Hverjir skrifuðu Biblíuna?
BIBLÍAN er full af mótsögnum,“ segja efahyggjumenn. „Auk þess er hún bara skrifuð af mönnum, svo að það er tæplega hægt að líta á hana sem óskeikulan leiðarvísi í lífinu.“
Ert þú sömu skoðunar og efahyggjumenn sem halda því fram að Biblían geymi einungis hugmyndir og vangaveltur ófullkominna manna? Til eru prestar sem eru þannig þenkjandi. Svissneski mótmælendaguðfræðingurinn Karl Barth, sem nú er látinn, sagði í bók sinni Kirchliche Dogmatik (Kirkjuleg kenningafræði): „Spámennirnir og postularnir gátu sem slíkir gert mistök bæði í ræðu og riti.“ Að vísu er sums staðar að finna ólíkt orðalag í frásögum tveggja eða fleiri biblíuritara af sama atburði. Einnig stendur sitthvað í Biblíunni sem á yfirborðinu virðist stangast algerlega á önnur atriði í henni. En er þar um raunverulegar mótsagnir að ræða? Er Biblían einfaldlega verk manna? Hverjir skrifuðu Biblíuna?
Svarið er einfalt: „Menn [töluðu] orð frá Guði.“ En hvernig vissu þeir hvað þeir skyldu tala og hvað þeir skyldu skrifa? Maðurinn, sem þessi orð eru höfð eftir, Símon Pétur postuli, svarar því til að þeir hafi verið „knúðir af heilögum anda.“ — 2. Pétursbréf 1:21.
Biblían leggur hvað eftir annað áherslu á að hún sé „orð Guðs.“ Í hinum 176 versum 119. Sálmsins er vikið að þessu atriði 176 sinnum, og er þá aðeins skyggnst í þennan eina kafla Biblíunna. Yfirleitt er rithöfundum mjög í mun að lesendur verka þeirra viti að þeir séu höfundar verkanna. Því er ólíkt farið með ritara Biblíunnar sem veita Guði allan heiður af verkinu. Hún er hans bók, ekki þeirra. — 1. Þessaloníkubréf 2:13; 2. Samúelsbók 23:2.
„Knúðir af heilögum anda“ — hvernig?
Hvernig voru þessir menn „knúðir af heilögum anda“? Svarið er að finna í bréfi til Tímóteusar, kristins manns á fyrstu öld: „Sérhver ritning er innblásin af Guði.“ Orðin „innblásin af Guði“ er þýðing á gríska orðinu theopneustos sem merkir bókstaflega „guð-innandaður.“ Guð notaði ósýnilegan starfskraft sinn — heilagan anda — til að „anda“ hugmyndum sínum inn í hugi ritaranna. Jehóva Guð er þannig höfundur og útgefandi Biblíunnar. Það var hann sem stýrði ritun hennar ekki ósvipað og kaupsýslumaður les einkaritara fyrir bréf. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Þetta hugtak, sem þýtt er „guð-innandaður,“ á sér hliðstæður í orðunum „knúðir af heilögum anda.“ Gríska orðið, sem hér er þýtt „knúðir,“ er notað á frummálinu um skip sem vindur ber í ákveðna átt. (Samanber Postulasöguna 27:15, 17.) Líkt og vindurinn ber seglskip áfram, þannig hugsuðu, töluðu og skrifuðu biblíuritararnir umdir áhrifum Guðs, knúðir af heilögum anda hans sem hann ‚andaði‘ í þá.
Mennirnir sem Guð notaði fyrir ritara
Biblíuritararnir voru tiltölulega fámálir um sjálfa sig. Greinilega töldu þeir sig ekki hafa verulega þýðingu heldur lögðu sig sífellt fram um að heiðra Guð með því að gera sem minnst úr mikilvægi sjálfra sín. Við vitum þó að í hópi þeirra voru embættismenn, dómarar, spámenn, konungar, fjárhirðar, bændur og fiskimenn — alls um 40 menn. Afleiðingin er sú að Biblían býr yfir hlýju, fjölbreytni og víðtæku aðdráttarafli, enda þótt hún sé orð Guðs.
Margir biblíuritaranna þekktu ekki hver annan. Margar aldir aðskildu suma þeirra og bæði lunderni þeirra, lífsreynsla, menntun og þjóðfélagsstétt spannar afarbreitt svið. En óháð aldri eða öðru sem skildi þá að sýna rit þeirra fullkomna einingu. Á um það bil 16 alda tímabili unnu þeir að gerð bókar þar til henni var lokið. Nákvæm athugun á Biblíunni leiðir í ljós einstætt innra samræmi. Biblían endurómar því huga eins höfundar þótt margir ritarar hafi verið notaðir til að koma þeim í letur.
Ætti þetta ekki að koma okkur til að ‚gefa enn betur gaum‘ þessari einstöku bók, Biblíunni? Ættum við ekki að geta komist að sömu niðurstöðu og Pétur postuli sem skrifaði: „Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað“? — Hebreabréfið 2:1; 2. Pétursbréf 1:19.
En hvað um þá staðhæfingu að Biblían sé í mótsögn við sjálfa sig? Er hún það? Hverju svarar þú?
[Rammi á blaðsíðu 4]
„Þetta er stórfengleg bók! Tjáningarmáti hennar er framandlegri en efnið — orðin verða nánast náttúruafurð eins og tré, eins og blóm, eins og hafið, eins og stjörnurnar, eins og maðurinn sjálfur. Þau bruma, streyma, skína, hlægja, hvernig veit enginn, hvers vegna veit enginn, allt er einfaldlega svo fullkomlega náttúrlegt. Hún er sannarlega orð Guðs, ólík öðrum bókum sem bera vitni aðeins um mannlega speki.“ — Þýska ljóðskáldið Heinrich Heine um Biblíuna.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Rétt eins og vindur fyllir seglin og knýr seglskipið áfram, eins voru biblíuritararnir ‚knúðir af heilögum anda Guðs.‘