-
Að hlýða samviskunniVarðturninn – 2007 | 1. nóvember
-
-
Að hlýða samviskunni
„Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint.“ — TÍTUSARBRÉFIÐ 1:15.
1. Hvaða afskipti hafði Páll af söfnuðunum á Krít?
EFTIR að Páll postuli hafði farið í þrjár trúboðsferðir var hann handtekinn og að lokum sendur til Rómar þar sem hann var í haldi í tvö ár. Hvað gerði hann þegar honum hafði verið sleppt? Einhvern tíma eftir það heimsótti hann eyna Krít ásamt Títusi. Hann skrifaði honum síðar: „Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga.“ (Títusarbréfið 1:5) Verkefni Títusar fól í sér samskipti við fólk með ólíka samvisku.
2. Hvaða vandamáli þurfti Títus að taka á þegar hann var á eynni Krít?
2 Páll gaf Títusi leiðbeiningar um hæfniskröfur safnaðaröldunga. Síðan sagði hann: „Margir eru þverbrotnir og fara með hégómamál og leiða í villu.“ Þeir ‚kollvörpuðu heilum heimilum er þeir kenndu það sem eigi á að kenna‘. Títus átti að „vanda . . . um við þá“. (Títusarbréfið 1:10-14; 1. Tímóteusarbréf 4:7) Páll sagði að hugur þeirra og samviska væri ‚flekkuð‘ og notaði þar orð sem merkir að lita efni, til dæmis vandaða flík. (Títusarbréfið 1:15) Sumir þessara manna voru hugsanlega af gyðinglegum uppruna því að þeir ‚héldu fram umskurn‘. Söfnuðunum nú á tímum stafar ekki hætta af mönnum sem halda fram þessu ákveðna sjónarmiði en það má samt sem áður læra heilmikið um samviskuna af þeim ráðleggingum sem Títus fékk frá Páli.
Menn með flekkaða samvisku
3. Hvað skrifaði Páll Títusi um samviskuna?
3 Við skulum sjá í hvaða samhengi Páll minnist á samviskuna. „Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska. Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum.“ Ljóst er að sumir þeirra þurftu að breyta sér til að verða „heilbrigðir í trúnni“. (Títusarbréfið 1:13, 15, 16) Þeir áttu erfitt með að gera greinarmun á hreinu og óhreinu og þar átti samviskan hlut að máli.
4, 5. Hvað var að hjá sumum í söfnuðunum og hvaða áhrif hafði það á þá?
4 Meira en tíu árum áður hafði hið stjórnandi ráð kristna safnaðarins komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri lengur nauðsynlegt að umskerast til að verða tilbiðjandi hins sanna Guðs, og ráðið hafði tilkynnt söfnuðunum það. (Postulasagan 15:1, 2, 19-29) En sumir Krítverjar ‚héldu enn fram umskurn‘. Þeir andmæltu opinskátt hinu stjórnandi ráði með því að „kenna það, sem eigi á að kenna“. (Títusarbréfið 1:10, 11) Hugsanlegt er að þeir hafi, sökum ranghugmynda sinna, hvatt fólk til að halda ákvæði lögmálsins um mataræði og trúarlegan hreinleika. Vera má að þeir hafi jafnvel aukið við það sem lögmálið sagði, rétt eins og forverar þeirra gerðu á dögum Jesú, og jafnframt aðhyllst mannasetningar og goðsagnir Gyðinga. — Markús 7:2, 3, 5, 15; 1. Tímóteusarbréf 4:3.
5 Þessi hugsunarháttur hafði óæskileg áhrif á dómgreind þeirra og siðferðisvitund, það er að segja samviskuna. Páll skrifaði: „Flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint.“ Samviskan varð svo brengluð að hún var ekki lengur áreiðanlegur mælikvarði á verk þeirra og gildismat. Og síðan dæmdu þeir trúsystkini sín í málum sem voru persónulegs eðlis, málum þar sem einn kristinn maður gat ákveðið eitt en annar tekið ólíka ákvörðun. Þar með voru þessir Krítverjar farnir að telja óhreint það sem var í rauninni hreint. (Rómverjabréfið 14:17; Kólossubréfið 2:16) Þeir sögðust þekkja Guð en verkin sýndu annað. — Títusarbréfið 1:16.
„Hreinum hreinir“
6. Hvaða tvenns konar fólk nefndi Páll?
6 Hvað getum við lært af því sem Páll skrifaði Títusi? Tökum eftir andstæðunum sem hann bregður upp: „Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.“ (Títusarbréfið 1:15) Páll átti auðvitað ekki við það að bókstaflega allt sé hreint og leyfilegt fyrir kristinn mann sem er siðferðilega hreinn. Við getum verið viss um það vegna þess að hann hafði tekið skýrt fram í öðru bréfi að þeir sem stunduðu saurlifnað, skurðgoðadýrkun, spíritisma og fleira myndu „ekki erfa Guðs ríki“. (Galatabréfið 5:19-21) Við hljótum því að álykta að Páll hafi verið að setja fram almenn sannindi um tvenns konar fólk, þá sem eru andlega og siðferðilega hreinir og þá sem eru það ekki.
-
-
Að hlýða samviskunniVarðturninn – 2007 | 1. nóvember
-
-
Ólíkar raddir og ólíkar ákvarðanir
9. Hvert er hlutverk samviskunnar fyrst „allir hlutir eru hreinum hreinir“?
9 En hvað átti Páll við þegar hann sagði: „Allir hlutir eru hreinum hreinir“? Hann vísar hér til kristinna manna sem höfðu lagað hugsun sína og siðferðisvitund að mælikvarða Guðs sem er að finna í innblásnu orði hans. Þeir sem hafa gert það vita að bræður og systur hafa ákveðið svigrúm í málum þar sem ekki liggur fyrir beint bann frá Guði. Þeir gæta þess að vera ekki dómharðir heldur líta svo á að það sem Guð fordæmir ekki sé ‚hreint‘. Þeir ætlast ekki til þess að allir aðrir hugsi nákvæmlega eins og þeir sjálfir í málum þar sem ekki er að finna sérstakar leiðbeiningar í Biblíunni. Lítum á dæmi af þessu tagi.
-