Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w90 1.1. bls. 29-31
  • ‚En ég elska ekki Jehóva!‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • ‚En ég elska ekki Jehóva!‘
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hjarta, samviska og trú
  • Það er hægt að snúa við
  • Hvernig aðrir geta hjálpað
  • Öðlumst hjarta Jehóva að skapi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
  • Staðráðin í að þjóna Jehóva af heilu hjarta
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Varðveittu hjartað
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
  • Hefurðu „hjarta til að þekkja“ Jehóva?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
w90 1.1. bls. 29-31

‚En ég elska ekki Jehóva!‘

BOB var ungur piltur þegar móðir hans gerðist vottur Jehóva. Í mörg ár fylgdi hann henni á samkomur í Ríkissalnum og jafnvel út í prédikunarstarfið þótt hann léti aldrei skírast. Er hann var orðinn stálpaður unglingur hætti hann hins vegar að hafa tengsl við votta Jehóva. Hann lenti á glapstigum og eyðilagði líf sitt. Þótt hann segist enn trúa mörgu af því sem hann lærði frá Biblíunni hefur það enn ekki nægt til að vekja hjá honum löngun til að snúa aftur til skipulags Jehóva. Hvers vegna skyldi Bob hugsa þannig?

Lítum á annað dæmi. David hafði verið prédikari í fullu starfi í allmörg ár. Af og til komu spurningar upp í huga hans um ákveðnar biblíukenningar. Hann leysti vandann alltaf með því að hugsa sem svo að maður gefist ekki upp við að raða saman myndþraut þótt einn eða tveir bútar virðast ekki passa inn í myndina í byrjun. Hann gerði sig ánægðan með að bíða þar til Jehóva skýrði málið. En svo kom að því að David sagðist ekki lengur gera sig ánægðan með að afgreiða málin með þessum hætti. Hann afsalaði sér sérréttindum sínum og yfirgaf sannleikann áður en langt um leið. Hvað olli þessari hugarfarsbreytingu?

Það er sannarlega sorglegt að sjá þá sem okkur þykir vænt um gefast upp í kapphlaupinu um lífið. Vafalaust viljum við öll gera allt sem við getum til að hjálpa þeim. (2. Korintubréf 12:15; Galatabréfið 5:7) En hvað er það sem kemur einstaklingi til að falla frá sannleikanum? Hvað er hægt að gera til að hjálpa honum að snúa aftur? Og hvað ætti sá einstaklingur að gera sem finnur fyrir tilhneigingu hjá sér til að yfirgefa sannleikann?

Hjarta, samviska og trú

Eitt vekur eftirtekt í fari þeirra sem hafa yfirgefið sannleikann. Fæstir segjast hafa gert það vegna þess að þeir trúi ekki lengur að um sannleikann sé að ræða. Margir þeirra segja: „Ég veit að þetta er sannleikurinn en . . . “ Eða: „Ef einhver sannleikur er til þá veit ég að þetta er hann.“ Innst í fylgsnum hjarta síns trúa margir þeirra enn að það sem þeir lærðu frá Biblíunni sé sannleikurinn. En einhvern veginn hafa þeir farið að slá slöku við og glatað kostgæfni sinni. Jakob sagði: ‚Trúin er dauð án verka.‘ — Jakobsbréið 2:26.

Sönn trú felur í sér meira en aðeins það að þekkja eða viðurkenna að eitthvað sé satt. Trú er ekki aðeins huglægt atriði heldur tekur til hins táknræna hjarta því að Biblían segir okkur: „Með hjartanu er trúað til réttlætis.“ (Rómverjabréfið 10:10) Eðlilegt er því að Biblían skuli benda á hjartað sem orsök vandans þegar einhver byrjar að víkja frá trúnni. Eins og Páll aðvaraði: „Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði.“ — Hebreabréfið 3:12.

Því til sönnunar að hjartað eigið hér hlut að máli getum við hlustað á Diane sem var fallin frá trúnni. Þegar kristnir bræður hennar reyndu að hjálpa henni svaraði hún hreinskilnislega: „Ég get ekki snúið aftur til Jehóva. Ég elska hann ekki!“ Hún vissi að það eina sem gat hjálpað henni að varðveita náin tengsl við Jehóva Guð er kærleikur til hans sem persónu og sem þess er verðskuldar hollustu. Það var þess konar kærleikur sem hafði komið henni til að vígja Jehóva líf sitt í byrjun. En einhverra orsaka vegna fann hún ekki lengur til slíks kærleika. Án hans vissi hún að það væri tómt yfirskin ef hún sneri aftur. En hvernig er hægt að glata kærleika sem var einu sinni svo sterkur?

Páll minntist á ‚vont vantrúarhjarta.‘ Í sumum tilvikum bilar trúin vegna þess að hjartanu er leyft að girnast það sem Jehóva bannar eða sporna gegn því sem hann býður. Hjartað verður þannig tvískipt og er ekki lengur heilt og óskipt gagnvart Jehóva. Þegar sú tilfinning tekur svo að sækja á að Guð hafi ekki velþóknun á hátterni okkar, þá er auðveldasta leiðin að forðast frekari árekstra með því að ‚falla frá lifanda Guði.‘ (Samanber 1. Mósebók 3:8-10.) Í stað þess að iðrast kemur hið ‚vonda hjarta‘ einstaklingnum til að strika Jehóva og tilgang hans út úr lífi sínu. Þannig yfirgefur sá maður sannleikann sem hefur tapað trúnni.

Í öðrum tilvikum getur einstaklingur haft slæma samvisku vegna rangrar breytni en svikult hjarta hans fær hann til að leita uppi „skynsamlega“ afsökun sem birtist í efasemdum, aðfinnslum eða jafnvel fráhvarfi frá trúnni. Ef hann getur sannfært sig um að innviðir trúar hans séu rangir, þá finnst honum ekki lengur að honum sé skylt að lifa innan marka hennar. Slíkur einstaklingur varpar frá sér góðri samvisku og ‚líður skipbrot á trú sinni.‘ — 1. Tímóteusarbréf 1:19.

Að sjálfsögðu geta verið einhverjar aðrar ástæður fyrir því að fólk yfirgefur sannleikann, en hver sem er ástæðan er hún nánast alltaf tengd hjartanu. Því er aðvörun Biblíunnar mjög tímabær: „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.“ — Orðskviðirnir 4:23.

Það er hægt að snúa við

Það kostar hugrekki að viðurkenna að rangar tilhneigingar okkar hafi verið undirrót þess að við misstum trúna. Það er þó fyrsta skrefið í þá átt að eignast aftur traust samband við Jehóva. Steve, sem var brautryðjandi á Englandi, er gott dæmi um það.

Steve yfirgaf að vísu aldrei sannleikann, en á vissu tímabili fann hann fyrir tómleika og fannst hann skorta sannfæringu. Honum fannst orð hans innantóm er hann prédikaði fyrir öðrum. Honum fannst hann ekki eiga heima meðal andlegra bræðra sinna og systra, rétt eins og hann væri ekki einn af hópnum lengur.

Sem betur fer gerði Steve sér grein fyrir að rót vandans var hjá honum sjálfum. „Ég gerði ekki þau mistök að einangra mig til þess að hugsa málið til enda, rétt eins og ég mætti vænta einhvers innblásturs frá mínu ófullkomna holdi sem myndi veita mér rétt svar,“ segir Steve. (Samanber Rómverjabréfið 7:18.) Hann gerði sér ljóst að hann yrði að grandskoða hjarta sitt og uppræta þær röngu tilhneigingar sem væru að leiða hann burt frá sannleikanum. Hann byrjaði því frá grunni að styrkja á ný kærleika sinn til Guðs og trú á orð hans. Núna þjónar Steve sem trúboði.

Hvernig aðrir geta hjálpað

Ekki tekst öllum, sem hafa misst eða eru að missa tök sín á sannleikanum, að sjá hlutina í jafnskýru ljósi og Steve. Oft er það missir þessarar skýru, andlegu sjónar sem leiðir til þess að fólk hverfur frá sannleikanum. Þá geta kristnir bræður og systur rétt hjálparhönd. (Rómverjabréfið 15:1; Galatabréfið 6:1) En hvernig er best að gera það?

Að sjálfsögðu er ekki nóg aðeins að hvetja slíkan einstakling að snúa aftur til sannleikans. Nauðsynlegt er að koma auga á þær hindranir sem eru í veginum og fjarlægja þær. Leggja þarf áherslu á að skírskorta til hjartans hjá þeim sem eru veikir í trúnni eða óvirkir. Hreinskilnislegar en vingjarnlegar og opinskáar samræður geta hjálpað einstaklingnum. Ritningarstaðir svo sem 1. Tímóteusarbréf 1:19, Hebreabréfið 3:12 og Jeremía 17:9, 10 geta hjálpað honum að gera sjálfsrannsókn og sjá hvað það er sem er að draga hann burt „frá lifanda Guði.“

Þegar orsökin er fundin þarf að vinna að því að uppræta hana. Sjúkt hjarta þarfnast umönnunar og jafnvel sársaukafullrar skurðaðgerðar eigi sjúklingurinn að lifa. Eins er það ef hið táknræna hjarta er sjúkt. Uppræta þarf rangar langanir, sjálfstæðistilhneigingar eða annað slíkt, sem kemur hjartanu til að víkja af leið, ef það á að verða næmt fyrir sannleikanum á ný. Andlega þroskaðir kristnir menn gætu til dæmis beðið með hinum óvirka og jafnvel numið Biblíuna með honum ef öldungarnir telja það ráðlegt. Aðeins þannig er hægt að lífga hjartað við og endurvekja kærleika einstaklingsins til Jehóva. — Orðskviðirnir 2:1-5.

Þetta hjálpaði Diane. Samræður við þroskaða kristna menn hjálpuðu henni að koma auga á hvað hún þurfti að gera til að endurvekja kærleika sinn til Jehóva. Hún gerði sér ljóst að hún yrði að rækta náið samband við Jehóva á nýjan leik og þáði hjálpina sem henni var boðin. Eftir að hafa numið Biblíuna í um það bil ár urðu hún og maður hennar aftur virkir dýrkendur Jehóva.

Þar eð kærleikurinn til Guðs birtist í verki er besta hjálpin oft fólgin í því að gera það sem Jehóva segir og finna síðan fyrir kærleika hans og hjálp. Já, athafnir og verk eru hjálp til að endurvekja þann kærleika sem einu sinni knúði hjartað. (Sálmur 34:9) Fyrsta skrefið getur verið það að gera eitthvað áþreifanlegt til að berjast gegn hinum röngu löngunum eða til að leiðrétta rangar tilhneigingar hjartans. Sérhver sigur í þessari baráttu færir manninn einu skrefi nær Jehóva. (Orðskviðirnir 23:26; 1. Pétursbréf 2:1-3) Eftir því sem sigur vinnst á hjartanu vex löngunin til að segja öðrum frá því sem í hjartanu býr. Þess vegna ætti að hjálpa boðbera Guðsríkis, sem áður var óvirkur, til að taka aftur þátt í prédikun fagnaðarerindisins jafnskjótt og hann er hæfur til, því að „með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.“ — Rómverjabréfið 10:10.

Leiðin til guðrækilegs lífs getur verið löng og ströng fyrir þann sem finnst hann ekki lengur elska Jehóva. Andlegt afturhvarf Steve og Diane sýnir þó að hægt er að breyta tilhneigingum hjartans. Já, með því að notfæra sér hjálp anda Jehóva, heimfæra á sig orð hans og endurnýja samstarfið við skipulag hans er hægt að snúa aftur til sannleikans. Það er einlæg von okkar og bæn að takast megi að hjálpa þeim sem þurfa á slíku að halda til að gleðjast á nýjan leik í tilbeiðslunni á Jehóva og heilagri þjónustu með þeim sem elska Jehóva af heilu hjarta. — Markús 12:30; 1. Korintubréf 13:8; 3. Jóhannesarbréf 1-4.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila