Stríðið til að binda enda á styrjaldir
RISASTÓRT loftskip flaug með gný í gegnum náttmyrkrið. Það var á heimleið eftir loftárás á Lundúnir. Leið þess lá yfir þorp í Essex og þar var nokkrum sprengjum varpað. Ein þeirra drap hjúkrunarkonu sem var heima í leyfi frá stríðinu í Frakklandi.
Þetta var einungis lítið atvik í fyrri heimsstyrjöldinni en það sýnir hversu miklar breytingar voru orðnar frá því sem áður var. Þetta var dæmi um hve miklum breytingum hernaður og hergögn höfðu tekið og hversu fjarlægur sá tími virtist er menn skyldu ‚ekki temja sér hernað framar.‘ (Jesaja 2:2-4) Um þúsundir ára höfðu styrjaldir verið háðar á landi og yfirborði sjávar. Í fyrri heimsstyrjöldinni tóku bardagarnir að teygja sig upp í andrúmsloftið og niður fyrir yfirborð sjávarins. Það hafði þær afleiðingar að óbreyttir borgarar, sem bjuggu í hundruða kílómetra fjarlægð frá víglínunni, féllu í sprengjuárásum, og að ósýnilegir kafbátar sökktu fjölda skipa.
Í fyrri heimsstyrjöldinni féllu 8 milljónir hermanna á vígvellinum og ætlað er að 12 milljónir óbreyttra borgara hafi dáið af ýmsum orsökum, meðal annars hungri og vosbúð. „Harmleikur stríðsins mikla [fyrri heimsstyrjaldarinnar] fólst í því að það var háð milli siðmenntuðustu þjóða í Evrópu út af deilum sem fáeinir menn gæddir jafnlyndi og góðri dómgreind hefðu getað sett niður,“ segir sagnfræðingurinn H. A. L. Fisher. Til að réttlæta hin hræðilegu manndráp var það kallað „stríðið til að binda enda á styrjaldir.“ Þau orð áttu fljótlega eftir að hljóma mjög innantóm.
Friðargæslustofnun
Þegar lýst var yfir friði árið 1918 krafðist stríðsþreytt kynslóð þess að gerðar yrðu ráðstafanir til að tryggja að slík heimsstyrjöld gæti aldrei brotist út aftur. Þær kröfur leiddu til þess að Þjóðabandalagið var stofnsett árið 1919. En Þjóðabandalagið brást hrapallega vonum manna. Árið 1939 steypti heimurinn sér út í nýja heimsstyrjöld sem kostaði enn fleiri mannslíf en sú fyrri.
Í síðari heimsstyrjöldinni voru borgir jafnaðar við jörðu og líf óbreyttra borgara breyttist í martröð. Þá var kjarnorkusprengjum varpað á Híróshíma og Nagasaki árið 1945 og kjarnorkuöldin rann upp. Hin svepplaga ský, sem risu upp yfir þessum tveim japönsku borgum, voru fyrirboði nýrrar ógnunar sem hefur vofað yfir mannkyninu æ síðan.
En jafnvel áður en þessum sprengjum var varpað var hafinn undirbúningur að stofnun samtaka í líkingu við Þjóðabandalagið sem nú hafði lagt upp laupana. Árangurinn af þeim undirbúningi var stofnun Sameinuðu þjóðanna er höfðu í grundvallaratriðum sömu markmið og forveri þeirra — að viðhalda heimsfriði. Hafa þær náð því markmiði? Að vísu hafa engar heimsstyrjaldir verið háðar frá 1945, en hins vegar hafa verið háðar fjölmargar smærri styrjaldir sem hafa kostað milljónir manna lífið.
Má draga þá ályktun af þessu að mannkynið muni aldrei sjá rætast loforð Guðs fyrir munn Jesaja spámanns, þess efnis að menn muni ‚ekki temja sér hernað framar‘? Nei. Við getum einfaldlega dregið þá ályktun að það verði ekki menn sem láta þetta fyrirheit rætast. Biblían, sem er kölluð ‚ljós á vegi okkar,‘ er sú bók sem geymir þetta innblásna loforð. Biblían sýnir okkur fram á að enginn annar en Guð sjálfur getur bundið enda á allar styrjaldir. — Sálmur 119:105.
Endi bundinn á allar styrjaldir
Eins og getið var í greininni á undan var til hópur manna á fyrstu öld sem myndaði alþjóðlegt bræðrafélag. Óhugsandi var að þeir sem því tilheyrðu berðust hver gegn öðrum. Þetta bræðrasamfélag var kristni söfnuðurinn og meðlimir hans fóru mjög bókstaflega eftir þeim orðum að „smíða plógjárn úr sverðum sínum.“ Núna, meðan mannkyninu í heild getur ekkert orðið ágengt í því að útrýma styrjöldum, er aftur til hópur manna sem hefur náð þessu sama, einstaka markmiði. Hverjir eru það?
Lítill hópur manna hafði á árunum fyrir 1914 sýnt að hann bar traust til Biblíunnar. Þess vegna vissi hann að tilraunir manna til að útrýma styrjöldum myndu aldrei takast. Af námi sínu í Biblíunni hafði hann komist að því að þáttaskil myndu verða í sögu mannkynsins árið 1914, og varaði fyrirfram við því í 40 ár. Í samræmi við spádóma Biblíunnar runnu upp árið 1914 tímar hungursneyðar, drepsóttar, jarðskjálfta og styrjalda. (Matteus 24:3, 7, 8; Lúkas 21:10, 11) Sagnfræðingurinn James Cameron sagði um fyrri heimsstyrjöldina: „Árið 1914 leið heimurinn, eins og hann var þá þekktur og viðurkenndur, undir lok.“
Áður en stríðinu lauk gaus upp inflúensufarsótt sem breiddist út um allan hnöttinn og kostaði 20 milljónir manna lífið — yfir tvöfalt fleiri en hermennirnir sem fallið höfðu í stríðinu sjálfu. Alla tíð síðan hafa sjúkdómar á borð við krabbamein, og núna á allra síðustu árum, eyðni, valdið ógn og skelfingu manna á meðal.
Veittu nú athygli öðrum biblíuspádómi: „Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.“ (Matteus 24:12) Er þessi spádómur að rætast? Svo sannarlega! Daglega segja fjölmiðlarnir frá lögleysi í öllum heimshornum — morðum, vopnuðum ránum og ofbeldisverkum. Stjórnmálamaður spáði því að síðari heimsstyrjöldin myndi tryggja mönnum „frelsi undan ótta.“ Veruleikinn hefur orðið allur annar, nákvæmlega eins og Biblían spáði: „Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ (Lúkas 21:26) Enn á ný reyndust spár manna rangar en spádómsorð Guðs rétt.
Aðalstríðsmangarinn
Stríðsmangari er sá sem hvetur til styrjalda eða æsir til stríðs. Bæði stjónmálamenn og prestar, já, meira að segja kaupsýslumenn hafa leikið það hlutverk. En mesti stríðsmangarinn er enginn annar en Satan djöfullinn sem Biblían nefnir „guð þessarar aldar.“ — 2. Korintubréf 4:4.
Satan gerði uppreisn gegn Jehóva Guði fyrir þúsundum ára og lokkaði síðan heilan herskara engla til fylgis við sig. Árið 1914 var tími hans á enda runninn. Biblían segir okkur: „Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans, en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.“ — Opinberunarbókin 12:7-9.
Þessi vitneskja varpar ljósi á það hvers vegna slíkt hættuástand hefur ríkt á jörðinni síðan 1914 sem raun ber vitni. Bilbían sagði fyrir hvaða afleiðingar það myndi hafa er Satan yrði kastað niður til jarðar: „Vei sé jörðunni . . . því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:12) Hve nauman tíma? Jesús sagði: „Þessi kynslóð [er sæi upphaf atburðanna árið 1914] mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“ (Matteus 24:34) Hvaða „allt þetta“ er átt við? Allar þær hörmungar og erfiðleika sem Jesús spáði að myndu eiga sér stað á okkar dögum.
En Biblían segir fyrir að þrátt fyrir ófarir Þjóðabandalagsins og vanmátt Sameinuðu þjóðanna myndu þjóðirnar ekki láta af tilraunum sínum til að koma á friði. Meira að segja myndi sá tími koma er þær héldu sér hafa tekist það. Þá munu verða gefnar út yfirlýsingar um ‚frið og enga hættu,‘ en í kjölfar þeirra kemur ‚snöggleg tortíming‘ þessa spillta heims. Þar eð fólk er í myrkri mun þessi atburðarás koma því algerlega í opna skjöldu, „sem þjófur á nóttu.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:2, 3.
Hvað gerist svo? Þá mun hefjast stríðið sem er raunverulega „stríð til að binda enda á styrjaldir“ — stríðið við Harmagedón sem Biblían kallar ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ Það mun hafa í för með sér eyðingu allra illa afla og stuðningsmanna þeirra. „Illvirkjarnir verða afmáðir.“ (Opinberunarbókin 16:14-16; Sálmur 37:9) Að síðustu verður Satan, stríðsmangarinn mikli, fjötraður á stað þar sem hann getur ekki haft nein frekari áhrif á menn. Að lokum verður hann líka að engu gerður. — Opinberunarbókin 20:1-3, 7-10.
Veittu því eftirtekt að hér er ekki um að ræða stríð sem hefur í för með sér tilgangslausa eyðileggingu og vitfirringslega slátrun jafnt sekra sem saklausra. Sumir munu lifa stríðið af og það verða þeir sem „þjóna [Guði] dag og nótt.“ Já, þeir sem hætta að temja sér hernað núna og fylgja friðsömum lífsháttum sannrar kristni munu lifa af þetta mikla lokastríð. Hve margir verða þeir? Biblían kallar þá ‚mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.‘ — Opinberunarbókin 7:9, 14, 15.
Eftir storminn
Hvílíkur léttir verður þetta fyrir hina eftirlifandi! Í stað fjölmargra þjóðernissinnaðra stjórna verður aðeins ein stjórn — ríki Guðs. (Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10) Í stað hinna rembilátu og metnaðargjörnu munu hinir hógværu erfa jörðina og „gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:10, 11) „Guð sjálfur . . . mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Jehóva mun ‚stöðva styrjaldir til endimarka jarðar.‘ Smíðuð verða plógjárn úr sverðum og sniðlar úr spjótum og ‚menn munu ekki temja sér hernað framar.‘ — Sálmur 46:9, 10; Jesaja 2:4.
Langar þig ekki til að búa í slíkum heimi? Auðvitað langar þig til þess. Tækifærið stendur þér opið. Fyrsta skrefið er að nema orð Guðs, Biblíuna, og fullvissa þig um að þessi von sé sönn og byggð á traustum grunni. Síðan þarft þú að finna út, með hjálp Biblíunnar, hver sé vilji Guðs með þig núna og hegða þér samkvæmt því. Nám kostar að vísu áreynslu en það er vel þess virði. Jesús sagði að þekkingin, sem þú aflaðir þér, myndi hafa í för með sér ‚eilíft líf‘ ef þú notaðir hana rétt. (Jóhannes 17:3) Getur nokkuð verið meira virði?