Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.3. bls. 22-26
  • Haltu áfram að ganga með Guði

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Haltu áfram að ganga með Guði
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Stefnuföst lífsbraut
  • Vertu ekki of öruggur með þig
  • Láttu ekki ótta við menn stjórna þér
  • Gerðu ekki lítið úr góðum ráðum
  • Að takast á við áhyggjur lífsins
  • Lifum í trú en ekki eftir því sem við sjáum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
  • Framgöngum í trú!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Gagnið af því að óttast hinn sanna Guð
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Höldum áfram að ganga á vegi Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.3. bls. 22-26

Haltu áfram að ganga með Guði

„Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins.“ — GALATABRÉFIÐ 5:16.

1. (a) Hve lengi og við hvaða aðstæður gekk Enok með Guði? (b) Hve lengi gekk Nói með Guði og hvaða alvarlegar skyldur hvíldu á honum?

BIBLÍAN segir okkur að Enok hafi ‚gengið með Guði.‘ Þrátt fyrir hörð orð og óguðlega hegðun fólksins umhverfis hélt hann áfram að ganga með Guði uns hann lést 365 ára að aldri. (1. Mósebók 5:23, 24; Júdasarbréfið 14, 15) Nói ‚gekk líka með Guði.‘ Hann gerði það meðan hann var að koma börnum sínum á legg í heimi sem var undir áhrifum uppreisnarengla og ofbeldisfullra afkvæma þeirra og eins í annríkinu við smíði risastórrar arkar, stærri en nokkurt sæfar fortíðar. Hann hélt áfram að ganga með Guði eftir flóðið, jafnvel þegar aftur var gerð uppreisn gegn Guði í Babel. Já, Nói hélt áfram að ganga með Guði allt til dauðadags, 950 ára að aldri. — 1. Mósebók 6:9; 9:29.

2. Hvað merkir það að ‚ganga með Guði‘?

2 Það er í myndhverfri merkingu sem Biblían segir að þessir trúmenn hafi ‚gengið‘ með Guði. Það merkir að hegðun þeirra Enoks og Nóa bar vott um sterka trú á Guð. Þeir gerðu það sem Jehóva sagði þeim og samræmdu líf sitt því sem þeir vissu um hann af samskiptum hans við mannkynið. (Samanber 2. Kroníkubók 7:17.) Þeir jánkuðu ekki aðeins í huganum því sem Guð sagði og gerði heldur fylgdu öllu sem hann krafðist — ekki aðeins sumu af því heldur öllu í þeim mæli sem ófullkomnir menn gátu. Þess vegna gerði Nói nákvæmlega eins og Guð fyrirskipaði honum. (1. Mósebók 6:22) Nói gekk hvorki lengra en honum var sagt né trassaði hlutina og dróst aftur úr. Hann átti náið samband við Jehóva og honum fannst hann geta beðið frjálslega til hans. Honum þótti mjög vænt um handleiðslu Guðs og gekk því með honum. Gerir þú það?

Stefnuföst lífsbraut

3. Hvað er mjög þýðingarmikið fyrir alla vígða og skírða þjóna Guðs?

3 Það er ánægjulegt að sjá fólk byrja að ganga með Jehóva Guði. Þegar það samlagar líf sitt vilja hans sýnir það trú en án hennar getur enginn þóknast honum. (Hebreabréfið 11:6) Það er okkur mikið gleðiefni að síðastliðin fimm ár skuli að meðaltali 330.000 manns hafa vígst Jehóva og boðið sig fram til skírnar. En það er líka þýðingarmikið fyrir þetta fólk og okkur öll að halda áfram að ganga með Guði. — Matteus 24:13; Opinberunarbókin 2:10.

4. Hvers vegna komust fæstir Ísraelsmenn, sem yfirgáfu Egyptaland, inn í fyrirheitna landið enda þótt þeir sýndu einhverja trú?

4 Það krafðist trúar af hálfu ísraelskrar fjölskyldu á dögum Móse að halda páska í Egyptalandi og rjóða blóði á dyrastafi heimila sinna. (2. Mósebók 12:1-28) En trú margra dofnaði þegar þeir sáu her Faraós nálgast að baki sér við Rauðahafið. (2. Mósebók 14:9-12) Sálmur 106:12 sýnir þó að þeir ‚trúðu orðum Jehóva‘ á ný þegar þeir komust heilu og höldnu yfir um eftir þurrum hafsbotninum og sáu vatnsflauminn gereyða egypska hernum. En skömmu síðar fóru Ísraelsmenn að kvarta í eyðimörkinni yfir drykkjarvatni, mat og umsjón. Neikvæð frásögn 10 njósnara af 12, sem höfðu kannað fyrirheitna landið, skaut þeim skelk í bringu. Þá segir Sálmur 106:24 að þeir hafi ‚eigi trúað orðum Guðs.‘ Þeir vildu snúa aftur til Egyptalands. (4. Mósebók 14:1-4) Hver sú trú sem þeir höfðu lifnaði einungis þegar þeir sáu mátt Guðs birtast með yfirnáttúrlegum hætti. Þeir héldu ekki áfram að ganga með Guði. Afleiðingin varð sú að þessir Ísraelsmenn fengu ekki að ganga inn í fyrirheitna landið. — Sálmur 95:10, 11.

5. Hvernig tengjast 2. Korintubréf 13:5 og Orðskviðirnir 3:5, 6 því að ganga með Guði?

5 Biblían hvetur okkur: „Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa.“ (2. Korintubréf 13:5) Að vera „í trúnni“ merkir að halda sér við kenningasafn kristninnar. Það er nauðsynlegt til að okkur takist að ganga með Guði alla ævidaga okkar. Til að ganga með Guði verðum við líka að iðka trú, að treysta algerlega á Jehóva. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Þeir sem gera það ekki geta fallið í ótal gildrur og tálgryfjur. Hverjar eru þær?

Vertu ekki of öruggur með þig

6. Hvað vita allir kristnir menn um hórdóm og saurlifnað og hvað finnst þeim um þessar syndir?

6 Allir sem hafa numið Biblíuna, vígt sig Jehóva og látið skírast vita að orð Guðs fordæmir hórdóm og saurlifnað. (1. Þessaloníkubréf 4:1-3; Hebreabréfið 13:4) Þeir fallast á að það sé rétt. Þeir ætla sér að lifa samkvæmt því. Engu að síður er siðleysi enn einhver áhrifamesta gildra Satans. Af hverju?

7. Hvernig drógust ísraelskir karlmenn á Móabsheiðum út í hegðun sem þeir vissu að var röng?

7 Í byrjun er það kannski ekki ætlun manna að leiðast út í siðleysi. Kannski var það líka þannig með Ísraelsmenn á Móabsheiðum. Ísraelsku karlmennirnir voru orðnir langþreyttir á eyðimerkurlífinu og fannst kannski að móabísku og midíönsku konurnar, sem tældu þá, væru vingjarnlegar og gestrisnar. En hvað gerðist þegar Ísraelsmenn þáðu boðið um að leggja lag sitt við fólk sem þjónaði Baal en ekki Jehóva, fólk sem leyfði ungum dætrum sínum (jafnvel dætrum framámanna) að eiga kynmök við menn sem þær voru ekki giftar? Þegar mönnunum í herbúðum Ísraels fór að þykja slíkur félagsskapur eftirsóknarverður létu þeir tælast til að gera hluti sem þeir vissu að voru rangir, og það kostaði þá lífið. — 4. Mósebók 22:1; 25:1-15; 31:16; Opinberunarbókin 2:14.

8. Hvernig getur kristinn maður nú á tímum leiðst út í siðleysi?

8 Hvernig gæti maður fest sig í sams konar snöru nú á dögum? Jafnvel þótt hann viti hve alvarlegt siðleysi er gæti hann leyft sér að lenda í þeim aðstæðum að hið ranga yrði svo lokkandi að það yrði skynseminni yfirsterkara, það er að segja ef hann er ekki jafnframt vakandi fyrir því hve hættulegt það er að vera of öruggur með sig. — Orðskviðirnir 7:6-9, 21, 22; 14:16.

9. Hvaða biblíuleg viðvörun getur verndað okkur fyrir siðleysi?

9 Á skýru máli varar orð Guðs okkur við því að halda að við séum svo sterk að vondur félagsskapur geti ekki spillt okkur. Þar er meðtalið sjónvarpsefni sem fjallar um siðlaust fólk og tímarit sem æsa upp siðlausar langanir. (1. Korintubréf 10:11, 12; 15:33) Meira að segja getur það valdið alvarlegum vandamálum að vera með trúsystkinum undir röngum kringumstæðum. Það er sterkt aðdráttarafl milli kynjanna. Sökum kærleika og umhyggju hefur skipulag Jehóva þess vegna varað við því að vera einn og afsíðis með einhverjum af hinu kyninu, ef það er ekki maki manns eða ættingi. Ef við ætlum að halda áfram að ganga með Guði megum við ekki vera of örugg með okkur heldur fara eftir viðvörunum hans og leiðbeiningum. — Sálmur 85:8, NW.

Láttu ekki ótta við menn stjórna þér

10. Hvernig er það snara að ‚óttast menn‘?

10 Orðskviðirnir 29:25 benda á aðra hættu: „Ótti við menn leiðir í snöru.“ Snara veiðimanns herpist um háls eða fætur bráðarinnar. (Jobsbók 18:8-11) Ótti við menn getur á sama hátt hamlað manni að tala frjálsmannlega og hegða sér þannig að hann sé Guði þóknanlegur. Það er eðlilegt að vilja falla öðrum í geð og ekki kristilegt að skeyta ekki um hvað öðrum finnst. En jafnvægi er nauðsynlegt. Þegar áhyggjur af hugsanlegum viðbrögðum annarra koma manni til að gera það sem Guð bannar eða gera ekki það sem orð Guðs fyrirskipar, þá er maður fastur í snöru.

11. (a) Hvað er vernd gegn því að láta ótta við menn stjórna sér? (b) Hvernig hefur Jehóva hjálpað þjónum sínum sem voru að berjast gegn ótta við menn?

11 Verndin fyrir slíkri snöru er ekki fólgin í meðfæddu lunderni manns heldur því að ‚treysta Jehóva.‘ (Orðskviðirnir 29:25b) Sá sem er feiminn að eðlisfari getur jafnvel verið hugrakkur og staðfastur ef hann treystir Guði. Meðan heimskerfi Satans þrýstir á okkur úr öllum áttum þurfum við að varast þá snöru að óttast menn. Spámaðurinn Elía hafði þjónað hugrakkur um langa hríð en flúði óttasleginn þegar Jesebel hótaði að drepa hann. (1. Konungabók 19:2-18) Pétur postuli varð hræddur undir álagi og neitaði því að hann þekkti Jesú Krist, og mörgum árum síðar lét hann ótta koma sér til að breyta gagnstætt trúnni. (1. Konungabók 19:2-18) En bæði Elía og Pétur þáðu andlega hjálp og héldu áfram að þjóna Guði sómasamlega með trúartrausti.

12. Nefndu dæmi sem sýna hvernig fólki hefur tekist að láta ekki ótta við menn koma í veg fyrir að það þóknaðist Guði?

12 Margir þjónar Jehóva nú á dögum hafa líka lært að sigrast á tálmandi ótta. Ung vottastúlka í Gvæjana viðurkennir: „Baráttan gegn hópþrýstingi í skólanum er hörð.“ Svo bætir hún við: „En trú mín á Jehóva er sterk.“ Hún bað hljóðlega til Jehóva þegar kennarinn gerði gys að trú hennar í áheyrn alls bekkjarins. Síðar bar hún háttvíslega vitni fyrir kennaranum einum. Ungur maður, sem var að kynnast kröfum Jehóva, var í heimsókn í heimabæ sínum í Benín þegar hann ákvað að losa sig við skurðgoð sem faðir hans hafði smíðað handa honum. Ungi maðurinn vissi að líkneskið var lífvana og óttaðist það ekki, en hann gerði sér líka grein fyrir að reiðir þorpsbúar gætu viljað bana honum. Hann bað til Jehóva og fór síðan um nótt með skurðgoðið út í skóg og losaði sig við það. (Samanber Dómarabókina 6:27-31.) Þegar kona í Dóminíska lýðveldinu byrjaði að þjóna Jehóva krafðist maðurinn hennar þess að hún veldi milli sín og Jehóva. Hann hótaði að skilja við hana. Lét hún hræða sig frá trúnni? Hún svaraði: „Ég myndi skammast mín ef ég hefði verið þér ótrú en ég skammast mín ekki fyrir að þjóna Jehóva Guði!“ Hún hélt áfram að ganga með Guði og síðar fór maðurinn hennar að þjóna Guði með henni. Ef við treystum algerlega á himneskan föður okkar getum við líka forðast það að ótti við menn hindri okkur í að gera það sem við vitum að er Jehóva þóknanlegt.

Gerðu ekki lítið úr góðum ráðum

13. Hvaða snöru erum við vöruð við í 1. Tímóteusarbréfi 6:9?

13 Stundum eru snörur lagðar til að veiða hvert það dýr sem stígur á ákveðinn blett en stundum er líka lögð tálbeita með til að lokka dýr í snöruna. Peningar eru þess konar tálbeita fyrir margan manninn. (Matteus 13:22) Í 1. Tímóteusarbréfi 6:8, 9 hvetur Biblían okkur til að láta okkur nægja fæði og klæði. Síðan segir hún í viðvörunartón: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.“

14. (a) Hvað gæti hindrað mann í að taka til sín það heilræði að láta sér nægja fæði og klæði? (b) Hvernig gæti röng skilgreining á ríkidæmi komið manni til að gera lítið úr viðvöruninni í 1. Tímóteusarbréfi 6:9? (c) Á hvaða hátt gæti „fýsn augnanna“ blindað suma fyrir snörunni sem bíður þeirra?

14 En margir taka þessa viðvörun ekki til sín og festast í snörunni. Af hverju? Er hugsanlegt að það sé stolt sem kemur þeim til að lifa þannig að þeir heimti meira en „fæði og klæði“ sem Biblían hvetur okkur til að gera okkur ánægð með? Gera þeir kannski lítið úr viðvörun Biblíunnar af því að þeir skilgreina ríkidæmi eftir eignum stórríka fólksins? Biblían stillir hreinlega upp lönguninni til að verða ríkur annars vegar og því að láta sér nægja fæði og klæði hins vegar. (Samanber Hebreabréfið 13:5.) Hefur „fýsn augnanna“ — löngunin til að eignast það sem þeir sjá, jafnvel þótt þeir þurfi að fórna andlegum hugðarefnum fyrir það — í för með sér að þeir ýta sannri tilbeiðslu í annað sætið? (1. Jóhannesarbréf 2:15-17; Haggaí 1:2-8) Þeir menn eru miklu hamingjusamari sem taka til sín heilræði Biblíunnar og ganga með Jehóva Guði á þann hátt að þjónustan við hann er þungamiðja lífsins.

Að takast á við áhyggjur lífsins

15. Hvað er mörgum þjónum Jehóva eðlilega áhyggjuefni og hvaða snöru verðum við að vara okkur á þegar við erum undir slíku álagi?

15 Áhyggjur af lífsnauðsynjum eru enn algengari en löngunin til að verða ríkur. Margir þjónar Jehóva búa við þröngan kost. Þeir strita langan vinnudag til að hafa nauðsynlegasta fatnað, þak yfir höfuðið og að minnsta kosti einhvern mat á hverjum degi. Aðrir eiga í erfiðleikum vegna veikinda eða ellihrörnunar sjálfra sín eða ættingja sinna. Það væri hægur vandi að láta slíkar aðstæður kæfa andleg hugðarefni algerlega. — Matteus 13:22.

16. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að þola álag lífsins?

16 Í kærleika sínum segir Jehóva okkur frá þeirri lausn sem er í vændum undir stjórn Messíasarríkisins. (Sálmur 72:1-4, 16; Jesaja 25:7, 8) Hann hjálpar okkur líka að þola álag lífsins núna með því að leiðbeina okkur hvernig við getum haft rétta forgangsröð í lífinu. (Matteus 4:4; 6:25-34) Jehóva hughreystir okkur með frásögum af því hvernig hann hjálpaði þjónum sínum forðum daga. (Jeremía 37:21; Jakobsbréfið 5:11) Hann styrkir okkur með þeirri vitneskju að kærleikur hans til hollra þjóna sinna sé stöðugur og óháður því mótlæti sem þeir verða fyrir. (Rómverjabréfið 8:35-39) Hann segir þeim sem setja traust sitt á hann: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ — Hebreabréfið 13:5.

17. Nefndu dæmi um hvernig fólk hefur getað haldið áfram að ganga með Guði þrátt fyrir mikið mótlæti.

17 Þessi þekking styrkir sannkristna menn í að halda áfram að ganga með Guði í stað þess að fara út í veraldlega háttsemi. Það er útbreidd hugsun meðal fátækra víða um lönd að það sé ekki þjófnaður að taka frá þeim sem á meira en maður sjálfur, sé það til að brauðfæða fjölskyldu sína. En þeir sem ganga í trú hafna þessum veraldlega hugsunarhætti. Þeir meta velþóknun Guðs meira en nokkuð annað og treysta að hann umbuni þeim heiðarlega breytni þeirra. (Orðskviðirnir 30:8, 9; 1. Korintubréf 10:13; Hebreabréfið 13:18) Ekkja á Indlandi komst að raun um að útsjónarsemi ásamt vilja til að vinna hefði hjálpað sér að takast á við erfiðleikana. Í stað þess að láta sér gremjast hlutskipti sitt í lífinu hafði hún hugfast að ef hún léti ríki Guðs og réttlæti hans ganga fyrir myndi hann blessa viðleitni hennar til að draga björg í bú handa sér og syni sínum. (Matteus 6:33, 34) Þúsundir manna um heim allan sýna að Jehóva er hæli þeirra og háborg í öllu mótlæti og andstreymi sem þeir verða fyrir. (Sálmur 91:2) Hvað um þig?

18. Hver er lykillinn að því að forðast snörurnar í heimi Satans?

18 Meðan við lifum í núverandi heimskerfi verða til snörur sem við þurfum að forðast. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Biblían vísar okkur á þær og bendir á hvernig við getum forðast þær. Þeir sem elska Jehóva í raun og sannleika og hafa heilnæman ótta við að misþóknast honum geta forðast þessar snörur. Ef þeir halda áfram að ‚lifa í andanum‘ leiðast þeir ekki út í veraldlega háttsemi. (Galatabréfið 5:16-25) Allir sem byggja líf sitt á sambandi við Jehóva eiga sér þær stórfenglegu framtíðarhorfur að ganga með honum og eiga trúnað hans að eilífu. — Sálmur 25:14.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvernig getur óhóflegt sjálfsöryggi verið snara?

◻ Hvað getur verndað okkur fyrir því að láta ótta við menn stjórna okkur?

◻ Hvað gæti orðið til þess að við vöruðum okkur ekki á hættunni samfara því að sækjast eftir peningum?

◻ Hvernig getum við forðast að áhyggjur lífsins verði snara fyrir okkur?

[Mynd á blaðsíðu 24, 25]

Margir ganga með Guði alla ævi.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila