„Göngum í trú, ekki því sem við sjáum“
„Við göngum í trú, ekki því sem við sjáum.“ — 2. KORINTUBRÉF 5:7, NW.
1. Hvað merkir það að ‚ganga í trú‘?
HVENÆR sem við biðjum í samræmi við leiðbeiningar orðs Guðs erum við að gefa til kynna að við höfum að minnsta kosti einhverja trú. Þegar við byrjum að vitna fyrir öðrum um ríki Guðs ber það líka vott um trú. Og þegar við vígjum líf okkar Jehóva erum við að sýna að við viljum ‚ganga í trú,‘ það er að segja að láta líf okkar stjórnast af trú. — 2. Korintubréf 5:7, NW; Kólossubréfið 1:9, 10.
2. Af hverju þarf þátttaka í starfi safnaðarins ekki að sanna að maður hafi trú?
2 Ef við ætlum okkur í alvöru að lifa þannig þarf trúin að hvíla á traustum grunni. (Hebreabréfið 11:1, 6) Margir laðast að vottum Jehóva vegna hins háleita siðferðis og kærleikans sem þeir sjá á meðal þeirra. Það er góð byrjun en táknar ekki að þetta fólk hafi trú. Sumir eiga kannski maka eða foreldri sem hefur sterka trú og taka jafnvel þátt í einhverjum andlegum hugðarefnum með ástvini sínum. Slíkt er vissulega til blessunar á heimilinu en það kemur aldrei í staðinn fyrir persónulegan kærleika til Guðs og persónulega trú. — Lúkas 10:27, 28.
3. (a) Hvað verðum við að vera persónulega sannfærð um í sambandi við Biblíuna til að trú okkar hvíli á traustum grunni? (b) Af hverju er fólk misfljótt að sannfærast um að Biblían sé innblásin?
3 Þeir sem ganga í trú eru algerlega sannfærðir um að Biblían sé orð Guðs. Það eru ríkulegar sannanir fyrir því að Heilög ritning sé „innblásin af Guði.“a (2. Tímóteusarbréf 3:16) Hve mikið af þessum sönnunum þarf maður að kynna sér áður en hann lætur sannfærast? Það er stundum komið undir bakgrunni fólks. Það sem er fullnægjandi sönnun fyrir einn nægir ekki öðrum. Í sumum tilvikum streitast menn jafnvel á móti rökréttri ályktun þótt þeim séu sýndar nægar og óhrekjandi sannanir. Hvers vegna? Vegna hvata sem eiga sér djúpar rætur í hjartanu. (Jeremía 17:9) Þess vegna gæti sá sem segist hafa áhuga á tilgangi Guðs þráð í hjarta sér að njóta viðurkenningar heimsins. Hann langar kannski ekki til að leggja niður lífsstíl sem stangast á við staðla Biblíunnar. En ef einhvern hungrar raunverulega eftir sannleikanum, ef hann er heiðarlegur við sjálfan sig og ef hann er auðmjúkur gerir hann sér með tímanum grein fyrir að Biblían sé orð Guðs.
4. Hvað þarf maður að gera til að öðlast trú?
4 Oft gerist það á aðeins fáeinum mánuðum að fólk, sem fær aðstoð við biblíunám, áttar sig á því að það hefur séð meira en nægar sannanir fyrir því að Biblían sé orð Guðs. Ef þetta kemur því til að opna hjarta sitt fyrir fræðslu Jehóva, þá mótast leyndustu hugsanir þess, langanir og hvatir smám saman af því sem það lærir. (Sálmur 143:10) Rómverjabréfið 10:10 segir að menn iðki trú „með hjartanu.“ Slík trú endurspeglar hvernig manni líður í raun og veru og birtist í lífsstefnu hans.
Nói fylgdi traustri trú
5, 6. Á hverju byggðist trú Nóa?
5 Nói hafði trausta trú. (Hebreabréfið 11:7) Á hvaða grunni var hún reist? Hann hafði orð Guðs, ekki ritað heldur talað. Fyrsta Mósebók 6:13 segir: „Þá mælti Guð við Nóa: ‚Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra.‘“ Jehóva sagði Nóa að smíða örk og lét honum í té nákvæmar leiðbeiningar um smíðina. Síðan bætti hann við: „Því sjá, ég læt vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi er í. Allt, sem á jörðinni er, skal deyja.“ — 1. Mósebók 6:14-17.
6 Skyldi hafa rignt fram að þeim tíma? Biblían lætur það ósagt. Fyrsta Mósebók 2:5 segir: „[Jehóva] Guð hafði ekki enn látið rigna.“ En þetta var lýsing Móse, sem var uppi öldum síðar, og hann var ekki að fjalla um daga Nóa heldur fór miklu lengra aftur í tímann. Eins og fram kemur í 1. Mósebók 7:4 nefndi Jehóva regn þegar hann talaði við Nóa, og Nói skildi greinilega hvað við var átt. En trú Nóa byggðist þó ekki á því sem hann gat séð. Páll postuli skrifaði að Nói hefði fengið „bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá.“ Guð sagði Nóa að hann ætlaði að láta koma yfir jörðina „vatnsflóð“ eða „höf himinsins“ eins og það er orðað í neðanmálsathugasemd við 1. Mósebók 6:17 í Nýheimsþýðingunni. Fram að þeim tíma hafði ekkert þessu líkt gerst. En allt sköpunarverkið, sem Nói hafði fyrir augunum, bar því glöggt vitni að Guð gæti komið til leiðar slíku eyðingarflóði. Trúin knúði Nóa til að smíða örkina.
7. (a) Hvað þurfti Nói ekki að vita til að gera það sem Guð sagði honum? (b) Hvaða gagn höfum við af því að íhuga trú Nóa og hvernig getur trú okkar verið öðrum til blessunar?
7 Guð hafði ekki sagt Nóa hvenær flóðið myndi hefjast en Nói notaði það ekki sem afsökun fyrir því að ‚sjá bara til‘ og setja arkarsmíðina og prédikunarstarfið í annað sætið í lífinu. Guð sagði Nóa með nægum fyrirvara hvenær hann ætti að flytja í örkina. Þangað til ‚gjörði Nói svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.‘ (1. Mósebók 6:22) Nói gekk í trú en ekki því sem hann sá. Við erum svo sannarlega þakklát fyrir það! Við erum á lífi í dag vegna trúar hans. Trú okkar getur einnig haft mikil áhrif á framtíð sjálfra okkar og líka barna okkar og annarra umhverfis okkur.
Trú Abrahams
8, 9. (a) Á hverju byggði Abraham trú sína? (b) Hvernig „birtist“ Jehóva Abraham?
8 Tökum annað dæmi — Abraham. (Hebreabréfið 11:8-10) Á hverju byggði Abraham trú sína? Hann ólst upp í Úr í Kaldeu sem var gagnsýrð skurðgoðadýrkun og efnishyggju. En það var annað sem mótaði viðhorf Abrahams. Hann og Sem, sonur Nóa, voru samtíða í 150 ár og eflaust gat hann umgengist hann. Abraham sannfærðist um að Jehóva væri ‚Hinn Hæsti Guð, skapari himins og jarðar.‘ — 1. Mósebók 14:22
9 Annað hafði líka djúpstæð áhrif á Abraham. Jehóva „birtist . . . Abraham, er hann var enn í Mesópótamíu, áður en hann settist að í Haran, og sagði við hann: ‚Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu til landsins, sem ég mun vísa þér á.‘“ (Postulasagan 7:2, 3) Hvernig „birtist“ Jehóva Abraham? Abraham sá Guð ekki beinlínis. (2. Mósebók 33:20) Hins vegar er hugsanlegt að Jehóva hafi birst honum í draumi, í yfirnáttúrlegri dýrðarsýn eða með því að senda engil sem sendiboða eða fulltrúa sinn til hans. (Samanber 1. Mósebók 18:1-3; 28:10-15; 3. Mósebók 9:4, 6, 23, 24.) Hvernig sem Jehóva birtist Abraham þá vissi hann að Jehóva var að bjóða honum dýrmæt sérréttindi. Hann breytti samkvæmt trú sinni.
10. Hvernig styrkti Jehóva trú Abrahams?
10 Trú Abrahams var ekki háð því að hann fengi nákvæmar upplýsingar um landið sem Guð leiddi hann inn í. Hún var ekki undir því komin að hann vissi hvenær hann fengi landið. Hann trúði vegna þess að hann þekkti Jehóva sem Almáttugan Guð. (2. Mósebók 6:3) Jehóva sagði Abraham að hann myndi eignast afkomendur en stundum velti Abraham því fyrir sér hvernig það gæti gerst. Hann var að verða gamall. (1. Mósebók 15:3, 4) Jehóva styrkti trú hans með því að segja honum að horfa til himins á stjörnurnar og telja þær ef hann gæti. „Svo margir skulu niðjar þínir verða,“ sagði Guð. Abraham var djúpt snortinn. Það lá í augum uppi að skapari þessara mikilfenglegu himintungla gat uppfyllt loforð sín. Abraham „trúði [Jehóva].“ (1. Mósebók 15:5-6) Hann trúði ekki bara vegna þess að honum líkaði það sem hann heyrði. Trú hans stóð á traustum grunni.
11. (a) Hvernig brást Abraham, sem var nærri tíræður, við fyrirheiti Guðs um að Sara myndi eignast son í elli sinni? (b) Hvers vegna stóðst Abraham þá prófraun að fara með son sinn til Móríafjalls til að fórna honum?
11 Þegar Abraham var næstum 100 ára gamall og kona hans Sara að verða níræð endurtók Jehóva loforð sitt um að hann myndi eignast son með Söru. Abraham velti stöðunni fyrir sér af raunsæi. En „um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki með vantrú, heldur gjörðist styrkur í trúnni. Hann gaf Guði dýrðina, og var þess fullviss, að hann er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.“ (Rómverjabréfið 4:19-21) Abraham vissi að fyrirheit Guðs gæti ekki brugðist. Seinna hlýðnaðist hann sökum trúar þegar Guð sagði honum að fara með son sinn Ísak til Móríalands og fórna honum þar. (1. Mósebók 22:1-12) Abraham treysti því fullkomlega að Guð, sem gat látið son hans fæðast vegna kraftaverks, væri þess einnig megnugur að endurlífga hann til að uppfylla önnur fyrirheit sín varðandi soninn. — Hebreabréfið 11:17-19.
12. Hve lengi hélt Abraham áfram að ganga í trú og hvaða umbun bíður hans og þeirra úr fjölskyldunni sem sýndu sterka trú?
12 Abraham sýndi að hann lét stjórnast af trú, ekki aðeins stöku sinnum heldur alla ævi. Hann fékk aldrei neinn erfðahlut frá Guði í fyrirheitna landinu meðan hann lifði. (Postulasagan 7:5) Þó þreyttist hann hvorki né sneri aftur til Úr í Kaldeu. Í 100 ár, eða allt til dauðadags, bjó hann í tjöldum í landinu sem Guð leiddi hann til. (1. Mósebók 25:7) Hebreabréfið 11:16 segir um hann, konu hans Söru, son þeirra Ísak og sonarsoninn Jakob: „Þess vegna blygðast Guð sín ekki fyrir þá, að kallast Guð þeirra, því að borg bjó hann þeim.“ Já, Jehóva hefur fyrirbúið þeim stað á jarðnesku sviði Messíasarríkis síns.
13. Hverjir meðal nútímaþjóna Jehóva sýna þess merki að þeir hafi trú eins og Abraham?
13 Meðal fólks Jehóva nú á tímum eru margir eins og Abraham. Þeir hafa gengið í trú árum saman. Með styrk frá Guði hafa þeir sigrast á fjallháum hindrunum. (Matteus 17:20) Trú þeirra bilar ekki þótt þeir viti ekki nákvæmlega hvenær Guð veitir þeim þá arfleifð sem hann hefur lofað þeim. Þeir vita að orð Jehóva bregst ekki og álíta það ómetanleg sérréttindi að vera í hópi votta hans. Er þér þannig innanbrjósts?
Trúin sem knúði Móse
14. Hvernig var grundvöllur lagður að trú Móse?
14 Móse er annað dæmi um trúaðan mann. Á hverju byggðist trú hans? Grundvöllurinn var lagður í barnæsku. Dóttir Faraós fann Móse í reyrörk á Nílarfljóti og tók hann að sér sem eigin son, en það var hebresk móðir hans, Jókebed, sem hafði drenginn á brjósti og fóstraði hann fyrstu árin. Jókebed kenndi honum bersýnilega vel, meðal annars að elska Jehóva og vera þakklátur fyrir þau fyrirheit sem Jehóva hafði gefið Abraham. Seinna var Móse „fræddur í allri speki Egypta“ sem heimilismaður Faraós. (Postulasagan 7:20-22; 2. Mósebók 2:1-10; 6:20; Hebreabréfið 11:23) Þrátt fyrir forréttindastöðu sína var hugur Móse hjá undirokaðri þjóð Guðs.
15. Hvað þýddi það fyrir Móse að standa með þjóð Jehóva?
15 Þegar Móse var fertugur drap hann Egypta til að frelsa Ísraelsmann sem var ranglæti beittur. Þar sýndi hann hvernig hann leit á fólk Guðs. Já, „fyrir trú hafnaði Móse því, er hann var orðinn fulltíða maður, að vera talinn dóttursonur Faraós.“ Í stað þess að „njóta skammvinns unaðar af syndinni“ við egypsku hirðina knúði trúin hann til að standa með hinni undirokuðu þjóð Guðs. — Hebreabréfið 11:24, 25; Postulasagan 7:23-25.
16. (a) Hvaða verkefni fól Jehóva Móse og hvernig hjálpaði hann honum? (b) Hvernig sýndi Móse trú þegar hann gerði það sem Guð fól honum?
16 Móse vildi ákafur grípa til aðgerða og lina þjáningar þjóðar sinnar en frelsunartími Guðs var enn ekki kominn. Móse varð að flýja Egyptaland. Það var ekki fyrr en 40 árum seinna að Jehóva bauð honum fyrir milligöngu engils að snúa aftur til Egyptalands og leiða Ísraelsþjóðina út þaðan. (2. Mósebók 3:2-10) Hvernig brást Móse við? Hann efaðist ekki um hæfni Guðs til að frelsa Ísrael en fannst hann sjálfur ekki rísa undir því hlutverki sem Guð ætlaði honum. Jehóva veitti Móse þá hvatningu og uppörvun sem hann þurfti. (2. Mósebók 3:11–4:17) Trú hans styrktist. Hann sneri aftur til Egyptalands og augliti til auglitis varaði hann Faraó ítrekað við plágum sem myndu herja á landið vegna þess að hann leyfði Ísrael ekki að fara og tilbiðja Jehóva. Móse hafði ekkert afl sjálfur til að framkalla þessar plágur. Hann gekk í trú en ekki því sem hann sá. Hann trúði á Jehóva og orð hans. Faraó hafði í hótunum við Móse en Móse þraukaði. „Fyrir trú yfirgaf hann Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins, en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:27) Móse var ekki fullkominn. Honum urðu á mistök. (4. Mósebók 20:7-12) En frá því að hann fékk umboð frá Guði réði trúin lífsstefnu hans.
17. Hvað veittist Nóa, Abraham og Móse af því að þeir gengu í trú, jafnvel þótt þeir lifðu það ekki að sjá nýjan heim Guðs?
17 Megi trú þín líkjast trú Nóa, Abrahams og Móse. Vissulega sáu þeir ekki nýjan heim Guðs renna upp meðan þeir lifðu. (Hebreabréfið 11:39) Tilsettur tími Guðs var ekki kominn og aðrir þættir í tilgangi hans þurftu fyrst að koma fram. En trú þeirra á orð Guðs var óbilandi og nöfn þeirra standa í lífsbók hans.
18. Hvers vegna hafa þeir sem kallaðir eru til lífs á himnum þurft að ganga í trú?
18 „Guð hafði séð oss fyrir því sem betra var,“ skrifaði Páll postuli, það er að segja að hann sá þeim, sem kallaðir hafa verið til að lifa á himnum með Kristi, eins og Páll, fyrir því sem betra var. (Hebreabréfið 11:40) Það voru þeir sem Páll hafði sérstaklega í huga þegar hann skrifaði orðin í 2. Korintubréfi 5:7: „Við göngum í trú, ekki því sem við sjáum.“ (NW) Þegar þau voru skrifuð hafði enginn þeirra hlotið himnesk laun sín. Þeir gátu enn ekki séð launin með bókstaflegum augum en trú þeirra á þau stóð á traustum grunni. Kristur hafði verið reistur upp frá dauðum, frumgróði þeirra sem öðlast líf á himnum. Og meira en 500 vottar höfðu séð hann áður en hann steig upp til himna. (1. Korintubréf 15:3-8) Þeir höfðu kappnógar ástæður til að láta alla lífsstefnu sína stjórnast af trú. Við höfum líka ærið tilefni til að ganga í trú.
19. Hvernig hefur Guð talað til okkar eins og fram kemur í Hebreabréfinu 1:1, 2?
19 Nú á tímum talar Jehóva ekki til fólks síns fyrir munn engils, eins og hann talaði við Móse úr logandi runnanum. Guð hefur talað fyrir milligöngu sonar síns. (Hebreabréfið 1:1, 2) Hann hefur látið skrá í Biblíuna það sem hann sagði fyrir milligöngu sonar síns, og hún hefur verið þýdd á þjóðtungur fólks um heim allan.
20. Af hverju erum við miklu betur settir en Nói, Abraham og Móse?
20 Við höfum mun meira en Nói, Abraham og Móse. Við höfum orð Guðs í heild — og stór hluti þess er þegar kominn fram. Í ljósi alls þess sem Biblían segir um karla og konur, sem reyndust trúfastir vottar um Jehóva þrátt fyrir ýmiss konar raunir, brýnir Hebreabréfið 12:1 fyrir okkur: „Léttum . . . af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“ Við eigum ekki að líta á trú okkar sem sjálfsagðan hlut. Hin „viðloðandi synd“ er skortur á trú. Það kostar harða baráttu að halda áfram að ‚ganga í trú.‘
[Neðanmáls]
a Sjá bókina Biblían — orð Guðs eða manna?, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað er fólgið í því að ‚ganga í trú‘?
◻ Hvernig getur trú Nóa verið okkur til gagns?
◻ Hvernig getur trú Abrahams hjálpað okkur?
◻ Af hverju bendir Biblían á Móse sem fordæmi um trú?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Abraham gekk í trú.
[Mynd á blaðsíðu 19]
Móse og Aron sýndu trú frammi fyrir Faraó.