djörfung til að tala til yðar fagnaðarerindi Guðs, þótt baráttan væri mikil.“ (1. Þessaloníkubréf 2:2) Hvernig var Páli og félögum hans „misþyrmt“ í Filippí? Sumir fræðimenn segja að gríska orðið, sem Páll notar hér, lýsi móðgandi, svívirðilegri og hryllilegri meðferð. Ráðamenn í Filippí höfðu húðstrýkt þá, varpað þeim í fangelsi og fellt stokk á fætur þeim. (Postulasagan 16:16-24) Hvaða áhrif hafði þessi illa meðferð á Pál? Var hann hræddur og hnípinn í Þessaloníku sem var næsta borg á trúboðsferð hans? Nei, hann sýndi „djörfung.“ Hann sigraðist á óttanum og hélt áfram að prédika djarflega.
17 Hvaðan kom Páli þessi djörfung? Kom hún innan frá? Nei, hann sagði að ‚Guð hefði gefið‘ sér djörfungina. Handbók fyrir biblíuþýðendur segir að það megi þýða þessi orð: „Guð tók óttann úr hjörtum okkar.“ Ef þú ert ekki sérlega djarfmannlegur í boðunarstarfinu eða ef einhver þáttur boðunarstarfsins vex þér sérstaklega í augum, gætirðu beðið Jehóva að gera það sama fyrir þig og hann gerði fyrir Pál. Biddu hann að taka óttann úr hjarta þér. Biddu hann að hjálpa þér að taka í þig kjark til starfsins. Og gerðu eitthvað fleira raunhæft í málinu. Til dæmis geturðu beðið um samstarf við einhvern sem er fær í þeirri grein boðunarstarfsins sem þér finnst erfið. Þetta getur verið boðunarstarf á viðskiptasvæðum, götum, í síma eða óformleg prédikun. Kannski er félagi þinn fús til að eiga frumkvæðið fyrst í stað. Fylgstu þá með og lærðu. En hertu svo upp hugann og reyndu.
18. Hvaða blessunar getum við notið ef við sýnum af okkur djörfung í boðunarstarfinu?
18 Ef þú sýnir af þér djörfung skaltu leiða hugann að árangrinum sem þú getur séð af því. Ef þú þraukar og missir ekki kjarkinn er líklegt að þú upplifir margt ánægjulegt í boðunarstarfinu sem þú færir ella á mis við. (Sjá rammagrein á bls. 31.) Þú veist að þú hefur glatt Jehóva með því að gera það sem þú átt erfitt með. Þú finnur fyrir blessun hans og hjálp til að sigrast á óttanum. Trúin styrkist. Í rauninni geturðu ekki byggt upp trú annarra án þess að styrkja þína eigin trú í leiðinni. — Júdasarbréfið 20, 21.
-
-
Þau tóku í sig kjarkVarðturninn – 1999 | 1. desember
-
-
Þau tóku í sig kjark
Það er ekki alltaf auðvelt að taka í sig kjark til að prédika. Reyndar sagði Páll postuli að einu sinni hefði það kostað sig ‚mikla baráttu.‘ (1. Þessaloníkubréf 2:2) Er það ‚baráttunnar‘ virði að prédika? Það er engin trygging fyrir því að eitthvað stórkostlegt gerist í boðunarstarfinu, en fólk Guðs er oft ánægt með að það skuli hafa tekið í sig kjark. Tökum nokkur dæmi.
Tara var átta ára þegar kennarinn sagði bekknum að í síðari heimsstyrjöldinni hafi Gyðingar í fangabúðum þurft að ganga með gula Davíðsstjörnu til auðkennis. Tara hlustaði með athygli og velti fyrir sér hvort hún ætti að leggja orð í belg. „Ég baðst fyrir með augun opin,“ segir hún. Síðan rétti hún upp höndina og sagði að vottar Jehóva hefðu líka verið í þessum fangabúðum og hefðu þurft að ganga með purpuralitan þríhyrning. Kennarinn sýndi áhuga og þakkaði henni fyrir. Ábending Töru varð tilefni nánari samræðna við kennarann sem sýndi öllum bekknum síðar myndbandið Jehovah’s Witnesses Stand Firm Against Nazi Assault (Vottar Jehóva standa einarðir gegn árásum nasista).
Irène er ungur óskírður boðberi í Gíneu í Vestur-Afríku. Hana langaði til að taka framförum í boðunarstarfinu. Trúboðinn, sem kenndi henni Biblíuna, hvatti hana til að reyna að koma tímaritunum Varðturninn og Vaknið! á framfæri við skólasystkini sín. Irène var hikandi því að bekkjarfélagarnir höfðu ekki verið móttækilegir áður. En hvatning trúboðans varð til þess að hún ákvað að tala fyrst við stúlku sem hafði virst vera mest á móti sannleikanum. Henni til undrunar brást stúlkan vel við og þáði blöðin fúslega. Sama var að segja um aðra nemendur. Irène dreifði fleiri blöðum þann mánuðinn en síðustu fimm mánuðina á undan samanlagt.
Öldungur í Trínidad var hikandi við að tala við skólastjóra um fræðslugildi tímaritsins Vaknið! En hann tók í sig kjark og gerði það. „Ég baðst fyrir þegar ég gekk inn á skólasvæðið,“ segir hann. „Ég trúði því varla þegar skólastjórinn reyndist einkar viðkunnanlegur.“ Hann þáði Vaknið! sem fjallaði um efnið: „Hvaða von er um unga fólkið?“ og féllst jafnvel á að nota það við kennslu. Síðan hefur skólastjórinn þegið 40 blöð um margvísleg efni.
Vaughn þótti alltaf erfitt að prédika sem unglingur. „Ég varð taugaóstyrkur, sveittur í lófunum og hraðmæltur — ég gat ekki hægt á mér.“ Hann gerðist boðberi í fullu starfi en átti samt erfitt með að tala. Einu sinni var hann á heimleið eftir árangurslítinn dag í atvinnuleit. Hann langaði til að vitna fyrir einhverjum í neðanjarðarlestinni „svo að það rættist að minnsta kosti eitthvað úr lélegum degi.“ En hann var ragur við virðulegan kaupsýslumann í lestinni. Að lokum tók hann í sig kjark og fór að tala við roskinn mann sem sat við hlið hans. Þeir töluðu lengi saman. „Þú spyrð góðra spurninga af ungum manni að vera,“ sagði kaupsýslumaðurinn. „Ertu guðfræðingur?“ „Nei, ég er vottur Jehóva,“ svaraði Vaughn. Maðurinn brosti. „Nú skil ég,“ sagði hann.
Allir þessir vottar — og ótal aðrir — eru glaðir yfir því að þeir skyldu taka í sig kjark til að prédika. Ætlar þú að gera það líka?
-