‚Berjist fyrir trúnni‘
„[Berjist] fyrir þeirri trú, sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld.“ — JÚDASARBRÉFIÐ 3.
1. Í hvaða skilningi eiga sannkristnir menn í hernaði?
HLUTSKIPTI hermanna í stríði hefur alltaf verið erfitt. Hugsaðu þér að klæðast fullum herklæðum og þramma langar vegalengdir í alls konar veðri, gangast undir lýjandi þjálfun í vopnaburði eða þurfa að verjast alls kyns ógnum við líf og limi. Sannkristnir menn taka hins vegar engan þátt í styrjöldum þjóðanna. (Jesaja 2:2-4; Jóhannes 17:14) Við megum þó aldrei gleyma að við eigum öll í stríði í vissum skilningi. Satan hatar Jesú Krist og fylgjendur hans á jörðinni. (Opinberunarbókin 12:17) Allir sem ákveða að þjóna Jehóva Guði eru í reynd að skrá sig í herþjónustu til að heyja andlegt stríð. — 2. Korintubréf 10:4.
2. Hvernig lýsir Júdas hernaði kristins manns og hvernig getur bréf hans hjálpað okkur að þrauka í stríðinu?
2 Júdas, hálfbróðir Jesú, skrifar þessi viðeigandi orð: „Þér elskaðir, mér var það ríkt í huga að rita yður um sameiginlegt hjálpræði vort. En nú kemst ég ekki hjá því að skrifa og hvetja yður til að berjast fyrir þeirri trú, sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld.“ (Júdasarbréfið 3) Orðið, sem Júdas notar og þýtt er „berjast,“ er skylt orði sem merkir „kvöl.“ Þessi barátta getur verið erfið, jafnvel kvalafull. Finnst þér stundum erfitt að þrauka í þessum hernaði? Hið stutta en áhrifamikla bréf Júdasar getur hjálpað okkur. Það hvetur okkur til að standa gegn siðleysi, að virða yfirvald skipað af Guði og varðveita okkur í kærleika hans. Skoðum hvernig við getum heimfært þessar ráðleggingar á okkur.
Stöndum gegn siðleysi
3. Hvaða neyðarástand blasti við kristna söfnuðinum á dögum Júdasar?
3 Júdas sá að kristnir bræður hans höfðu ekki allir yfirhöndina í stríðinu gegn Satan. Neyðarástand blasti við hjörðinni. Spilltir menn höfðu ‚læðst inn,‘ skrifar Júdas. Þessir menn stuðluðu lævíslega að siðleysi. Og þeir réttlættu hátterni sitt klókindalega og ‚misnotuðu náð Guðs vors til taumleysis.‘ (Júdasarbréfið 4) Kannski hugsuðu þeir með sér, líkt og sumir gnostíkar fornaldar, að því meir sem maður syndgaði, þeim mun meiri náð hlyti maður hjá Guði — þannig að það væri eins gott að syndga sem mest! Eða kannski hugsuðu þeir sem svo að góður Guð myndi aldrei refsa þeim. Hvort tveggja var rangt. — 1. Korintubréf 3:19.
4. Hvaða þrjú biblíudæmi um dóma Jehóva forðum nefnir Júdas?
4 Júdas hrekur rangan hugsunarhátt þeirra með því að nefna þrjú dæmi um dóma Jehóva forðum: gegn Ísraelsmönnum sem „trúðu“ ekki, gegn ‚englunum sem yfirgáfu eigin bústað‘ til að syndga með konum og gegn íbúum Sódómu og Gómorru sem ‚drýgt höfðu saurlifnað á líkan hátt og stundað óleyfilegar lystisemdir.‘ (Júdasarbréfið 5-7; 1. Mósebók 6:2-4; 19:4-25; 4. Mósebók 14:35) Í öllum tilvikum fullnægði Jehóva dómi sínum afdráttarlaust á syndurunum.
