Guðrækni gagnvart öldruðum foreldrum
„Börn eða barnabörn . . . læri . . . fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 5:4.
1, 2. (a) Hverja segir Biblían bera ábyrgð á að annast aldraða? (b) Hvers vegna er það alvarlegt mál ef kristinn maður vanrækir þessa skyldu?
ÞEGAR þú varst barn ólu þau önn fyrir þér og gættu þín. Þegar þú varðst fullorðinn leitaðir þú ráða þeirra og stuðnings. En núna eru þau orðin gömul og hjálparþurfi. Páll postuli segir: „En ef einhver ekkja á börn eða barnabörn, þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs. En ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:4, 8.
2 Þúsundir votta Jehóva annast aldraða foreldra sína. Þeir gera það ekki aðeins vegna „góðvildar“ (The Living Bible) eða „skyldurækni“ (The Jerusalem Bible) heldur sökum „guðrækni“ (NW), það er að segja vegna djúprar lotningar fyrir Guði. Þeir gera sér ljóst að yfirgæfu þeir foreldra sína á neyðarstund jafngilti það því að ‚afneita kristinni trú.‘ — Samanber Títusarbréfið 1:16.
Berðu þinn hluta byrðarinnar
3. Hvers vegna getur það verið mikil áskorun að annast foreldra sína?
3 Kvöðin um að annast aldraða foreldra er sem mikil áskorun, einkanlega á Vesturlöndum. Systkini búa oft dreift og verðlag hefur vaxið upp úr öllu valdi. Algengt er að húsmæður vinni utan heimilis. Það að annast aldraða foreldra getur því verið firnamikið verkefni, einkum ef sá sem tekur það að sér er ekki lengur neitt unglamb sjálfur. „Við erum nú komin á sextugsaldur og eigum uppvaxin börn og barnabörn sem líka þarfnast hjálpar,“ segir systir sem reynir eftir bestu getu að annast föður sinn.
4, 5. (a) Hverjir geta oft deilt með sér byrðinni að sögn Biblíunnar? (b) Hvernig sniðgengu sumir skyldur sínar gagnvart foreldrum á dögum Jesú?
4 Páll gaf til kynna að „börn eða barnabörn“ gætu deilt með sér þessari ábyrgð. (1. Tímóteusarbréf 5:4) En stundum eru systkini misjafnlega fús til að bera sinn hluta byrðarinnar. (Samanber Galatabréfið 6:5.) „Eldri systir mín hefur einfaldlega velt allri ábyrgðinni yfir á mig,“ segir öldungur. En getur slík breytni verið þóknanleg Jehóva? Mundu hvað Jesús sagði faríseunum einu sinni: „Móse sagði: ‚Heiðra föður þinn og móður þína.‘ . . . En þér segið: Ef maður segir við föður sinn eða móður: ‚Það, sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er korban,‘ það er musterisfé, þá leyfið þér honum ekki framar að gjöra neitt fyrir föður sinn eða móður. Þannig látið þér erfikenning yðar, sem þér fylgið fram, ógilda orð Guðs.“ — Markús 7:10-13.
5 Ef Gyðingur vildi ekki annast fátæka foreldra sína þurfti hann einungis að lýsa eigur sínar „korban“ — gjöf helgaða musterinu. (Samanber 3. Mósebók 27:1-24.) Honum var þó alls ekki skylt að afhenda þessa ætluðu gjöf þegar í stað. Hann gat haldið (og vafalaust notað) eigur sínar svo lengi sem hann vildi. En ef foreldrar hans þurftu á fjárhagsaðstoð að halda gat hann skotið sér undan skyldu sinni með því að lýsa skinhelgur yfir að allt sem hann ætti væri „korban.“ Jesús fordæmdi slíka sviksemi.
6. Hvað kann að búa að baki hjá sumum, sem vanrækja skyldur sínar gagnvart foreldrum sínum, en er það þóknanlegt Guði?
6 Kristinn maður, sem slær fram innantómum afsökunum til að komast hjá að gera skyldu sína, getur samt ekki blekkt Guð. (Jeremía 17:9, 10) Að vísu geta fjárhagsörðugleikar, veikindi eða svipaðar kringumstæður takmarkað stórlega það sem fólk hefur tök á að gera fyrir foreldra sína. En sumir meta kannski eigur sínar, tíma og einkalíf meira en velferð foreldra sinna. Það væri mikil hræsni að prédika orð Guðs en „ógilda“ það með aðgerðarleysi gagnvart foreldrum sínum!
Samvinna fjölskyldunnar
7. Hvernig getur fjölskylda unnið saman að því að annast aldraða foreldra?
7 Sumir sérfræðingar mæla með því að þegar upp kemur neyðarástand hjá þeim sem aldraður er komi börnin saman til að ráða ráðum sínum. Vera kann að eitt þeirra þurfi að axla stærstan hluta byrðarinnar en með því að ræða málin rólega og yfirvegað má oft finna leiðir til að deila vinnuálaginu. (Orðskviðirnir 15:22) Ef einhver býr langt í burtu getur hann hugsanlega lagt lið peningalega og komið í heimsókn af og til. Aðrir gætu aðstoðað við heimilisstörf eða snúninga, eða þá við að aka hinum aldraða þangað sem hann þarf. Það eitt að heimsækja foreldrana reglulega getur verið verðmætt framlag. Systir, sem er yfir áttrætt, segir um heimsóknir barna sinna: „Þær eru eins og hressingarlyf!“
8. (a) Eru þjónar orðsins í fullu starfi undanþegnir því að annast foreldra sína? (b) Hve langt hafa sumir þjónar orðsins í fullu starfi gengið til að rækja skyldur sínar gagnvart foreldrum?
8 Stundum er þó við að glíma viðkvæm vandamál þegar einhver í fjölskyldunni er þjónn orðsins í fullu starfi. Þeir sem eru í slíkri þjónustu reyna ekki að skjóta sér undan skyldum af þessu tagi, og margir hafa lagt á sig hrósunarvert erfiði til að annast foreldra sína. Farandhirðir segir: „Við gátum aldrei ímyndað okkur hve mikið álag það væri líkamlega og tilfinningalega að annast foreldra okkar, sérstaklega jafnhliða því að reyna að uppfylla kröfur þjónustu í fullu starfi. Satt að segja hefur úthald okkar verið teygt til hins ýtrasta og við höfum fundið fyrir nauðsyn þess að hljóta „ofurmagn kraftarins.‘“ (2. Korintubréf 4:7) Megi Jehóva halda áfram að styrkja slíka trúfasta þjóna sína.
9. Hvernig er hægt að hvetja þá sem eiga ekki annars úrkosti en að hætta í fullri þjónustu til að annast foreldra sína?
9 Eftir að hafa kannað allar leiðir getur niðurstaðan stundum orðið sú að ekki sé um annað að ræða en að hætta í fullri þjónustu. Sá sem er í þeirri aðstöðu hefur skiljanlega blendnar tilfinningar yfir því að þurfa að segja skilið við þjónustusérréttindi sín. ‚Við vitum að það er kristin skylda okkar að annast aldraða og sjúka móður mína,‘ segir fyrrverandi trúboði, ‚en stundum er þetta mjög undarleg tilfinning.‘ En mundu að ‚það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs að sýna rækt eigin heimili.‘ (1. Tímóteusarbréf 5:4) Mundu líka að „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.“ (Hebreabréfið 6:10) Hjón, sem áttu að baki margra ára þjónustu í fullu starfi, segja: „Við lítum þannig á það að það sé jafnmikilvægt fyrir okkur núna að annast foreldra okkar eins og það var fyrir okkur þá að vera í fullri þjónustu.“
10. (a) Hvers vegna kann að vera að sumir hafi hætt í fullri þjónustu fyrr en nauðsynlegt var? (b) Hvernig ætti fjölskyldan að líta á þjónustu í fullu starfi?
