Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w89 1.7. bls. 8-13
  • Höggormurinn afhjúpaður

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Höggormurinn afhjúpaður
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Frekari vitnisburður fyrir uppreisn á himnum
  • Satan afhjúpaður smám saman
  • Lykill ráðgátunnar
  • Heilagur leyndardómur opinberast
  • Jesús afhjúpar andstæðinginn
  • Sæði höggormsins — hvernig afhjúpað?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • Vertu á verði – Satan vill tortíma þér
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Gættu þín á óvini þínum, djöflinum!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Þekktu óvin þinn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
w89 1.7. bls. 8-13

Höggormurinn afhjúpaður

„Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir [Jehóva], og kom Satan og meðal þeirra.“ — JOBSBÓK 1:6.

1. (a) Hver er uppruni og merking nafnsins Satans? (b) Hve oft er nafnið „Satan“ nefnt í Ritningunni og hvaða spurningar vakna?

HVER er uppruni nafnsins Satan? Hvað merkir það? Í Biblíunni er það myndað úr þrem hebreskum bókstöfum, ש (sin), ט (tet) og נ (nun). Þegar sérhljóðatáknum er bætt við verður til orðið „Satan“ sem er, að sögn fræðimannsins Edwards Langtons, „komið af rót sem merkir ‚að standa á móti‘ eða ‚vera eða koma fram sem andstæðingur.‘“ (Samanber 1. Pétursbréf 5:8.) Þótt nafnið Satan komi fyrir liðlega 50 sinnum í Biblíunni stendur það aðeins 18 sinnum í Hebresku ritningunum, og þá aðeins í 1. Kroníkubók, Jobsbók og Sakaría. Sú spurning vaknar því hvenær menn hafi gert sér grein fyrir uppreisn Satans og starfsemi. Hvar í Hebresku ritningunum er Satan fyrst lýst greinilega?

2. Hvaða spurningu var ekki svarað strax eftir uppreisn Adams og Evu?

2 Biblían skýrir á einföldu en skýru máli hvernig synd og uppreisn áttu sér stað á jörðinni. Það gerðist í paradísargarði í Miðausturlöndum og frásagan segir að þar hafi höggormur tælt Adam og Evu til óhlýðni. (Sjá 1. Mósebók 2. og 3. kafla.) Þar eru þó engar frekari vísbendingar um það hvert hafi verið hið raunverulega afl sem talaði í gegnum höggorminn. Adam hafði þó kappnógan tíma til að líta um öxl og íhuga atburðina í Eden sem leiddu til þess að hann var gerður rækur þaðan. — 1. Mósebók 3:17, 18, 23; 5:5.

3. Hvernig syndgaði Adam, þótt hann léti ekki blekkjast, og hvaða afleiðingar hafði það fyrir mannkynið?

3 Adam vissi auðvitað að ekkert dýr getur talað af mannlegu viti. Hann vissi líka að Guð hafði ekki talað við hann í gegnum dýr áður en Evu var freistað. Hver var það þá sem freistaði hennar og sagði henni að óhlýðnast Guði? Páll segir að Adam hafi ekki látið blekkjast þótt konan hafi gert það. (1. Mósebók 3:11-13, 17; 1. Tímóteusarbréf 2:14) Ef til vill gerði Adam sér ljóst að einhver ósýnileg sköpunarvera var að bjóða þeim annan kost en þann að hlýða Guði. En þótt höggormurinn hafi ekki komið að máli við hann sjálfan kaus hann að fylgja konu sinni í óhlýðninni. Yfirveguð og vísvitandi óhlýðni Adams kostaði hann fullkomleikann, gerði manninn syndugan og leiddi til fordæmingar dauðans eins og sagt hafði verið fyrir. Með því að nota sér höggorminn var Satan þannig fyrsti manndráparinn. — Jóhannes 8:44; Rómverjabréfið 5:12, 14.

4, 5. (a) Hvaða spádómlegur dómur var kveðinn upp yfir höggorminum? (b) Hvaða ráðgátur fólust í spádóminum?

4 Uppreisnin í Eden kallaði á spádómlegan dóm frá Guði. Þessi dómur fól í sér heilagan leyndardóm sem taka myndi þúsundir ára að opinbera til fullnustu. Guð sagði við höggorminn: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ — Efesusbréfið 5:32; 1. Mósebók 3:15.

5 Í þessum spádómi eru allnokkrar ráðgátur. Hver var ‚konan‘? Var það Eva eða var þetta táknræn kona og langtum þýðingarmeiri en hún? Og hvert var ‚sæði konunnar‘ og ‚sæði höggormsins‘? Hver var eiginlega höggormurinn er myndi eiga sér afkvæmi er skyldi eiga í fjandskap við sæði konunnar? Eins og fjallað verður um hér á eftir hafði Jehóva greinilega ákveðið að þessum spurningum yrði svarað með tíð og tíma. — Samanber Daníel 12:4 og Kólossubréfið 1:25, 26.

Frekari vitnisburður fyrir uppreisn á himnum

6. Hvaða vitneskju höfum við um uppreisn á himnum rétt fyrir flóðið?

6 Er biblíusögunni vindur fram sjást merki annarrar uppreisnar á æðra tilverusviði, skömmu fyrir flóðið, um 1500 árum eftir syndafall mannsins. Biblíusagan segir: „Synir Guðs [sáu], að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust.“ Þessi óeðlilegu hjónabönd urðu til þess að „risarnir“ fæddust, „kapparnir, sem í fyrndinni voru víðfrægir.“ (1. Mósebók 6:1-4; samanber Jobsbók 1:6 þar sem fram kemur hverjir „synir Guðs“ voru.) Um 2400 árum síðar minnist Júdas stuttlega á þennan atburð er hann segir: „Og englana, sem . . . yfirgáfu eigin bústað, hefur hann í myrkri geymt í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.“ — Júdasarbréfið 6; 2. Pétursbréf 2:4, 5.

7. Hvað er ekki nefnt í fjölmörgum biblíubókum þrátt fyrir illsku mannkynsins?

7 Á þessum tíma fyrir flóðið var „illska mannsins . . . mikil á jörðinni og . . . allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga.“ Satan er þó ekki sérstaklega nafngreindur í hinni innblásnu 1. Mósebók sem aflið að baki uppreisn englanna og óguðleik mannsins. (1. Mósebók 6:5) Satt að segja er hvergi í Dómarabókinni, Samúelsbókunum né Konungabókunum, sem eru innblásnar af Guði og segja sögu Ísraels- og Júdamanna og greina frá stöðugu fráhvarfi þeirra til skurðgoðadýrkunar og falskrar tilbeiðslu, minnst á Satan með nafni sem hið ósýnilega afl að baki þeim atburðum, þrátt fyrir að hann hafi sjálfur játað einu sinni að hann hafi verið að „reika um jörðina.“ — Jobsbók 1:7; 2:2.

8. Var Job ljóst í upphafi hvaða hlutverki Satan gegndi í þjáningum hans? Hvernig vitum við það?

8 Jafnvel þegar við skoðum hina þýðingarmiklu frásögn af Job og þrengingum hans tökum við eftir að Job nefnir aldrei óvininn, Satan, sem orsök prófrauna sinna. Svo er að sjá sem hann hafi ekki á þeim tíma gert sér grein fyrir því deilumáli sem hann lék aðalhlutverk í. (Jobsbók 1:6-12) Hann gerði sér ekki grein fyrir að Satan hafi komið þessari deilu af stað með því að draga í efa að ráðvendni Jobs stafaði af óeigingjörnum hvötum. Þegar því eiginkona Jobs ávítaði hann með þessum orðum: „Heldur þú enn fast við ráðvendni þína? Formæltu Guði og farðu að deyja!“ svaraði hann einfaldlega: „Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?“ Úr því að Job vissi ekki hver stóð á bak við þrengingar hans taldi hann þær koma frá Guði og honum bæri því að sætta sig við þær. Ef svo hefði ekki verið hefði ekki reynt til fulls á ráðvendni Jobs. — Jobsbók 1:21; 2:9, 10.

9. Hvaða spurningum má varpa fram viðvíkjandi Móse?

9 En nú vaknar sú spurning hvers vegna Móse talaði ekki um Satan með nafni í Mósebókunum fimm, ef hann skrifaði einnig Jobsbók eins og við álítum og vissi því að Satan reikaði um jörðina. Hvers vegna er svona sjaldan talað um Satan í Hebresku ritningunum?a

Satan afhjúpaður smám saman

10. Hvað er okkur sagt um Satan í Hebresku ritningunum?

10 Enda þótt Jehóva hafi fordæmt athafnir, sem innblásnar voru af illum öndum, hlýtur hann í visku sinni hafa haft gilda ástæðu til að láta andstæðing sinn, Satan, fá takmarkaða umfjöllun í Hebresku ritningunum. (3. Mósebók 17:7; 5. Mósebók 18:10-13; 32:16, 17; 2. Kroníkubók 11:15) Þótt ritarar Hebresku ritninganna hljóti að hafa haft einhverja vitneskju um Satan og uppreisn hans á himnum var þeim innblásið aðeins að skilgreina og afhjúpa syndir þjóðar Guðs og þjóðanna umhverfis og vara við illsku þeirra. (2. Mósebók 20:1-17; 5. Mósebók 18:9-13) Satan var sjaldan nefndur á nafn.

11, 12. Hvernig vitum við að hebreskum riturum Biblíunnar var ekki ókunnugt um Satan og áhrif hans?

11 Hinum hebresku riturum Biblíunnar var ekki ókunnugt um ill og ofurmannleg áhrif Satans. Þeir þekktu til atburðanna í Eden, vissu af spillingu ‚sona Guðs‘ og þekktu frásögn Jobsbókar. Sakaría spámaður, sem skrifaði bók sína síðla á sjöttu öld f.o.t., sá Jósúa æðsta prest í sýn og „Satan honum til hægri handar til þess að ákæra hann.“ En engill Jehóva sagði við Satan: „[Jehóva] ávíti þig, Satan!“ (Sakaría 3:1, 2) Esra hinn skriftlærði, sem skráði sögu Ísraels og Júda á 5. öld f.o.t., sagði einnig að ‚Satan hafi hafist í gegn Ísrael og egnt Davíð til að telja Ísrael.‘ — 1. Kroníkubók 21:1.

12 Er kom fram á daga Sakaría var heilagur andi farinn að láta bera meira á Satan í Ritningunum. Þó liðu fimm aldir í viðbót áður en þessi illa andavera var afhjúpuð fyllilega í orði Guðs. Hvað getum við ályktað út frá Biblíunni um það hvers vegna afhjúpun Satans er tímasett með þessum hætti?

Lykill ráðgátunnar

13-15. (a) Hvaða undirstöðusannindi geta hjálpað okkur að skilja hvers vegna Satan er ekki afhjúpaður til fulls í Hebresku ritningunum? (b) Hvernig var Satan afhjúpaður fullkomlega þegar Jesús kom?

13 Í huga kristins manns, sem trúir á orð Guðs, er lykilinn að þessari ráðgátu og spurningunum, sem varpað var fram fyrr, ekki að finna í hinni æðri biblíugagnrýni rétt eins og Biblían væri ekkert annað en bókmenntalegt meistaraverk sprottið af hugviti manna. Lykill ráðgátunnar birtist í tvennum Biblíusannindum. Hin fyrri eru fólgin í orðum Salómons konungs er hann ritaði: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ (Orðskviðirnir 4:18; samanber Daníel 12:4; 2. Pétursbréf 1:19-21.) Sannleikurinn opinberast smátt og smátt í orði Guðs þegar það er tímabært í samræmi við þarfir og hæfni þjóna Guðs til að taka við slíkum sannindum. — Jóhannes 16:12, 13; samanber 6:48-69.

14 Hin undirstöðusannindin koma fram í orðum Páls postula til kristna lærisveinsins Tímóteusar: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu . . . til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Sonur Guðs, Jesús, átti að afhjúpa Satan, og það átti að vera skráð í Ritninguna þannig að kristni söfnuðurinn gæti staðið fastur gegn Satan til stuðnings drottinvaldi Jehóva. — Jóhannes 12:28-31; 14:30.

15 Ráðgáturnar í 1. Mósebók 3:15 hafa verið upplýstar smám saman á þessum grundvelli. Undir leiðsögn heilags anda Guðs, starfskraftar hans, vörpuðu Hebresku ritningarnar ljósglætu á hinn komandi Messías, sæði konunnar. (Jesaja 9:6, 7; 53:1-12) Hliðstætt því hafa þær varpað smá ljósglætu á hlutverk Satans sem óvinar Guðs og mannkyns. Með komu Jesú var Satan fyllilega afhjúpaður er hann gekk beint og fyrir opnum tjöldum gegn hinu fyrirheitna sæði, Jesú Kristi. Eftir því sem málin þróuðust á fyrstu öldinni var dregin upp skýr mynd af því í kristnu Grísku ritningunum hvaða hlutverki ‚konan,‘ himneskt andaskipulag Guðs, og sæðið, Jesús Kristur, ættu að gegna. Á sama tíma var opinberað skýrar hlutverk Satans, ‚hins gamla höggorms.‘ — Opinberunarbókin 12:1-9; Matteus 4:1-11; Galatabréfið 3:16; 4:26.

Heilagur leyndardómur opinberast

16, 17. Hvað fólst í ‚heilögum leyndardómi Krists‘?

16 Páll postuli fjallaði mikið um „leyndardóm Krists“ í bréfum sínum. (Efesusbréfið 3:2-4; Rómverjabréfið 11:25; 16:25) Þessi heilagi leyndardómur fjallaði um hið sanna ‚sæði‘ sem myndi að síðustu merja höfuð hins gamla höggorms, Satans djöfulsins. (Opinberunarbókin 20:1-3, 10) Leyndardómurinn fól meðal annars í sér að Jesús væri fyrsti og fremsti meðlimur þessa ‚sæðis,‘ en að fleiri ‚samarfar‘ myndu verða hluti af sæðinu með honum, fyrst úr hópi Gyðinga, síðan Samverja og að lokum heiðingja, uns tala ‚sæðisins‘ hefði fullnast. — Rómverjabréfið 8:17; Galatabréfið 3:16, 19, 26-29; Opinberunarbókin 7:4; 14:1.

17 Páll segir: „Hann [leyndardómurinn] var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum.“ Og hver var þessi leyndardómur? „Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.“ — Efesusbréfið 3:5, 6; Kólossubréfið 1:25-27.

18. (a) Hvernig benti Páll á að það hafi þurft tíma til að opinbera hinn heilaga leyndardóm? (b) Hvaða áhrif hefur opinberun þessa leyndardóms haft á skilning okkar á ‚hinum gamla höggormi‘?

18 Páll hreifst af því að hann skyldi af öllum mönnum vera valinn til að boða „fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists og að upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað.“ Eða, eins og hann orðaði það í bréfinu til Kólossumanna: „Leyndardómurinn, sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða, en nú hefur hann verið opinberaður Guðs heilögu.“ Rökrétt var að óvinurinn mikli yrði afhjúpaður fyrst verið var að opinbera leyndardóminn um ‚sæðið.‘ Ljóst er að Jehóva kaus að láta deiluna við Satan ekki vera í brennidepli fyrr en Messías kæmi. Og hver var betur til þess fallinn að afhjúpa Satan en sæðið, Kristur Jesús sjálfur? — Efesusbréfið 3:8, 9; Kólossubréfið 1:26.

Jesús afhjúpar andstæðinginn

19. Hvernig afhjúpaði Jesús óvininn?

19 Í upphafi þjónustu sinnar vísaði Jesús freistaranum skorinort á bug með þessum orðum: „Vík brott, Satan! Ritað er: ‚[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.‘“ (Matteus 4:3, 10) Við annað tækifæri afhjúpaði Jesús trúarlega fjendur sína sem rægðu hann og vildu feigan. Hann fordæmdi þann sem þeir þjónuðu og afhjúpaði hann sem aflið að baki höggorminum í Eden. Hann sagði: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því að í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því að hann er lygari og lyginnar faðir.“ — Jóhannes 8:44.

20. Á hvaða grundvelli gat Jesús afhjúpað Satan?

20 Hvernig gat Jesús verið svona viss í því sem hann ákærði Satan um? Hvernig þekkti hann Satan svona vel? Vegna þess að hann hafði verið á himnum og þekkti Satan af eigin raun. Sem „Orðið“ hafði Jesús þekkt hann áður en hann gerði uppreisn gegn alvöldum Drottni Jehóva. (Jóhannes 1:1-3; Kólossubréfið 1:15, 16) Hann hafði fylgst með slóttugum brögðum hans er hann beitti fyrir sig höggorminum í Eden. Hann hafði orðið vitni að lævísum áhrifum hans á bróðurmorðingjann Kain. (1. Mósebók 4:3-8; 1. Jóhannesarbréf 3:12) Síðar var Jesús við hirð Jehóva á himnum er „synir Guðs komu . . . og kom Satan og meðal þeirra.“ (Jobsbók 1:6; 2:1) Jesús gjörþekkti Satan og var reiðubúinn að afhjúpa hann eins og hann var — lygari, morðingi, rógberi og andstæðingur Guðs! — Orðskviðirnir 8:22-31; Jóhannes 8:58.

21. Hvaða spurningum er enn ósvarað?

21 Er við vitum af þessum öfluga óvini og áhrifum hans á mannkynið og sögu þess er eðlilegt að spyrja: Í hvaða frekari mæli er Satan afhjúpaður í kristnu Grísku ritningunum? Og hvernig getum við staðist vélabrögð hans og varðveitt kristna ráðvendni? — Efesusbréfið 6:11.

[Neðanmáls]

a Prófessor Russell segir í bók sinni The Devil — Perceptions of Evil From Antiquity to Primitive Christianity: „Sú staðreynd að hugmyndin um djöfulinn er ekki fullmótuð í Gamlatestamentinu er ekki nægilegt tilefni til að hafna tilvist hans í nútímaguðfræði Gyðinga og kristinna manna. Það væri upprunamisskilningur: Sú hugmynd að sannleikur orðs — eða hugtaks — finnist í fyrstu mynd þess. Sögulegur sannleikur þróast öllu heldur með tímanum.“ — Bls. 174.

Manst þú?

◻ Hvaða ráðgátur í 1. Mósebók 3:15 þörfnuðust skýringar?

◻ Hvaða vitnisburð um uppreisn á himnum er að finna í Hebresku ritningunum?

◻ Hvaða tvenn sannindi hjálpa okkur að skilja hvers vegna Satans er sjaldan getið í Hebresku ritningunum?

◻ Hvernig tengist ‚leyndardómur Krists‘ afhjúpun Satans?

[Myndir á blaðsíðu 9]

Áhrif Satans á mannkynið fyrir flóðið voru augljós.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Það var Satan — raunveruleg persóna — sem véfengdi ráðvendni Jobs gagnvart Guði.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila