Sýndu traust þitt á Jehóva með því að iðka það sem þú lærir
„Treyst [Jehóva] og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni.“ — SÁLMUR 37:3.
1, 2. (a) Hvert ætti að vera markmið okkar með einkanámi? (b) Hvaða dæmi notar Jakob og hvers konar skoðun í speglinum er hann að lýsa?
VIÐ nemum ekki orð Guðs aðeins til gamans. Við ættum að líta á nám sem leið til að byggja upp traust til Jehóva. (Orðskviðirnir 3:1-5) Orð sálmaritarans að ofan bera því vitni að traust til Guðs birtist á þann hátt að við ‚gerum gott.‘
2 Jakob hvatti: „Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður. Því að ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli. Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var.“ (Jakobsbréfið 1:22-24) Hér er ekki um það að ræða að renna augunum yfir spegilinn eitt andartak. Gríska orðið, sem hér er þýtt ‚að skoða,‘ merkir „að beina athyglinni að einhverju til að skilja vissar staðreyndir um það.“ — An Expository Dictionary of New Testament Words eftir W. E. Vine; samanber Postulasöguna 7:31, Kingdom Interlinear.
3. Hvernig gæti sá sem skoðar sig í speglinum gleymt í skyndingu „hvernig hann er“?
3 Við skulum nú reyna að sjá fyrir okkur mann sem rannsakar útlit sitt í spegli og uppgötvar að það er ekki allt eins og hann vildi hafa það. Hann er kominn með undirhöku vegna ofáts og ofdrykkju, með poka undir augunum af svefnleysi og hrukkur á ennið sem bera vitni um nagandi áhyggjur. Þar sem hann stendur nú augliti til auglitis við sjálfan sig einsetur hann sér að breyta um háttarlag — sem hann hefði átt að gera fyrir löngu. Síðan ‚fer hann burt.‘ Um leið og hin óþægilega spegilmynd er úr sjónmáli ‚gleymir hann jafnskjótt,‘ ekki aðeins hvernig hann leit út, heldur „hvernig hann var.“ Sá ásetningur hans að breyta sér líður hjá.
4. Hvernig má heimfæra líkingu Jakobs upp á biblíunám okkar?
4 Við kunnum að nema Biblíuna af kappi. En hvað gerum við þegar við sjáum okkur í þeim spegli sem orð Guðs er? Þegar spegilmyndin sýnir okkur andlega galla og lýti, veldur það okkur þá aðeins augnabliksáhyggjum eða einsetjum við okkur að bæta úr því sem í ólagi er? Jakob bætti við: „En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.“ (Jakobsbréfið 1:25) Sálmaritarinn bað: „Kenn mér, [Jehóva], veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.“ — Sálmur 119:33.
Það sem verk okkar segja um okkur
5. (a) Hvað segja verk okkar um okkur? (b) Hvers konar örlög bíða þeirra sem „illt fremja“?
5 Verk okkar og athafnir sýna í rauninni hvernig við erum innst inni. Fyrr eða síðar kemur í ljós hvað við erum „hið innra“ því að við gerum annaðhvort gott eða illt. (Sálmur 51:8) Salómon sagði: „Sveinninn þekkist þegar á verkum síum, hvort athafnir hans eru hreinar og einlægar.“ (Orðskviðirnir 20:11) Svo var um Jakob og Esaú meðan þeir voru ungir. Þegar tímar liðu sýndu athafnir Esaús fram á að hann kunni ekki að meta það sem andlegt var. (1. Mósebók 25:27-34; Hebreabréfið 12:16) Svo hefur verið um þúsundir manna sem sögðust treysta á Jehóva en reyndust „illt fremja“ eins og Biblían kallar það. (Jobsbók 34:8) Sálmaritarinn skrifaði: „Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu.“ — Sálmur 92:8.
6. Hvers vegna er brýnt að við sýnum núna að við treystum á Jehóva?
6 Óguðlegum fer nú fjölgandi og þeim verður bráðlega útrýmt. Guð mun ekki umbera endalaust þá sem illt gera. (Orðskviðirnir 10:29) Því er brýnt að við sýnum að við treystum á Jehóva með því að iðka það sem við lærum. „Hegðið yður vel meðal heiðingjanna,“ áminnir Pétur. (1. Pétursbréf 2:12) Á hvaða sviðum getum við unnið að framförum?
Viðskipti okkar við aðra
7. Hvers vegna verðum við að vera gætin í samskiptum okkar við ‚þá sem fyrir utan eru‘?
7 Eitt svið, sem gefa mætti gaum, er samskipti okkar og framkoma við aðra. Orðskviðirnir 13:20 aðvara: „Illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ Sumir hafa ekki farið eftir þessu innblásna ráði og leyft sér að eiga of náið samband við veraldlegt fólk á vinnustað eða í skóla. Kvæntur bróðir gerðist til dæmis sekur um óhreint athæfi með konu sem hann vann með. Hann fór líka með starfsbræðrum sínum á veitingahús í grenndinni sem varð til þess að hann varð ölvaður. Svo sannarlega þurfum við að ‚umgangast viturlega þá, sem fyrir utan eru.‘ — Kólossubréfið 4:5.
8. Hvaða framförum gætu sumir tekið í samskiptum sínum við bræður sína?
8 En hvað um samskipti okkar við kristna bræður okkar? Setjum sem svo að þú skuldir bróður þínum fé. Gætir þú leyft þér að draga á langinn að endurgreiða honum og hugsa með þér að hann virðist vera í góðum efnum og að þú þurfir meira á peningunum að halda en hann? „Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi,“ segir Sálmur 37:21. Ef þú ert vinnuveitandi, fylgir þú þá meginreglunni: „Verður er verkamaðurinn launa sinna,“ þegar þú átt að greiða starfsmönnum þínum, sem eru vottar, laun? (1. Tímóteusarbréf 5:18) Páll gat sagt um sitt eigið hátterni: „Vér höfum lifað í heiminum, og sérstaklega hjá yður, í heilagleika og hreinleika.“ — 2. Korintubréf 1:12.
Snyrtilegur klæðnaður og hreinlæti
9. Hvaða tilhneigingar í klæðaburði hafa öldungar sums staðar veitt athygli?
9 Farandumsjónarmaður í Þýskalandi kallaði suma kristna menn þar í landi „íþróttaskókynslóðina“ þar eð þeir væru einum of hversdagslega til fara á samkomum. Deildarskrifstofan bætti því við að „yfirgnæfandi meirihluti bræðranna sé vel til fara“ en að fáeinir séu þannig til fara að ‚þeir jaðri við að vera druslulegir.‘ Frá öðru landi koma þær fregnir að ‚skortur á persónulegu hreinlæti sé vandamál þar. . . . Sumir bræðranna ganga í óhreinum fötum. Þeir koma á samkomur og fara út í þjónustuna með ógreitt og fitugt hárið.‘ Það er afarþýðingarmikið að þjónar Jehóva séu snyrtilegir og hreinir í sérhverju tilliti! — 2. Korintubréf 7:1.
10. (a) Hvaða meginregla ætti að ráða vali okkar á fatnaði og hárgreiðslu? (b) Hvenær eru leiðbeiningar við hæfi og hvernig ættum við að bregðast við þeim?
10 Við þurfum að temja okkur „snyrtilegan klæðaburð,“ einkum þegar við tökum þátt í einhverju sem tengt er guðsdýrkun okkar. (1. Tímóteusarbréf 2:9, Lifandi orð) Spurningin er ekki sú hvort klæðnaður okkar sé samkvæmt allra nýjustu tísku heldur hvort hann sé sæmandi þeim sem játar sig vera þjón Guðs. (Rómverjabréfið 12:2; 2. Korintubréf 6:3) Of hversdagsleg eða of þröng föt geta dregið athyglina frá boðskap okkar. Karlmannaföt, sem eru beinlínis kvenleg, og kvenföt, sem eru beinlínis karlmannleg, eru tvímælalaust ósæmileg. (Samanber 5. Mósebók 22:5.) Að sjálfsögðu eru siðvenjur breytilegar frá einum stað til annars og ráðast oft af veðri, atvinnuháttum og öðru slíku, þannig að kristni söfnuðurinn setur ekki ósveigjanlegar reglur handa bræðrafélaginu um allan heim. Öldungarnir ættu ekki heldur að þröngva persónulegum smekk sínum upp á hjörðina. Ef hins vegar klæðnaður einhvers boðbera Guðsríkis veldur almennum óróa í söfnuðinum eða gefur neikvæða mynd af boðskap okkar er ástæða til að gefa hlutaðeigandi vingjarnleg ráð. Myndir þú taka auðmjúkur á móti slíkum leiðbeiningum, ef þú fengir þær, og þar með láta í ljós traust til Jehóva? — Hebreabréfið 12:7.
Guði treyst til að sjá fyrir þeim sem leita ríkis hans
11. (a) Hvers vegna eru sumir í kapphlaupi eftir efnislegum gæðum og hvers vegna er það óhyggilegt?
11 „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:33) Því miður sinna ekki allir þessum orðum. Sumir gleypa hráa goðsöguna um fjárhagslegt öryggi og keppa æðislega eftir auði, veraldlegri menntun og frama í atvinnulífinu. „Þeir . . . reiða sig á auðæfi sín.“ (Sálmur 49:7) Salómon aðvarar: „Streist þú ekki við að verða ríkur . . . Hvort skulu augu þín hvarfla til auðsins, sem er svo stopull? Því að sannarlega gjörir hann sér vængi eins og örn, sem flýgur til himins!“ — Orðskviðirnir 23:4, 5.
12. Hvernig ‚valda þeir sér mörgum harmkvælum‘ sem keppa eftir auði?
12 Páll postuli aðvarar enn fremur: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:10) Í viðtali við tímaritið U.S. News & World Report er haft eftir dr. Douglas LaBier að margt ungra karla og kvenna, sem keppa eftir efnum og auði, segi frá að þeir séu „óánægðir, áhyggjufullir, þunglyndir, fullir tómleika og ofsóknarkenndar, auk þess að finna til alls konar líkamlegra kvilla — höfuðverkja, bakverkja, óþæginda í maga, svefnleysis og lystaleysis.“
13. Hvers vegna er best að láta sér nægja „fæði og klæði“?
13 Þeir sem treysta á Jehóva til að sjá sér farborða spara sér margs kyns þjáningar og áhyggjur. Að vísu verða menn að gera hóflegar lífsgæðakröfur ef þeir ætla að láta sér nægja „fæði og klæði.“ (1. Tímóteusarbréf 6:8) En „auðæfi stoða ekki á degi reiðinnar.“ (Orðskviðirnir 11:4) Enn fremur, þegar við aukum þjónustu okkar við Jehóva, gerum við okkur móttækileg fyrir ‚blessun Jehóva sem auðgar og hann lætur enga kvöl fylgja henni.‘ — Orðskviðirnir 10:22, NW.
‚Ástundaðu frið og kepptu eftir honum‘
14, 15. (a) Hvers konar deilur hafa stundum raskað ró safnaðarins? (b) Hvernig er hægt að keppa eftir friði þegar missætti verður?
14 Önnur leið til að láta í ljós traust okkar til Jehóva er að ‚ástunda frið og keppa eftir honum‘ meðal trúbræðra okkar. (1. Pétursbréf 3:10-12) Stundum er smáatriðum þó leyft að verða að stóru deiluefni meðal bræðra — innanhússkreytingu Ríkissalarins, breytingum á svæðismörkum safnaðarins, niðurröðun í bóknámshópa eða umsjón blaða- og bókabirgða. Stundum hafa bræður hætt að tala hver við annan eða raskað ró safnaðarins með deilum sínum, í stað þess að útkljá einkamál eða viðskiptaleg atriði í anda Matteusar 18:15-17.
15 Jakob segir: „Ávexti réttlætisins verður sáð í friði.“ (Jakobsbréfið 3:18) Það er því í þágu friðarins að vera fús til að láta undan smekk eða skoðunum annarra og standa ekki á rétti sínum. (Samanber 1. Mósebók 13:5-12.) Ef til dæmis tveir söfnuðir notast við sama Ríkissalinn ætti annar söfnuðurinn ekki að hegða sér eins og hann „eigi“ salinn og geti ráðið samkomutímum hins safnaðarins eða öðru sem hann varðar. Söfnuðirnir eiga að vinna saman og sýna hvor öðrum gagnkvæma virðingu.
16. Hvaða gildi hefur það að virða guðræðislega reglu á heimilinu og í söfnuðinum?
16 Hægt er að forðast mörg vandamál með því einfaldlega að virða guðræðislega reglu og halda sér við sitt starfssvið. (1. Korintubréf 11:3; Efesusbréfið 5:22-27) Þegar konur virða óskir manna sinna, börnin fyrirmæli foreldra sinna og safnaðarþjónar forystu öldunganna stuðlar það að því að söfnuðurinn ‚vaxi og byggist upp í kærleika.‘ (Efesusbréfið 4:16) Að sjálfsögðu verða eiginmönnum, foreldrum og öldungum stundum á mistök. (Rómverjabréfið 3:23) En bætir það ástandið að gera uppreisn, kvarta eða sporna gegn leiðbeiningum sem gefnar er af góðum hug? Það er miklu betra að halda okkur innan þess ramma, sem Guð hefur sett, og keppa að friði!
Leggjum okkur fram á akrinum
17. (a) Hvaða rök hafa sumir fyrir því að taka aðeins til málamynda þátt í þjónustunni? (b) Hvernig hvatti Jesús kristna menn til að mæta álagi nútímans?
17 Fyrir margan manninn er það þó erfiðasta verkefnið að fylgja þeirri skipun Krists að prédika fagnaðarerindið. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Sumir gera sig ánægða með lágmarksþátttöku í þjónustunni á akrinum og rökstyðja afstöðu sína með því að það sé svo erfitt að sjá fyrir sér og ala upp börn að þeir geti ekki gert meira. Að sjálfsögðu er álag hinna ‚síðustu daga‘ gífurlegt. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Jesús varaði þó við því að við létum ‚áhyggjur lífsins íþyngja okkur.‘ Þegar ástandið versnar ættu kristnir menn að ‚rétta úr sér og lyfta upp höfðum sínum.‘ (Lúkas 21:28, 34) Einhver besta leiðin til að ‚standa‘ gegn árásum Satans er sú að vera „skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins“ — að taka reglulega þátt í prédikuninni! — Efesusbréfið 6:14, 15.
18. Hver kann að vera ástæðan fyrir því að sumir gera ekki allt sem þeir geta í prédikunarstarfinu?
18 Á dögum Páls leituðu margir kristnir menn (í það minnsta í sumum söfnuðum) „þess, sem sjálfra þeirra er, en ekki þess, sem Krists Jesú er.“ (Filippíbréfið 2:21) Getur hugsast að segja megi hið sama um suma okkar á meðal? Kannski hafa þeir ekki sama viðhorf til þess að leita Guðsríkis eins og maðurinn sem fann „eina dýrmæta perlu“ sem hann var fús að fórna öllu fyrir til að eignast. (Matteus 13:45, 46) Þeir láta eigin hagsmuni sitja í fyrirrúmi, ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur og gera sig ánægða með þjónustu sem er táknið eitt. En við skulum muna að kærleikur til Jehóva og náungans fær kristna menn til að prédika, jafnvel þótt það sé okkur ekki eðlilegt að tala við ókunnugt fólk. — Matteus 22:37-39.
19. Hvers vegna hefur Jehóva vanþóknun á hálfvelgju og hvernig gætum við lagt mat á þjónustu okkar við hann?
19 Ef við finnum okkur ekki knúin til að prédika, þá er kærleikur okkar til Jehóva og traust til hans lítið meira en huglæg fræði. „Lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta,“ hvatti Davíð Salómon, „því að [Jehóva] rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar.“ (1. Kroníkubók 28:9) Jehóva lætur ekki blekkjast af moðvolgri viðleitni. Jafnvel regluleg þátttaka í þjónustunni á akrinum er honum ekki þóknanleg ef við erum í rauninni aðeins að gera brot af því sem við gætum gert ef við leggðum okkur ‚kappsamlega‘ fram. (Lúkas 13:24) Sérhver kristinn maður þarf því að leggja heiðarlegt mat á þátttöku sína í þjónustunni á akrinum og spyrja sig: ‚Er ég í rauninni að gera allt sem ég get?‘ Kannski þurfum við að raða hlutunum í nýja forgangsröð.
Fordæmi annarra hvetur okkur til að ‚gera gott‘
20. Hvers vegna er viðeigandi að íhuga gott fordæmi annarra kristinna manna?
20 Þjónusta okkar við Guð er ekki unnin til að við getum borið okkur saman við aðra. (Galatabréfið 6:4) Þó getur gott fordæmi annarra oft hvatt okkur til að gera meira. Páll postuli sagði sjálfur: „Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.“ (1. Korintubréf 11:1) Við skulum því íhuga hve löngum tíma bræður okkar verja til þjónustunnar í mánuði hverjum. Meðalstundafjöldi boðbera á akrinum í mánuði hverjum á Íslandi jókst úr 8,4 árið 1979 í 9,6 árið 1988! Bræður okkar hafa smám saman verið að auka þátttöku sína í þjónustunni á akrinum. Hefur þú gert það líka?
21. Hvað hefur hvatt marga til að taka upp brautryðjandastarf? Lýstu með dæmi.
21 Kostgæfni annarra er fordæmi sem hefur komið mörgum til að gerast brautryðjendur. Ung systir í Kaliforníu í Bandaríkjunum, Angela að nafni, fékk freistandi atvinnutilboð sem meðal annars fól í sér styrk til náms í háskóla að eigin vali. En Angela kaus að gerast brautryðjandi. Hvers vegna? „Af samveru með fjölmörgum brautryðjendum hafði ég veitt athygli gleði þeirra og lífsfyllingu, ekki þó sjálfsánægju heldur ánægju með samband sitt við Jehóva. Mig langaði til þess að njóta þessarar djúpu gleði og lífsfyllingar.“
22. Hvaða kosti hefur það að iðka það sem við lærum?
22 Langar þig til að njóta ‚djúprar gleði og lífsfyllingar‘? Þá skalt þú ‚treysta Jehóva og gera gott‘! Láttu það sem þú veist knýja þig til að gera þitt ýtrasta í þjónustu Jehóva. Það að iðka það sem þú lærir mun gera framför þína augljósa öllum og vera öðrum til björgunar. (1. Tímóteusarbréf 4:15, 16) Megum við því öll bregðast jákvætt við orðum Páls í Filippíbréfinu 4:9: „Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.“
Upprifjun
◻ Hvað ber okkur að gera eftir að við höfum speglað okkur í orði Guðs?
◻ Hvernig gætum við bætt okkur í samskiptum við aðra?
◻ Hvers vegna er óhyggilegt að keppa eftir efnislegum hlutum?
◻ Hvernig getum við keppt eftir friði í söfnuðinum?
◻ Hver ætti að vera hvöt okkar til að eiga sem ríkulegastan þátt í þjónustunni á akrinum?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Það er ekki nóg aðeins að veita athygli andlegum göllum og lýtum. Við verðum líka að lagfæra þau!
[Mynd á blaðsíðu 30]
Þeir sem keppa eftir auði valda sjálfum sér oft „mörgum harmkvælum.“