Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w90 1.4. bls. 8-12
  • Ástundið guðrækni sem skírðir kristnir menn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ástundið guðrækni sem skírðir kristnir menn
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvað er guðrækni?
  • Kappsfullrar viðleitni þörf
  • Guðræknin ræktuð
  • Auðsýnið í þolgæðinu guðrækni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Auðsýnið í þolgæðinu guðrækni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Fylgið fordæmi Jesú í guðrækni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Besta tækifæri æskunnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
w90 1.4. bls. 8-12

Ástundið guðrækni sem skírðir kristnir menn

„En þú, Guðs maður, . . . stunda réttlæti, guðhræðslu.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 6:11.

1. Hvernig myndir þú svara ef þú værir spurður hver væri þýðingarmesti dagur ævi þinna? Hvers vegna svarar þú þannig?

HVER er þýðingarmesti dagur ævi þinnar? Ef þú ert skírður vottur Jehóva svarar þú vafalaust: ‚Auðvitað dagurinn sem ég lét skírast!‘ Vissulega er skírnin þýðingarmesta skref sem þú getur stigið. Hún er ytra tákn þess að þú hafir vígst Jehóva fullkomlega og skilyrðislaust til að gera vilja hans. Skírnardagur þinn er vígsludagur þinn sem þjónn orðsins, sem þjónn hins hæsta Guðs, Jehóva.

2. (a) Með hvaða dæmi má sýna fram á að skírnin er ekki síðasta skrefið sem stigið er á kristinni lífsbraut? (b) Hvaða undirbúningsskref steigst þú áður en þú lést skírast?

2 En er skírnin síðasta skrefið sem þú stígur á hinni kristnu lífsbraut? Því fer fjarri. Lýsum því með dæmi. Með brúðkaupi lýkur tímabili skipulagningar og undirbúnings (og yfirleitt tilhugalífs). Um leið markar það upphaf sambúðar og hjónabands. Á sama hátt lýkur með skírninni tímabili undirbúnings og margra mikilvægra skrefa. Þú aflaðir þér þekkingar á Guði og Kristi. (Jóhannes 17:3) Þú byrjaðir að iðka trú á Jehóva sem hinn sanna Guð, á Krist sem frelsara þinn og á Biblíuna sem orð Guðs. (Postulasagan 4:12; 1. Þessaloníkubréf 2:13; Hebreabréfið 11:6) Þú lést þá trú í ljós með því að iðrast fyrri lífsstefnu og taka upp rétta lífsstefnu. (Postulasagan 3:19) Þú ákvaðst síðan að vígjast Jehóva til að gera vilja hans. (Matteus 16:24) Að lokum lést þú skírast. — Matteus 28:19, 20.

3. (a) Hvernig getum við sýnt fram á að skírnin er upphaf ævilangrar þjónustu við Guð? (b) Hvaða spurningar vakna og hvers vegna ættum við að hafa brennandi áhuga á svörunum?

3 Skírnin er þó enginn endapunktur heldur upphaf heilagrar þjónustu við Guð sem vígður þjónn hans. Eins og fræðimaður í biblíulegum fræðum sagði má líf kristins manns ekki vera ‚áhugakast í byrjun með langvinnu aðgerðaleysi í kjölfarið.‘ Hvernig getur þú sýnt að í þínu tilviki sé skírnin ekki einfaldlega ‚áhugakast í byrjun‘? Með því að ástunda guðrækni alla ævi. Hvað er guðrækni? Hvers vegna er nauðsynlegt að ástunda hana? Hvernig er hægt að rækta hana í fyllri mæli í lífi sínu? Við ættum að hafa mikinn áhuga á að fá svör við því, vegna þess að við verðum að „ganga fram í heilagri breytni og guðrækni“ ef við ætlum okkur að lifa af dómsdag Jehóva sem nálgast óðum. — 2. Pétursbréf 3:11, 12.

Hvað er guðrækni?

4. Hvað ráðlagði Páll Tímóteusi og hvernig var Tímóteus á vegi staddur á þeim tíma?

4 Páll skrifaði hið fyrra innblásna bréf sitt til kristna lærisveinsins Tímóteusar einhvern tíma á árabilinu 61 til 64. Eftir að hafa gert grein fyrir þeim hættum sem fégirndin getur haft í för með sér skrifaði Páll: „En þú, Guðs maður, forðast þú þetta, en stunda . . . guðhræðslu [guðrækni].“ (1. Tímóteusarbréf 6:9-11) Athyglisvert er að hafa í huga að Tímóteus var ef til vill liðlega þrítugur á þessum tíma. Hann hafði ferðast víða um lönd með Páli postula og verið veitt umboð til að útnefna umsjónarmenn og safnaðarþjóna í söfnuðunum. (Postulasagan 16:3; 1. Tímóteusarbréf 5:22) Samt sem áður ráðlagði Páll þessum vígða, skírða og þroskaða kristna manni að stunda guðrækni.

5. Hvað merkir orðið „guðrækni“?

5 Hvað átti Páll við með orðinu „guðrækni“? Gríska orðið evsebeia, sem svo er þýtt, merkir bókstaflega „mjög lotningarfullur.“ Við lesum um merkingu þess: „Evsebeia kemur stundum fyrir í samtímaáletrunum í samhengi sem bendir til persónulegrar trúrækni . . . En ‚hollusta‘ var algengari merking á almennri grísku á tímum Rómverja. . . . Fyrir kristna menn er evsebeia hin æðsta hollusta við Guð, guðrækni.“ (Christian Words eftir Nigel Turner) Í Ritningunni merkir orðið „guðrækni“ því lotningu eða trúfesti samfara hollustu við Jehóva Guð persónulega.

6. Hvernig lætur kristinn maður guðrækni sína í ljós?

6 Þessi guðrækni er þó annað og meira en aðeins lotningarfull tilfinning. Á sama hátt og ‚trúin er dauð án verka‘ þarf guðræknin að birtast áþreifanlega í lífi manns. (Jakobsbréfið 2:26) William Barclay segir í New Testament Words að evsebeia og skyld orð „láti bæði í ljós óttablandna lotningu og djúpa virðingu og feli einnig í sér tilbeiðslu sem hæfir óttablandinni lotningu og hlýðni í verkum sem hæfir djúpri virðingu.“ Evsebeia er einnig skilgreind sem „mjög raunsæ vitund um Guð á öllum sviðum lífsins.“ (The Second Epistle General of Peter and the General Epistle of Jude eftir Michael Green) Kristinn maður verður því að lifa lífi sínu þannig að það beri vitni um persónulega tryggð hans við Jehóva. — 1. Tímóteusarbréf 2:2; 2. Pétursbréf 3:11.

Kappsfullrar viðleitni þörf

7. Hvað átti Páll við er hann hvatti Tímóteus til að „stunda guðrækni“ þótt skírður væri?

7 En hvers er þörf til að þroska með sér og láta í ljós guðrækni? Er nóg einfaldlega að láta skírast? Mundu að Tímóteus var hvattur til að ‚stunda guðrækni‘ þótt skírður væri.a (1. Tímóteusarbréf 6:11) Páll var augljóslega ekki að gefa í skyn að lærisveininn Tímóteus skorti guðrækni. Hann var að undirstrika við hann nauðsyn þess að halda áfram að stunda hana í kostgæfni og einlægni. (Samanber Filippíbréfið 3:14.) Ljóst er að þessi ástundun átti að halda áfram ævilangt. Tímóteus gat, líkt og allir skírðir kristnir menn, haldið áfram að taka framförum í guðrækni.

8. Hvernig sýndi Pétur fram á að kappsfull viðleitni sé nauðsynleg hjá vígðum og skírðum kristnum manni til að ástunda guðrækni?

8 Kappsfullrar viðleitni er þörf af hálfu vígðra, skírðra kristinna manna til að stunda guðrækni. Pétur postuli skrifaði skírðum kristnum mönnum sem áttu í vændum að „verða hluttakendur í guðlegu eðli“: „Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu, í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni.“ (2. Pétursbréf 1:4-6) Augljóst er því að vissrar trúar er þörf til að bjóða sig fram til skírnar. En eftir skírnina getum við ekki farið okkur hægt og gert okkur ánægð með að vera kristin aðeins til málamynda. Við verðum þess í stað, um leið og við tökum framförum í kristilegu lífi, að halda áfram að þroska aðra góða eiginleika, þeirra á meðal guðrækni, sem hægt er að auðsýna í trú okkar. Pétur segir að það kosti kappsfulla viðleitni af okkar hálfu.

9. (a) Hvernig ber gríska orðið, sem þýtt er „stunda,“ með sér í hvaða mæli þurfi að þroska guðræknina? (b) Hvað er Pétur að hvetja okkur til að gera?

9 Gríska orðið epikhorego, sem Pétur notar hér og er þýtt „auðsýna“ í íslensku biblíunni, á sér athyglisverðan uppruna og lýsir vel hvílíkrar viðleitni er þörf. Það kemur af nafnorðinu khoregos sem merkir bókstaflega „kórstjóri.“ Það var notað um mann sem greiddi allan kostnað við æfingar og uppihald kórs í tengslum við sviðsetningu leikrits. Hann tók fúslega á sig þessa ábyrgð vegna ástar til borgar sinnar og greiddi öll útgjöld úr eigin vasa. Hann lagði metnað sinn í að vera rausnarlegur á fé svo að afla mætti alls sem þurfti til að sýningin yrði sem glæsilegust. Orðið tók á sig merkinguna „að útvega, leggja rausnarlega fram.“ (Samanber 2. Pétursbréf 1:11.) Pétur hvetur okkur því til að útvega sjálfum okkur guðrækni, ekki aðeins í smáum mæli heldur svo ríkulega svo frekast er kostur.

10, 11. (a) Hvers vegna er viðleitni nauðsynleg til að rækta og sýna guðrækni? (b) Hvernig getum við sigrað í baráttunni?

10 En hvers vegna er slíkrar viðleitni krafist til að rækta með sér og láta í ljós guðrækni? Meðal annars vegna þess að við eigum í baráttu gegn hinu fallna holdi. Þar eð „hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans“ er ekki auðvelt að sýna Guði hlýðni í verki allt sitt líf. (1. Mósebók 8:21; Rómverjabréfið 7:21-23) „Allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða,“ segir Páll postuli. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Já, kristinn maður, sem gerir sér far um að lifa þannig að hann þóknist Guði, verður að vera ólíkur heiminum. Hann hefur annað verðmætamat og önnur markmið en heimurinn. Eins og Jesús aðvaraði kallar það fram hatur hins óguðlega heims. — Jóhannes 15:19; 1. Pétursbréf 4:4.

11 Eigi að síður getum við sigrað í baráttunni því að ‚Jehóva veit hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu.‘ (2. Pétursbréf 2:9) Við verðum þó að gera okkar til þess með því að ástunda guðrækni.

Guðræknin ræktuð

12. Hvernig gefur Pétur í skyn hvað þurfi til að rækta með sér guðrækni í fyllri mæli?

12 Hvernig getur þú ræktað þennan góða eiginleika í fyllri mæli? Pétur postuli gefur vísbendingu um það. Í 2. Pétursbréfi 1:5, 6, þar sem hann telur upp þá eiginleika sem þurfa að leggjast við trú okkar, nefnir hann þekkingu á undan guðrækni. Fyrr í sama kafla sagði hann: „Hans guðdómlegi máttur hefur veitt oss allt, sem leiðir til lífs og guðrækni með þekkingunni á honum, sem kallaði oss.“ (2. Pétursbréf 1:3) Pétur tengir þannig saman guðrækni og nákvæma þekkingu á Jehóva.

13. Hvers vegna er nákvæm þekking nauðsynleg til að rækta með sér guðrækni?

13 Án nákvæmrar þekkingar væri raunar ógerlegt að rækta með sér guðrækni. Hvers vegna? Mundu að guðrækni beinist að Jehóva persónulega og birtist í því hvernig við lifum lífi okkar. Nákvæm þekking á Jehóva er þannig nauðsynleg, því að hún felur í sér að kynnast honum persónulega og náið, að læra að þekkja vel eiginleika hans og vegu. Hún felur meira að segja í sér að við kappkostum að líkjast honum. (Efesusbréfið 5:1) Því meiri framförum sem við tökum í að kynnast Jehóva og endurspegla vegu hans og eiginleika, þeim mun betur þekkjum við hann. (2. Korintubréf 3:18; samanber 1. Jóhannesarbréf 2:3-6.) Það hefur síðan í för með sér að við metum enn betur að verðleikum hina dýrmætu eiginleika Jehóva og sýnum guðrækni í fyllri mæli.

14. Hvað ætti að felast í einkanámi okkar og hvers vegna?

14 Hvernig getur þú aflað þér nákvæmrar þekkingar? Enginn vegur er að stytta sér leið að því marki. Sá sem vill afla sér nákvæmrar þekkingar þarf að vera iðinn við nám í Biblíunni og hjálpargögnum til biblíunáms. Innifalið í slíku einkabiblíunámi ætti að vera reglulegur biblíulestur líkt og er á námsáætlun Guðveldisskólans. (Sálmur 1:2) Þar er Biblían er gjöf frá Jehóva endurspeglar biblíunám okkar hve mikils við metum þá gjöf. Sýna einkanámsvenjur þínar að þú metir andlegar ráðstafanir Jehóva mikils? — Sálmur 119:97.

15, 16. (a) Hvað getur hjálpað okkur að rækta löngun í einkabiblíunám? (b) Hvað þurfum við að gera þegar við lesum hluta af orði Guðs, ef einkabiblíunámið á að hjálpa okkur að þroska guðrækni?

15 Að vísu eiga ekki allir auðvelt með lestur og nám. Þó er hægt með tíma og viðleitni að rækta upp andlega matarlyst og löngun til að nema Biblíuna. (1. Pétursbréf 2:2) Þegar þú hugleiðir með þakklæti allt sem Jehóva Guð hefur gert, er að gera og á eftir að gera fyrir þig, þá mun hjarta þitt koma þér til að vilja læra allt sem þú getur um hann. — Sálmur 25:4.

16 Ef slíkt einkabiblíunám á að gefa af sér guðrækni má markmið þitt ekki vera það eitt að komast yfir ákveðinn blaðsíðufjölda eða fylla hugann upplýsingum. Þegar þú lest hluta af orði Guðs þarftu að taka þér tíma til að hugleiða efnið og spyrja þig spurninga svo sem: ‚Hvað kennir þetta mér um eiginleika Jehóva og vegu? Hvernig get ég líkst Jehóva betur á þessum sviðum?‘

17. (a) Hvað lærum við um miskunn Jehóva af Hóseabók? (b) Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur er við hugleiðum miskunn Jehóva?

17 Við skulum taka dæmi. Fyrir nokkru var gert ráð fyrir því í lestraráætlun Guðveldisskólans að við læsum Hóseabók. Eftir að hafa lesið biblíubókina gastu spurt þig: ‚Hvað lærði ég um Jehóva sem persónu — um eiginleika hans og vegu — af þessari bók?‘ Af síðari biblíuriturum má sjá að við getum margt lært um miskunn Jehóva af Hóseabók. (Berðu saman Matteus 9:13 og Hósea 6:6; Rómverjabréfið 9:22-26 og Hósea 1:10 og 2:21-23.) Viðskipti Hósea við konu sína, Gómer, var dæmi til að sýna vilja Jehóva til að miskunna Ísrael. (Hósea 1:2; 3:1-5) Þótt blóðsúthellingar, þjófnaður, saurlífi og skurðgoðadýrkun væru í algleymingi í Ísrael ‚hughreysti‘ Jehóva Ísraelsmenn. (Hósea 2:13, 14; 4:2) Jehóva bar engin skylda til að sýna slíka miskunn heldur ætlaði hann að gera það „af frjálsum vilja,“ svo framarlega sem Ísraelsmenn iðruðust í hjarta sér og sneru frá sinni syndugu breytni. (Hósea 14:5; samanber Hósea 3:3.) Ef þú hugleiðir þessa óviðjafnanlegu miskunn Jehóva hlýtur það að snerta hjarta þitt og styrkja persónulega tryggð þína við hann.

18. Hvaða spurninga gætir þú spurt þig eftir að hafa hugleitt miskunnsemi Jehóva sem lögð er áhersla á í Hóseabók?

18 En meira er krafist. „Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða,“ sagði Jesús. (Matteus 5:7) Því er gott að spyrja sig eftir að hafa hugleitt miskunn Jehóva sem lögð er áhersla á í Hóseabók: ‚Hvernig get ég betur líkt eftir miskunn Jehóva í samskiptum mínum við aðra? Ef bróðir eða systir, sem hefur syndgað gegn mér eða móðgað mig, biðst fyrirgefningar, fyrirgef ég þá „með gleði“‘? (Rómverjabréfið 12:8; Efesusbréfið 4:32) Ef þú þjónar í söfnuðinum sem öldungur gætir þú spurt þig: ‚Hvernig get ég líkt betur eftir Jehóva, sem er „fús til að fyrirgefa,“ þegar ég þarf að sinna dómsmálum, einkum ef syndarinn lætur í ljós ósvikin merki djúprar iðrunar?‘ (Sálmur 86:5; Orðskviðirnir 28:13) ‚Hverju ætti ég að leita eftir sem grundvelli til að sýna miskunn?‘ — Samanber Hósea 5:4 og 7:14.

19, 20. (a) Hver er árangurinn af rækilegu biblíunámi? (b) Hvað annað getur hjálpað okkur að rækta með okkur guðrækni?

19 Einkabiblíunám er mjög umbunarríkt ef því eru gerð svona rækileg skil! Þá mun hjarta þitt vera yfirfullt af þakklæti til Jehóva vegna hinna dýrmætu eiginleika hans. Og með því að leggja þig stöðugt fram um að líkja eftir þessum eiginleikum í lífi þínu munt þú styrkja persónuleg tengsl þín við hann. Þannig munt þú ástunda guðrækni sem vígður, skírður þjónn Jehóva. — 1. Tímóteusarbréf 6:11.

20 Önnur hjálp í að rækta þennan dýrmæta eiginleika er fólgin í Jesú Kristi — hinu fullkomna fordæmi guðrækninnar. Hvernig getur fordæmi Jesú hjálpað þér bæði að rækta guðrækni og sýna hana? Greinin á eftir fjallar um það og skyldar spurningar.

[Neðanmáls]

a The New International Dictionary of New Testament Theology segir að gríska orðið dioko (‚leggja stund á‘) merki í klassískum ritum „bókstaflega að elta, veita eftirför, hlaupa á eftir . . . og í táknrænni merkingu að keppa kostgæfilega eftir einhverju, reyna að afreka eitthvað, reyna að eignast.“

Hverju svarar þú?

◻ Hvers vegna er skírn ekki síðasta skrefið á kristinni lífsbraut þinni?

◻ Hvað merkir „guðrækni“ og hvernig er hún látin í ljós?

◻ Hvers vegna er kappsfullrar viðleitni krafist til að þroska með sér guðrækni?

◻ Hvernig getur þú þroskað með þér guðrækni í fyllri mæli?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila