Lifum í samræmi við vilja Guðs
„[Kristur] er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér.“ — 2. KORINTUBRÉF 5:15.
1. Endursegðu frásögu trúboða nokkurs.
„BÍLLINN okkar var fyrsta borgaralega ökutækið sem kom í þetta afskekkta þorp í Afríku eftir að borgarastríðinu lauk,“ sagði trúboði að nafni Aaron.a „Sambandið við litla söfnuðinn á staðnum hafði rofnað og við þurftum að annast þarfir bræðranna. Við komum með mat, fatnað og biblíutengd rit en einnig eintak af myndbandinu Jehovah’s Witnesses — The Organization Behind the Name.b Við sýndum myndbandið í ‚kvikmyndahúsi‘ þorpsins, stórum strákofa með myndbandstæki og sjónvarpi. Það komu svo margir að sjá það að við urðum að sýna það tvisvar. Margir þáðu biblíunámskeið við lok hvorrar sýningar. Það sem við lögðum á okkur var greinilega erfiðisins virði.“
2. (a) Hvers vegna hafa kristnir menn ákveðið að nota líf sitt til að þjóna Guði? (b) Hvaða spurningar ætlum við að skoða?
2 Af hverju lögðu Aaron og félagar hans þetta á sig? Þeir eru innilega þakklátir fyrir lausnarfórn Jesú Krists. Þess vegna hafa þeir vígt líf sitt Guði og vilja nota það í samræmi við vilja hans. Allir vígðir kristnir menn hafa á sama hátt ákveðið að lifa „ekki framar sjálfum sér“ heldur gera þeir allt sem þeir geta „vegna fagnaðarerindisins“. (2. Korintubréf 5:15; 1. Korintubréf 9:23) Þeir vita að þegar þessi heimur líður undir lok verða peningar og frami í heiminum einskis virði. Þess vegna vilja þeir nota líf sitt og krafta í samræmi við vilja Guðs. (Prédikarinn 12:1) Hvernig getum við líkt eftir þeim? Hvar fáum við það hugrekki og þann styrk sem til þarf? Og hvaða verkefni í þjónustu Guðs standa okkur til boða?
Sækjum fram á við
3. Hvað er fólgið í því að gera vilja Guðs?
3 Sannkristnir menn vita að það er ævistarf að gera vilja Guðs. Fyrstu skrefin eru yfirleitt þau að skrá sig í Boðunarskólann, lesa í Biblíunni á hverjum degi, taka þátt í boðunarstarfinu og láta skírast. Við höfum í huga orð Páls postula: „Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ (1. Tímóteusarbréf 4:15) Þegar við sækjum fram gerum við það ekki til að upphefja sjálf okkur heldur vitnar það um óeigingjarna löngun okkar til að gera vilja Guðs. Með slíkri lífsstefnu sýnum við að við viljum að Guð stýri skrefum okkar á öllum sviðum, og hann gerir það mun betur en við gætum nokkurn tíma gert. — Sálmur 32:8.
4. Hvernig getum við dregið úr óþarfa áhyggjum?
4 Ef við hikum eða höfum of miklar áhyggjur af sjálfum okkur getur það komið í veg fyrir að við tökum framförum í þjónustunni við Guð. (Prédikarinn 11:4) Til að hafa sanna gleði af því að þjóna Guði og öðrum verðum við því fyrst að sigrast á eigin áhyggjum. Tökum dæmi. Erik var að velta því fyrir sér hvort hann ætti að starfa með söfnuði sem talar erlent tungumál. En hann var kvíðinn og spurði sjálfan sig: „Mun ég samlagast hinum? Á mér eftir að líka vel við bræður og systur í söfnuðinum? Mun þeim líka vel við mig?“ Hann segir: „Að lokum áttaði ég mig á því að ég þurfti að hugsa meira um aðra og minna um sjálfan mig. Ég ákvað að hætta að hafa áhyggjur, vera óeigingjarn og gefa af sjálfum mér á hvern þann hátt sem ég gæti. Ég bað Jehóva að hjálpa mér og lét síðan til skarar skríða. Núna hef ég ómælda ánægju af því að starfa með söfnuðinum.“ (Rómverjabréfið 4:20) Já, því meira sem við þjónum Guði og öðrum á óeigingjarnan hátt þeim mun glaðari og ánægðari verðum við.
5. Hvers vegna þurfum við að skipuleggja okkur vel til að lifa í samræmi við vilja Guðs? Nefndu dæmi.
5 Til að okkur takist að lifa í samræmi við vilja Guðs verðum við líka að skipuleggja okkur vel. Við gætum þess að sökkva okkur ekki í skuldir því að það gæti gert okkur að þrælum þessa heims og skert frelsi okkar til að þjóna Guði. Biblían minnir á að lánþeginn verði „þræll lánsalans“. (Orðskviðirnir 22:7) Ef við treystum á Jehóva og látum andlegu málin ganga fyrir hjálpar það okkur að halda einbeitingunni. Guoming og systur hans tvær búa til dæmis með móður sinni á svæði þar sem húsnæði er dýrt og erfitt er að fá fasta vinnu. Með því að fara vel með peninga og deila með sér útgjöldum hafa þau það sem þau þurfa jafnvel þegar þau eru ekki öll með vinnu. „Stundum erum við ekki öll með tekjur,“ segir Guoming. „En við getum samt haldið áfram að vera brautryðjendur og hugsað vel um móður okkar. Við erum þakklát fyrir að mamma skuli ekki vilja að við fórnum verkefnum okkar innan safnaðarins til að hún geti notið lífsins gæða.“ — 2. Korintubréf 12:14; Hebreabréfið 13:5.
6. Hvaða dæmi sýnir að það er hægt að færa líf sitt til samræmis við vilja Guðs?
6 Ef þú ert upptekinn af veraldlegu vafstri — hvort sem það er fjárhagslegs eðlis eða af öðru tagi — gæti það kostað róttækar breytingar að láta vilja Guðs ganga fyrir. Yfirleitt er ekki hægt að gera slíkar breytingar á einni nóttu og þó að þær gangi ekki snurðulaust fyrir sig er ekki þar með sagt að þér hafi mistekist. Lítum á dæmi. Koichi varði allt of miklum tíma til afþreyingar. Hann hafði stundað biblíunám þegar hann var unglingur en í mörg ár höfðu tölvuleikir verið aðalatriðið í lífi hans. Dag einn sagði hann við sjálfan sig: „Hvað ertu að gera? Þú ert á fertugsaldri og þú ert ekki að gera neitt sem skiptir máli í lífinu.“ Hann fór aftur að stunda biblíunám og þáði aðstoð safnaðarins. Þótt breytingarnar tækju sinn tíma gafst hann ekki upp. Honum tókst að sigrast á fíkn sinni með því að biðja stöðugt til Guðs og fá kærleiksríka hjálp frá öðrum. (Lúkas 11:9) Koichi hefur fundið hamingju í lífinu og er nú safnaðarþjónn.
Gætum góðs jafnvægis
7. Af hverju verðum við að gæta jafnvægis?
7 Við verðum að leggja okkur heilshugar fram við að gera vilja Guðs. Við ættum aldrei að vera sérhlífin eða löt í þjónustunni. (Hebreabréfið 6:11, 12) En Jehóva vill samt ekki að við keyrum okkur út — líkamlega, hugarfarslega eða tilfinningalega. Við vegsömum Guð og sýnum góða dómgreind með því að vera hógvær og viðurkenna að við þjónum honum ekki í eigin krafti. (1. Pétursbréf 4:11) Jehóva lofar að veita okkur þann styrk sem við þurfum til að gera vilja hans en við megum ekki ofgera okkur og reyna að gera eitthvað sem hann ætlast ekki til af okkur. (2. Korintubréf 4:7) Til að halda áfram að þjóna Guði án þess að slíta okkur út verðum við að nota krafta okkar skynsamlega.
8. Hvaða afleiðingar hafði það þegar ung kristin kona reyndi að gefa bæði heiminum og Jehóva sitt besta og hvaða breytingar gerði hún?
8 Ji Hye býr í Austur-Asíu. Í tvö ár var hún í mjög krefjandi starfi samhliða því að vera brautryðjandi. „Ég reyndi að gefa bæði Jehóva og heiminum mitt besta,“ segir hún, „en ég svaf aðeins fimm tíma á nóttu. Að lokum hafði ég enga orku eftir fyrir sannleikann og litla ánægju af andlegum málum.“ Til að þjóna Jehóva af ‚öllu hjarta, sálu, huga og mætti‘ fór hún að leita að vinnu sem var ekki eins krefjandi. (Markús 12:30) „Ég lagði mig fram um að láta vilja Guðs ganga fyrir þótt fjölskyldan hefði lagt fast að mér að hafa góðar tekjur,“ segir hún. „Ég þéna enn nóg til að eiga fyrir nauðsynjum eins og frambærilegum fatnaði. Og það er mjög gott að fá meiri svefn! Ég hef ánægju af þjónustunni og er sterkari í trúnni. Ástæðan er sú að ég verð ekki fyrir eins miklu áreiti og freistingum frá heiminum.“ — Prédikarinn 4:6; Matteus 6:24, 28-30.
9. Hvaða áhrif getur það sem við gerum haft á fólk úti á starfssvæðinu?
9 Það geta ekki allir þjónað Guði sem boðberar í fullu starfi. Ef þú ert kominn á efri ár eða átt við heilsubrest eða eitthvað annað að glíma skaltu muna að Jehóva kann innilega að meta trúfesti þína og hvaðeina sem þú getur gert af heilum huga í þjónustu hans. (Lúkas 21:2, 3) Ekkert okkar ætti að vanmeta þau áhrif sem við getum haft á aðra með því sem við gerum þótt takmarkað sé. Segjum til dæmis að við bönkum upp á á nokkrum stöðum en enginn virðist hafa áhuga á boðskap okkar. Þegar við erum farin gæti húsráðandinn samt talað um heimsókn okkar í nokkrar klukkustundir eða daga þótt hann hafi ekki einu sinni opnað dyrnar. Við ætlumst ekki til þess að allir taki vel á móti fagnaðarerindinu en sumir gera það. (Matteus 13:19-23) Aðrir hlusta kannski seinna þegar heimsmálin breytast eða aðstæður í lífi þeirra sjálfra. Við erum að minnsta kosti að starfa í þágu Jehóva með því að gera það sem við getum í boðunarstarfinu. Við erum „samverkamenn Guðs“. — 1. Korintubréf 3:9.
10. Hvaða tækifæri standa öllum í söfnuðinum til boða?
10 Þar að auki getum við öll hjálpað fjölskyldu okkar og trúsystkinum. (Galatabréfið 6:10) Við getum haft mikil og varanleg áhrif á aðra til góðs. (Prédikarinn 11:1, 6) Þegar öldungar og safnaðarþjónar sinna störfum sínum vel stuðla þeir að andlegri velferð og stöðugleika safnaðarins, og það skilar sér í auknu starfi. Okkur er lofað að ef við erum síauðug „í verki Drottins“ verði erfiði okkar „ekki árangurslaust“. — 1. Korintubréf 15:58.
Að þjóna Guði í fullu starfi
11. Hvaða tækifæri gætu staðið til boða auk þess að starfa með heimasöfnuðinum?
11 Kristnir menn hafa ánægju af lífinu og vilja vegsama Guð í öllu sem þeir gera. (1. Korintubréf 10:31) Þegar við prédikum fagnaðarerindið dyggilega og kennum öðrum að halda allt sem Jesús bauð getum við átt kost á mörgum gefandi verkefnum innan safnaðarins. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Auk þess að vinna með heimasöfnuðinum gætum við átt möguleika á því að starfa þar sem þörfin er meiri hvort sem það er á öðru svæði, á öðru tungumáli eða í öðru landi. Hæfum öldungum og safnaðarþjónum, sem eru ekki enn giftir, er ef til vill boðið að sækja Þjónustuþjálfunarskólann. Í kjölfarið eru þeir sendir til safnaða sem þarfnast hjálpar þroskaðra bræðra. Þessir söfnuðir gætu verið í heimalandi þeirra eða á erlendri grund. Hjón í fullu starfi eiga þess hugsanlega kost að fá þjálfun til trúboðsstarfa í Gílead-skólanum og starfa erlendis. Og það er alltaf þörf fyrir sjálfboðaliða til að sinna ýmsum störfum á Betel og til að byggja samkomuhús og deildarskrifstofur og viðhalda þeim.
12, 13. (a) Hvernig getur þú ákveðið að hvaða þjónustuverkefnum þú eigir að stefna? (b) Lýstu með dæmi hvernig starfsreynsla á einum vettvangi gagnast oft á öðrum.
12 Að hvaða verkefni innan safnaðarins ættir þú að stefna? Þar sem við erum vígðir þjónar Jehóva ættum við alltaf að leita leiðsagnar hjá honum og söfnuði hans. ‚Góður andi‘ Jehóva hjálpar þér að taka rétta ákvörðun. (Nehemíabók 9:20) Oft leiðir eitt verkefni af öðru og reynslan og kunnáttan, sem maður aflar sér á einum vettvangi, getur gagnast á öðrum.
13 Dennis og Jenny, eiginkona hans, taka að staðaldri þátt í því að byggja ríkissali. Eftir að fellibylurinn Katrina gekk yfir suðurhluta Bandaríkjanna buðust þau til að vera með í hjálparstarfinu. Dennis segir: „Það veitti okkur mikla gleði að geta notað reynsluna af því að byggja ríkissali til að aðstoða bræðurna. Þakklæti þeirra hefur snortið okkur djúpt. Flestum öðrum hjálparsamtökum hefur gengið illa að sinna endurbyggingu. En Vottar Jehóva hafa þegar gert við eða endurbyggt yfir 5.300 heimili og fjölmarga ríkissali. Fólk tekur eftir þessu og sýnir nú meiri áhuga á boðskap okkar.“
14. Hvað geturðu gert ef þú vilt hefja þjónustu í fullu starfi?
14 Geturðu látið vilja Guðs hafa forgang með því að ákveða að þjóna í fullu starfi? Þá áttu mikla blessun í vændum. Ef aðstæður leyfa það ekki eins og er gætirðu ef til vill gert einhverjar breytingar. Biddu eins og Nehemía gerði þegar hann þráði að fá að sinna mikilvægu verkefni: „Drottinn, . . . láttu nú þjóni þínum takast ætlunarverk sitt.“ (Nehemíabók 1:11; Biblíurit, ný þýðing 1996) Treystu síðan Guði „sem heyrir bænir“ og breyttu í samræmi við bæn þína. (Sálmur 65:3) Til að Jehóva blessi viðleitni þína til að gera meira í þjónustu hans verðurðu fyrst að sýna viðleitni. Þegar þú hefur ákveðið að þjóna í fullu starfi skaltu standa við ákvörðun þína. Með tímanum færðu aukna reynslu og gleðin vex að sama skapi.
Líf sem hefur raunverulegan tilgang
15. (a) Hvernig er það okkur til góðs að tala við gamalreynda þjóna Guðs og lesa um ævi þeirra? (b) Nefndu ævisögu sem þér hefur fundist sérstaklega uppörvandi.
15 Hvaða árangur máttu búast við að sjá ef þú lifir í samræmi við vilja Guðs? Talaðu við gamalreynda þjóna Jehóva, sérstaklega þá sem hafa þjónað lengi í fullu starfi. Þeir hafa sannarlega lifað gefandi og tilgangsríku lífi. (Orðskviðirnir 10:22) Þeir geta sagt þér að Jehóva hefur alltaf séð þeim fyrir nauðsynjum og miklu meira en það, líka þegar aðstæður hafa verið erfiðar. (Filippíbréfið 4:11-13) Á árabilinu 1955 til 1961 birti Varðturninn (í enskri útgáfu) ævisögur trúfastra einstaklinga undir yfirskriftinni „Pursuing My Purpose in Life“. Síðan þá hafa hundruð ævisagna verið birtar. Hver saga lýsir eldmóði og gleði sem minnir á frásögurnar í Postulasögunni. Þegar þú lest svona spennandi ævisögur hugsarðu eflaust: „Svona lífi vil ég lifa.“
16. Hvað gerir líf kristinna manna innihaldsríkt og ánægjulegt?
16 Aaron, sem vitnað var til í upphafi greinarinnar, segir: „Í Afríku hitti ég oft ungt fólk sem reikaði stefnulaust um landið í leit að tilgangi í lífinu. Fæstir fundu hann. Líf okkar var hins vegar krefjandi og innihaldsríkt því að við lifðum í samræmi við vilja Guðs með því að koma fagnaðarerindinu á framfæri. Við höfum sannreynt að það er meiri gleði fólgin í því að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.
17. Af hverju verðum við að lifa í samræmi við vilja Guðs núna?
17 Hvað um þig? Að hvaða markmiðum vinnur þú? Ef þú hefur ekki skýr andleg markmið mun annað fylla tómarúmið undireins. Sóaðu ekki dýrmætu lífi þínu fyrir þann gerviheim sem Satan hefur búið til. Í náinni framtíð, þegar ‚þrengingin mikla‘ skellur á, verður efnislegur auður og frami í heiminum einskis virði. Það sem mun skipta mestu máli er samband okkar við Jehóva. Við verðum innilega þakklát fyrir að hafa þjónað Guði og náunganum, og lifað að öllu leyti í samræmi við vilja Guðs. — Matteus 24:21; Opinberunarbókin 7:14, 15.
[Neðanmáls]
a Sumum nöfnum hefur verið breytt.
b Gefið út af Vottum Jehóva.
Geturðu útskýrt?
• Hvernig lítur Jehóva á þjónustu okkar?
• Af hverju er mikilvægt að sýna skynsemi og gæta jafnvægis þegar við þjónum Guði og náunganum?
• Hvaða möguleikar standa okkur opnir í þjónustu Guðs?
• Hvernig getum við lifað tilgangsríku lífi núna?
[Myndir á blaðsíðu 18]
Við þurfum að gæta jafnvægis til að halda áfram að þjóna Jehóva heilshugar.
[Myndir á blaðsíðu 20]
Við getum þjónað Guði á marga vegu.