Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.5. bls. 8-12
  • Vígsla og valfrelsi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Vígsla og valfrelsi
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Vígsla til „Ísraels Guðs“
  • Vígsla ‚Ísraels Guðs‘
  • Notaðu viturlega frelsið sem Guð gefur
  • Hvers þræll kýstu að verða?
  • Lærum að gera sjálfum okkur gagn
  • Þeir tilheyrðu útvalinni þjóð Guðs frá fæðingu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
  • Lifirðu eftir vígsluheiti þínu?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
  • Að lifa „daglega“ eftir vígsluheiti okkar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Af hverju ættirðu að vígjast Jehóva?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.5. bls. 8-12

Vígsla og valfrelsi

„Til frelsis frelsaði Kristur oss.“ — GALATABRÉFIÐ 5:1.

1. Um hvað eru hebresku og grísku orðin, sem þýdd eru „vígsla,“ aðallega notuð?

BIBLÍURITARARNIR notuðu ýmis hebresk og grísk orð til að lýsa þeirri hugmynd að vera aðgreindur eða tekinn frá til að þjóna heilögum málstað. Í íslensku biblíunni eru þessi orð gjarnan þýdd „vígsla.“ Orðin eru stundum notuð um byggingar — yfirleitt um musteri Guðs í Jerúsalem til forna og um tilbeiðsluna sem þar fór fram. Þau eru sjaldan notuð í tengslum við veraldleg mál.

Vígsla til „Ísraels Guðs“

2. Af hverju mátti réttilega kalla Jehóva ‚Ísraels Guð‘?

2 Guð frelsaði Ísraelsmenn úr þrælkun í Egyptalandi árið 1513 f.o.t. Skömmu síðar tók hann þá frá sem kjörþjóð sína og gerði við þá sáttmálasamband. Þeim var sagt: „Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín.“ (2. Mósebók 19:5; Sálmur 135:4) Þar eð Jehóva hafði útvalið Ísraelsmenn var með réttu hægt að kalla hann ‚Ísraels Guð.‘ — Jósúabók 24:23.

3. Af hverju var það ekki hlutdrægni af hálfu Jehóva að útvelja Ísrael sem þjóð sína?

3 Jehóva var ekki hlutdrægur þegar hann gerði Ísraelsmenn að vígðri þjóð sinni, því að hann bar líka ástríka umhyggju fyrir annarra þjóða mönnum. Hann sagði fólki sínu: „Ef útlendur maður býr hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér eigi sýna honum ójöfnuð. Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. Ég er [Jehóva], Guð yðar.“ (3. Mósebók 19:33, 34) Öldum síðar var Pétur postuli minntur rækilega á þetta sjónarmið Guðs og viðurkenndi: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.

4. Hvaða skilyrðum var samband Guðs og Ísraels háð og lifðu Ísraelsmenn samkvæmt þeim?

4 Við tökum líka eftir að það var skilyrðum háð að vera fólk Guðs og vera vígður honum. Aðeins með því að hlýða rödd Guðs grandgæfilega og halda sáttmála hans gat fólk verið „eiginleg eign“ hans. Því miður uppfylltu Ísraelsmenn ekki þetta skilyrði. Eftir að þeir höfðu hafnað Messíasi, sem Guð sendi á fyrstu öld, misstu þeir sérréttindastöðu sína. Jehóva var ekki lengur ‚Ísraels Guð‘ og Ísraelsmenn að holdinu voru ekki lengur útvalin þjóð hans. — Samanber Matteus 23:23.

Vígsla ‚Ísraels Guðs‘

5, 6. (a) Hvað átti Jesús við með spádómsorðum sínum í Matteusi 21:42, 43? (b) Hvenær og hvernig varð „Ísrael Guðs“ til?

5 Þýddi þetta að Jehóva ætti sér enga vígða þjóð lengur? Nei, Jesús Kristur spáði með tilvitnun í orð sálmaritarans: „Hafið þér aldrei lesið í ritningunum: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk [Jehóva], og undursamlegt er það í augum vorum. Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ — Matteus 21:42, 43.

6 ‚Þjóðin sem bar ávexti þess‘ reyndist vera kristni söfnuðurinn. Jesús valdi fyrstu, væntanlegu þegna hennar meðan á jarðvist hans stóð. En á hvítasunnudeginum árið 33 var það Jehóva Guð sjálfur sem stofnsetti kristna söfnuðinn með því að úthella heilögum anda sínum yfir fyrstu safnaðarmennina, um 120 talsins. (Postulasagan 1:15; 2:1-4) Eins og Pétur postuli skrifaði síðar varð þessi nýstofnaði söfnuður þá „útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður.“ Til hvers var hann útvalinn? Til þess að safnaðarmenn skyldu „‚víðfrægja dáðir hans‘ sem kallaði [þá] frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pétursbréf 2:9) Fylgjendur Krists, sem voru smurðir anda Guðs, voru nú vígð þjóð, „Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 6:16.

7. Hvers áttu þeir sem tilheyrðu Ísrael Guðs að njóta og hvað var þeim þar af leiðandi sagt að forðast?

7 Enda þótt þeir sem tilheyrðu þessari heilögu þjóð væru „eignarlýður“ áttu þeir ekki þrælkun yfir höfði sér. Þeir nutu þvert á móti meira frelsis en hin vígða Ísraelsþjóð fortíðar hafði notið. Jesús hét þeim sem áttu í vændum að tilheyra þessari nýju þjóð: „[Þið] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jóhannes 8:32) Páll postuli benti á að kristnir menn væru leystir undan kröfum lagasáttmálans. Hann áminnti trúbræður sína í Galatíu þar að lútandi: „Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.“ — Galatabréfið 5:1.

8. Að hvaða leyti bauð hin kristna skipan upp á meira frelsi en menn höfðu notið undir lagasáttmálanum?

8 Ólíkt holdlegum Ísraelsmönnum fortíðar hefur Ísrael Guðs hlýtt vígslukröfunum grandgæfilega allt til þessa dags. Það ætti ekki að koma á óvart því að þeir sem tilheyra Ísrael Guðs kusu af fúsum og frjálsum vilja að hlýða. Ísraelsmenn að holdinu voru vígðir frá fæðingu en þeir sem tilheyra Ísrael Guðs kusu það sjálfir. Hin kristna skipan var því gerólík lagasáttmála Gyðinga sem lagði vígsluna á menn án þess að gefa þeim kost á að velja.

9, 10. (a) Hvernig gaf Jeremía til kynna að vígslusambandið myndi breytast? (b) Af hverju tilheyra ekki allir vígðir kristnir menn nú á dögum Ísrael Guðs?

9 Spámaðurinn Jeremía spáði breyttu vígslusambandi þegar hann skrifaði: „Sjá, þeir dagar munu koma — segir [Jehóva] — að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra — segir [Jehóva]. En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta — segir [Jehóva]: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.“ — Jeremía 31:31-33.

10 Af því að lögmál Guðs er ‚lagt í brjóst‘ andlegra Ísraelsmanna, ritað ‚á hjörtu þeirra‘ ef svo má segja, langar þá til að lifa eftir vígsluheiti sínu. Þeir hafa sterkari hvöt til þess en Ísraelsmenn að holdinu sem voru vígðir frá fæðingu, ekki af því að þeir hefðu valið það. Meira en fimm milljónir guðsdýrkenda um heim allan hafa sömu sterku hvötina og andlegir Ísraelsmenn til að gera vilja Guðs. Þeir hafa líka vígt Jehóva Guði líf sitt til að gera vilja hans. Enda þótt þeir hafi ekki von um líf á himnum eins og þeir sem mynda Ísrael Guðs fagna þeir voninni um að lifa að eilífu á jörðinni undir stjórn hins himneska ríkis Guðs. Þeir sýna að þeir meta hinn andlega Ísrael mikils með því að styðja þá fáu sem eftir eru í því verki að „‚víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði [þá] frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“

Notaðu viturlega frelsið sem Guð gefur

11. Hvað var manninum áskapað og hvernig ætti hann að beita því?

11 Guð áskapaði manninum sterka frelsisþrá. Hann veitti honum frjálsan vilja. Fyrstu mannhjónin notuðu frelsi sitt til að velja, en val þeirra var bæði óviturlegt og kærleikslaust og varð bæði þeim og afkomendum þeirra til mikillar ógæfu. Engu að síður sýnir þetta dæmi ljóslega að Jehóva neyðir skynsemigæddar sköpunarverur sínar aldrei til að ganga gegn innri hvötum sínum eða löngunum. Og þar eð „Guð elskar glaðan gjafara“ er eina vígslan, sem er honum þóknanleg, byggð á kærleika, vígsla gerð fúslega og með gleði, vígsla byggð á valfrelsi. (2. Korintubréf 9:7) Öll önnur vígsla er óaðgengileg.

12, 13. Hvernig er Tímóteus fyrirmynd um gott barnauppeldi og hvernig hefur margt ungt fólk fylgt fordæmi hans?

12 Vottar Jehóva viðurkenna þessa kröfu fyllilega og hvetja menn til að vígjast Guði, en þeir þvinga aldrei nokkurn mann til að vígjast, ekki einu sinni börnin sín. Ólíkt því sem tíðkast í mörgum kirkjum skíra vottarnir ekki börnin sín ómálga, rétt eins og hægt væri að neyða þau til að vígjast án þess að þau fengju að velja það sjálf. Hinn ungi Tímóteus er biblíulegt fordæmi sem fylgja ber. Hann var orðinn fulltíða maður þegar Páll postuli sagði honum: „Halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:14, 15.

13 Eftirtektarvert er að Tímóteus þekkti heilagar ritningar af því að hann hafði verið fræddur í þeim frá blautu barnsbeini. Móðir hans og amma höfðu sannfært hann um kenningar kristninnar — ekki þvingað hann til að trúa þeim. (2. Tímóteusarbréf 1:5) Þar af leiðandi sá Tímóteus viskuna í því að fylgja Kristi og tók þannig persónulega ákvörðun um að vígjast sem kristinn maður. Nú á dögum hafa tugþúsundir ungra karla og kvenna, sem eiga vottaforeldra, fylgt þessu fordæmi. (Sálmur 110:3) Sumir hafa ekki gert það. Það er persónuleg ákvörðun hvers og eins.

Hvers þræll kýstu að verða?

14. Hvað segir Rómverjabréfið 6:16 um algert frelsi?

14 Enginn maður er algerlega frjáls. Náttúrulögmálin takmarka frelsi allra manna. Til dæmis er ekki hægt að hunsa þyngdarlögmálið sér að meinalausu. Í andlegum skilningi er enginn maður algerlega frjáls heldur. Páll sagði: „Vitið þér ekki, að ef þér bjóðið öðrum sjálfa yður fyrir þjóna og hlýðið honum, þá eruð þér þjónar þess, sem þér hlýðið, hvort heldur er syndar til dauða eða hlýðni til réttlætis?“ — Rómverjabréfið 6:16.

15. (a) Hvernig lítur fólk á þrælkun en í hverju lenda flestir? (b) Hvaða viðeigandi spurninga getum við spurt okkur?

15 Flestum þykir það ógeðfelld hugmynd að vera þræll. Veruleikinn er samt sá að margir láta ráðskast með sig í heimi nútímans eða láta hafa ýmis lúmsk áhrif á sig svo að þeir gera óviljandi það sem aðrir vilja að þeir geri. Auglýsinga- og skemmtanaiðnaðurinn reynir til dæmis að þrýsta fólki í ákveðið mót og setja því staðla til að fylgja. Stjórnmálaflokkar og trúarstofnanir fá fólk til að styðja hugmyndir sínar og markmið, ekki alltaf með sannfærandi rökum heldur oft með því að höfða til einhvers konar samstöðu eða hollustukenndar. Þar eð Páll benti á að við séum ‚þjónar eða þrælar þess sem við hlýðum‘ væri gott að spyrja sig hvers þræll maður sé. Hver hefur mest áhrif á ákvarðanir mínar og líf mitt? Eru það klerkar, stjórnmálaleiðtogar, fjármálamenn eða skemmtikraftar? Hverjum hlýði ég — Guði eða mönnum?

16. Í hvaða skilningi eru kristnir menn þrælar Guðs og hvernig er rétt að líta á slíka þrælkun?

16 Kristnir menn líta ekki á hlýðni við Guð sem óréttmæta skerðingu á persónufrelsi sínu. Þeir nota frelsi sitt fúslega á sama hátt og fyrirmynd þeirra, Jesús Kristur, með því að laga persónulegar langanir sínar og forgangsmál í lífinu að vilja Guðs. (Jóhannes 5:30; 6:38) Þeir tileinka sér „huga Krists“ og lúta honum sem höfði safnaðarins. (1. Korintubréf 2:14-16; Kólossubréfið 1:15-18) Það er mjög áþekkt konu sem giftist og vinnur fúslega með manninum sem hún elskar. Reyndar er talað um smurða kristna menn í heild sem hreina mey heitbundna Kristi. — 2. Korintubréf 11:2; Efesusbréfið 5:23, 24; Opinberunarbókin 19:7, 8.

17. Hvað hafa allir vottar Jehóva kosið að verða?

17 Hver einasti vottur Jehóva, hvort sem hann hefur himneska von eða jarðneska, hefur vígst Guði persónulega til að gera vilja hans og hlýða honum sem stjórnanda. Vígslan er persónuleg ákvörðun hvers einasta votts um að verða þræll Guðs í stað þess að vera áfram þræll manna. Það er í samræmi við ráðleggingar Páls postula: „Þér eruð verði keyptir, verðið ekki þrælar manna.“ — 1. Korintubréf 7:23.

Lærum að gera sjálfum okkur gagn

18. Hvenær er væntanlegur vottur hæfur til að láta skírast?

18 Áður en maður er hæfur til að verða vottur Jehóva verður hann að uppfylla kröfur Biblíunnar. Öldungar ganga rækilega úr skugga um að væntanlegur vottur skilji í alvöru hvað kristin vígsla er. Langar hann raunverulega til að verða vottur Jehóva? Er hann fús til að lifa í samræmi við vígslukröfurnar? Ef svo er ekki er hann óhæfur til að láta skírast.

19. Af hverju er engin ástæða til að gagnrýna þann sem ákveður að gerast vígður þjónn Guðs?

19 Ef maður uppfyllir öll skilyrði, er þá nokkur ástæða til að gagnrýna hann fyrir að taka persónulega ákvörðun af fúsu geði um að láta Guð og innblásið orð hans hafa áhrif á líf sitt? Er eitthvað lakara að láta Guð hafa áhrif á líf sitt en menn? Hefur maður minna gagn af því? Vottar Jehóva eru ekki þeirrar skoðunar. Þeir taka af öllu hjarta undir orð Guðs sem Jesaja færði í letur: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ — Jesaja 48:17.

20. Að hvaða leyti frelsar sannleikur Biblíunnar fólk?

20 Sannleikur Biblíunnar frelsar fólk undan fölskum trúarkenningum, svo sem um eilífar kvalir í logandi víti. (Prédikarinn 9:5, 10) Þess í stað fyllir hann hjörtu þeirra þakklæti fyrir raunverulega von hinna látnu — upprisu sem er möguleg vegna lausnarfórnar Jesú Krists. (Matteus 20:28; Postulasagan 24:15; Rómverjabréfið 6:23) Sannleikur Biblíunnar firrir fólk þeim vonbrigðum sem fylgja því að reiða sig á loforð stjórnmálamanna sem bregðast alltaf. Sannleikurinn fyllir hjörtu þeirra gleði af því að þeir vita að ríki Jehóva stjórnar nú þegar á himnum og mun bráðlega ríkja yfir allri jörðinni. Sannleikur Biblíunnar frelsar fólk undan iðkunum sem höfða til hins fallna holds en smána Guð og taka háan toll í mynd brostinna hjónabanda, sjúkdóma og ótímabærs dauða. Í stuttu máli er það að vera þræll Guðs margfalt gagnlegra en að vera þræll manna. Reyndar hefur vígsla til Guðs í för með sér fyrirheit um margvíslegt gagn „nú á þessum tíma . . . og í hinum komandi heimi eilíft líf.“ — Markús 10:29, 30.

21. Hvernig líta vottar Jehóva á vígslu til Guðs og hvað þrá þeir?

21 Vottar Jehóva nútímans fæðast ekki inn í vígða þjóð eins og Ísraelsmenn til forna. Vottarnir tilheyra söfnuði vígðra kristinna manna. Sérhver skírður vottur er það af því að hann hefur sjálfur ákveðið að vígjast Guði. Vígsluheit votta Jehóva hefur í för með sér hlýlegt einkasamband við Guð sem einkennist af fúsri þjónustu við hann. Þeir þrá af öllu hjarta að viðhalda þessu gleðilega sambandi og halda að eilífu í það frelsi sem Jesús Kristur veitti þeim.

Hvert er svar þitt?

◻ Af hverju var Guð ekki hlutdrægur þegar hann útvaldi Ísrael sem ‚eiginlega eign‘ sína?

◻ Af hverju hefur kristin vígsla ekki frelsisskerðingu í för með sér?

◻ Hvernig er það gagnlegt að vígjast Jehóva Guði?

◻ Af hverju er betra að vera þjónn Jehóva en þræll manna?

[Mynd á blaðsíðu 9]

Í Forn-Ísrael voru menn vígðir Guði frá fæðingu.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Kristin vígsla er valfrjáls.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila