Hverjir lifa af ‚dag Jehóva‘?
„Hvers konar menn ættuð þið að vera í heilagri breytni og guðræknisverkum, meðan þið væntið og hafið stöðugt í huga návist dags Jehóva!“ — 2. PÉTURSBRÉF 3:11, 12, NW.
1. Hverjir hafa starfað í anda og krafti Elía?
JEHÓVA GUÐ hefur útvalið úr mannkyninu einstaklinga sem verða samerfingjar sonar hans, Jesú Krists, að ríkinu á himnum. (Rómverjabréfið 8:16, 17) Smurðir kristnir menn hafa starfað í anda og krafti Elía hér á jörðinni. (Lúkas 1:17) Í greininni á undan var bent á vissar hliðstæður með starfi þeirra og spámannsins Elía. En hvað um arftaka Elía, spámanninn Elísa? — 1. Konungabók 19:15, 16.
2. (a) Hvert var síðasta kraftaverk Elía og fyrsta kraftaverk Elísa? (b) Hvaða sönnun er fyrir því að Elía hafi ekki farið til himna?
2 Síðasta kraftaverk Elía var að skipta vatni árinnar Jórdan með því að slá það með embættisskikkju sinni. Þannig gátu þeir Elísa gengið yfir um á þurru. Þar sem þeir gengu austanmegin árinnar var Elía hrifinn burt í stormviðri og fluttur á annan stað á jörðinni. (Sjá greinina „Til hvaða himins fór Elía?“ á bls. 22.) Embættisskikkja Elía varð eftir. Þegar Elísa sló Jórdan með henni skiptist vatnið aftur og hann gat gengið yfir um á þurru. Þetta kraftaverk sýndi að Elísa var nú orðinn arftaki Elía við að efla sanna tilbeiðslu í Ísrael. — 2. Konungabók 2:6-15.
Guðrækilegir eiginleikar nauðsynlegir
3. Hvað sögðu Páll og Pétur um nærveru Jesú og ‚dag Jehóva‘?
3 Öldum eftir daga Elía og Elísa tengdu postularnir Páll og Pétur væntanlegan ‚dag Jehóva‘ við nærveru Jesú Krists og ókominn ‚nýjan himin og nýja jörð.‘ (2. Þessaloníkubréf 2:1, 2; 2. Pétursbréf 3:10-13) Til að lifa af hinn mikla dag Jehóva — þegar hann eyðir óvinum sínum og bjargar fólki sínu — verðum við að leita hans og ástunda auðmýkt og réttlæti. (Sefanía 2:1-3) En ýmsir fleiri eiginleikar koma í ljós þegar við skoðum atburði tengda spámanninum Elísa.
4. Hvaða hlutverki gegnir kostgæfni í þjónustu Jehóva?
4 Kostgæfni í þjónustunni er nauðsynleg til að við getum lifað ‚dag Jehóva‘ af. Elía og Elísa voru kostgæfnir í þjónustu Jehóva. Smurðar leifar kristinna manna nú á tímum veita Jehóva heilaga þjónustu með sams konar kostgæfni og taka forystuna í prédikun fagnaðarerindisins.a Frá miðjum fjórða áratugnum hafa þeir hvatt alla, sem tekið hafa við boðskapnum um Guðsríki og vonast til að lifa að eilífu á jörðinni, til að vígjast Jehóva og láta skírast. (Markús 8:34; 1. Pétursbréf 3:21) Milljónir manna hafa gert það. Einu sinni voru þeir í andlegu myrkri og dauðir vegna synda sinna en nú hafa þeir lært sannleika Guðs, öðlast von um eilíft líf í jarðneskri paradís og eru kostgæfnir í þjónustu hans. (Sálmur 37:29; Opinberunarbókin 21:3-5) Með kostgæfni sinni, samvinnu, gestrisni og öðrum góðum verkum hressa þeir andlega bræður Krists sem enn eru á jörðinni. — Matteus 25:31-46.
5. Af hverju er svona mikilvægt að gera ‚bræðrum‘ Jesú gott og hvernig er Elísa okkur fordæmi?
5 Þeir sem gera ‚bræðrum‘ Jesú gott af því að þessir smurðu menn eru fylgjendur hans eiga von um að lifa af ‚dag Jehóva.‘ Hjón í þorpinu Súnem hlutu mikla blessun fyrir góðvild sína og gestrisni við Elísa og þjón hans. Hjónin áttu engan son og maðurinn var gamall. En Elísa lofaði konunni í Súnem að hún myndi eignast son og það gerðist. Þegar þessi einkasonur dó nokkrum árum síðar fór Elísa til Súnem og reisti hann upp frá dauðum. (2. Konungabók 4:8-17, 32-37) Hvílík umbun fyrir gestrisnina við Elísa!
6, 7. Hvaða fordæmi gaf Naaman og hvaða áhrif hefur það á að lifa af ‚dag Jehóva‘?
6 Auðmýkt er nauðsynleg til að taka við biblíulegum leiðbeiningum frá ‚bræðrum‘ Krists í von um að lifa af dag Jehóva. Sýrlenski hershöfðinginn Naaman, sem var holdsveikur, þurfti að sýna auðmýkt til að fylgja tillögu hertekinnar, ísraelskrar stúlku og leita sér lækningar með því að fara til Ísraels og finna Elísa. Í stað þess að koma út úr húsi til fundar við Naaman sendi Elísa honum þessi boð: „Far og lauga þig sjö sinnum í Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða!“ (2. Konungabók 5:10) Naaman móðgaðist og reiddist en eftir að hann auðmýkti sig og dýfði sér sjö sinnum í Jórdan varð „hold hans aftur sem hold á ungum sveini, og hann varð hreinn.“ (2. Konungabók 5:14) Áður en Naaman sneri heim fór hann aftur alla leið til Samaríu til að þakka spámanni Jehóva. Elísa var staðráðinn í að hagnast ekki efnislega á þeim mætti, sem Guð gaf honum, og kom út til fundar við Naaman en þáði engar gjafir af honum. Naaman sagði Elísa auðmjúkur í bragði: „Þjónn þinn mun eigi framar færa brennifórnir og sláturfórnir neinum guðum öðrum en [Jehóva].“ — 2. Konungabók 5:17.
7 Með því að fylgja biblíulegum ráðleggingum hinna smurðu auðmjúklega njóta milljónir manna ríkulegrar blessunar núna. Og með því að iðka trú á lausnarfórn Jesú hafa þessir hjartahreinu menn hreinsast andlega. Þeir njóta nú þeirra sérréttinda að vera vinir Jehóva Guðs og Jesú Krists. (Sálmur 15:1, 2; Lúkas 16:9) Og þeim verður umbunuð hollustan við Guð og þjónusta með því að verða hlíft við eilífri eyðingu á ‚degi Jehóva‘ sem er hlutskipti stoltra, iðrunarlausra syndara, og sá dagur nálgast óðfluga. — Lúkas 13:24; 1. Jóhannesarbréf 1:7.
„Hver er með mér, hver?“
8. (a) Hvaða afstöðu hafa þeir sem lifa af ‚dag Jehóva‘ til þess að gera vilja hans? (b) Hvaða verkefni var Jehú falið? (c) Hvernig átti að fara fyrir Jesebel?
8 Þeir sem vonast til að lifa ‚dag Jehóva‘ af verða líka að vera ákveðnir í að gera vilja hans. Elía spáði djarfmannlega um eyðingu hinnar grimmu ættar Akabs konungs sem dýrkaði Baal. (1. Konungabók 21:17-26) En áður en þessi aftaka fór fram varð Elísa, arftaki Elía, að ljúka ýmsu sem ógert var. (1. Konungabók 19:15-17) Þegar tími Jehóva rann upp fyrirskipaði Elísa þjóni að fara og smyrja Jehú herforingja sem nýjan konung Ísraels. Eftir að hafa hellt olíu yfir höfuð Jehú sagði sendiboðinn honum: „Svo segir [Jehóva], Ísraels Guð: Ég smyr þig til konungs yfir lýð [Jehóva], yfir Ísrael. Þú skalt útrýma ætt Akabs, herra þíns, svo að ég fái þann veg komið fram hefndum á Jesebel fyrir blóð þjóna minna, spámannanna, og fyrir blóð allra þjóna [Jehóva]. Já, öll ætt Akabs skal fyrirfarast.“ Hinni illu Jesebel drottningu yrði kastað fyrir hunda og skyldi ekki hljóta sómasamlega greftrun. — 2. Konungabók 9:1-10.
9, 10. Hvernig rættust orð Elía á Jesebel?
9 Menn Jehú viðurkenndu að smurning hans væri gild og lýstu hann nýjan konung Ísraels. Jehú hraðaði sér til Jesreel og hófst handa við að lífláta fráhvarfsmennina, forsprakka Baalsdýrkunarinnar. Jóram konungur, sonur Akabs, varð fyrstur fyrir aftökuör Jehú. Hann reið út úr borginni til að spyrja hvort Jehú færi með friði. „Hvað er um frið að ræða, meðan Jesebel móðir þín heldur áfram með hórdóm sinn og hina margvíslegu töfra sína?“ svaraði Jehú og skaut ör svo hún gekk gegnum hjartað. — 2. Konungabók 9:22-24.
10 Guðræknar konur forðast að líkjast Jesebel eða nokkurri af hennar sauðahúsi. (Opinberunarbókin 2:18-23) Þegar Jehú kom til Jesreel hafði hún reynt að gera sig aðlaðandi í útliti. Hún horfði niður til hans út um glugga og heilsaði honum með dulinni hótun. Hann spurði þjóna hennar: „Hver er með mér, hver?“ Þegar í stað litu tveir eða þrír hirðmenn út um gluggann. Voru þeir á bandi Jehú? „Kastið henni ofan!“ kallaði hann. Og þeir biðu ekki boðanna að kasta hinni illu Jesebel út um gluggann. Þar tróðst hún undir hófum hestanna. Þegar átti að jarða hana ‚fannst ekkert af henni nema hauskúpan og fætur og hendur.‘ Hvílík uppfylling orða Elía: „Hundar [skulu] eta hold Jesebelar“! — 2. Konungabók 9:30-37.
Hugheill stuðningur við sanna tilbeiðslu
11. Hver var Jónadab og hvernig studdi hann sanna tilbeiðslu?
11 Þeir sem vonast til að lifa ‚dag Jehóva‘ af og lifa eilíflega á jörðinni verða að styðja sanna tilbeiðslu af heilum hug. Þeir verða að líkjast Jónadab, manni sem tilbað Jehóva þótt ekki væri hann Ísraelsmaður. Er Jehú hélt af stað til að ljúka verki sínu kostgæfilega vildi Jónadab sýna velþóknun sína og stuðning. Hann fór því til móts við nýjan konung Ísraels sem var á leið til Samaríu til að lífláta þá sem eftir voru af ætt Akabs. Þegar Jehú sá Jónadab spurði hann: „Ert þú einlægur við mig, eins og ég er við þig?“ Jónadab svaraði játandi þannig að Jehú rétti út höndina og bauð honum að stíga upp í stríðsvagn sinn og sagði: „Kom með mér, þá skalt þú fá að sjá, hversu ég vandlæti vegna [Jehóva].“ Jónadab þáði tafarlaust þau sérréttindi að mega styðja hinn smurða aftökumann Jehóva. — 2. Konungabók 10:15-17.
12. Af hverju krefst Jehóva réttilega óskiptrar hollustu?
12 Hugheill stuðningur við sanna tilbeiðslu er vissulega viðeigandi því að Jehóva er skapari og alheimsdrottinn sem réttilega krefst og verðskuldar óskipta hollustu okkar. Hann fyrirskipaði Ísraelsmönnum: „Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, [Jehóva] Guð þinn, er vandlátur Guð [„Guð sem krefst óskiptrar hollustu,“ NW].“ (2. Mósebók 20:4, 5) Þeir sem vonast til að lifa ‚dag Jehóva‘ af verða að tilbiðja hann einan og gera það „í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:23, 24) Þeir verða að vera einbeittir í sambandi við sanna tilbeiðslu eins og Elía, Elísa og Jónadab.
13. Hverjir viðurkenna Messíasarkonunginn líkt og Jónadab studdi Jehú, og hvernig sýna þeir það?
13 Eftir að ætt Akabs hafði verið útrýmt gerði Jehú konungur ráðstafanir til að leita uppi Baalsdýrkendur og uppræta þessa falstrú úr Ísrael. (2. Konungabók 10:18-28) Hinn himneski konungur, Jesús Kristur, hefur nú verið skipaður til að útrýma óvinum Jehóva og upphefja drottinvald hans. „Mikill múgur“ ‚annarra sauða‘ Jesú Krists styður hann af heilum hug sem Messíasarkonung og vinnur með andlegum bræðrum hans á jörðinni, líkt og Jónadab studdi Jehú af heilum hug. (Opinberunarbókin 7:9, 10; Jóhannes 10:16) Þeir sýna það með því að iðka sanna trú og taka kostgæfilega þátt í hinni kristnu þjónustu og vara óvinina við ‚degi Jehóva‘ sem nálgast óðfluga. — Matteus 10:32, 33; Rómverjabréfið 10:9, 10.
Stórbrotnir atburðir rétt framundan!
14. Hvað bíður falstrúarbragðanna?
14 Jehú gerði ráðstafanir til að binda enda á Baalsdýrkun í Ísrael. Á okkar dögum notar Guð hinn meiri Jehú, Jesú Krist, til að eyða Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Bráðlega sjáum við orð engilsins við Jóhannes postula rætast: „Hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna [Babýlon hina miklu] og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi, því að Guð hefur lagt þeim í brjóst að gjöra vilja sinn og vera samráða og gefa ríki þeirra dýrinu, allt til þess er orð Guðs koma fram.“ (Opinberunarbókin 17:16, 17; 18:2-5) „Hornin tíu“ tákna hervædd stjórnmálaöfl sem ráða ríkjum á jörðinni. Enda þótt þau lifi andlegum skækjulifnaði með Babýlon hinni miklu núna, á hún nauman tíma eftir. Stjórnmálaöfl þessa heims munu eyða falstrúarbrögðunum og „dýrið“ — Sameinuðu þjóðirnar — mun leika aðalhlutverk í eyðingu þeirra ásamt ‚hornunum tíu.‘b Hvílíkt tilefni til að lofa Jehóva! — Opinberunarbókin 19:1-6.
15. Hvernig fer þegar reynt verður að eyða jarðnesku skipulagi Guðs?
15 Eftir árás Jehú konungs á Baalsdýrkunina beindi konungsætt hans athyglinni að pólitískum óvinum Ísraels. Konungurinn Jesús Kristur mun grípa til svipaðra aðgerða. Stjórnmálaöflin standa áfram eftir að baalslegum falstrúarbrögðum hefur verið útrýmt. Undir áhrifum Satans djöfulsins gera þessir óvinir drottinvalds Jehóva allsherjarárás í von um að eyða jarðnesku skipulagi hans. (Esekíel 38:14-16) En Jehóva lætur konunginn Jesú Krist ráða niðurlögum þeirra með því að eyða þeim í Harmagedón, ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ og réttlæta drottinvald sitt að fullu. — Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:11-21; Esekíel 38:18-23.
Þjónað með kostgæfni Elísa
16, 17. (a) Hvernig vitum við að Elísa var kostgæfinn allt til æviloka? (b) Hvað ættum við að gera með örvar sannleikans?
16 Þjónar Guðs verða jafnhugrakkir og Elísa uns ‚dagur Jehóva‘ bindur enda á allt hið illa heimskerfi Satans. Auk þess að starfa sem þjónn Elía starfaði Elísa einn sem spámaður Jehóva í meira en 50 ár. Og Elísa var kostgæfinn allt til loka langrar ævi. Rétt fyrir dauða hans kom Jóas konungur, sonarsonur Jehú, í heimsókn til hans. Elísa sagði honum að skjóta ör út um gluggann. Meðan örin þaut að markinu sagði Elísa: „Sigurör frá [Jehóva]! Já, sigurör yfir Sýrlendingum! Þú munt vinna sigur á Sýrlendingum í Afek, uns þeir eru gjöreyddir.“ Eftir tilmælum Elísa sló Jóas á jörðina með örvum sínum. En hann skorti kostgæfni því hann sló aðeins þrisvar. Elísa sagði Jóasi þá að honum yrðu aðeins veittir þrír sigrar yfir Sýrlendingum og svo fór. (2. Konungabók 13:14-19, 25) Jóas konungur réð ekki niðurlögum Sýrlendinga að fullu, ‚uns þeir voru gjöreyddir.‘
17 Með kostgæfni Elísa halda hinar smurðu leifar hins vegar áfram baráttu sinni gegn falskri tilbeiðslu. Félagar þeirra með jarðneska von gera það líka. Og allir, sem vonast til að lifa af ‚dag Jehóva,‘ ættu að hafa í huga orð hins kostgæfna Elísa um að slá á jörðina. Við skulum taka örvar sannleikans og slá kostgæfilega með þeim — aftur og aftur — já, uns Jehóva segir að starfi okkar með þeim sé lokið.
18. Hvernig ættum við að bregðast við orðunum í 2. Pétursbréfi 3:11, 12?
18 ‚Dagur Jehóva‘ bindur bráðlega enda á hið núverandi illa heimskerfi. Við skulum því láta hvatningarorð Péturs postula knýja okkur til verka. „Þar eð allt þetta leysist þannig upp, hvers konar menn ættuð þið að vera í heilagri breytni og guðræknisverkum, meðan þið væntið og hafið stöðugt í huga návist dags Jehóva!“ (2. Pétursbréf 3:11, 12, NW) Þegar þetta heimskerfi leysist algerlega upp í reiðieldi Guðs fyrir atbeina Jesú Krists, þá komast þeir einir undan sem hafa getið sér orð fyrir rétta breytni og guðrækni. Siðferðilegur og andlegur hreinleiki er nauðsynlegur, svo og kærleikur til náungans sem birtist í því að sinna þörfum hans, sérstaklega andlega í kristinni þjónustu okkar.
19. Hvað verðum við að gera til að lifa ‚dag Jehóva‘ af?
19 Bera orð þín og verk vitni um að þú sért trúfastur og kostgæfinn þjónn Guðs? Ef svo er geturðu átt von um að lifa af ‚dag Jehóva‘ og ganga inn í nýja heiminn sem hann hefur lofað. Já, þú getur bjargast ef þú gerir andlegum bræðrum Krists gott af því að þeir eru fylgjendur hans, eins og hjónin í Súnem voru gestrisin við Elísa. Til að bjargast verður þú einnig að vera eins og Naaman sem fór auðmjúkur eftir fyrirmælum Jehóva og gerðist tilbiðjandi hans. Ef þú þráir að lifa að eilífu í jarðneskri paradís, þá verður þú að sýna hugheilan stuðning þinn við sanna tilbeiðslu eins og Jónadab gerði. Þá getur þú orðið meðal trúfastra þjóna Jehóva sem kynnast bráðlega af eigin raun uppfyllingu orða Jesú: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ — Matteus 25:34.
[Neðanmáls]
a Sjá 18. og 19. kafla bókarinnar „Helgist þitt nafn,“ gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Sjá bókina Opinberunin — hið mikla hámark hennar er í nánd!, bls. 254-6, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Hvert er svar þitt?
◻ Nefndu nokkra eiginleika sem eru nauðsynlegir til að lifa ‚dag Jehóva‘ af.
◻ Hvaða fordæmi gáfu hjónin í Súnem á dögum Elísa?
◻ Hvaða lærdóm má draga af Naaman?
◻ Hvernig getum við fylgt fordæmi Jónadabs?
◻ Hvaða áhrif ætti 2. Pétursbréf 3:11, 12 að hafa á okkur?