5. Hvaða spámann fortíðar vitnar Júdas í og hvernig lýsir spádómurinn öruggri vissu um uppfyllingu?
5 Síðar minnist Júdas á enn víðtækari dóm. Hann vitnar í spádóm Enoks sem er hvergi annars staðar nefndur í hinni innblásnu Ritningu.a (Júdasarbréfið 14, 15) Enok boðaði þann tíma er Jehóva myndi dæma alla óguðlega menn og óguðleg verk þeirra. Rétt er að vekja athygli á að Enok talar í lýsingarhætti þátíðar því að dómar Guðs voru jafnöruggir og hefði þeim þegar verið fullnægt. Vera kann að fólk hafi gert gys að Enok og síðar Nóa, en allir slíkir spottarar drukknuðu í heimsflóðinu.
6. (a) Á hvað þurfti að minna kristna menn á dögum Júdasar? (b) Af hverju ættum við að fara eftir áminningum Júdasar?
6 Af hverju skrifar Júdas um þessa dóma Guðs? Af því að hann vissi að sumir, sem tengdust kristnu söfnuðunum á þeim tíma, drýgðu jafnsoralegar og vítaverðar syndir og þeir sem kölluðu yfir sig dóma forðum daga. Júdas segir því að það sé nauðsynlegt að minna söfnuðina á nokkur andleg grundvallarsannindi. (Júdasarbréfið 5) Þeir höfðu greinilega gleymt að Jehóva Guð sá hvað þeir voru að gera. Já, hann sér til þjóna sinna þegar þeir brjóta lög hans vísvitandi og saurga sjálfa sig og aðra. Slíkt atferli hryggir hann ákaflega. (1. Mósebók 6:6; Sálmur 78:40) Það er ógnvekjandi tilhugsun að við lítilmótlegir menn skulum geta haft áhrif á tilfinningar æðsta alheimsdrottins. Hann fylgist með okkur daglega og þegar við gerum okkar besta til að feta í fótspor sonar hans, Jesú Krists, gleðjum við hjarta hans með breytni okkar. Við skulum því aldrei styggjast við áminningar eins og Júdas gefur heldur fara eftir þeim. — Orðskviðirnir 27:11; 1. Pétursbréf 2:21.
7. (a) Af hverju er áríðandi fyrir þá sem drýgt hafa alvarlega synd að leita tafarlaust hjálpar? (b) Hvernig getum við öll forðast siðleysi?
7 Jehóva sér ekki bara heldur lætur líka til sín taka. Hann er réttlátur Guð og refsar illvirkjum — fyrr eða síðar. (1. Tímóteusarbréf 5:24) Menn eru einungis að blekkja sjálfa sig ef þeir hugsa með sér að dómar hans séu aðeins liðin saga og að honum standi á sama um hið illa sem þeir aðhafast. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir alla, sem eru flæktir í siðleysi, að leita tafarlaust hjálpar kristinna öldunga. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Við þurfum öll að vera glaðvakandi í andlegum hernaði okkar fyrir þeirri ógn sem stafar af siðleysi. Á hverju ári verður mannfall — mönnum er vikið úr söfnuðinum, flestum fyrir siðlausar athafnir sem þeir iðrast ekki. Við verðum að einsetja okkur að standast allar freistingar sem gætu stefnt okkur út á slíka braut. — Samanber Matteus 26:41.
Virðum yfirvald skipað af Guði
8. Hverjar voru ‚tignirnar‘ sem Júdas nefnir í 8. versi?
8 Annað vandamál, sem Júdas fjallar um, er virðingarleysi fyrir yfirvaldi sem Guð hefur skipað. Í áttunda versinu sakar hann þessa sömu óguðlegu menn um að „lastmæla tignum.“ Hverjar voru þessar ‚tignir‘? Þetta voru ófullkomnir menn en þeir fóru með ábyrgð sem heilagur andi Jehóva hafði veitt þeim. Í söfnuðunum voru til dæmis öldungar sem var falin sú ábyrgð að gæta hjarðar Guðs. (1. Pétursbréf 5:2) Þarna voru líka farandumsjónarmenn eins og Páll postuli. Og öldungaráðið í Jerúsalem starfaði sem stjórnandi ráð og tók ákvarðanir sem snertu kristna söfnuðinn í heild. (Postulasagan 15:6) Júdas hafði þungar áhyggjur af því að sumir í söfnuðunum svívirtu slíka menn eða lastmæltu þeim.
9. Hvaða dæmi um virðingarleysi fyrir yfirvaldi nefnir Júdas?
9 Júdas fordæmir slíkt virðingarleysi í 11. versinu og vitnar í þrjú önnur dæmi til viðvörunar: Kain, Bíleam og Kóra. Kain hunsaði kærleiksrík ráð Jehóva og gekk af ásettu ráði fram í manndrápshug og hatri. (1. Mósebók 4:4-8) Bíleam fékk endurteknar viðvaranir sem voru ótvírætt frá æðri máttarvöldum — jafnvel asnan hans talaði við hann! En hann hélt eigingjarn áfram ráðabruggi sínu gegn fólki Guðs. (4. Mósebók 22:28, 32-34; 5. Mósebók 23:5) Kóra gegndi ábyrgðarstöðu en það nægði honum ekki. Hann æsti til uppreisnar gegn hógværasta manni jarðar, Móse. — 4. Mósebók 12:3; 16:1-3, 32.
10. Hvernig gætu sumir fallið í þá gildru að „lastmæla tignum“ og af hverju ber að forðast það?
10 Þessi ljóslifandi dæmi kenna okkur að hlýða á ráð og virða þá sem Jehóva notar til að gegna ábyrgðarstörfum. (Hebreabréfið 13:17) Það er ekkert auðveldara en að finna að hinum útnefndu öldungum því að þeir eru ófullkomnir eins og við öll. En ef við einblínum á galla þeirra og gröfum undan virðingu fyrir þeim, er þá hugsanlegt að við séum að „lastmæla tignum“? Í 10. versinu talar Júdas um menn sem „lastmæla öllu því, sem þeir þekkja ekki.“ Stundum gagnrýnir einhver ákvörðun öldungaráðs eða dómnefndar. En hann fær ekki að vita allt sem öldungarnir þurftu að hafa hliðsjón af þegar þeir tóku ákvörðun. Af hverju þá að lastmæla því sem hann veit í rauninni ekkert um? (Orðskviðirnir 18:13) Þeir sem halda áfram að tala í gagnrýnistón gætu valdið sundrungu í söfnuðinum og það mætti jafnvel líkja þeim við „blindsker“ þegar safnaðarmenn koma saman. (Júdasarbréfið 12, 16, 19) Við viljum ekki stefna öðrum í andlega hættu. Við skulum heldur vera staðráðin í að vera þakklát fyrir erfiði þeirra sem með ábyrgðina fara og fyrir hollustu þeirra við hjörð Guðs. — 1. Tímóteusarbréf 5:17.
11. Af hverju lagði Míkael ekki lastmælisdóm á Satan?
11 Júdas nefnir dæmi um persónu sem virti réttmætt yfirvald. Hann skrifar: „Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Míkael að leggja lastmælisdóm á djöfulinn, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: ‚[Jehóva] refsi þér!‘“ (Júdasarbréfið 9) Þessi athyglisverða lýsing, sem við finnum aðeins í Júdasarbréfinu, kennir okkur tvennt. Í fyrsta lagi kennir hún okkur að láta Jehóva um að dæma. Satan vildi greinilega misnota lík hins trúfasta Móse til að stuðla að falsdýrkun. Það hefði verið mikið vonskuverk. Míkael sýndi hins vegar þá auðmýkt að fella ekki dóm í málinu því að það vald tilheyrði Jehóva einum. Við ættum ekki síður að varast að dæma trúfasta menn sem eru að reyna að þjóna Jehóva.
12. Hvað geta þeir sem gegna ábyrgðarstörfum í kristna söfnuðinum lært af fordæmi Míkaels?
12 Í öðru lagi geta þeir sem fara með einhver yfirráð í söfnuðinum líka lært sína lexíu af Míkael. Enda þótt hann væri ‚höfuðengill,‘ æðstur allra engla, misnotaði hann sér ekki valdastöðu sína, jafnvel ekki þegar honum var ögrað. Trúfastir öldungar fylgja fordæmi hans dyggilega, minnugir þess að það væri óvirðing við drottinvald Jehóva ef þeir misnotuðu vald sitt. Bréf Júdasar hafði margt að segja um menn, sem gegndu virðingarstöðum í söfnuðinum, en voru farnir að misbeita valdi sínu. Í 12. til 14. versi fordæmir Júdas til dæmis vægðarlaust hirða sem „háma í sig blygðunarlaust.“ (Samanber Esekíel 34:7-10.) Áhugi þeirra beindist fyrst og fremst að eigin hag, ekki að hjörð Jehóva. Öldungar nú á tímum geta lært margt af slíkum dæmum. Orð Júdasar draga í rauninni upp lifandi mynd af því hvernig við viljum ekki verða. Við getum ekki verið hermenn Krists þegar við látum undan eigingirni; við erum þá of uppteknir að berjast fyrir eigin hag. Við skulum öll lifa eftir orðum Jesú: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.
„Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs“
13. Af hverju eigum við öll að þrá heitt að varðveita okkur í kærleika Guðs?
13 Undir lok bréfsins gefur Júdas hlýleg ráð: „Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs.“ (Júdasarbréfið 21) Ekkert hjálpar okkur meira að heyja kristilegan hernað en þetta, að njóta kærleika Jehóva Guðs. Þegar allt kemur til alls er kærleikur áhrifamesti eiginleiki Jehóva. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Páll skrifaði kristnum mönnum í Róm: „Ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ (Rómverjabréfið 8:38, 39) En hvernig varðveitum við okkur í kærleika Guðs? Júdas nefnir þrennt sem við getum gert til þess.
14, 15. (a) Hvað merkir það að byggja okkur upp í okkar „helgustu trú“? (b) Hvernig getum við kannað ástand andlegra herklæða okkar?
14 Í fyrsta lagi segir hann okkur að halda áfram að byggja okkur upp í okkar „helgustu trú.“ (Júdasarbréfið 20) Eins og við sáum í greininni á undan er það langtímaverkefni. Við erum eins og hús sem þarf að styrkja jafnt og þétt gegn æ harðari ágangi náttúruaflanna. (Samanber Matteus 7:24, 25.) Verum því aldrei of örugg með okkur. Verum heldur vakandi fyrir því hvar við getum byggt okkur upp á grunni trúarinnar, svo að við verðum sterkari og trúfastari hermenn Krists. Við gætum til dæmis hugað að hinum mismunandi hlutum andlegu herklæðanna sem lýst er í Efesusbréfinu 6:11-18.
15 Hvernig eru andleg herklæði okkar á sig komin? Er ‚skjöldur trúarinnar‘ jafnsterkur og hann þarf að vera? Ef við lítum um öxl yfir nýliðin ár, sjást þá einhver merki þess að við séum farin að slá slöku við? Hefur dregið úr samkomusókn hjá okkur, kostgæfnin í boðunarstarfinu minnkað eða áhugi á einkanámi dvínað? Það eru alvarleg hættumerki! Við þurfum að bregðast tafarlaust við til að byggja okkur upp og styrkja í sannleikanum. — 1. Tímóteusarbréf 4:15; 2. Tímóteusarbréf 4:2; Hebreabréfið 10:24, 25.
16. Hvað merkir það að biðja í heilögum anda og hvað ættum við að biðja Jehóva um að staðaldri?
16 Önnur leið til að varðveita sig í kærleika Guðs er að halda áfram að ‚biðja í heilögum anda.‘ (Júdasarbréfið 20) Það merkir að biðja undir áhrifum anda Jehóva og í samræmi við andainnblásið orð hans. Bæn er mikilvæg leið til að nálgast Jehóva persónulega og tjá honum tryggð okkar. Við ættum aldrei að vanrækja þessi miklu sérréttindi. Og í bænum okkar getum við beðið — og reyndar haldið áfram að biðja — um heilagan anda. (Lúkas 11:13) Hann er sterkasta aflið sem við höfum aðgang að. Með slíkri hjálp getum við alltaf varðveitt okkur í kærleika Guðs og þraukað sem hermenn Krists.
17. (a) Af hverju er fordæmi Júdasar í mildi og miskunn eftirtektarvert? (b) Hvernig getum við öll haldið áfram að sýna mildi og miskunn?
17 Í þriðja lagi hvetur Júdas okkur til að halda áfram að vera mildir og miskunnsamir. (Júdasarbréfið 22) Fordæmi hans sjálfs er eftirtektarvert. Honum var réttilega órótt út af þeirri spillingu, siðleysi og fráhvarfi sem var farið að gera vart við sig í kristna söfnuðinum. En hann var ekki gripinn skelfingu; hann hugsaði ekki með sér að ástandið væri einhvern veginn of hættulegt til að vera mildur og miskunnsamur. Hann hvatti bræður sína til að vera mildir þegar hægt væri, rökræða vingjarnlega við þá sem væru efablandnir og jafnvel ‚að hrífa út úr eldinum‘ þá sem væru komnir nálægt því að syndga alvarlega. (Júdasarbréfið 23; Galatabréfið 6:1) Þetta er góð hvatning til öldunga á okkar erfiðu tímum. Þeir leitast líka við að vera mildir og miskunnsamir hvenær sem tilefni er til en vera jafnframt fastir fyrir þegar nauðsyn krefur. Við viljum öll vera miskunnsöm hvert við annað. Við ættum til dæmis ekki að ala með okkur gremju út af smámunum heldur vera örlát á fyrirgefningu okkar. — Kólossubréfið 3:13.
18. Hvernig getum við verið örugg um sigur í andlegum hernaði okkar?
18 Stríðið, sem við eigum í, er ekki auðvelt. Eins og Júdas bendir á er þetta ‚hörð barátta.‘ (Júdasarbréfið 3, NW) Við eigum í höggi við öfluga óvini sem allir fylkja liði gegn okkur — Satan, illan heim hans og okkar eigin ófullkomleika. Engu að síður getum við verið algerlega örugg um sigur. Af hverju? Af því að við stöndum Jehóva megin. Júdas lýkur bréfi sínu með þeirri áminningu að Jehóva sé réttilega eignuð „dýrð, hátign, máttur og vald fyrir allar aldir, nú og um allar aldir.“ (Júdasarbréfið 25) Er það ekki mikilfengleg tilhugsun? Leikur þá nokkur vafi á að þessi sami Guð sé fær um að ‚varðveita okkur frá hrösun‘? (Júdasarbréfið 24) Auðvitað ekki. Við skulum því vera staðráðin í að halda áfram að standa gegn siðleysi, að virða yfirvald skipað af Guði og að varðveita okkur í kærleika hans. Þannig getum við í sameiningu öðlast dýrlegan sigur.
[Neðanmáls]
a Sumir fræðimenn halda því fram að Júdas sé að vitna í hina apokrýfu Enoksbók. En R. C. H. Lenski bendir á: „Við spyrjum: Hvaðan er þetta samansafn, þessi Enoksbók? Hún er hreinn samtíningur og enginn veit með vissu hve gamlir hinir ýmsu hlutar eru . . . , enginn veit nema sumt í bókinni sé kannski sótt til Júdasar sjálfs.“
Upprifjunarspurningar
◻ Hvernig kennir bréf Júdasar okkur að standa gegn siðleysi?
◻ Af hverju er þýðingarmikið að virða yfirvald skipað af Guði?
◻ Hvers vegna er mjög alvarlegt að misbeita valdi sínu í söfnuðinum?
◻ Hvernig getum við varðveitt okkur í kærleika Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Kristnir menn heyja andlegan hernað, ólíkt rómverskum hermönnum.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Kristnir hirðar þjóna ekki af eigingirni heldur kærleika.