10 En sumir hafa kannski verið einum of fljótir á sér að hætta fullri þjónustu sökum þess að ættingjar þeirra sögðu: ‚Þið eruð ekki bundin af vinnu eða börnum. Af hverju getið þið ekki annast pabba og mömmu?‘ En er ekki prédikunarstarfið þýðingarmesta starf sem hægt er að vinna nú á dögum? (Matteus 24:14; 28:19, 20) Þjónar orðsins í fullu starfi eru því að vinna afarmikilvægt starf. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Jesús gaf líka til kynna að undir vissum kringumstæðum yrði þjónustan við Guð að ganga fyrir fjölskyldumálum.
11, 12. (a) Hvers vegna ráðlagði Jesús manni að ‚láta hina dauðu grafa sína dauðu‘? (b) Hvað hafa sumar fjölskyldur gert þegar einn úr henni var þjónn orðsins í fullu starfi?
11 Lítum á það sem dæmi þegar maður afþakkaði boð Jesú um að fylgja honum og sagði: „Leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“ Jesús svaraði þá: „Lát hina [andlega] dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki.“ (Lúkas 9:59, 60) Með því að Gyðingar greftruðu látna sama dag og andlát þeirra bar að er ólíklegt að faðir þessa manns væri dáinn. Líklega vildi maðurinn einfaldlega vera hjá öldruðum föður sínum þar til hann dæi. En þar eð aðrir ættingjar voru greinilega til staðar og gátu annast hann hvatti Jesús manninn til að „boða Guðs ríki.“
12 Sumar fjölskyldur hafa komist að raun um að með góðu samstarfi allra getur sá sem er í fullri þjónustu tekið þátt í að annast foreldra sína án þess að hætta þeirri þjónustu. Sumir þjónar orðsins í fullu starfi aðstoða til dæmis foreldra sína um helgar eða í leyfum. Athyglisvert er að fjölmargir aldraðir foreldrar hafa krafist þess að börnin þeirra haldi áfram að þjóna í fullu starfi, jafnvel þótt það kosti talsverða sjálfsfórn af hálfu foreldranna. Jehóva blessar ríkulega þá sem láta hagsmuni Guðsríkis sitja í fyrirrúmi. — Matteus 6:33.
„Speki“ og „hyggni“ þegar foreldrar flytja inn á heimilið
13. Hvaða vandamál geta komið upp þegar foreldri er boðið að flytja inn á heimili barna sinna?
13 Jesús bjó svo um hnútana að móðir hans, sem var ekkja, gæti búið hjá ættingjum sínum í trúnni. (Jóhannes 10:25-27) Margir vottar hafa á líkan hátt boðið foreldrum sínum að flytja inn á heimili sitt — og uppskorið margar gleðistundir og blessun. En ólíkir lífshættir, takmarkað einkalíf og álagið samfara því að sinna daglegum þörfum aldraðra foreldra getur orðið öllum hlutaðeigandi til skapraunar. „Það að annast tengdamömmu hefur gert mig uppspennta,“ segir Ann, en tengdamóðir hennar þjáist af Alzheimers sjúkdóminum. „Stundum missi ég jafnvel þolinmæðina og tala höstuglega til hennar — og þá fyllist ég sektarkennd.“
14, 15. Hvernig geta „speki“ og „hyggindi“ átt þátt í að byggja upp fjölskyldu við þessar aðstæður?
14 Salómon sagði: „Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfest.“ (Orðskviðirnir 24:3) Ann hefur til dæmis reynt að skilja vandamál tengdamóður sinnar betur. „Ég hef í huga að hún gengur með sjúkdóm og getur ekki að því gert að hún er erfið í umgengni.“ En „allir hrösum vér margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn.“ (Jakobsbréfið 3:2) Ef árekstrar verða skaltu sýna þá visku að láta ekki gremju grafa um sig innra með þér eða skapið hlaupa með þig í gönur. (Efesusbréfið 4:31, 32) Ræðið málin saman sem fjölskylda og leitið leiða til að fara einhvern milliveg eða gera breytingar.
15 Hyggni eða dómgreind getur líka hjálpað okkur að ræða saman. (Orðskviðirnir 20:5) Ef til vill á hinn aldraði erfitt með að aðlaga sig daglegu lífi á nýju heimili. Ef til vill er dómgreind hans ekki skýr lengur og hann er ósamvinnuþýður. Undir vissum kringumstæðum er kannski ekki um annað að ræða en að sýna festu. (Samanber 1. Mósebók 43:6-11.) „Ef ég segði ekki nei við móður mína,“ segir systir, „myndi hún eyða öllum peningunum sínum.“ Öldungur hefur uppgötvað að hann getur stundum notfært sér ástúð móður sinnar í sinn garð. „Oft þegar rök duga ekki segi ég bara: ‚Mamma, viltu gera þetta bara fyrir mig?‘ og hún hlustar.“
16. Hvers vegna verður ástríkur eiginmaður að sýna góða dómgreind undir þessum kringumstæðum? Hvernig getur hann gert það?
16 Þar eð umönnunin lendir oft að mestum hluta til á eiginkonunni þarf maðurinn hennar að gæta þess að hún ofgeri sér ekki — tilfinningalega, líkamlega eða andlega. Orðskviðirnir 24:10 segja: „Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill.“ Hvað getur eiginmaður gert til að kona hans missi ekki móðinn? „Þegar maðurinn minn kom heim,“ segir systir, „var hann vanur að faðma mig að sér og segja mér hve mikils virði ég væri fyrir hann. Ég hefði ekki getað þetta án hans!“ (Efesusbréfið 5:25, 28, 29) Hann getur líka numið Biblíuna með konu sinni og beðið reglulega með henni. Já, jafnvel við þessar erfiðu aðstæður getur fjölskyldan uppbyggst.
Á elliheimili
17, 18. (a) Hvað hafa sumar fjölskyldur neyðst til að gera? (b) Hvernig geta fullorðin börn hjálpað foreldrum sínum að aðlaga sig slíkum aðstæðum?
17 Öldrunarfræðingur segir: „Það getur komið að því að fjölskyldan ráði hvorki yfir sérfræðikunnáttu né fjármunum til að annast [foreldrana] heima.“ Eins og eiginmaður orðaði það: „Það gekk svo langt að heilsa konunnar minnar brast þegar hún þurfti að annast mömmu allan sólarhringinn. Við áttum ekki annars úrkosti en að koma mömmu fyrir á hjúkrunarheimili. En það stakk okkur í hjörtun að þurfa að gera það.“
18 Undir vissum kringumstæðum getur elli- eða hjúkrunarheimili verið besti kosturinn. Þegar öldruðum er komið fyrir á slíkum stofnunum eru þeir þó oft ráðvilltir og í uppnámi, þar eð þeim finnst þeir hafa verið sviknir. „Við útskýrðum vandlega fyrir mömmu hvers vegna við yrðum að gera þetta,“ segir systir sem við skulum kalla Grétu. „Hún hefur lært að aðlaga sig breyttum aðstæðum og lítur nú á staðinn sem heimili sitt.“ Með reglulegum heimsóknum er auk þess hægt að gera hinum aldraða breytinguna auðveldari og sanna að kærleikurinn til þeirra sé ósvikinn. (Samanber 2. Korintubréf 8:8.) Ef vegalengdin er of mikil fyrir tíðar heimsóknir er hægt að hafa samband símleiðis, bréflega og með heimsóknum af og til. (Samanber 2. Jóhannesarbréf 12.) Engu að síður er það augljós ókostur að búa meðal fólks úr heiminum. Vertu vakandi fyrir andlegri þörf þeirra. (Matteus 5:3) „Við sjáum mömmu fyrir lestrarefni og reynum að ræða andleg mál við hana eins og mögulegt er,“ segir Gréta.
19. (a) Hvers ætti að gæta við val á og eftirlit með elli- og hjúkrunarheimili? (b) Hvernig er það kristnum manni til góðs að gera sitt ýtrasta til að annast foreldra sína?
19 Blaðið The Wall Street Journal skýrir frá athugun sem gerð var á 406 hjúkrunarheimilum í Bandaríkjunum. „Af þeim var um fimmtungur talinn hættulegur dvalargestum og nálega helmingur aðeins uppfylla lágmarkskröfur.“ Því miður er slíkt allt of algengt. Ef nauðsynlegt er að koma foreldrum fyrir á elliheimili er gott að kynna sér vel aðstæður þar. Fylgstu reglulega með því að þar sé hreint og stofnunin sé búin hæfu starfsfólki, að andrúmsloftið sé heimilislegt og matur fullnægjandi. Fylgstu eins vel og þú getur með þeirri umönnun sem foreldrar þínir fá. Vertu ráðgjafi þeirra og talsmaður, hjálpaðu þeim að forðast óþægilegar aðstæður sem upp kynnu að koma, ef til vill í tengslum við veraldlega helgidaga eða afþreyingu. Með því að gera þitt ýtrasta til að veita foreldrum þínum sem besta umönnun miðað við aðstæður getur þú forðast sektarkennd sem ella gæti sótt á þig. — Samanber 2. Korintubréf 1:12.
Glaðir gjafarar, glaðir þiggjendur
20. Hvers vegna er mikilvægt að börnin séu glaðir gjafarar?
20 „Það hefur verið erfitt,“ segir kristin kona um það að annast foreldra sína. „Ég hef þurft að elda fyrir þau, gera hreint, skipta um óhrein sængurföt og hugga þau.“ „En það sem við höfum gert fyrir þau,“ segir maðurinn hennar, „höfum við gert með gleði. Við höfum lagt mikið á okkur til að þau fengju aldrei á tilfinninguna að við værum leið á að annast þau.“ (2. Korintubréf 9:7) Aldraðir eru oft tregir til að þiggja hjálp og vilja ekki vera öðrum byrði. Viðhorf þín skipta því miklu máli.
21. (a) Hvernig geta foreldrar verið glaðir þiggjendur? (b) Hvers vegna er viturlegt af foreldrum að búa sig undir elliárin?
21 Viðhorf foreldranna skiptir líka máli. Systir segir: „Það var alveg sama hvað ég gerði fyrir mömmu, það var aldrei nóg.“ Aldraðir foreldrar verða að forðast að vera ósanngjarnir eða kröfuharðir. Þegar allt kemur til alls segir Biblían: „Ekki eiga börnin að safna fé handa foreldrunum, heldur foreldrarnir handa börnunum.“ (2. Korintubréf 12:14) Sumir foreldrar sólunda eigum sínum og verða börnum sínum til óþarfrar byrði. En Orðskviðirnir 13:22 segja: „Góður maður lætur eftir sig arf handa barnabörnunum.“ Að því marki sem mögulegt er ætti fólk að hugsa til elliáranna og leggja eitthvað til hliðar og gera ráðstafanir til að hljóta þá umönnum sem þeir þurfa. — Orðskviðirnir 21:5.
22. Hvernig á kristinn maður að líta á viðleitni sína til að annast aldraða foreldra sína?
22 Páll komst vel að orði þegar hann sagði að umönnun foreldranna væri eðlilegt ‚endurgjald.‘ (1. Tímóteusarbréf 5:4) Eins og bróðir einn segir: „Mamma annaðist mig í tuttugu ár. Hvað hef ég gert í samanburði við það?“ Megi allir kristnir menn, sem eiga aldurhnigna foreldra, finna sig knúna til að „sýna rækt eigin heimili,“ vitandi að Guð mun ríkulega umbuna þeim sem heiðra foreldra sína. Hann heitir þeim: ‚Þú verður langlífur á jörðinni.‘ — Efesusbréfið 6:3.
Til minnis
◻ Hvernig reyndu sumir á dögum Jesú að skjóta sér undan ábyrgð sinni gagnvart foreldrum sínum?
◻ Hverjum ber að annast aldraða foreldra og hvers vegna?
◻ Hvaða vandamál geta orðið á vegi fjölskyldna þegar aldraðir foreldrar flytja inn á heimilið, og hvernig má sigrast á þeim?
◻ Hvers vegna getur verið nauðsynlegt að koma foreldrum fyrir á elliheimili, og hvernig má hjálpa þeim að aðlaga sig því?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hægt er að halda fjölskyldufund til að ræða hvernig deila megi umönnun aldraðra foreldra.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Þegar koma þarf öldruðum fyrir á elliheimili eru reglulegar heimsóknir nauðsynlegar til að tryggja tilfinningalega og andlega vellíðan þeirra.