Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.1. bls. 28-29
  • Gluggi á móðurkviði

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Gluggi á móðurkviði
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Ósnertanleg‘ í móðurkviði?
  • Hvað segir Biblían um fóstureyðingar?
    Biblíuspurningar og svör
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Fóstureyðing – hve dýru verði?
    Vaknið! – 1987
  • Fóstureyðingar
    Vaknið! – 2017
Sjá meira
Vaknið! – 1997
g97 8.1. bls. 28-29

Gluggi á móðurkviði

Eftir fréttaritara Vaknið! í Ástralíu

MEÐ háþróuðum fósturrannsóknum geta læknar nú með vaxandi nákvæmni greint margs konar fósturgalla, bæði líkamlega og geðræna. Einhverjar algengustu aðferðirnar eru ómskoðun og legvatnsástunga.

Við ómskoðun er beitt hátíðnihljóðbylgjum fyrir ofan heyrnarsvið mannsins til að fá fram tölvumynd af barni í móðurkviði. Legvatnsástunga er fólgin í því að taka sýnishorn með sprautunál af legvatninu sem umlykur barnið, og leita að merkigenum í því um fósturgalla, svo sem Downs-heilkenni.

Þegar læknisfræðileg tækni af þessu tagi, samhliða völdum fóstureyðingum, kastast inn í þjóðfélagið eins og hnullungur í poll veldur hún miklum öldugangi innan læknasiðfræðinnar.a Því miður er verðmætamat heimsins ekki traustur pallur til að standa á og skera úr siðferðilegum og siðfræðilegum spurningum, heldur einna líkast stjórnlausum fleka í haugabrimi.

Í sumum löndum eru valdar fóstureyðingar að áeggjan tækninnar komnar langt á undan lagabreytingum. Í 13 könnunum í Bandaríkjunum á 15 ára tímabili töldu á bilinu 75 til 78 prósent svarenda að barnshafandi kona ætti að hafa lagalegan rétt til að eyða fóstri ef sterkar vísbendingar væru fyrir því að það væri alvarlega vanskapað eða afbrigðilegt. Í sumum löndum er „fyrirsjáanleg fötlun“ fullgild ástæða til að leyfa fóstureyðingu.

Í Ástralíu höfðaði móðir skaðabótamál á hendur lækni og vann það, en hann hafði ekki greint að hún væri með rauðu hundana snemma á meðgöngutímanum. Ef móðir fær rauðu hundana snemma á meðgöngutímanum getur það valdið alvarlegri bæklun hjá ófæddu barni hennar. Móðirin hélt því fram að mistök læknisins hefðu valdið því að hún fékk ekki tækifæri til að eyða fóstrinu.

Í grein í tímaritinu Queensland Law Society Journal í apríl 1995 fjallaði Jennifer Fitzgerald um laga- og siðfræðilegar afleiðingar þessa máls, en hún stundar lagarannsóknir: „Hún [barnshafandi kona] þarf ekki aðeins að ákveða hvort hún vilji eignast barnið heldur líka hvers konar barn hún vilji eignast.“ En hvaða fötlun er fullnægjandi tilefni lögmætrar fóstureyðingar? spyr Fitzgerald. „Skarð í vör, gómglufa, tileygð, Downs-heilkenni, hryggrauf?“ Sums staðar í heiminum er það kynferði barnsins, einkum ef það er stúlkubarn!

‚Ósnertanleg‘ í móðurkviði?

Hvernig fer fyrir hinum ófæddu þegar hulunni er svipt af genamengi mannsins og smásjáin tekur við af glugganum á móðurkviði? Verða fóstur með smávægilega galla valin úr til eyðingar? Fóstureyðingum hefur fjölgað til muna á síðustu áratugum en ekki fækkað. Þessi himinháa alda og málareksturinn sem fylgir henni — svo sem málið hér á undan — veldur læknum áhyggjum. Eins og skiljanlegt er gæti þetta ástand sett þá í enn meiri varnarstöðu í læknisstarfi sínu, svo sem að krefjast ákveðinna rannsókna, ekki fyrst og fremst í þágu móður og barns heldur sjálfum sér til varnar. Fitzgerald segir þetta líklega leiða til þess að „fósturrannsóknum fjölgi og þar með völdum fóstureyðingum einnig.“ Hún bætir við að með þessu yrði komið á „eins konar stéttaskiptingu þar sem hinir ‚ósnertanlegu‘ yrðu ‚eyðanlegir.‘“

Og hvað þá ef móðir, sem fæðir fatlað barn, fékk fullt tækifæri til að eyða því — og var jafnvel hvött til þess? „Kannski kemur að því að foreldrum verður sagt að þeir geti ekki vænst stuðnings hins opinbera til að annast fötluð börn sín vegna þess að þeir kusu að eignast barnið þótt þeir hafi getað látið eyða því,“ segir Fitzgerald.

Þá má ekki gleyma að valin fóstureyðing sendir fötluðu fólki okkar á meðal ákveðin skilaboð. Þegar þjóðfélag losar sig við ófædd börn sökum fósturgalla, hefur það þá ekki þau áhrif að fötluðum finnist þeir enn meiri byrði fyrir aðra? Verður erfiðara fyrir þá að horfast í augu við hina neikvæðu sjálfsmynd sem þeir ef til vill hafa?

Að nútímaþjóðfélag skuli losa sig við ófædd börn líkt og iðnverkamenn henda gölluðum hlutum af færibandi, kemur heim og saman við lýsingu Biblíunnar á fólki á „síðustu dögum“ þessa illa heims. Hún sagði fyrir að fólk myndi að stórum hluta til vera ‚kærleikslaust.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Gríska orðið aʹstorgoi, sem þýtt er ‚kærleikslaus,‘ vísar til hinna eðlilegu kærleiksbanda innan fjölskyldunnar, svo sem móðurástar.

Fólk þessa heims er stýrislaust og ‚hrekst og berst fram og aftur af hverjum kenningarvindi,‘ gerólíkt þeim sem fylgja óbrigðulu orði Guðs. (Efesusbréfið 4:14) Biblían er eins og akkeri sálarinnar og heldur okkur siðferðilega stöðugum og staðföstum í ölduróti lífsins. (Samanber Hebreabréfið 6:19.) Enda þótt kristnir menn geri sér ljóst að kona gæti sjálfkrafa misst alvarlega vanskapað fóstur, hafa þeir algera óbeit á þeirri hugmynd að gægjast inn í móðurkvið til að kanna hvort barnið sé nógu hraust til að eignast það.b — Samanber 2. Mósebók 21:22, 23.

Loforð Guðs um þann tíma þegar „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur,‘“ styrkir þann ásetning kristins manns að varðveita ráðvendni. (Jesaja 33:24; 35:5, 6) Já, þrátt fyrir þá erfiðleika, sem fatlaðir eiga við að glíma núna, og þær fórnir, sem færa þarf til að annast þá, mun „guðhræddum mönnum, er óttast Guð, . . . vel vegna.“ — Prédikarinn 8:12.

[Neðanmáls]

a Valin fóstureyðing felst í því að eyða fóstri sem hefur ekki þau einkenni sem foreldri (eða foreldrar) óska.

b Þetta þýðir auðvitað ekki að það væri rangt af kristinni konu að gangast undir rannsókn til að kanna heilsu ófædds barns. Margar biblíulega réttmætar læknisfræðilegar ástæður gætu legið fyrir því að læknir mælti með slíkri rannsókn. En sumar rannsóknir gætu verið áhættusamar fyrir barnið, þannig að það væri ráðlegt að ræða um þær við lækninn. Í sumum löndum gætu kristnir foreldrar orðið fyrir þrýstingi að eyða fóstri ef slík rannsókn leiddi í ljós að barnið hefði alvarlega galla. Skynsamlegt væri að vera undir það búinn að halda sér fast við meginreglur Biblíunnar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila