Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g 1.10 bls. 6-9
  • Hjálp frá ,Guði allrar huggunar‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hjálp frá ,Guði allrar huggunar‘
  • Vaknið! – 2010
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Þunglyndi mun hverfa að eilífu
  • Hughreysting fyrir niðurdregna
    Hughreysting fyrir niðurdregna
  • Get ég fengið hughreystingu frá Biblíunni ef ég á við þunglyndi að stríða?
    Biblíuspurningar og svör
  • Sigrast á þunglyndi með hjálp annarra
    Vaknið! – 1988
  • Sigrað í baráttunni við þunglyndi
    Vaknið! – 1988
Sjá meira
Vaknið! – 2010
g 1.10 bls. 6-9

Hjálp frá ,Guði allrar huggunar‘

DAVÍÐ konungur þurfti oft að takast á við mikla angist og sálarkvöl. En hann efaðist aldrei um að skaparinn skilji okkur mennina fullkomlega. Hann skrifaði: „Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig, hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar. Eigi er það orð á tungu minni að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.“ — Sálmur 139:1, 2, 4, 23.

Við getum einnig verið viss um að skaparinn skilur okkur og þau lamandi áhrif sem þunglyndi getur haft á ófullkomna hugi okkar og líkami. Hann veit hvað veldur þunglyndi og hvernig er best fyrir okkur að þrauka við núverandi aðstæður. Þar að auki hefur hann sagt hvernig hann á eftir að lækna þunglyndi að eilífu. Við getum ekki óskað eftir neinum betri til að hjálpa okkur en Guði sem er samúðarfullur, ,uppörvar beygða og veitir kjark‘. — 2. Korintubréf 7:6.

En þeir sem eru þunglyndir velta kannski fyrir sér hvernig Guð geti hjálpað þeim þegar þeim líður illa.

Geta þunglyndir nálgast Guð?

Guð er svo nálægur þjónum sínum sem eiga við þunglyndi að stríða að það er eins og hann búi hjá „iðrunarfullum og þjökuðum í anda til að glæða þrótt hinna lítillátu og styrkja hjarta þjakaðra“. (Jesaja 57:15) Er ekki hughreystandi að vita að „Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta [og] hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda“? — Sálmur 34:19.

Hvernig geta þunglyndir fengið huggun frá Guði?

Þeir sem tilbiðja Guð geta hvenær sem er nálgast hann því að hann „heyrir bænir“ og getur hjálpað okkur að takast á við erfiðar tilfinningar og aðstæður. (Sálmur 65:3) Í Biblíunni erum við hvött til að úthella hjörtum okkar fyrir honum: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.

Hvað er til ráða ef okkur finnst við vera óverðug þess að Guð hlusti á bænir okkar?

Þunglyndum hættir til að álykta að þeir séu Guði ekki þóknanlegir. En himneskur faðir okkar 5er næmur fyrir viðkvæmum tilfinningum okkar og „minnist þess að vér erum mold“. (Sálmur 103:14) Jafnvel þó að ,hjartað kunni að dæma okkur‘ getum við ,friðað hjartað‘ því að „Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt“. (1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) Þú getur því notað svipað orðalag í bænum þínum og þú hefur lesið í versum í Biblíunni eins og Sálmi 9:10, 11; 10:12, 14, 17 og 25:17.

Hvað ef við erum svo illa haldin að við getum ekki lýst tilfinningum okkar?

Þú skalt ekki gefast upp þó að sársaukafullar tilfinningar geti orðið svo yfirþyrmandi að það verður erfitt að tjá sig rökrétt. Haltu áfram að leita hans sem er „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar“, fullviss um að hann skilur tilfinningar þínar og þarfir. (2. Korintubréf. 1:3) María, sem minnst var á áður í þessari greinasyrpu, segir: „Stundum er ég svo ráðvillt að ég veit ekki hvað ég á að biðja um. En ég veit að Guð skilur mig og hjálpar.“

Hvernig svarar Guð bænum okkar?

Biblían gefur ekki til kynna að Guð ætli að fjarlægja alla erfiðleika okkar strax. En hann getur gefið okkur styrk til að þola hvað sem er — þar á meðal þunglyndi. (Filippíbréfið 4:13) Martina segir: „Þegar ég varð fyrst þunglynd bað ég Jehóva um að lækna mig strax vegna þess að mér fannst ég ekki þola þetta lengur. Núna er ég sátt við að biðja um styrk frá degi til dags.“

Biblían er dýrmæt gjöf frá Guði. Hún hjálpar þeim sem þjást af þunglyndi að takast á við það. Sara hefur barist við þunglyndi í 35 ár. Hún hefur upplifað hversu mikils virði er að lesa daglega í Biblíunni. Hún segir: „Ég er mjög þakklát fyrir aðstoð frá fagfólki. En umfram allt hef ég skilið hversu gagnlegt og andlega uppbyggjandi það er að lesa í orði Guðs. Ég hef gert það að vana.“

Þunglyndi mun hverfa að eilífu

Þegar Jesús Kristur var á jörðinni sýndi hann máttinn, sem Guð gaf honum, til að lækna kvalafulla sjúkdóma. Hann var mjög fús til að hjálpa fólki sem þjáðist af þungbærum sjúkdómum. Þar að auki þekkti hann sjálfur þær raunir sem fylgja því að takast á við erfiðar tilfinningar. Kvöldið áður en Jesús átti að deyja sársaukafullum dauðdaga „bar [hann] með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða“. (Hebreabréfið 5:7) Þetta reyndi mikið á Jesú en við njótum núna góðs af því vegna þess að hann er „fær um að hjálpa þeim er verða fyrir freistingu“ eða prófraunum. — Hebreabréfið 2:18; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

Í Biblíunni er sagt að Guð ætli sér að fjarlægja alla erfiðleika sem geta valdið þunglyndi. „Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð og hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því sem ég skapa.“ (Jesaja 65:17, 18) ,Nýi himininn‘ eða Guðsríki mun endurreisa „nýja jörð“ sem er samfélag réttlátra manna á jörðinni. Þá verða allir fullkomlega heilbrigðir á sál og líkama. Allir sjúkdómar munu hverfa að eilífu.

„Ég ákallaði nafn þitt, Drottinn, úr djúpi gryfjunnar. Þú heyrðir hróp mitt: ,Byrg ekki eyra þitt fyrir ákalli mínu um hjálp.‘ Þú nálgaðist mig þegar ég hrópaði til þín, sagðir:,Óttast ekki!‘“ — Harmljóðin 3:55-57

HUGHREYSTUM ÞUNGLYNDA

Barbara og eiginmaður hennar hringja stundum í Gerard en hann er fjölskylduvinur og umsjónarmaður í kristna söfnuðinum. Þau hringja þegar henni líður óbærilega illa vegna þunglyndis og hún upplifir að hún sé einskis virði. Barbara snöktir óstjórnlega og endurtekur angistarfull það sem hún hefur áður sagt Gerard en hann er alltaf þolinmóður og hlustar á hana.

Gerard hefur lært að hlusta á aðra án þess að setja sig í dómarasæti, rökræða eða vera með fordóma. (Jakobsbréfið 1:19) Hann hefur lært að ,hughreysta ístöðulitla‘ eða þunglynda eins og okkur er ráðlagt að gera í Biblíunni. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Með þolinmæði fullvissar hann Barböru um að hún sé mjög dýrmæt fyrir fjölskyldu sína og vini og í augum Jehóva. Hann er vanur að lesa einn eða tvo ritningarstaði úr Biblíunni jafnvel þó að hann hafi lesið suma þeirra áður. Hann býðst alltaf til að fara með bæn með þeim í símanum og það finnst þeim mjög hughreystandi. — Jakobsbréfið 5:14, 15.

Gerard gerir sér fulla grein fyrir því að hann er ekki læknismenntaður og hann reynir aldrei að setja sig í það hlutverk. En hann bætir nokkru við læknismeðferð Barböru sem fáir læknar geta látið henni í té — hughreystandi ritningarstaði og bænir.

Að hughreysta þunglynda

Þú gætir sagt: „Mig langaði bara að segja þér að mér hefur verið hugsað til þín. Ég veit að þér líður ekki alltaf vel. Hvernig hefurðu haft það?“

Hafðu hugfast: Talaðu af einlægni og hlustaðu með samúð jafnvel þó að sá þunglyndi endurtaki það sem hann hefur sagt.

Þú gætir sagt: „Ég er hissa á því hvað þú getur gert (eða: „Mér finnst mikið til koma hvað þú sýnir góða kristna eiginleika“) þrátt fyrir heilsuleysið. Jafnvel þó að þú vildir að þú gætir gert meira elskar Jehóva þig og metur þig mikils. Og það gerum við líka.“

Hafðu hugfast: Sýndu samúð og vertu vinalegur.

Þú gætir sagt: „Ég rakst á uppörvandi biblíuvers.“ Eða: „Mér varð hugsað til þín þegar ég las eitt af mínum uppáhaldsversum í Biblíunni.“ Lestu síðan versið eða vitnaðu í það.

Hafðu hugfast: Forðastu prédikunartón.

HUGHREYSTING ÚR BIBLÍUNNI

Lorraine finnst hughreystandi að lesa loforð Jehóva í Jesaja 41:10: „Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni.“

Álvaro segir að hann finni oft huggun í orðunum í Sálmi 34:5, 7: „Ég leitaði Drottins og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu sem ég hræddist. Hér er vesæll maður sem hrópaði og Drottinn bænheyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.“

Naoya segir að það uppörvi sig alltaf að lesa Sálm 40:2, 3: „Stöðugt vonaði ég á Drottin og hann laut niður að mér og heyrði ákall mitt. Hann . . . gerði mig styrkan í gangi.“

Í Sálmi 147:3 fær Naoko fullvissu fyrir því að Jehóva „græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta og bindur um benjar þeirra“.

Orð Jesú í Lúkasi 12:6, 7 hjálpa Eliz að treysta á umhyggju Jehóva: „Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó gleymir Guð engum þeirra. Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Óttist ekki, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“

Önnur biblíuvers:

  • Sálmur 39:13: „Heyr bæn mína, Drottinn, legg eyru við ákalli mínu, ver eigi hljóður þegar ég græt.“

  • 2. Korintubréf 7:6: „Guð, sem uppörvar beygða, veitti mér kjark.“

  • 1. Pétursbréf 5:7: „Varpið allri áhyggju ykkar á [Guð] því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila