Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.1. bls. 21-23
  • Hvernig get ég tileinkað mér sannleikann?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig get ég tileinkað mér sannleikann?
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Sannprófaðu hann
  • Hefurðu ekki tíma til að nema?
  • Segðu frá því sem þú lærir
  • Gættu að félagsskapnum
  • Kristnir menn tilbiðja í anda og sannleika
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Láttu ekki sannleikann ganga þér úr greipum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • ,Ég geng í sannleika þínum‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
  • ,Göngum á vegi sannleikans‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
Sjá meira
Vaknið! – 1999
g99 8.1. bls. 21-23

Ungt fólk spyr . . .

Hvernig get ég tileinkað mér sannleikann?

„Ég var alin upp sem vottur Jehóva og hélt alltaf að maður þekkti Jehóva ef maður hefði fengið þannig uppeldi. Það var mesta vitleysa!“ — Aníta.

„HVAÐ er sannleikur?“ Þessi fræga spurning var borin fram af Pontíusi Pílatusi, manninum sem framseldi Jesú til aftöku. (Jóhannes 18:38) En það var greinilega ekki ætlun Pílatusar að koma af stað hreinskilnislegum samræðum um þetta mál heldur koma í veg fyrir þær með kaldhæðnislegri spurningu sinni. Hann hafði raunverulega engan áhuga á að vita hvað væri „sannleikur.“ Hvað um þig? Hefur þú áhuga á sannleikanum?

Heimspekingar hafa pælt í því öldum saman hvað sé sannleikur en árangurinn er skammarlega lítill. En þú getur fengið svar við spurningu Pílatusar. Jesús Kristur kenndi að orð Guðs væri sannleikur. Hann kallaði líka sjálfan sig ‚sannleikann.‘ Og Jóhannes postuli skrifaði: „Sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist,“ það er að segja fyrir hans atbeina. (Jóhannes 1:17; 14:6; 17:17) Kenningar kristninnar í heild, sem síðar urðu hluti af Biblíunni, eru því einnig kallaðar ‚sannleikurinn‘ eða ‚sannleiki fagnaðarerindins.‘ (Títusarbréfið 1:14; Galatabréfið 2:14; 2. Jóhannesarbréf 1, 2) Þessar kristnu kenningar fjalla um einkanafn Guðs, stofnsetningu Guðsríkis, upprisuna og lausnargjald Jesú, svo nokkuð sé nefnt. — Sálmur 83:19; Matteus 6:9, 10; 20:28; Jóhannes 5:28, 29.

Þúsundir barna og unglinga hafa lært sannleika Biblíunnar af kristnum foreldrum sínum. En er þá sjálfgefið að þau „lifi í sannleikanum“? (3. Jóhannesarbréf 3, 4) Það er ekki víst. Jenný er tvítug og ólst upp sem vottur Jehóva. „Mamma fór með mig á vottamót og gaf í skyn að ég ætti að hugsa um að láta skírast,“ segir hún. „En ég hugsaði með mér: ‚Ég vil aldrei verða vottur. Ég vil bara skemmta mér!‘“

Sumir unglingar trúa því sem þeim hefur verið kennt en hafa ekki skilið almennilega hvað Biblían raunverulega kennir. Hvaða hætta fylgir því? Jesús benti á að sumir hefðu „enga rótfestu.“ Þeir halda sínu striki um tíma en þegar „þrenging verður síðan eða ofsókn vegna orðsins, bregðast þeir þegar.“ (Markús 4:17) Sumir geta skýrt biblíutengda trú sína að vissu marki en hafa ekki kynnst Guði persónulega. „Ég held að ég hafi ekki átt raunverulegt samband við Jehóva þegar ég var yngri,“ segir Anna. „Ætli ég hafi ekki aðallega treyst á samband foreldra minna við hann.“

Hvar stendur þú? Er Jehóva bara Guð foreldra þinna? Eða geturðu sagt eins og sálmaritarinn: „Ég treysti þér, [Jehóva], ég segi: ‚Þú ert Guð minn!‘“ (Sálmur 31:15) Það getur þurft hugrekki til að horfast í augu við staðreyndir. „Heiðarleg sjálfsrannsókn var fyrsta skrefið hjá mér,“ segir Alexander. Eftir mikla sjálfsrýni rennur kannski upp fyrir þér að þú hefur aldrei sannprófað sannleikann sjálfur, það er að segja kenningasafn kristninnar í heild. Þig skortir kannski örugga sannfæringu þannig að líf þitt virðist tilgangslaust eða stefnulaust.

Á samkomum sínum syngja vottar Jehóva oft söng sem nefnist „Tileinkaðu þér sannleikann.“a Kannski þarftu að gera það. En hvernig áttu að fara að því? Hvar áttu að byrja?

Sannprófaðu hann

Páll postuli ráðlagði í Rómverjabréfinu 12:2: „Fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ Hvernig átt þú að gera það? Með því að byggja upp nákvæma „þekkingu á sannleikanum.“ (Títusarbréfið 1:1) Íbúar Berojuborgar til forna gleyptu ekki hugsunarlaust við því sem þeir heyrðu, heldur „rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu [sem þeir voru að læra] væri þannig farið.“ — Postulasagan 17:11.

Ung kristin stúlka, Elín, áttaði sig á að hún þyrfti að gera þetta líka. „Ég fór að rannsaka málið,“ segir hún. „Ég spurði mig: ‚Hvernig veit ég að þetta er rétta trúin? Hvernig veit ég að það er til Guð sem heitir Jehóva?‘“ Hví ekki að semja þína eigin námsáætlun? Þú gætir byrjað á bókinni Þekking sem leiðir til eilífs lífs.b Lestu hana vandlega. Flettu upp öllum ritningarstöðum sem vísað er í og taktu eftir hvernig þeir tengjast efninu. Það kemur þér kannski á óvart hvernig afstaða þín til sannleikans breytist þegar þú verður „verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:15.

Pétur postuli segir að sumt sé „þungskilið“ í Biblíunni og þú átt eftir að uppgötva það. (2. Pétursbréf 3:16) En andi Guðs getur hjálpað þér að skilja jafnvel flókin viðfangsefni. (1. Korintubréf 2:11, 12) Biddu um hjálp Guðs þegar þú átt erfitt með að skilja eitthvað. (Sálmur 119:10, 11, 27) Reyndu að grúska í ritum Varðturnsfélagsins. Ef þér finnst þú ekki kunna það skaltu biðja um aðstoð. Foreldrar þínir eða einhver annar þroskaður safnaðarmaður getur orðið þér að liði.

Mundu að þú ert ekki að nema til að flíka þekkingu þinni. „Maður er að kynna sér eiginleika Jehóva,“ segir Karl. Taktu þér tíma til að hugleiða það sem þú lest þannig að það festi rætur í hjartanu. — Sálmur 1:2, 3.

Þú hefur líka gagn af því að sækja safnaðarsamkomur. Kristni söfnuðurinn er nú einu sinni „stólpi og grundvöllur sannleikans“ eins og Páll postuli skrifaði. (1. Tímóteusarbréf 3:15) Sumir unglingar kvarta undan því að samkomurnar séu leiðinlegar. En Karl bendir á að ‚maður hafi lítið gagn af samkomunum ef maður undirbýr sig ekki fyrir þær.‘ Undirbúðu þig fyrir samkomur. Þær eru miklu skemmtilegri ef þú tekur þátt í þeim en ert ekki bara áheyrandi.

Hefurðu ekki tíma til að nema?

En það er auðvitað ekki hlaupið að því að finna tíma til náms. Þú þarft að sækja skóla, læra heima og vinna þinn skerf af húsverkunum. „Ég reyndi í mörg ár að undirbúa mig fyrir samkomur og nema sjálf en mér tókst það aldrei,“ segir Súsanna.

En hún lærði að ‚nota hverja stundina‘ og taka tíma frá öðru sem minna máli skipti. (Efesusbréfið 5:15, 16) Hún byrjaði á því að gera lista yfir allt sem hún þurfti að fara yfir. Síðan ætlaði hún sér ákveðinn tíma til þess. En hún gerði líka ráð fyrir tíma til afþreyingar. „Skipuleggðu ekki hverja einustu stund sem þú átt lausa,“ ráðleggur hún. „Við þurfum öll einhvern tíma til að slaka á.“ Sennilega myndi það líka reynast þér vel að gera stundaskrá.

Segðu frá því sem þú lærir

Að nota það sem þú lærir er mjög góð leið til að tileinka sér það. Reyndu að kenna einhverjum öðrum. Sálmaritarinn sagði: „Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.“ — Sálmur 49:4.

Ef þú skammast þín ekki fyrir fagnaðarerindið hikarðu ekki við að segja skólafélögum og öðrum frá því. (Rómverjabréfið 1:16) Ef þú notar þau tækifæri, sem bjóðast, til að segja öðrum frá sannleikanum ertu að nota það sem þú lærir. Þannig festirðu sannleikann í huga þér og hjarta.

Gættu að félagsskapnum

Sumir kristnir menn á fyrstu öld tóku góðum andlegum framförum. En Páll postuli þurfti fljótlega að skrifa þeim og spyrja: „Hver hefur hindrað yður í að hlýða sannleikanum?“ (Galatabréfið 5:7) Þannig fór fyrir Axel. Hann viðurkennir að „slæmur félagsskapur“ hafi spillt viðleitni sinni til að kynna sér orð Guðs. Þú gætir líka þurft að breyta félagsskap þínum að einhverju leyti til að taka andlegum framförum.

Góður félagsskapur getur aftur á móti stuðlað að framförum. Orðskviðirnir 27:17 segja: „Járn brýnir járn, og maður brýnir mann.“ Veldu þér góðar fyrirmyndir — fólk sem fer eftir sannleikanum. Vel má vera að þú þurfir ekki að leita lengra en innan fjölskyldunnar. Jenný segir: „Afi var besta fyrirmynd mín. Hann notaði alltaf þrjá tíma til að búa sig undir safnaðarbóknámið á sunnudögum. Hann fletti upp hverjum einasta ritningarstað námsefnisins í ýmsum biblíuþýðingum og fletti upp á orðum í orðabók. Hann var sérfræðingur í lítt þekktum staðreyndum í Biblíunni. Maður gat spurt hann um hvað sem var og hann fann svarið.“

Þegar þú tileinkar þér sannleikann eignast þú verðmæta eign sem þú vildir ekki skipta á fyrir nokkuð annað. Líttu því aldrei á sannleikann aðeins sem ‚trú foreldra þinna.‘ Þú ættir að hafa sömu sannfæringu og sálmaritarinn sem sagði: „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur [Jehóva] mig að sér.“ (Sálmur 27:10) Ef þú veist hvað Biblían kennir, trúir því, segir öðrum frá trú þinni og síðast en ekki síst, lifir eftir henni, þá sýnirðu í verki að þú hefur tileinkað þér sannleikann.

[Neðanmáls]

a Úr söngbókinni Syngið Jehóva lof, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

b Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Sannprófaðu sannleikann með rannsóknum og einkanámi.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila