Spádómsdagar Daníels og trú okkar
„Sæll er sá, sem þolugur þreyr og nær eitt þúsund þrjú hundruð þrjátíu og fimm dögum.“ — DANÍEL 12:12.
1. Hvers vegna tekst mörgum ekki að finna sanna hamingju og hverju er sönn hamingja tengd?
ALLIR vilja vera hamingjusamir. Mjög fáir eru það hins vegar nú á dögum. Hvers vegna? Að hluta til vegna þess að flestir leita hamingjunnar á röngum stað. Hamingjunnar er leitað til dæmis í menntun, auðæfum, starfsframa eða eftirsókn eftir valdi. Í inngangsorðum fjallræðu sinnar tengdi Jesús hamingju hins vegar við það að skynja andlega þörf sína, við miskunn, hreint hjarta og áþekka eiginleika. (Matteus 5:3-10) Sú hamingja, sem Jesús talaði um, er raunveruleg og varanleg.
2. Hvað átti að veita hamingju á endalokatímanum samkvæmt spádóminum og hvaða spurningu vekur það?
2 Hjá hinum smurðu leifum á endalokatímanum er hamingja tengd einu enn. Í Daníelsbók lesum við: „Far þú, Daníel, því að orðunum er leyndum haldið og þau innsigluð, þar til er endirinn kemur. Sæll er sá, sem þolugur þreyr og nær eitt þúsund þrjú hundruð þrjátíu og fimm dögum.“ (Daníel 12:9, 12) Hvaða tímabil ná þessir 1335 dagar yfir? Hvers vegna eru þeir sem lifa þá sælir eða hamingjusamir? Kemur það trú okkar nú á dögum nokkuð við? Við fáum hjálp til að svara þessum spurningum ef við beinum athygli okkar að þeim tíma er Daníel skrifaði þessi orð á þriðja stjórnarári Kýrusar Persakonungs, skömmu eftir að Ísraelsmenn voru leystir úr haldi í Babýlon. — Daníel 10:1.
Endurreisn veitir hamingju
3. Hvaða verk Kýrusar konungs veitti trúföstum Gyðingum mikla hamingju árið 537 f.o.t. en hvaða sérréttindi veitti Kýrus Gyðingum ekki?
3 Það var Gyðingum mikið fagnaðarefni að vera látnir lausir úr Babýlon. Eftir að þeir höfðu mátt þola næstum 70 ára útlegð bauð Kýrus mikli þeim að snúa aftur heim til Jerúsalem til að endurbyggja musteri Jehóva. (Esra 1:1, 2) Þeir sem tóku boðinu lögðu af stað með glæstar vonir og komu heim í land sitt árið 537 f.o.t. En Kýrus bauð þeim ekki að endurreisa ríki undir stjórn afkomanda Davíðs konungs.
4, 5. (a) Hvenær var konungdæmi Davíðs kollvarpað? Hvers vegna? (b) Hvernig fullvissaði Jehóva þjóna sína um að konungdómur Davíðs yrði endurreistur?
4 Það var þýðingarmikið atriði því að um fimm öldum áður hafði Jehóva heitið Davíð: „Hús þitt og ríki skal stöðugt standa fyrir mér að eilífu. Hásæti þitt skal vera óbifanlegt að eilífu.“ (2. Samúelsbók 7:16) Því miður reyndust flestir konunglegir afkomendur Davíðs uppreisnargjarnir og blóðsekt þjóðarinnar varð svo mikil að árið 607 f.o.t. leyfði Jehóva að konungsætt Davíð væri svipt völdum. Ef frá er talið stutt tímabil undir stjórn Makkabea var Jerúsalem undir erlendum yfirráðum upp frá því uns henni var eytt öðru sinni árið 70. Þess vegna voru „tímar heiðingjanna“ enn ekki útrunnir árið 537 f.o.t. en á því tímabili myndi enginn sonur Davíðs ríkja sem konungur. — Lúkas 21:24.
5 En Jehóva gleymdi ekki loforði sínu við Davíð. Með röð sýna og drauma opinberaði hann fyrir milligöngu spámannsins Daníels einstök atriði varðandi ókomna heimsatburði sem myndu eiga sér stað á öldunum frá því að Babýlon fór með heimsyfirráð fram til þess tíma er konungur af ætt Davíðs stjórnaði aftur ríki fólks Jehóva. Þessir spádómar, sem er að finna í 2., 7., 8. og 10.-12. kafla Daníelsbókar, fullvissuðu trúfasta Gyðinga um það að áður en yfir lyki yrði hásæti Davíðs vissulega „óbifanlegt að eilífu.“ Slík opinberuð sannindi veittu þessum Gyðingum, sem sneru heim í land sitt árið 537 f.o.t., vissulega hamingju.
6. Hvernig vitum við að sumir af spádómum Daníels áttu að uppfyllast á okkar tímum?
6 Flestir biblíuskýrendur halda því fram að spádómar Daníels hafi nálega uppfyllst í heild sinni fyrir fæðingu Jesú Krists. En sú er greinilega ekki raunin. Í Daníel 12:4 segir engill Daníel: „Halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa.“ Ef ekki átti að rjúfa innsigli Daníelsbókar — að opinbera merkingu hennar til fulls — fyrr en á endalokatímanum, þá hljóta að minnsta kostir sumir spádómar hennar að eiga við það tímabil. — Sjá Daníel 2:28; 8:17; 10:14.
7. (a) Hvenær enduðu tímar heiðingjanna og hvaða áleitinni spurningu þurfti að svara þá? (b) Hverjir voru ekki hinn „trúi og hyggni þjónn“?
7 Árið 1914 lauk tímum heiðingjanna og endalokatími þessa heims hófst. Ríki Davíðs var endurreist, ekki í Jerúsalem á jörð heldur ósýnilega „í skýjum himins.“ (Daníel 7:13, 14) Á þeim tíma var staða sannrar kristni ekki ljós — að minnsta kosti ekki augum manna — vegna þess að „illgresi“ falskrar kristni stóð í blóma. Engu að síður þurfti að svara mikilvægri spurningu: „Hver er [hinn] trúi og hyggni þjónn?“ (Matteus 13:24-30; 24:45) Hverjir yrðu fulltrúar endurreists ríkis Davíðs á jörðinni? Ekki bræður Daníels að holdinu, Gyðingarnir. Þeim hafði verið hafnað af því að þá skorti trú og þeir hnutu um Messías. (Rómverjabréfið 9:31-33) Hinn trúa þjón var alls ekki að finna meðal trúfélaga kristna heimsins! Vond verk þeirra sönnuðu að Jesús þekkti þau ekki. (Matteus 7:21-23) Hver var hann þá?
8. Hverjir reyndust vera hinn „trúi og hyggni þjónn“ á endalokatímanum? Hvernig vitum við það?
8 Ekki leikur nokkur minnsti vafi á að hann var hinn litli hópur smurðra bræðra Jesú sem voru þekktir árið 1914 undir heitinu Biblíunemendur en hafa kallað sig votta Jehóva síðan 1931. (Jesaja 43:10) Þeir einir hafa kunngert hið endurreista ríki í ætt Davíðs. (Matteus 24:14) Þeir einir hafa haldið sér aðgreindum frá heiminum og miklað nafn Jehóva. (Jóhannes 17:6, 14) Og spádómar Biblíunnar um fólk Guðs á hinum síðustu dögum hafa ræst á þeim einum. Meðal þeirra spádóma er sú röð spádómlegra tímabila sem talin eru upp í 12. kafla Daníelsbókar, meðal annars dagarnir 1335 sem áttu að hafa hamingju í för með sér.
Dagarnir 1260
9, 10. Hvaða atburðir einkenndu „eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð“ í Daníel 7:25 og í hvaða öðrum ritningarstöðum er minnst á hliðstætt tímabil?
9 Í Daníel 12:7 lesum við um fyrsta spádómlega tímabilið: „Eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð. Og þegar vald hans, sem eyðir hina helgu þjóð, er á enda, mun allt þetta fram koma.“a Þetta sama tímabil er nefnt í Opinberunarbókinni 11:3-6 þar sem sagt er að vottar Guðs myndu prédika sekkjum klæddir í þrjú og hálft ár og síðan verða drepnir. Og aftur lesum við í Daníel 7:25: „Hann mun orð mæla gegn Hinum hæsta, kúga hina heilögu Hins hæsta og hafa í hyggju að umbreyta helgitíðum og lögum, og þeir munu honum í hendur seldir verða um eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð.“
10 Í þessum síðari spádómi er „hann“ fimmta heimsveldið talið frá Babýlon. Það er ‚litla hornið‘ sem er við völd á þeim tíma þegar Mannssonurinn fær „vald, heiður og ríki.“ (Daníel 7:8, 14) Þetta táknræna horn, sem upphaflega var breska heimsveldið, þróaðist í fyrri heimsstyrjöldinni í ensk-ameríska tvíveldið þar sem Bandaríkin fara núna að mestu með völdin. Í þrjár og hálfa tíð eða ár myndi þetta veldi ásækja hina heilögu og reyna að breyta helgitíðum og lögum. Að lokum yrðu hinir heilögu gefnir því á vald. — Sjá einnig Opinberunarbókina 13:5, 7.
11, 12. Hvaða atburðir leiddu til þess að spádómsdagarnir 1260 byrjuðu?
11 Hvernig uppfylltust allir þessir hliðstæðu spádómar? Í mörg ár fyrir fyrri heimsstyrjöldina vöruðu smurðir bræður Jesú opinberlega við því að heiðingjatímarnir myndu enda árið 1914. Þegar stríð braust út var ljóst að ekki hafði verið tekið mark á viðvöruninni. Satan notaði „dýr“ sitt, hið pólitíska heimsskipulag og á þeim tíma fór breska heimsveldið með mestu völdin, til að reyna að „umbreyta helgitíðum og lögum,“ fresta valdatöku Guðsríkis. (Opinberunarbókin 13:1, 2) Honum mistókst. Ríki Guðs var stofnsett á himnum, langt utan seilingar manna. — Opinberunarbókin 12:1-3.
12 Fyrir Biblíunemendurna var stríðið reynslutími. Frá janúar 1914 höfðu þeir verið að sýna Sköpunarsöguna í myndum, biblíulega myndasýningu sem dró athyglina að spádómum Daníels. Það sumar á norðurhveli jarðar braust út stríð. Í október lauk heiðingjatímunum. Undir lok þess árs bjuggust hinar smurðu leifar við ofsóknum eins og sjá má af því að árstextinn, sem var valinn fyrir árið 1915, var spurning Jesú til lærisveinanna: „Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég á að drekka?“ byggð á Matteusi 20:22.
13. Hvernig prédikuðu Biblíunemendurnir sekkjum klæddir dagana 1260 og hvað gerðist þegar því tímabili lauk?
13 Þannig prédikaði þessi litli hópur votta ‚sekkjum klæddur‘ frá desember 1914 og boðaði dóma Jehóva með þolgæði og hógværð. Dauði C. T. Russells, fyrsta forseta Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, árið 1916, var áfall fyrir marga. Er stríðsæsingurinn jókst mættu vottarnir vaxandi andstöðu. Sumir voru hnepptir í fangelsi. Einstaklingar, svo sem Frank Platt á Englandi og Robert Clegg í Kanada, voru pyndaðir af kvalasjúkum yfirvöldum. Að lokum var nýi forsetinn, J. F. Rutherford, dæmdur til langrar fangavistar á fölskum forsendum þann 21. júní 1918, ásamt stjórnendum Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn. Þannig drap ‚litla hornið‘ hið skipulagða, opinbera prédikunarstarf við lok hins spádómlega tímabils. — Daníel 7:8.
14. Hvernig breyttust aðstæður hinna smurðu leifa árið 1919 og eftir það?
14 Opinberunarbókin spáir því sem gerðist næst. Eftir stutt athafnaleysi — sagt vera þrír og hálfur dagur sem þeir áttu að liggja dauðir á strætunum — lifnuðu hinar smurðu leifar og urðu virkar aftur. (Opinberunarbókin 11:11-13) Þann 26. mars 1919 var forseta og stjórnendum Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn sleppt úr fangelsi og þeir voru síðar hreinsaðir algerlega af hinum röngu ákærum. Strax eftir lausn sína byrjuðu hinar smurðu leifar að endurskipuleggja frekara starf. Þær uppfylltu þannig hið fyrsta vei Opinberunarbókarinnar með því að koma út úr undirdjúpi athafnaleysis eins og andlegar engisprettur samfara þykkum reyk sem boðaði dökka framtíð fyrir fölsk trúarbrögð. (Opinberunarbókin 9:1-11) Nokkur næstu ár voru leifarnar nærðar andlega og búnar undir það sem beið þeirra. Árið 1921 gáfu þær út nýja bók, Harpa Guðs, sem var gerð til að hjálpa nýjum og börnum að læra undirstöðusannindi Biblíunnar. (Opinberunarbókin 12:6, 14) Allt gerðist þetta innan annars, þýðingarmikils tímabils.
Dagarnir 1290
15. Hvernig getum við reiknað upphaf daganna 1290? Hvenær endaði þetta tímabil?
15 Engillinn sagði við Daníel: „Frá þeim tíma, er hin daglega fórn verður afnumin og viðurstyggð eyðingarinnar upp reist, munu vera eitt þúsund tvö hundruð og níutíu dagar.“ (Daníel 12:11) Undir Móselögunum var „hin daglega fórn“ brennd á altarinu í musterinu í Jerúsalem. Kristnir menn bera ekki fram brennifórnir heldur færa þeir stöðugar, andlegar fórnir. Páll átti við þær þegar hann sagði: „Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ (Hebreabréfið 13:15; samanber Hósea 14:3.) Þessi stöðuga fórn var afnumin í júní 1918. Hver var þá ‚viðurstyggðin‘ — annað atriðið sem gefa átti auga? Það var Þjóðabandalagið sem sigurvegarar stríðsins beittu sér fyrir eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar.b Það var viðurstyggilegt vegna þess að leiðtogar kristna heimsins stilltu því upp í stað Guðsríkis og hömpuðu því sem einu friðarvon mannkynsins. Hugmyndin að Þjóðabandalaginu var borin fram í janúar 1919. Ef við teljum 1290 daga (þrjú ár og sjö mánuði) frá þeim tíma komum við að september 1922.
16. Hvernig var ljóst við lok daganna 1290 að hinar smurðu leifar voru tilbúnar að blása til sóknar?
16 Hvað gerðist þá? Biblíunemendurnir höfðu nú fengið nýjan kraft, voru lausir frá Babýlon hinni miklu og tilbúnir til að blása til sóknar. (Opinberunarbókin 18:4) Á móti, sem haldið var í september 1922 í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum, tóku þeir að boða dóma Guðs yfir kristna heiminum óttalaust. (Opinberunarbókin 8:7-12) Menn fór virkilega að kenna til undan stungum engisprettnanna! Og það sem meira var, annað vei Opinberunarbókarinnar hófst. Fjölmennt, kristið riddaralið — sem fyrst var skipað hinum smurðu leifum og stækkaði síðan stórum með tilkomu múgsins mikla — streymdi út um jörðina. (Opinberunarbókin 7:9; 9:13-19) Já, endir hinna 1290 daga varð fólki Guðs til mikillar gleði.c En meira var í vændum.
Dagarnir 1335
17. Hvenær hófust dagarnir 1335 og hvenær lauk þeim?
17 Daníel 12:12 segir: „Sæll er sá, sem þolugur þreyr og nær eitt þúsund þrjú hundruð þrjátíu og fimm dögum.“ Þessir 1335 dagar eða þrjú ár og átta og hálfur mánuður, virðast hafa hafist við lok tímabilsins á undan. Ef við teljum frá september 1922 erum við stödd síðla vors (miðað við norðurhvel jarðar) árið 1926. Hvað gerðist þessa 1335 daga?
18. Hvaða staðreyndir gefa til kynna að enn ætti eftir að taka framförum árið 1922?
18 Þótt atburðir ársins 1922 hafi í eðli sínu markað þáttaskil virðast sumir enn hafa horft með söknuði til fortíðarinnar. Rannsóknir á Ritningunni, sem C. T. Russell samdi, voru enn aðalnámsefnið. Enn fremur kom það sjónarmið fram í bæklingnum Milljónir sem nú lifa munu aldrei deyja, sem dreift hafði verið í miklu magni, að árið 1925 myndi sá tilgangur Guðs að endurreisa paradís á jörð og reisa trúfasta fortíðarþjóna sína upp frá dauðum byrja að rætast. Þolgæði hinna smurðu virtist nánast fullreynt. Engu að síður fundu sumir, sem höfðu samfélag við Biblíunemendurna, sig ekki knúna til að deila fagnaðarerindinu með öðrum.
19, 20. (a) Hvernig breyttist margt hjá fólki Guðs dagana 1335? (b) Hvaða atburðir mörkuðu endi daganna 1335 og hvað gáfu þeir til kynna um fólk Jehóva?
19 Allt þetta breyttist þegar líða tók á dagana 1335. Til að styrkja bræðurna voru skipulögð reglubundin hópnám með hjálp Varðturnsins. Lögð var áhersla á starfið á akrinum. Frá og með maí 1923 var öllum boðið að taka þátt í þjónustunni á akrinum fyrsta þriðjudag hvers mánaðar, og á safnaðarsamkomu í miðri viku var tekinn tími til að hvetja þá til þessa starfs. Í ágúst 1923 var haldið mót í Los Angeles í Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem sýnt var fram á að dæmisaga Jesú um sauðina og hafrana myndi uppfyllast áður en þúsundáraríkið hæfist. (Matteus 25:31-40) Árið 1924 var hafinn rekstur útvarpsstöðvarinnar WBBR sem var notuð til að útbreiða fagnaðarerindið á öldum ljósvakans. Greinin „Fæðing þjóðarinnar“ í Varðturninum þann 1. mars 1925 kom fram með leiðréttan skilning á 12. kafla Opinberunarbókarinnar. Loksins gátu trúfastir kristnir menn skilið rétt hin miklu umbrot áranna 1914-19.
20 Árið 1925 leið en ekki kom endirinn! Allt frá því á áttunda áratug nítjándu aldar höfðu Biblíunemendurnir þjónað með ákveðið ártal í huga — fyrst 1914, síðan 1925. Núna rann upp fyrir þeim að þeir yrðu að þjóna eins lengi og Jehóva vildi. Þann 1. janúar 1926 birtist tímamótagrein í Varðturninum en hún hét „Hver mun heiðra Jehóva?“ Þar var lögð ríkari áhersla en nokkru sinni fyrr á mikilvægi nafns Guðs. Og loks, á móti í maí 1926 í Lundúnum, var samþykkt yfirlýsing sem hét „Vitnisburður til stjórnenda heimsins.“ Þar var sannleikurinn um ríki Guðs og komandi eyðingu heims Satans boðaður berum orðum. Á sama móti var hin beinskeytta bók Frelsun gefin út, fyrsta bókin í bókaröð sem skyldi taka við af Rannsóknum á Ritningunni. Fólk Guðs horfði nú fram veginn, ekki aftur. Dagarnir 1335 voru á enda.
21. Hvaða þýðingu hafði þolgæði fyrir fólk Guðs meðan dagarnir 1335 stóðu yfir og hvað þýðir uppfylling spádómsins um það tímabil fyrir okkur?
21 Sumir voru ekki fúsir til að aðlaga sig þessum breytingum en þeir sem héldu út voru hamingjusamir í raun. Þegar við lítum um öxl og virðum fyrir okkur uppfyllingu þessara spádómlegu tímabila erum við líka hamingjusamir vegna þess að það styrkir trúartraust okkar á að hinn litli hópur smurðra kristinna manna, sem lifði gegnum þessa tíma, sé í raun og veru hinn trúi og hyggni þjónn. Á þeim árum, sem liðin eru síðan þá, hefur skipulag Jehóva vaxið gríðarlega en hinn trúi og hyggni þjónn er enn þá í því miðju og leiðir það. Það er því hrífandi að vita að enn meiri hamingja bíður hinna smurðu og hinna annarra sauða! Við sjáum það þegar við skoðum annan af spádómum Daníels.
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar um það hvernig reikna eigi þessi spádómlegu tímabil er að finna í bókinni Our Incoming World Government — God’s Kingdom (Hin komandi heimsstjórn okkar — Guðsríki, ekki til á íslensku), 8. kafla, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
c Sjá Varðturninn, 1. janúar 1991, bls. 10 og Árbók votta Jehóva 1975, bls. 132.
Getur þú svarað?
◻ Hvernig vitum við að sumir spádómar Daníelsbókar áttu að uppfyllast á okkar tímum?
◻ Hvers vegna getum við verið fullviss um að hinar smurðu leifar séu hinn „trúi og hyggni þjónn“?
◻ Hvenær hófust dagarnir 1260 og hvenær lauk þeim?
◻ Hvaða hressingu og endurreisn veittu dagarnir 1290 hinum smurðu leifum?
◻ Hvers vegna voru þeir hamingjusamir sem héldu út þar til dögunum 1335 lauk?
[Rammi á blaðsíðu 12]
HIN SPÁDÓMLEGU TÍMABIL Í DANÍELSBÓK
1260 dagar:
Desember 1914 til júní 1918
1290 dagar:
Janúar 1919 til september 1922
1335 dagar:
September 1922 til maí 1926
[Mynd á blaðsíðu 9]
Ljóst hefur verið frá 1919 að hinn „trúi og hyggni þjónn“ er hinar smurðu leifar.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Aðalstöðvar Þjóðabandalagsins í Genf í Sviss.
[Rétthafi]
Ljósmynd: Sameinuðu þjóðirnar.