Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w87 1.2. bls. 13-17
  • Friður frá Guði — hvenær?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Friður frá Guði — hvenær?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Viðhorf Guðs til ‚tíma og tíða‘
  • Tilkynning um frið
  • Getur orðið „friður og engin hætta“?
  • Yfirvofandi ‚snöggleg tortíming‘
  • Endalokin sem spáð er
  • Sannur friður — hvaðan?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Megi „friður Guðs“ varðveita hjarta þitt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
  • Viðhorf biblíunnar til friðar og öryggis
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
  • Kjarnorkuváin fjarlægð fyrir fullt og allt!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
w87 1.2. bls. 13-17

Friður frá Guði — hvenær?

„Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar.“ — Rómverjabréfið 16:20.

1, 2. (a) Hvað sagði hindúaspekingur um stríð og frið? (b) Hverjir eru þeir hamingjusömu menn sem munu njóta friðar frá Guði?

„EF hið vitfirringslega vígbúnaðarkapphlaup heldur áfram hlýtur það að enda með slátrun slíkri sem hefur aldrei áður orðið í sögunni. Ef einhver sigurvegari stendur eftir verður sjálfur sigurinn lifandi dauði fyrir þá þjóð sem gengur með sigur af hólmi.“ Þessi spá Mohandas Ghandis árið 1938 ber vott um mikla framsýni.

2 Áður, árið 1931, hafði Ghandi sagt breska landstjóranum: „Þegar þín þjóð og mín geta sameinast um þær kenningar, sem Kristur setti fram í fjallræðunni, þá munum við hafa leyst vandamál ekki aðeins okkar ríkja heldur líka alls heimsins.“ Eins og þessi hindúaspekingur sagði bendir fjallræða Jesú á leiðina til varanlegs friðar. Í þessari ræðu sagði Jesús: „Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“ (Matteus 5:9) Mörg „börn“ njóta nú friðar frá Guði. Sú stund mun koma að allir hógværir jarðarbúar munu „njóta unaðsemdar af þeim mikla friði.“ (Sálmur 37:11, Ísl. bi. 1859) En hvernig getum við treyst á þessi málalok?

3. Hvers vegna er enginn sannur friður á jörðinni núna?

3 Núna vofir gereyðing yfir mannkyninu. Í nýlegri úttekt á ástandi mála segir: „Hámark fáránleikans birtist í þeim þrem til fjórum milljón milljón dollurum sem eytt hefur verið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar í að byggja upp kjarnorkuvopnabirgðir sem myndu, væru þær notaðar, jafngilda sjálfsmorði alls heimsins. . . . Kjarnorkuvopnabirgðir veraldar nægja til að tortíma 58 milljörðum manna, það er að segja að drepa hvern núlifandi jarðarbúa tólf sinnum.“a Samt heldur þetta vitfirringslega kapphlaup áfram og færist í aukana. Já, þetta er vitfirring byggð á hinni ótraustu hugmynd um gagnkvæma tortímingarvissu sem risaveldin byggja sinn svokallaða frið á. Þetta er svo sannarlega ekki friður frá Guði.

4. (a) Hvernig er umhorfs í heiminum núna? (b) Hvaða sterka von bera dýrkendur Jehóva samt í brjósti?

4 Heimurinn er sorglegur á að líta hvert sem við beinum augum okkar. Aldrei fyrr hefur mannlegt þjóðfélag mátt þola meiri pólitíska spillingu, meira glæpsamlegt ofbeldi, verri efnahagsvandamál eða meira guðleysi og trúarlega ringulreið en á okkar öld. Aldrei hefur það verið meira sannmæli um mannkynið að ‚öll sköpunin stynji og hafi fæðingarhríðir.‘ Samt sem áður heitir Guð því að hin mannlega sköpun „muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:21, 22) Þeir friðelskandi menn, sem dýrka Guð Biblíunnar, hinn alvalda Drottin Jehóva, eru fullvissaðir um að þeir fái að ganga inn til þessa frelsis. Þetta verður frelsi sem á sér traustar rætur í sönnum friði, eilífum friði. (Esekíel 37:26-28) En hvenær og hvernig mun þessi friður koma?

Viðhorf Guðs til ‚tíma og tíða‘

5. Hvaða spurning vaknar í sambandi við 1. Þessaloníkubréf 5:1?

5 Páll postuli hafði uppörvað og hughreyst kristna menn í Þessaloníku með því að skýra fyrir þeim hvernig upprisan tengdist „komu Drottins“ Jesú. Þessu næst segir hann: „En um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað.“ — 1. Þessaloníkubréf 4:15; 5:1.

6. Hvernig vitum við að ‚tímar og tíðir‘ skipta Guð máli?

6 Á postulinn við að ‚tímar og tíðir‘ skipti Guð ekki máli? Því fer fjarri! (Prédikarinn 3:1) Það var „þegar fylling tímans kom,“ við lok hinna 69 sjöunda ára, að ‚Guð sendi son sinn.‘ Og þjónusta Jesús stóð í þrjú og hálft ár — frá árinu 29 til 33 — alveg eins og spáð hafði verið. (Galatabréfið 4:4; Daníel 9:24-27) Það var nákvæmlega við lok ‚heiðingjatímanna‘ árið 1914 að Jesús var settur í hásæti sem konungur í ‚hinni himnesku Jerúsalem.‘ (Lúkas 21:24; Hebreabréfið 12:22; Esekíel 21:27; Daníel 4:31, 32) ‚Þrengingin mikla‘ mun líka renna upp á ‚þeim degi og stund‘ sem Jehóva hefur ákveðið. Hún mun „ekki undan líða,“ ekki vera sein. — Matteus 24:21, 36; Habakkuk 2:3.

7. Hvers vegna þurfti Páll ekki að skrifa Þessaloníkumönnum um „tíma og tíðir“?

7 Á þeim tíma var engin þörf á að Páll skrifaði „um tíma og tíðir.“ Þessir kristnu menn í Þessaloníku voru þegar sannfærðir um að nú stæði yfir endalokatíð kerfis Gyðinga, og sá endir kom 20 árum síðar, árið 70. Kostgæfni þeirra og ‚fögnuður heilags anda‘ skein sem fögur fyrirmynd. (1. Þessaloníkubréf 1:4-7) Á sama hátt eru vottar Jehóva nú á dögum sér fullkomlega meðvitandi um að heimsstyrjaldirnar og aðrar þrengingar frá 1914 eru ‚táknið‘ um ósýnilega nærveru Jesú sem dýrlegur konungur Guðsríkis. — Matteus 24:3-8; 25:31.

8. Hvers vegna þurfum við að halda okkur vakandi og virkum?

8 Þessu næst segir postulinn trúbræðrum sínum: „Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur [Jehóva] kemur sem þjófur á nóttu.“ (1. Þessaloníkubréf 5:2) Þótt við vitum ekki nákvæmlega hvenær, nálgast óðfluga sá dagur að dómi verður fullnægt. Hann mun koma skyndilega, í einu vetfangi á þeirri stund sem Guð hefur ákveðið. Þess vegna verðum við að halda okkur vakandi og starfandi. — Lúkas 21:34-36.

Tilkynning um frið

9. (a) Hvað verður hrópað og hvers vegna eiga sannkristnir menn ekki þátt í því? (b) Hverjir boða þennan boðskap og hvernig eru þeir í samanburði við valdhafana á dögum Jeremía?

9 „Friður og engin hætta.“ Páll vekur hér athygli okkar á boðskap sem heyrast mun þegar nærvera Krists nær hámarki sínu. (1. Þessaloníkubréf 5:3) Munum við heyra þessa yfirlýsingu bráðlega? Hvaðan gæti slík yfirlýsing um frið og öryggi í heiminum komið? Augljóslega ekki frá fylgjendum Krists því að Jesús sagði að hvorki þeir né ríki hans væru „af heiminum.“ (Jóhannes 15:19; 17:14, 16; 18:36) Þeir sem þetta boða hljóta því að vera veraldlegir menn sem eru andsnúnir hinu komandi ríki Guðs. Þeir eru hluti þess heims sem „er á valdi hins vonda,“ Satans djöfulsins. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Eins og stjórnmála- og trúarleiðtogar á dögum Jeremía munu þeir „boða vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp“ og segja: „Yður mun heill hlotnast!“ Ranglega munu þeir halda því fram að slíkur friður sé frá Guði. En fullyrðing þeirra mun reynast svo röng sem verið getur! — Jeremía 23:16, 17, 19, 20.

10. Hvaða atburðarás er undanfari núverandi ástands í heiminum?

10 Ákveðin keðjuverkun er undanfari þess að lýst verði yfir ‚friði og engri hættu.‘ Það var árið 1920 að Þjóðabandalagið var sett á laggirnar í kjölfar stríðsins mikla sem við nú köllum fyrri heimsstyrjöldina. Markmiðið með þessu bandalagi var að gera styrjaldir útlægar af jörðinni að eilífu. En síðari heimsstyrjöldin steypti Þjóðabandalaginu niður í undirdjúp. Þann 24. nóvember 1945 var þetta bandalag endurvakið svo að það reis úr öskunni undir nýju nafni, Sameinuðu þjóðirnar. (Samanber Opinberunarbókina 17:8.) Höfuðmarkmið þeirra er að „standa vörð um heimsfrið og öryggi.“ Stofnendur þeirra létu í ljós þann ásetning sinn „að bjarga komandi kynslóðum frá þeirri bölvun sem styrjaldir eru.“ Hefur Sameinuðu þjóðunum gengið vel að tryggja slíkan frið og öryggi?

11. Hve alvarlegt er það hættuástand sem blasir við heiminum?

11 Hversu einlægir sem sumir af stofnendum Sameinuðu þjóðanna vafalaust voru hefur þessum samtökum mistekist að ná yfirlýstu markmiði sínu alveg eins og forvera þeirra. Heimurinn situr nú á púðurtunnu hinna ægilegustu kjarnorkuvopna. Slysið í Chernóbyl í Sovétríkjunum í apríl 1986, sem olli geislavirku úrfelli um stóran hluta Evrópu, sýnir að jafnvel þegar kjarnorkan er notuð í friðsamlegum tilgangi stafar gífurleg hætta af henni. Sumar þjóðir á Suður-Kyrrahafi eru að reyna að halda sínum heimshluta kjarnorkuvopnalausum. En ef einhver tíma brytist út allsherjarkjarnorkustríð myndu menn hvergi komast af í heiminum.

Getur orðið „friður og engin hætta“?

12. Hverju lýstu Sameinuðu þjóðirnar yfir um árið 1986 og hver voru viðbrögð þjóða heims?

12 Sameinuðu þjóðirnar gerðu sér fulla grein fyrir að hættuástandið magnaðist og lýstu árið 1986 alþjóðlegt friðarár. Það fékk misjafnar móttökur meðal þjóða heims. Flestar hafa stutt friðarár Sameinuðu þjóðanna á einn eða annan veg, en þær benda á að möguleikinn á kjarnorkustyrjöld sé stöðugt hinn ægilegasti ógnvaldur. Meðan þessu fór fram var haldið áfram að heyja smærri styrjaldir hringinn í kringum hnöttinn, um 150 frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, sem kostað hafa yfir 30 milljónir manna lífið. Er með sanni hægt að segja að einhver þjóð hafi tekið frumkvæðið í því að fara eftir hinum kunnu orðum í Jesaja 2:4 sem letruð eru á vegg við byggingu Sameinuðu þjóðanna?

13. Hvernig hafa trúarleiðtogar ljáð stuðning sinn?

13 Trúarbrögð heimsins hafa stutt friðarár Sameinuðu þjóðanna með oddi og egg. Jóhannes Páll páfi II lýsti 1. janúar heimsfriðardag og hvatti stjórnmálamenn til að veita slíka forystu að grundvöllur skapaðist fyrir heimsfriði. Hann kallaði líka öll trúarbrögð heims til bænafundar í Assisi á Ítalíu á hinu alþjóðlega friðarári. Erkibiskupinn af Kantaraborg, æðsti yfirmaður ensku kirkjunnar, og hópar búddatrúarmanna tóku þessu boði fagnandi. Heimskirkjuráðið gaf út yfirlýsingu varðandi hið alþjóðlega friðarár og hvatti til þess að hafin yrði kjarnorkuafvopnun þegar í stað.

14. Hvernig aðeins getur friðaráætlun heppnast?

14 En hver er vilji ‚Guðs friðarins‘ að því er varðar að koma á ‚friði og öryggi‘? Segir spádómsorð Guðs að ófullkomnir menn og þjóðir geti komið á friði og öryggi í þessum heimi? Fjarri því! Raunverulegur árangur er undir því kominn að Jehóva taki á málum í samræmi við réttlæti sitt og sér til lofs. — Jesaja 55:11; 61:11.

Yfirvofandi ‚snöggleg tortíming‘

15. Hvað segir Páll þessu næst sem mönnum getur hnykkt við?

15 Páll postuli segir okkur hvað sé í þann mund að gerast: „Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:3.

16. Hvers vegna eru vegir þjóðanna ekki vegir Guðs?

16 Við fyrstu sýn geta þessi orð skotið mönnum skelk í bringu, en Biblían skýrir málið nánar. Vegir þjóðanna eru ekki vegir Guðs. (Jesaja 55:8, 9) Ástæðan fyrir því að hann hefur leyft stjórn manna í margs konar myndum að standa svona lengi er sú að útkljá deilu sem hinn brögðótti höggormur, Satan djöfullinn, kom af stað fyrir um það bil 6000 árum. Þegar Satan taldi okkar fyrstu foreldra á að lýsa sig sjálfstæða og óháða Guði véfengdi hann að mannkynið þyrfti í raun á stjórn Guðs að halda. — 1. Mósebók 3:4, 5.

17. Hvaða orð hefur mannastjórn getið sér og hvað sannar það?

17 Á þeim árþúsundum, sem fylgdu í kjölfarið, leyfði Guð mönnum að prófa sig áfram með sérhverja hugsanlega mynd mannlegrar stjórnar. Hvort sem slík stjórn stóð í fáein ár eða um aldir hefur öllum myndum mannlegrar stjórnar mistekist hrapallega að veita fólki sannan frið og öryggi. Styrjaldir, glæpir, ógnir og dauði hafa verið hlutskipti mannkyns undir hvers kyns stjórn manna. Í gegnum söguna hefur ‚einn maður drottnað yfir öðrum honum til ógæfu.‘ (Prédikarinn 8:9) Sama er uppi á teningnum núna. Hver sem gerir sér grein fyrir þessu deilumáli getur nú tekið undir með spámanni Guðs: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — Jeremía 10:23.

18. Hvers vegna er það til einskis fyrir þjóðirnar að lýsa yfir ‚friði og engri hættu‘?

18 Nú stendur sá tími fyrir dyrum að deilumálið verður útkljáð í eitt skipti fyrir öll. Stjórn Guðs ein getur komið á sönnum friði og öryggi handa öllu mannkyni. Hins vegar er það ekki stjórn Guðs sem þjóðirnar aðhyllast þegar þær hrópa „Friður og engin hætta.“ Þær vilja halda áfram að ráða ríkjum hver eftir sinni metnaðarfullu hugmyndafræði. En tíminn er útrunninn! Þjóðirnar skynja að eitthvað róttækt þarf að gera, ella mun allt glatast í kjarnorkubáli. Þær munu því gera það sem Jeremía sagði fyrir: „Þeir hyggjast að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti, segjandi: ‚Heill, heill!‘ þar sem engin heill er.“ En það verður til einskis! — Jeremía 6:14; 8:11, 15.

Endalokin sem spáð er

19. Hvernig mun ‚dagur Jehóva‘ renna upp?

19 ‚Snöggleg tortíming,‘ segir Páll postuli. Spámaður Guðs, Jesaja, bætir við: „Sjá, kapparnir kveina úti fyrir, friðarboðarnir gráta beisklega.“ (Jesaja 33:7) Mjög víða sýnir Biblían að Jehóva muni fullnægja dómi sínum yfir óguðlegum þjóðum og mönnum skyndilega, óvænt — eins og komi „þjófur á nóttu.“ (1. Þessaloníkubréf 5:2, 3; Jeremía 25:32, 33; Sefanía 1:14-18; 2. Pétursbréf 3:10) Á sama tíma og heimurinn hrópar með háreysti að honum hafi tekist að koma á einhverjum friði og öryggi mun ‚dagur Jehóva‘ skella á í ógnvekjandi skyndingu. Fólk Guðs mun hafa skilið rétt hróp þjóðanna um ‚frið og enga hættu‘ og vera óhult í því skjóli sem Jehóva veitir. — Sálmur 37:39, 40; 46:2, 3; Jóel 3:16.

20. (a) Hvers konar ‚dýr‘ eru Sameinuðu þjóðirnar? (b) Hvernig lítur Jehóva á falstrúarbrögðin og hvers vegna?

20 Í orði Guðs er Þjóðabandalaginu og arftaka þess, Sameinuðu þjóðunum, líkt við ‚skarlatsrautt dýr‘ með sjö höfuð (tákn hinna sjö heimsvelda sem það er komið af) og tíu horn (tákn þeirra stjórnvalda sem nú styðja það). Biblían sýnir fram á að þetta er pólitískt „dýr,“ sambærilegt við breska „ljónið“ og rússneska „björninn.“ Á baki þess situr kona, „Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar.“ (Opinberunarbókin 17:3-8) Hér er vel lýst skoðun Jehóva á fölskum trúarbrögðum sem ekki eru fulltrúi hans og ríkis hans. Þetta falstrúarheimsveldi stundar andlegan skækjulifnað með því að blanda sér í stjórnmál. Að trúarbrögðin skuli hafa tekið höndum saman með Sameinuðu þjóðunum í baráttunni fyrir heimsfriði og öryggi er gott dæmi um þetta. Falstrúarbrögðin vildu líka fá að vera í friði og öryggi fyrir dómsboðskap Guðs sem vottar Jehóva flytja. Í þeim tilgangi hafa þau komið stjórnvöldum sumra landa til að banna kristið starf vottanna. — Sálmur 2:1-3.

21. (a) Með hvaða atburði hefst ‚dagur Jehóva‘? (b) Hvað mun síðan gerast á þessum ‚degi‘?

21 Hvernig mun ‚dagur Jehóva‘ renna upp? Á þessu myrkasta svartnætti mannkynssögunnar mun hann svo sannarlega koma „sem þjófur“! Það verður þegar Guð teflir þjóðunum innan Sameinuðu þjóðanna skyndilega fram gegn falstrúarbrögðunum. Snögglega láta þær birtast sitt dulda hatur á Babýlon hinni miklu, afhjúpa hana og gereyða. Svo skyndilega kemur þessi eyðing að fyrrverandi pólitískir friðlar hennar hrópa upp yfir sig: „Vei, vei, borgin mikla, Babýlon, borgin volduga, á einni stund kom dómur þinn.“ En þjóðirnar og herir þeirra munu líka ráðast á þjóna Guðs. Þá mun konungur konunga, Jesús Kristur, gereyða öllum þessum óvinum og fjötra erkiandstæðinginn, Satan djöfulinn, í undirdjúpi. — Opinberunarbókin 17:16, 17; 18:10; 19:11-21; 20:1-3; samanber Esekíel 38:11, 16, 18-23.

22. (a) Hvaða framtíð eiga trúaðir menn í vændum? (b) Hvernig getur þú eignast frið frá Guði?

22 Loksins mun sannur friður og öryggi blómgast undir ríki Guðs! (Sálmur 72:1, 7; Jesaja 9:6, 7) Til allrar hamingju munu allir nútímamenn, sem ‚vaka og eru algáðir,‘ lifa til að sjá það. (1. Þessaloníkubréf 5:4-6) ‚Mikill múgur . . . af alls kyns fólki,‘ sem iðkar trú á lausnargjald Jehóva fyrir milligöngu Krists, mun bjargast úr „þrengingunni miklu“ til að njóta eilífs friðar frá Guði. (Opinberunarbókin 7:9-17; 21:3, 4) Megir þú vera þeirra á meðal!

[Neðanmáls]

a Tekið úr World Military and Social Expenditures 1985.

Hverju svarar þú?

◻ Hvers vegna eru ‚tímar og tíðir‘ mikilvægar Guði og okkur?

◻ Hvernig ættum við að líta á það að ‚dagur Jehóva‘ skuli nálgast?

◻ Hverjir eiga þátt í yfirlýsingunni í 1. Þessaloníkubréfi 5:3 og hvenær?

◻ Hvaða mikilfenglegir atburðir munu þá gerast?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila