Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.9. bls. 31-32
  • Spurningar frá lesendum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Spurningar frá lesendum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Svipað efni
  • Það sem Jesús Kristur getur gert fyrir okkur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • Þakklát fyrir einstaka góðvild Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Einstök góðvild Guðs frelsaði okkur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
  • Útbreiðum fagnaðarboðskapinn um einstaka góðvild Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.9. bls. 31-32

Spurningar frá lesendum

Hvernig nær gagnið af æðstaprestsþjónustu Krists Jesú, sem nefndur er í Hebreabréfinu 4:15, 16, til hinna ‚annarra sauða‘ núna?

Enda þótt æðstaprestshlutverk Jesú skipti fyrst og fremst máli fyrir þá sem verða með honum á himnum njóta kristnir menn með jarðneska von nú þegar góðs af prestsþjónustu hans.

Allt frá dögum Adams hefur syndin íþyngt mönnum. Við þjáumst af arfgengum ófullkomleika eins og Ísraelsmenn. Í aldanna rás leituðu þeir ásjár æðstu presta og aðstoðarpresta sem báru fram fórnir bæði fyrir sínar eigin syndir og fólksins. Loks var Jesús smurður sem prestur „að hætti Melkísedeks.“ Eftir upprisu sína gekk hann fram fyrir Jehóva til að bera fram verðgildi fullkominnar mannsfórnar sinnar. — Sálmur 110:1, 4.

Hvað þýðir það fyrir okkur nú á dögum? Í bréfi sínu til Hebreanna ræddi Páll um æðstaprestsþjónustu Jesú. Við lesum í Hebreabréfinu 5:1: „Svo er um hvern æðsta prest, sem úr flokki manna er tekinn, að hann er settur fyrir menn til þjónustu frammi fyrir Guði, til þess að bera fram gáfur og fórnir fyrir syndir.“ Síðan, í 5. og 6. versi, benti Páll á að Jesús hafi orðið æðsti prestur sem getur verið okkur til gagns.

Hvernig þá? Páll skrifaði: „Þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið. Þegar hann var orðinn fullkominn, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis.“ (Hebreabréfið 5:8, 9) Í fyrstu gæti þetta vers komið okkur til að hugsa um það gagn sem við getum hlotið af í nýja heiminum þegar synd þeirra, sem eru Guði og Jesú trúir, verður afmáð og þeir fá eilíft líf. Það eru réttmætar framtíðarhorfur byggðar á endurlausnargildi fórnar Jesú og æðstaprestsþjónustu hans.

En í rauninni getum við notið góðs af hlutverki eða þjónustu Jesú sem æðsta prests nú þegar. Taktu eftir hvað Hebreabréfið 4:15, 16 segir: „Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar. Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.“ Hvenær ætli þessi ‚hagkvæmi tími‘ sé? Hann er þegar við þörfnumst miskunnar og óverðskuldaðrar náðar. Vegna ófullkomleika okkar ættum við öll að finna fyrir þessari þörf núna.

Hebreabréfið 4:15, 16 bendir á að Jesús — sem er prestur á himnum núna — hafi einu sinni verið maður, þannig að hann geti verið samúðarfullur og skilningsríkur. Við hverja? Okkur. Hvenær? Núna. Meðan Jesús var maður kynntist hann því andlega og líkamlega álagi sem menn þurfa að þola. Stundum var hann hungraður og þyrstur. Og þótt fullkominn væri þreyttist hann. Það ætti að hughreysta okkur. Af hverju? Af því að Jesús fann fyrir eðlilegri þreytu skilur hann hvernig okkur líður oft. Og mundu líka að Jesús þurfti að takast á við öfund og deilur meðal postula sinna. (Markús 9:33-37; Lúkas 22:24) Já, hann mátti þola ýmis vonbrigði. Ætti það ekki að veita okkur það trúartraust að hann skilji okkur þegar við verðum vonsvikin og kjarklítil? Vissulega.

Hvað geturðu gert þegar þú missir móðinn? Sagði Páll að þú yrðir bara að bíða uns æðsti prestur þinn, Jesús, hjálpaði þér í nýja heiminum að verða fullkominn í huga og á líkama? Nei. Páll sagði: „Vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma,“ og það felur í sér nútímann. Auk þess var Jesú „freistað . . . á allan hátt eins og vor“ þegar hann var maður. Hann þjáðist og þoldi erfiðleika. Þegar við stöndum frammi fyrir slíku er hann því reiðubúinn að hjálpa okkur vegna þess að hann skilur hvað við erum að ganga í gegnum. Laðar það þig ekki að honum?

Taktu nú eftir 16. versi. Páll segir að við — og það nær bæði til hinna smurðu og hinna annarra sauða — getum nálgast Guð með djörfung eða frjálsmannlega. (Jóhannes 10:16) Postulinn átti ekki við að við gætum sagt nálega hvað sem við viljum í bæn, jafnvel látið í ljós reiði eða virðingarleysi. Það sem hann átti við var að vegna lausnarfórnar Jesú og æðstaprestshlutverks hans gætum við nálgast Guð þótt við séum syndarar.

Önnur leið til að njóta nú þegar góðs af þjónustu æðsta prests okkar, Jesú Krists, tengist syndum okkar eða mistökum. Vissulega reiknum við ekki með að Jesús beiti lausnarfórn sinni að fullu í okkar þágu í núverandi heimskerfi. Jafnvel þótt hann gerði það myndum við samt ekki hafa eilíft líf. Manstu eftir frásögunni í Lúkasi 5:18-26 af lamaða manninum sem látinn var síga í rekkju niður um gat á þakinu? Jesús sagði honum: „Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar.“ Þar var ekki átt við að einhverjar ákveðnar syndir hafi valdið lömuninni. Það hlýtur að hafa verið átt við syndir mannsins almennt, og að einhverju marki getur það hafa átt við arfgengan ófullkomleika hans sem veldur þjáningum.

Vegna fórnarinnar, sem Jesús átti eftir að færa, gat hann borið syndir mannsins burt eins og geithafurinn fyrir Asasel bar burt syndir Ísraelsmanna á friðþægingardeginum. (3. Mósebók 16:7-10) En lamaði maðurinn var eftir sem áður maður. Hann átti eftir að syndga á ný og síðar dó hann eins og syndari gerir óhjákvæmilega. (Rómverjabréfið 5:12; 6:23) Orð Jesú merkja ekki að maðurinn hafi öðlast eilíft líf þegar í stað. Hins vegar naut maðurinn þeirrar blessunar að fá fyrirgefningu að vissu marki á þeim tíma.

Lítum nú á aðstöðu okkar. Við erum ófullkomin og syndgum daglega. (Jakobsbréfið 3:2) Hvað getum við gert við því? Á himnum eigum við okkur miskunnsaman æðsta prest og getum nálgast Jehóva í bæn fyrir milligöngu hans. Já, eins og Páll skrifaði getum við öll gengið „með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.“ Þar af leiðandi hafa allir aðrir sauðir nú á tímum geysimikið gagn af æðstaprestsþjónustu Krists, meðal annars hreina samvisku.

Allir kristnir menn með jarðneska von geta hlakkað til enn stórkostlegri blessunar í nýja heiminum sem nálgast. Þá mun himneskur æðsti prestur okkar láta okkur hafa fullt gagn af fórn sinni sem leiðir til algerrar syndafyrirgefningar. Hann mun líka veita enn meiri blessun með því að gæta líkamlegrar og andlegrar heilsu fólksins. Og Jesús mun auka menntun fólks Guðs á jörðinni stórlega því að kennsla lögmálsins var ein af höfuðskyldum prestanna í Ísrael. (3. Mósebók 10:8-11; 5. Mósebók 24:8; 33:8, 10) Við njótum því góðs af prestsþjónustu Jesú núna en eigum miklu meira í vændum!

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila