Spurningar frá lesendum
◼ Ber að skilja greinarnar um að hafa velþóknun Guðs svo að kristnir menn megi tala við þá sem einu sinni voru álitnir „viðurkenndir félagar“ en fóru síðar út í ranga breytni og skyldu þá sniðgengnir?
Já, það er rétt. Greinarnar í Varðturninum þann 1. júní 1989 lýsa biblíulegum forsendum þess að breyta viðhorfi okkar til óskírðra sem taka þátt í opinberri prédikun með vottum Jehóva. Áður kölluðum við slíka einstaklinga „viðurkennda félaga.“ Ef þeir brutu lög Guðs og iðruðust ekki var söfnuðinum gert viðvart og meðlimir hans forðuðust síðan samtöl og annan félagsskap við þá.
Eins og kemur fram í greinunum krefst Biblían þess að gripið sé til slíkrar ögunar gagnvart skírðum einstaklingi sem brýtur lög Guðs en iðrast þess ekki. (1. Korintubréf 5:11-13; 2. Jóhannesarbréf 9-11) Óskírður einstaklingur, sem fer út á ranga braut, ber ekki jafnþunga ábyrgð og sá sem skírður er. (Lúkas 12:48) Með því að hann er ekki skírður hefur hann ekki hlotið velþóknun eða viðurkenningu Guðs þannig að brottrekstur er ekki viðeigandi í hans tilviki. Í aðalatriðum er hann núna einn af heiminum og koma má fram við hann í samræmi við það.
Hvernig ber okkur þá að koma fram við þann sem áður var nefndur „viðurkenndur félagi“ en er nú ekki lengur hæfur til að taka þátt í þjónustunni vegna rangrar breytni sinnar? Úr því að hann hefur ekki verið gerður rækur ber að koma fram við hann eins og einstakling úr heiminum.a Að sjálfsögðu ráðlagði Varðturninn á bls. 31 kristnum mönnum að sýna viðeigandi varúð í umgengni við hann. Þeir gera sér ljóst að hinn óskírði einstaklingur kann að hafa gerst sekur um rangsleitni þrátt fyrir vitneskju sína um kröfur Guðs. Þroskaðir kristnir menn verða því að vera gætnir í umgengni sinni við hann. Orð Guðs getur svarað flestum spurningum um það í hvaða mæli rétt sé að hafa samskipti við hann. Við getum hugleitt leiðbeiningar svo sem í 1. Korintubréfi 15:33 og Orðskviðunum 13:20 og spurt okkur síðan: ‚Hvaða félagsskap er rétt að ég eigi við einstakling úr heiminum sem lifir ekki eftir stöðlum kristninnar?‘ Ef öldungarnir sjá að söfnuðinum stafar hætta af veraldlegum manni af þessu tagi geta þeir einslega varað þá í söfnuðinum við sem virðast vera í hættu.
Með tíð og tíma kann óskírður einstaklingur, sem talist hafði „viðurkenndur félagi,“ að láta í ljós iðrunarmerki og langa til að nema Biblíuna á ný. (Postulasagan 26:20) Hann getur snúið sér til öldunganna í söfnuðinum, þar sem hann sækir nú samkomur, sem munu sjá til þess að hann fái biblíunám ef þeir telja það ráðlegt. Hið sama mun gilda í framtíðinni um hvern þann sem gerir sig óhæfan til að vera óskírður boðberi en sýnir iðrun síðar. Yfirleitt ætti hann að tala við öldungana tvo sem tóku á rangsleitni hans eða þá tvo sem öldungaráðið valdi til að fara yfir málið á nýjan leik, ef hann óskaði þess.
Eins og kemur fram í greinunum er málið annars eðlis þegar um er að ræða foreldra og ófullveðja börn á heimilinu — börn sem þeir bera lagalega ábyrgð á og er skylt að sjá fyrir. (Efesusbréfið 6:1-4) Biblían leggur foreldrum þá skyldu á herðar að fræða og leiðbeina börnum sínum. Foreldrarnir (eða það foreldri sem er í trúnni) getur kosið að halda einslega biblíunám með hinu villuráfandi barni eða hafa það með í biblíunámi og umræðum fjölskyldunnar.
Enda þótt greinarnar í Varðturninum krefjist breytingar á viðhorfum okkar og aðferðum er það allt í samræmi við Ritninguna sem er nytsöm „til menntunar í réttlæti.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
◼ Til þess að bróðir sé hæfur til að vera öldungur í söfnuðinum er þá nauðsynlegt, í ljósi orðanna í Títusarbréfinu 1:6, að öll börnin hans séu skírð?
Í fyrsta kafla Títusarbréfsins greindi Páll frá kröfunum sem gera þarf til að maður megi þjóna sem öldungur í söfnuðinum. Ein var sú að bróðirinn væri ‚óaðfinnanlegur og ætti trúuð börn.‘
Þetta getur ekki merkt að börn öldungs verði öll að vera skírð, því að sum geta verið í vöggu. Títusarbréfið 1:6 hlýtur því að merkja að ung börn hans ættu annaðhvort að vera skírð eða vera að læra sannindi Biblíunnar, taka við þeim, fara eftir þeim og stefna í átt til skírnar meðan þau eru enn á ábyrgð fjölskyldunnar. (1. Korintubréf 7:14) Öldungur ætti að gera sér far um að gera börn sín að lærisveinum og þau mega ekki vera „sökuð um gjálífi eða óhlýðni.“b
Við skiljum þetta betur með því að veita athygli hvernig Biblían notar orðið ‚trúaður.‘ Að sjálfsögðu er hægt að vera trúaður eða trúa á margt. (Postulasagan 26:27, 28; 2. Þessaloníkubréf 2:3, 11; Jakobsbréfið 2:19) Í flestum tilvikum er sagnorðið „að trúa“ tengt því að taka við kristni og láta skírast. (Postulasagan 8:13; 18:8; samanber 19:1-5.) Skírnin er sérstakt merki þess að einstaklingur sé trúaður. — Postulasagan 2:41, 44; 4:4, 32.
Sum ung börn öldungs eru kannski enn ekki líkamlega, tilfinningalega eða andlega reiðubúin til að láta skírast. Samt kallar Títusarbréfið 1:6 þau „trúuð börn“ ef þau stefna fram til skírnar í samræmi við aldur sinn og aðstæður.
[Neðanmáls]
a Ef einhver í þessari aðstöðu veit ekki af hinum breyttu viðhorfum okkar væri tillitssamt að vekja athygli hans á þessum greinum í Varðturninum.
b Sjá einnig Varðturninn (enska útgáfu) þann 15. febrúar 1972, bls. 126.