Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • kr kafli 2 bls. 13-29
  • Ríki Guðs stofnsett á himnum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ríki Guðs stofnsett á himnum
  • Ríki Guðs stjórnar
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Ég sendi sendiboða minn ... að ryðja mér braut“
  • Að tilbiðja Guð í sannleika
  • „Fólkið mitt, forðið yður úr borginni“
  • Samkomur til að tilbiðja Guð
  • Fagnaðarerindið boðað af kappi
  • Ríki Guðs er stofnsett
  • Reynslustund
  • Endurlífgunartími
  • Jehóva safnar saman fólki sínu og býr það til starfs
    Vottar Jehóva — sameinaðir í að gera vilja Guðs um allan heim
  • Trú kristins manns verður reynd
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Hvers vegna vottar Jehóva halda vöku sinni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Konungurinn varpar ljósi á ríkið
    Ríki Guðs stjórnar
Sjá meira
Ríki Guðs stjórnar
kr kafli 2 bls. 13-29

2. KAFLI

Ríki Guðs stofnsett á himnum

Í ÞESSUM KAFLA

Þjónar Guðs búnir undir að ríki hans taki til starfa.

1, 2. Hver er mesti atburður sem hefur gerst í sögu veraldar, og hvers vegna er ekkert undarlegt að menn skyldu ekki sjá hann?

VELTIR þú einhvern tíma fyrir þér hvernig það hefði verið að vera uppi á merkum tímamótum í sögu mannkyns? Margir gera það. En heldurðu að þú hefðir sjálfur orðið vitni að öllum helstu atburðunum sem ollu straumhvörfum í sögunni? Sennilega ekki. Þeir atburðir, sem verða gömlu stjórnkerfi að falli og sagt er frá í mannkynssögubókum, gerast oft bak við tjöldin. Að vissu leyti má segja að stór hluti mannkynssögunnar eigi sér stað fyrir luktum dyrum, í hásætissölum, í fundarherbergjum eða á stjórnarskrifstofum. En breytingarnar hafa engu að síður áhrif á milljónir manna.

2 Hvað þá um mesta atburð í sögu veraldar? Hann hefur haft áhrif á líf milljóna manna. Enginn maður varð þó vitni að honum. Við erum auðvitað að tala um þann atburð þegar ríki Guðs var stofnsett á himnum, hin fyrirheitna stjórn í höndum Messíasar sem bindur bráðlega enda á núverandi heimskerfi. (Lestu Daníel 2:34, 35, 44, 45.) Menn fengu ekki að sjá ríki Guðs stofnsett. Ber þá að skilja það svo að Jehóva hafi viljað fela þennan stórmerka atburð fyrir mönnunum? Eða bjó hann kannski dygga þjóna sína undir hann? Lítum nánar á málið.

„Ég sendi sendiboða minn ... að ryðja mér braut“

3-5. (a) Hver var „boðberi sáttmálans“ sem er nefndur í Malakí 3:1? (b) Hvað átti að gerast áður en „boðberi sáttmálans“ kæmi til musterisins?

3 Jehóva ákvað endur fyrir löngu að búa fólk sitt undir að hann stofnsetti ríki Messíasar. Spádómurinn í Malakí 3:1 er dæmi um það. Þar stendur: „Sjá, ég sendi sendiboða minn, hann á að ryðja mér braut. Drottinn, sem þið leitið, kemur skyndilega til musteris síns og boðberi sáttmálans, sem þið þráið, hann kemur.“

4 Hvenær á okkar dögum rættist spádómurinn? Hvenær kom Drottinn Jehóva til að skoða ástand þeirra sem þjónuðu í jarðneskum forgarði hins andlega musteris? Í spádóminum segir að „boðberi sáttmálans“ sé í för með honum. Hver er það? Enginn annar en Messías, konungurinn Jesús Kristur. (Lúk. 1:68-73) Hinn nýskipaði konungur átti að skoða hvernig þjónar Guðs á jörð væru á sig komnir og hreinsa þá. – 1. Pét. 4:17.

5 En hver var ,sendiboðinn‘ sem nefndur er í Malakí 3:1? Þessi spádómlegi sendiboði átti að koma fram töluvert áður en konungurinn Messías kæmi. Var einhver sem ,ruddi brautina‘ handa konunginum Messíasi síðustu áratugina fyrir 1914?

6. Hverjir fóru með hlutverk ,sendiboðans‘ sem bjó þjóna Guðs undir það sem var fram undan?

6 Í þessari bók er farið yfir sögu þjóna Jehóva nú á tímum og þar er að finna svör við spurningum af þessu tagi. Sagan sýnir að á síðari hluta 19. aldar kom fram á sjónarsviðið lítill hópur fólks sem reyndist vera einu sannkristnu mennirnir meðal alls fjöldans sem var aðeins kristinn að nafninu til. Þeir urðu með tímanum þekktir undir heitinu Biblíunemendurnir. Charles T. Russell og nánir samstarfsmenn hans veittu hópnum forystu og fóru með hlutverk ,sendiboðans‘. Þeir leiðbeindu þessum þjónum Guðs og bjuggu þá undir þá atburði sem voru fram undan. Við skulum nú kanna hvernig ,sendiboðinn‘ gerði það á fjóra vegu.

Að tilbiðja Guð í sannleika

7, 8. (a) Hverjir tóku að afhjúpa falskenninguna um ódauðlega sál á 19. öld? (b) Hvaða aðrar falskenningar afhjúpuðu Charles T. Russell og samstarfsmenn hans?

7 Þessir biblíunemendur grandskoðuðu Biblíuna í bænarhug, komust að niðurstöðu, tóku saman skýrar, sannar biblíukenningar og birtu þær. Kristni heimurinn hafði öldum saman verið umlukinn andlegu myrkri og margar af kenningum hans áttu rætur sínar í heiðni. Kenningin um ódauðlega sál er eitt besta dæmið um það. Á 19. öld höfðu fáeinir einlægir biblíuáhugamenn grandskoðað þessa kenningu og komist að raun um að hún átti sér enga stoð í orði Guðs. Henry Grew, George Stetson og George Storrs afhjúpuðu þessa lygi Satans djarfmannlega í ræðu og riti.a Með starfi sínu höfðu þeir djúpstæð áhrif á Charles T. Russell og nána félaga hans.

8 Biblíunemendurnir komust að raun um að aðrar kennisetningar, sem tengdust hugmyndinni um ódauðlega sál, voru líka rangar og villandi. Til dæmis má nefna þá kenningu að allt gott fólk fari til himna og að Guð kvelji ódauðlegar sálir syndara í eilífum vítiseldi. Russell og samstarfsmenn hans afhjúpuðu þessi ósannindi djarfmannlega í greinum, bókum, bæklingum, smáritum og prédikunum sem birtar voru í dagblöðum.

9. Hvernig var kenningin um þrenningu afhjúpuð í Varðturninum?

9 Biblíunemendurnir afhjúpuðu einnig hina útbreiddu þrenningarkenningu. Árið 1887 stóð í tímaritinu Varðturninn (þá nefnt Zion’s Watch Tower eða Varðturn Síonar): „Biblían er ákaflega skýr hvað varðar samband Jehóva og Drottins okkar Jesú. Þeir eru sjálfstæðir einstaklingar.“ Í greininni kom fram að það væri furðulegt að „hugmyndin um þríeinan Guð – þrjá Guði í einum og samtímis einn Guð í þrem – skyldi hafa orðið svona útbreidd og viðurkennd. Að það skyldi gerast sýnir einungis fram á hve steinsofandi kirkjan var meðan óvinurinn hneppti hana í fjötra villunnar.“

10. Hvernig kom fram í Varðturninum að árið 1914 hefði mikla þýðingu?

10 Varðturn Síonar og boðberi nærveru Krists, eins og blaðið hét fullu nafni, fjallaði mikið um spádóma sem snertu nærveru Krists, rétt eins og heiti blaðsins ber með sér. Þeir sem skrifuðu fyrir blaðið voru trúir, andasmurðir þjónar Guðs. Þeir gerðu sér grein fyrir að spádómur Daníels um hinar „sjö tíðir“ tengdist því hvenær vilji Guðs með ríki Messíasar myndi ná fram að ganga. Upp úr 1870 bentu þeir á að þessar sjö tíðir myndu enda árið 1914. (Dan. 4:22; Lúk. 21:24) Enda þótt bræður okkar á þeim tíma hafi ekki áttað sig fyllilega á hvaða þýðingu þetta ár hefði boðuðu þeir vítt og breitt það sem þeir vissu. Og áhrif þess ná allt til okkar tíma.

11, 12. (a) Hverjum gaf bróðir Russell heiðurinn af því sem hann kenndi? (b) Hve mikilvægt var starf Russells og samstarfsmanna hans á áratugunum fyrir 1914?

11 Hvorki Russell né trúir samstarfsmenn hans eignuðu sér heiðurinn af því að hafa uppgötvað og skilið þessi mikilvægu sannindi. Russell þakkaði oft þeim sem höfðu bent á þau á undan honum. Fyrst og fremst þakkaði hann þó Jehóva Guði sem kenndi þjónum sínum það sem þeir þurftu að vita hverju sinni. Greinilegt er að Jehóva blessaði viðleitni Russells og samstarfsmanna hans til að greina sannleikann frá lyginni. Gjáin milli þeirra og kirkjufélaganna breikkaði með árunum.

Charles Taze Russell talking with some of his close associates

Bróðir Russell og nánir samstarfsmenn hans héldu sannleika Biblíunnar á lofti.

12 Það er hreinlega með ólíkindum hve mikið þessir trúu menn gerðu til að halda sannleika Biblíunnar á lofti á áratugunum fyrir 1914. Í Varðturninum 1. nóvember 1917 var litið um öxl. Þar stóð: „Milljónir manna eru nú lausar undan fargi óttans sem fylgdi kenningunni um vítiseld og öðrum falskenningum ... Alda sannleikans, sem fór af stað fyrir meira en 40 árum, rís sífellt hærra og hún heldur áfram að rísa uns hún hefur gengið yfir alla jörðina. Andstæðingar hennar geta ekki stöðvað hana. Það er jafn vonlaust og að reyna að sópa burt öldum hafsins með kústi.“

13, 14. (a) Hvernig ruddi ,sendiboðinn‘ brautina handa konunginum Messíasi? (b) Hvað getum við lært af trúsystkinum okkar sem voru uppi fyrir meira en öld?

13 Veltu fyrir þér eftirfarandi: Hefði fólk verið undir það búið að nærvera Krists hæfist ef það hefði ekki getað gert greinarmun á Jesú og Jehóva, föður hans? Það er hæpið. Það hefði ekki heldur verið undirbúið ef það hefði ímyndað sér að allir yrðu sjálfkrafa ódauðlegir en ekki að ódauðleiki væri verðmæt gjöf sem tiltölulega fáir fylgjendur Krists fengju. Og varla hefði það verið undirbúið ef það hefði trúað að Guð píndi fólk að eilífu í helvíti þaðan sem enginn ætti afturkvæmt. Það er greinilegt að ,sendiboðinn‘ ruddi brautina handa konunginum Messíasi.

14 Hvað um okkur? Hvað getum við lært af trúsystkinum okkar sem voru uppi fyrir meira en öld? Við þurfum að vera dugleg að lesa og hugleiða orð Guðs eins og þau. (Jóh. 17:3) Við skulum örva andlegu matarlystina jafnt og þétt þó að umheimurinn einkennist af efnishyggju og andlegri hungursneyð. – Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:15.

„Fólkið mitt, forðið yður úr borginni“

15. Á hverju áttuðu Biblíunemendurnir sig smám saman? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

15 Biblíunemendurnir kenndu að það væri nauðsynlegt að segja skilið við kirkjur heimsins. Árið 1879 var minnst á „babýlonsku kirkjuna“ í Varðturninum. Var þá átt við páfadæmið? Rómversk-kaþólsku kirkjuna? Trúflokkar mótmælenda höfðu öldum saman litið svo á að sú Babýlon, sem nefnd er í spádómum Biblíunnar, táknaði kaþólsku kirkjuna. En Biblíunemendurnir áttuðu sig smám saman á því að Babýlon táknaði allar kirkjur kristna heimsins. Hvers vegna? Vegna þess að þær kenndu allar saman falskenningar á borð við þær sem áður er getið um.b Smátt og smátt var tekið skýrar fram í ritum okkar hvað hjartahreint fólk, sem tilheyrði kirkjum Babýlonar, ætti að gera.

16, 17. (a) Hvernig var fólk hvatt til þess í 3. bindi bókarinnar Millennial Dawn og í Varðturninum að segja skilið við fölsk trúarbrögð? (b) Hvað dró úr krafti slíkra viðvarana? (Sjá neðanmálsgrein.)

16 Sem dæmi má nefna að í 3. bindi bókarinnar Millennial Dawn, sem kom út árið 1891, var bent á að Guð hefði hafnað Babýlon nútímans. Þar sagði: „Öllu kerfinu – öllum kirkjum kristna heimsins – er hafnað.“ Síðan sagði að allir þeir sem væru „ekki sammála falskenningum hennar og trúariðkunum ættu að segja skilið við hana“.

17 Í janúar árið 1900 kom Varðturninn með heilræði handa þeim sem voru enn skráðir í kirkjufélög kristna heimsins og réttlættu það á þennan veg: „Ég er mjög hlynntur sannleikanum og sæki sárasjaldan samkomur annars staðar.“ Í blaðinu var spurt: „En er þetta rétta leiðin, að vera með annan fótinn í Babýlon og hinn utan hennar? Er það sú hlýðni sem ætlast er til ... og er Guði þóknanleg? Auðvitað ekki. Hann [sá sem tilheyrir kirkjunni] gerði opinberan sáttmála við trúarsöfnuðinn þegar hann gekk í hann og hann ætti að fylgja öllum ákvæðum sáttmálans dyggilega uns hann ... gengur opinberlega úr þeim söfnuði.“ Með árunum urðu þessi boð ákveðnari.c Þjónar Jehóva verða að slíta öll tengsl við fölsk trúarbrögð.

18. Hvers vegna þurfti fólk að yfirgefa Babýlon hina miklu?

18 Hvað hefði gerst ef fólk hefði ekki verið hvatt reglulega til að yfirgefa Babýlon hina miklu? Hefði Kristur, hinn nýkrýndi konungur, þá átt sér hóp andasmurðra þjóna á jörð sem voru viðbúnir komu hans? Auðvitað ekki, því að kristnir menn geta ekki tilbeðið Jehóva „í anda og sannleika“ nema þeir séu lausir úr klóm Babýlonar. (Jóh. 4:24) Erum við líka staðráðin í að halda okkur frá fölskum trúarbrögðum? Við skulum hlýða fyrirmælunum: „Fólkið mitt, forðið yður úr borginni.“ – Lestu Opinberunarbókina 18:4.

Samkomur til að tilbiðja Guð

19, 20. Hvernig voru lesendur Varðturnsins hvattir til að safnast saman til að tilbiðja Guð?

19 Biblíunemendurnir kenndu að trúsystkini ættu að safnast saman til að tilbiðja Guð þar sem það væri hægt. Það er ekki nóg að sannkristnir menn segi skilið við fölsk trúarbrögð. Þeir þurfa líka að stunda hreina tilbeiðslu. Lesendur Varðturnsins voru frá öndverðu hvattir til að halda samkomur til að tilbiðja Guð. Til dæmis greindi bróðir Russell í júlí 1880 frá fyrirlestraferð sem hann hafði farið, og nefndi hve hvetjandi allar samkomurnar hefðu verið. Síðan hvatti hann lesendur til að senda póstkort og segja frá hvernig gengi, og sum þeirra yrðu birt í blaðinu. Hvert var markmiðið með því? „Að allir megi vita ... hvernig Drottinn blessar ykkur og hvort þið haldið áfram að safnast saman ásamt öðrum sem hafa sömu dýrmætu trúna.“

A group of Bible Students in Copenhagen, Denmark, in 1909

Charles Russell með hópi biblíunemenda í Kaupmannahöfn árið 1909.

20 Árið 1882 birtist grein í Varðturninum sem nefndist „Söfnumst saman“. Þar voru kristnir menn hvattir „til að uppfræðast, uppörvast og styrkjast saman“. Síðan sagði: „Það skiptir ekki máli hvort meðal ykkar er einhver lærður eða hæfileikaríkur. Hver og einn ætti að taka með sér sína eigin biblíu, blað og blýant og notfæra sér öll fáanleg hjálpargögn, svo sem orðstöðulykil ... Veljið ykkur viðfangsefni, leitið leiðsagnar andans til að skilja það, og síðan skuluð þið lesa, hugsa og bera saman vers. Þá er öruggt að þið fáið leiðsögn til að skilja sannleikann.“

21. Hvernig var söfnuðurinn í Allegheny í Pennsylvaníu til fyrirmyndar varðandi samkomur og umsjón?

21 Biblíunemendurnir voru með aðalstöðvar sínar í Allegheny í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Þeir gáfu gott fordæmi þar á bæ með því að halda samkomur í samræmi við hinar innblásnu leiðbeiningar í Hebreabréfinu 10:24, 25. (Lestu.) Roskinn bróðir, Charles Capen að nafni, minntist þess löngu síðar að hafa sótt þessar samkomur þegar hann var drengur. Hann skrifaði: „Ég man enn eftir einu biblíuversinu sem var málað á vegg í mótssal Félagsins. ,Einn er yðar meistari, Kristur, og þér allir bræður.‘ Þetta vers hefur alltaf verið mér hugstætt. Þjónar Jehóva skiptast ekki í klerka og leikmenn.“ (Matt. 23:8) Bróðir Capen minntist þess einnig hve samkomurnar hefðu verið hvetjandi og uppörvandi, og að bróðir Russell hefði lagt sig fram um að sinna sjálfur hverjum einasta safnaðarmanni.

22. Hvernig tóku trúir þjónar Guðs þeirri hvatningu að sækja safnaðarsamkomur og hvað getum við lært af þeim?

22 Trúir þjónar Guðs fylgdu fordæmi þessa safnaðar og þeim leiðbeiningum sem gefnar voru. Söfnuðir voru myndaðir í öðrum ríkjum Bandaríkjanna, svo sem Ohio og Michigan, og síðan út um alla Norður-Ameríku og víðar um lönd. Heldurðu að þjónar Guðs hefðu verið viðbúnir nærveru Krists ef þeir hefðu ekki lært að hlýða þeim innblásnu leiðbeiningum að safnast saman til að tilbiðja Guð? Engan veginn. Hvað um okkur? Við þurfum einnig að vera ákveðin í að sækja safnaðarsamkomur reglulega. Við þurfum að nota hvert tækifæri til að tilbiðja Guð saman og uppbyggja hvert annað.

Fagnaðarerindið boðað af kappi

23. Hvernig sýndi Varðturninn fram á að allir hinna andasmurðu yrðu að boða sannleikann?

23 Biblíunemendurnir kenndu að allir hinna andasmurðu yrðu að boða sannleikann. Árið 1885 stóð í Varðturninum: „Við skulum ekki gleyma að allir hinna andasmurðu eru smurðir til að prédika (Jes. 61:1), kallaðir til þjónustu.“ Árið 1888 var þessa hvatningu að finna í blaðinu: „Það er augljóst hvert verkefni okkar er ... ef við sinnum því ekki og afsökum okkur erum við vissulega latir þjónar og óverðug þeirrar háu stöðu sem við erum kölluð til.“

24, 25. (a) Hvað gerðu Russell og samstarfsmenn hans auk þess að hvetja fólk til að boða fagnaðarerindið? (b) Hvernig lýsti farandbóksali starfi sínu „fyrir daga bifreiðarinnar“?

24 Bróðir Russell og samstarfsmenn hans létu ekki við það sitja að hvetja fólk til að boða sannleikann. Þeir tóku einnig að gefa út bæklinga sem nefndust Bible Students’ Tracts en voru síðar kallaðir Old Theology Quarterly. Lesendur Varðturnsins fengu þessi rit í hendur til að dreifa endurgjaldslaust meðal almennings.

Við ættum að spyrja okkur hvort við lítum á boðunina sem mikilvægasta verkefni okkar.

25 Þeir sem boðuðu fagnaðarerindið í fullu starfi á þeim tíma voru kallaðir farandbóksalar. Charles Capen, sem áður er getið, var einn þeirra. Hann sagði síðar: „Ég var með kort frá Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna þegar ég fór yfir svæðið í Pennsylvaníu. Allir vegir voru merktir á kortin þannig að ég gat farið fótgangandi um öll svæði í hverri sýslu. Stundum fór ég í þriggja daga ferð um sveitirnar og tók pantanir [af bókum í bókaröðinni Studies in the Scriptures]. Ég leigði síðan hest og vagn til að afhenda bækurnar. Oft fékk ég næturgistingu hjá bændum. Þetta var fyrir daga bifreiðarinnar.“

A colporteur brother with a horse and buggy

Farandbóksali. Yfirlit um áætlun Guðs er málað á vagninn.

26. (a) Hvers vegna þurftu þjónar Guðs að boða fagnaðarerindið til að vera undir það búnir að Kristur tæki völd? (b) Hvaða spurninga er ástæða til að spyrja sig?

26 Það útheimti bæði hugrekki og brennandi áhuga að boða fagnaðarerindið á þeim tíma. Hefðu sannkristnir menn verið undir það búnir að Kristur tæki völd ef þeim hefði ekki verið kennt hve áríðandi væri að boða fagnaðarerindið? Að sjálfsögðu ekki. Boðunin átti einmitt að vera áberandi merki um nærveru Krists. (Matt. 24:14) Þjónar Guðs urðu að vera tilbúnir til að beina öllum kröftum sínum að þessu mikilvæga starfi. Við ættum að spyrja okkur hvort við lítum á boðunina sem mikilvægasta verkefni okkar. Færir þú fórnir til að geta tekið sem mestan þátt í þessu starfi?

Ríki Guðs er stofnsett

27, 28. Hvað sá Jóhannes postuli í sýn og hvernig brugðust Satan og illu andarnir við „fæðingu“ ríkis Guðs?

27 Loks rann upp merkisárið 1914. Eins og rætt var um í byrjun þessa kafla var enginn maður sjónarvottur að þeim miklu atburðum sem áttu sér stað á himnum. Jóhannes postuli fékk hins vegar að sjá sýn þar sem atburðunum var lýst með táknrænum hætti. Hann sér „tákn mikið“ á himni. „Kona“ Guðs er barnshafandi og fæðir sveinbarn en hún táknar söfnuð trúfastra andavera á himnum. Þetta barn á bráðlega að „stjórna ... öllum þjóðum með járnsprota“ eins og fram kemur í spádóminum. Um leið og það fæðist er það hins vegar „hrifið til Guðs, til hásætis hans“. Sterk rödd á himni segir: „Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors og veldi hans Smurða.“ – Opinb. 12:1, 5, 10.

28 Enginn vafi leikur á hvað það var sem Jóhannes sá í sýninni. Hann sá ríki Messíasar „fæðast“. Þetta var afar gleðilegur atburður en ekki voru þó allir ánægðir. Satan og illu andarnir börðust gegn trúum englum Guðs sem voru undir forystu Mikaels, það er að segja Krists. Hvernig lauk stríðinu? Við lesum: „Drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina og englum hans var varpað niður með honum.“ – Opinb. 12:7, 9.

Christ’s invisible presence as king of the Messianic Kingdom

Árið 1914 tóku Biblíunemendurnir að sjá merki þess að ósýnileg nærvera Krists væri hafin.

29, 30. (a) Hvaða breyting varð á jörðinni eftir að ríki Messíasar tók völd? (b) Hvað breyttist á himnum?

29 Löngu fyrir 1914 höfðu Biblíunemendurnir sagt að frá og með því ári yrðu miklir erfiðleikar á jörð. En ekki hvarflaði að þeim hve sannspáir þeir reyndust. Eins og fram kom í sýn Jóhannesar urðu áhrif Satans á mannlegt samfélag enn meiri en áður: „Vei sé jörðunni og hafinu því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð því að hann veit að hann hefur nauman tíma.“ (Opinb. 12:12) Fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 og tákn þess að Kristur væri nærverandi sem konungur tók að koma fram um allan heim. ,Síðustu dagar‘ þessa heims voru hafnir. – 2. Tím. 3:1.

30 Mikil gleði ríkti hins vegar á himnum. Satan og illu öndunum hafði verið úthýst fyrir fullt og allt. Í frásögn Jóhannesar segir: „Fagnið því, himnar og þér sem í þeim búið.“ (Opinb. 12:12) Það var búið að hreinsa til á himnum og Jesús var sestur að völdum sem konungur. Ríki hans var nú reiðubúið að beita sér í þágu þjóna Guðs á jörð. Hvert var fyrsta verkefnið? Eins og fram kom í byrjun þessa kafla átti Kristur að koma fram sem „boðberi sáttmálans“ og hreinsa þjóna Guðs á jörð. Hvað fólst í því?

Reynslustund

31. Hvernig hreinsun spáði Malakí og hvernig tók spádómurinn að rætast? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

31 Malakí boðaði að hreinsunin yrði ekki auðveld. Hann skrifaði: „Hver getur afborið daginn þegar hann kemur, hver fær staðist þegar hann birtist? Hann er eins og eldur í bræðsluofni, eins og lútur sem bleikir þvott.“ (Mal. 3:2) Það reyndist hverju orði sannara. Árið 1914 hófust langvinnar og erfiðar prófraunir sem þjónar Guðs þurftu að ganga í gegnum. Margir biblíunemendur máttu þola grimmilegar ofsóknir og fangavist meðan fyrri heimsstyrjöldin geisaði.d

32. Hvaða erfiðleikar hrjáðu þjóna Guðs upp úr 1916?

32 Ekki var heldur allt með kyrrum kjörum innan safnaðarins. Bróðir Russell dó árið 1916, aðeins 64 ára, og það var mikið áfall fyrir marga þjóna Guðs. Þegar hann féll frá kom í ljós að sumir höfðu bundið of miklar vonir við einn mann sem var til fyrirmyndar. Ákveðin persónudýrkun hafði myndast kringum bróður Russell þótt sjálfur hafi hann aldrei óskað eftir neinni lotningu. Margir héldu að nú yrðu ekki opinberuð fleiri biblíusannindi fyrst hann væri dáinn, og sumir streittust ákaft á móti frekari framförum. Þetta hugarfar átti sinn þátt í fráhvarfi sem klauf söfnuðinn.

33. Hvernig reyndi það á þjóna Guðs að væntingar þeirra rættust ekki?

33 Það reyndi líka á að ýmsar væntingar, sem menn höfðu gert sér, rættust ekki. Í Varðturninum hafði réttilega verið bent á að tímar heiðingjanna tækju enda árið 1914 en þjónar Guðs skildu ekki á þeim tíma hvað myndi gerast það ár. (Lúk. 21:24) Þeir héldu að árið 1914 myndi Kristur kalla hinn andasmurða hóp, sem myndaði brúði hans, til himna til að ríkja með sér. Þessar vonir brugðust. Síðla árs 1917 var sagt í Varðturninum að vorið 1918 væri 40 ára uppskerutími á enda. En boðunin tók ekki enda. Vorið 1918 leið hjá og boðunin dafnaði. Því var þá slegið fram í blaðinu að uppskerutíminn væri samt á enda en nú stæði yfir eftirtíningur. Margir voru samt vonsviknir og hættu að þjóna Jehóva.

34. Fyrir hvaða áfalli urðu þjónar Guðs árið 1918 og hvers vegna héldu forystumenn kristna heimsins að þeir væru „dauðir“?

34 Árið 1918 urðu þjónar Guðs fyrir enn einu áfallinu. Joseph F. Rutherford, sem tók við forystunni meðal þjóna Guðs af Charles T. Russell, var handtekinn ásamt sjö öðrum forystumönnum safnaðarins. Þeir voru dæmdir á röngum forsendum til langrar fangavistar í alríkisfangelsinu í Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum. Um tíma leit út fyrir að starfsemi þjóna Guðs væri lömuð. Margir af prestum kristna heimsins fögnuðu. Nú stafaði þeim ekki lengur ógn af Biblíunemendunum. „Leiðtogarnir“ voru í fangelsi, aðalstöðvunum í Brooklyn hafið verið lokað og hömlur voru á boðuninni bæði í Ameríku og Evrópu. Þessir hvimleiðu Biblíunemendur voru „dauðir“. (Opinb. 11:3, 7-10) En þar skjátlaðist prestunum.

Endurlífgunartími

35. Hvers vegna leyfði Jesús að fylgjendur hans lentu í þrengingum og hvað gerði hann til að hjálpa þeim?

35 Ekki óraði óvini sannleikans fyrir því að það væri aðeins ein ástæða fyrir því að Jesús leyfði að þjónar sínir lentu í þessum þrengingum. Hún var sú að Jehóva var að „bræða silfrið og hreinsa það“. (Mal. 3:3) Hann og Jehóva treystu að trúir þjónar þeirra kæmu hreinsaðir úr eldrauninni og betur í stakk búnir en nokkru sinni fyrr til að þjóna konunginum. Frá því snemma árs 1919 var ljóst að andi Guðs hafði gert það sem óvinir þjóna hans töldu ógerlegt. Hann hafði endurlífgað trúa þjóna sína. (Opinb. 11:11) Þá uppfyllti Kristur greinilega mikilvægan þátt í tákni síðustu daga. Hann skipaði ,trúa og hyggna þjóninn‘ en það er fámennur hópur andasmurðra manna sem áttu að fara með forystuna meðal þjóna Guðs og dreifa andlegri fæðu á réttum tíma. – Matt. 24:45-47.

Cover of the first issues of the Bulletin and The Golden Age

36. Hvað sýndi að þjónar Guðs voru að lifna við að nýju?

36 Bróður Rutherford og samstarfsmönnum hans var sleppt úr fangelsi 26. mars 1919. Fljótlega var byrjað að undirbúa mót sem halda átti í september það ár. Lögð voru drög að því að hefja útgáfu nýs tímarits sem kallað var The Golden Age. Þetta systurblað Varðturnsins var ætlað til að nota í boðunarstarfinu.e Sama ár kom út fyrsta tölublað Bulletin sem kallast nú vinnubók fyrir samkomuna Líf okkar og boðun. Allt frá upphafi hefur þetta rit verið öflugur talsmaður boðunarstarfsins. Frá og með 1919 hefur verið lögð æ meiri áhersla á að hver einasti þjónn Guðs boði fagnaðarerindið hús úr húsi.

37. Hvað gerðu sumir á árunum upp úr 1919?

37 Boðunin gerði það að verkum að þjónar Krists héldu áfram að hreinsast. Þeir sem voru stoltir og hrokafullir gátu ekki hugsað sér að taka þátt í starfi sem var svona ómerkilegt að þeirra mati. Þeir sögðu skilið við söfnuðinn. Á árunum upp úr 1919 urðu sumir þeirra bitrir í lund, fóru að rægja og níða söfnuðinn og tóku jafnvel afstöðu með þeim sem ofsóttu trúa þjóna Jehóva.

38. Hvað sannar velgengni fylgjenda Krists á jörð?

38 Fylgjendur Krists á jörð héldu áfram að dafna þrátt fyrir þessar árásir. Allt sem þeir hafa áorkað síðan, hver einasti sigur sem þeir hafa unnið, er ótvíræð sönnun fyrir því að ríki Guðs er við völd. Það er aðeins með stuðningi og blessun Jehóva sem hópur ófullkominna manna getur unnið einn sigurinn á fætur öðrum yfir Satan og illum heimi hans. Þennan stuðning veitir Jehóva fyrir atbeina sonar síns og ríkis hans. – Lestu Jesaja 54:17.

J. F. Rutherford delivering a talk at a convention of Bible Students in 1919

Bróðir Rutherford flytur áhrifamikla ræðu á móti fáeinum mánuðum eftir að honum var sleppt úr fangelsi.

39, 40. (a) Um hvað er rætt í þessari bók? (b) Hvaða gagn hefurðu af því að lesa þessa bók?

39 Í þessari bók ætlum við að skoða það sem ríki Guðs hefur áorkað hér á jörð á þeirri öld sem er liðin síðan það var stofnsett á himnum. Í hverjum bókarhluta verður rætt um ákveðinn þátt í starfsemi Guðsríkis á jörð. Í lok hvers kafla eru nokkrar spurningar sem hjálpa okkur að íhuga hve raunverulegt ríki Guðs sé í okkar augum. Í síðustu köflunum er síðan rætt hvers megi vænta þegar ríki Guðs kemur í náinni framtíð, eyðir hinum illu og breytir jörðinni í paradís. Hvaða gagn hefurðu af því að lesa þessa bók?

40 Satan vill grafa undan trú þinni á ríki Guðs. Jehóva Guð vill hins vegar styrkja trú þína svo að hún verndi þig og varðveiti. (Ef. 6:16) Við hvetjum þig þess vegna til að lesa þessa bók vandlega og í bænarhug. Spyrðu þig oft: Er ríki Guðs raunverulegt í mínum augum? Því raunverulegra sem það er þér núna því meiri líkur eru á að þú verðir á sjónarsviðinu og styðjir það með ráðum og dáð þegar sá dagur rennur upp að allir sjá að ríki Guðs er raunverulegt og heldur um stjórnartaumana.

a Nánari upplýsingar um Henry Grew, George Stetson og George Storrs er að finna í bókinni Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom, bls. 45-46.

b Biblíunemendurnir gerðu sér grein fyrir nauðsyn þess að segja skilið við trúfélög sem voru vinir heimsins. Þeir litu samt lengi vel á fólk sem trúsystkini ef það játaði trú á lausnargjaldið og sagðist vera vígt Guði, þó svo að það tilheyrði ekki söfnuði Biblíunemenda.

c Eitt sem dró úr krafti þessara viðvarana var að þeim var aðallega beint til litlu hjarðarinnar, hinna 144.000. Fram til 1935 var talið að mikill fjöldi fólks í kirkjum kristna heimsins tilheyrði ,múginum mikla‘ sem lýst er í Opinberunarbókinni 7:9, 10. Þeir myndu fá líf á himnum sem umbun fyrir að standa með Kristi við endalokin en yrðu þar í óæðri stöðu. Fjallað er nánar um þetta í 5. kafla.

d Í sérútgáfu tímaritsins The Golden Age (sem nú heitir Vaknið!) í september 1920 var greint frá fjölmörgum dæmum um ofsóknir í Bandaríkjunum, Englandi, Kanada og Þýskalandi á stríðsárunum. Sum dæmin voru af hrottalegasta tagi. Á áratugunum áður en fyrri heimsstyrjöldin braust út voru ofsóknir af því tagi hins vegar fátíðar.

e Árum saman var Varðturninn aðallega hugsaður hinni litlu hjörð til fræðslu og uppbyggingar.

Hve raunverulegt er ríki Guðs í þínum augum?

  • Hverjir áttu sinn þátt í að búa sanna fylgjendur Jesú undir að ríkið tæki til starfa?

  • Hvernig voru sannkristnir menn búnir undir að ríki Guðs tæki völd?

  • Hvað sýnir og sannar að ríki Guðs er raunveruleg stjórn? (Sjá opnuna „Ríki Guðs – raunveruleg stjórn.“)

  • Hvernig geturðu stutt ríki Guðs líkt og trúir fylgjendur Krists gerðu fyrir einni öld?

RÍKI GUÐS – RAUNVERULEG STJÓRN

Er ríki Guðs raunveruleg stjórn? Lítum á helstu þætti þess. Sýna þeir ekki hver um sig að ríki Guðs sé jafn raunverulegt og þær stjórnir og þau ríki sem við þekkjum hér á jörð – en fremri þeim öllum?

  • Konungur í hásæti sínu.

    VALDHAFI

    Jesús Kristur tók völd árið 1914. Hann er voldugur, réttlátur, vitur og miskunnsamur konungur en auðmjúkur gagnvart Jehóva Guði. (Jes. 9:5, 6; 11:1-3) Hann er ólíkur ófullkomnum valdhöfum meðal manna því að það er ekki hægt að spilla honum og honum eru ekki takmörk sett af þrasgjörnu þingi eða sérhagsmuna- og þrýstihópum.

  • LÖGGJAFAR- OG DÓMSVALD

    Ævi og störf Jesú hér á jörð eru undirstaða fullkominna laga sem kallast „lögmál Krists“. – Gal. 6:2; 1. Pét. 2:21.

    Jehóva hefur falið syni sínum allt dómsvald og hann beitir því fullkomlega, betur en nokkur mennskur dómari getur gert. – Jóh. 5:22.

  • Meðstjórnendur.

    MEÐSTJÓRNENDUR

    Jesús á sér 144.000 meðstjórnendur sem munu deila með honum réttlátu stjórnvaldi hans yfir jörðinni. Eitt meginmarkmið stjórnar hans er að koma á sáttum milli Guðs og manna. Meðstjórnendur Jesú verða því einnig prestar. – Opinb. 14:1; 20:6.

  • Voldugir englar með brugðið sverð.

    HER

    Jesús er settur yfir máttuga englahersveit Jehóva, voldugasta her sem til er. Hann fer bráðlega í stríð gegn allri illsku. – Sálm. 45:2, 4-6; Opinb. 19:11, 14-16.

  • STJÓRNARSETUR

    Hásæti Jesú er á himnum við hlið föður hans. Himinninn er ,heilagur og dýrlegur bústaður‘ Jehóva. (Jes. 63:15) Er þetta raunverulegur bústaður? Já, miklu fremur en nokkur sýnileg höfuðborg eða stjórnarbygging því að það sem er á himnum hrörnar ekki. – Matt. 6:20.

  • Yfirráðasvæði á jörð.

    YFIRRÁÐASVÆÐI Á JÖRÐ

    Þegnar Jesú nú á dögum eru eins og löghlýðnir útlendingar meðal allra þjóða í öllum löndum heims. En Jehóva hefur gefið þeim andlegt land, það er að segja starfsvettvang þar sem þeir gera vilja konungsins. (Jes. 60:2; 66:8) Bráðlega slær ríki Jesú eign sinni á alla jörðina. – Sálm. 72:8.

  • OPINBER ÞJÓNUSTA

    Ríki Guðs mun bráðlega uppfylla loforð hans um að veita fólki allt þetta og meira til. – Sálm. 72:16; Jes. 2:3; 33:24; 35:6; 65:21.

    • Ung heilbrigð stelpa á hlaupum.

      HEILBRIGÐI

    • Huggulegt hús.

      HÚSNÆÐI

    • Maður við byggingarstörf.

      ATVINNA

    • Ferskir ávextir og grænmeti.

      MATVÆLI

    • Maður við nám.

      MENNTUN

  • FJÖLDI DYGGRA ÞEGNA

    „Mannfjöldi er konungsprýði en mannfæð steypir höfðingjum,“ segir í Biblíunni. (Orðskv. 14:28) Dyggum þegnum ríkis Jesú hefur fjölgað jafnt og þétt og þeir eru nú meira en sjö og hálf milljón. – Sálm. 72:8; Jes. 60:22.

    Fólk af mismunandi uppruna og þjóðerni.

BÚIN UNDIR AÐ RÍKI GUÐS TÆKI VÖLD

Hér er farið yfir nokkra sögulega viðburði á áratugunum fyrir 1914. Áttarðu þig á hvernig þeir bjuggu þjóna Guðs undir að ríki Messíasar tæki völd?

  1. Mið 19. öld

    Henry Grew, George Stetson og George Storrs rannsaka kenninguna um ódauðleika sálarinnar og sýna fram á að hún sé röng.

  2. 1868 eða 1869

    Charles T. Russell byrjar að rannsaka kenningar kirkjufélaga kristna heimsins og kemst að raun um að þau rangtúlka Biblíuna. Hann hlustar á prédikun aðventistans Jonasar Wendells og það endurvekur trú hans á Biblíuna.

  3. 1870

    Bróðir Russell stofnar biblíunámshóp sem tekur að rannsaka Biblíuna með kerfisbundnum hætti.

    Biblíunámshópur á áttunda áratug nítjándu aldar.
  4. 1870-1875

    Menn fá betri skilning á sálinni, lausnargjaldinu og því með hvaða hætti Kristur kemur aftur.

  5. 1876

    Grein eftir Charles T. Russell birtist í tímaritinu Bible Examiner. Þar kemur fram að tímar heiðingjanna taki enda árið 1914.

  6. 1877

    Bæklingurinn The Object and Manner of Our Lord’s Return er gefinn út til að varpa skýrara ljósi á endurkomu Krists.

  7. 1879

    Varðturn Síonar og boðberi nærveru Krists hefur göngu sína.

    Forsíða á blaðinu Varðturn Síonar og boðberi nærveru Krists, fyrsta tölublað.

    Bent er á að kirkjufélög kristna heimsins myndi Babýlon hina miklu.

  8. 1880

    Bróðir Russell ferðast um norðausturhluta Bandaríkjanna til að heimsækja og styrkja námshópa.

  9. 1881

    Bæklingar (sumir meira en 100 blaðsíður) eru gefnir út og lesendur Varðturnsins dreifa þeim endurgjaldslaust meðal almennings.

    Allir lesendur Varðturnsins eru hvattir til að sækja minningarhátíðina í Allegheny í Pennsylvaníu.

    Farandbóksalar taka til starfa.

    Greinar eins og „Þúsund prédikarar óskast“ og „Smurðir til að prédika“ hvetja til boðunar.

    Þjónar Guðs eru hvattir til að halda samkomur reglulega ef þeir gera það ekki nú þegar.

  10. 1882

    Birt er grein þar sem þrenningarkenningin er hrakin.

  11. 1885

    Rit Varðturnsfélagsins berast til lesenda í fimm heimsálfum.

  12. 1886

    Bókin The Divine Plan of the Ages er gefin út, en hún var fyrsta bindi bókaflokks sem var síðar nefndur Studies in the Scriptures.

    Lesendum Varðturnsins er boðið til þriggja daga „almennrar samkomu“ eftir minningarhátíðina um dauða Krists. Þar með hófst sú venja að halda árleg mót.

  13. 1889

    Biblíuhúsið er reist í Allegheny í Pennsylvaníu.

  14. 1891

    Charles T. Russell byrjar að ferðast utan Bandaríkjanna og leitar leiða til að „stuðla að útbreiðslu sannleikans“.

  15. 1894

    Fulltrúar Varðturnsfélagsins eru sendir út sem farandhirðar til að heimsækja söfnuðina og hvetja þá.

    Farandumsjónarmenn við lok nítjándu aldar.
  16. 1895

    Í Varðturninum er greint frá að sums staðar komi þjónar Guðs saman til biblíunáms í svonefndum „dögunarhópum“ og hvatt er til að „slíkir hópar séu myndaðir alls staðar“.

  17. 1896

    Charles T. Russell gefur út bæklinginn What Say the Scriptures About Hell? (Hvað segir Biblían um helvíti?)

    Varðturnsfélagið gefur út Nýja testamenti Rotherhams. Prentunin var aðkeypt.

  18. 1900

    Fyrsta útibúið opnað í Lundúnum.

    Boðunin nær til 28 landa.

  19. 1903

    Farið er að boða trúna af krafti hús úr húsi í stað þess að dreifa ókeypis smáritum á götum úti nálægt kirkjum á sunnudögum.

    Prédikanir Russells taka að birtast reglulega í dagblöðum.

  20. 1909

    Aðalstöðvar Varðturnsfélagsins eru fluttar til Brooklyn í New York.

    Þrír bræður tala saman.
  21. 1910

    Biblíunemendurnir taka upp heitið Alþjóðasamtök biblíunemenda.

  22. 1911-1912

    Charles T. Russell og sex samstarfsmenn ferðast um heiminn, alls 56.000 kílómetra, til að kanna „stöðu og horfur kristninnar“ víða um lönd, þar á meðal á Filippseyjum, Indlandi, Japan og Kína.

  23. 1914

    „Sköpunarsagan í myndum“ er frumsýnd í New York 11. janúar. Búið er að sýna hana í fimm borgum til viðbótar fyrir lok febrúar. Undir árslok hafa næstum níu milljónir manna í Norður-Ameríku, Evrópu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi séð einhverja útgáfu hennar.

    Sýningarvél til að sýna „Sköpunarsöguna í myndum.

    Í október tilkynnir Charles T. Russell Betelfjölskyldunni: „Tímar heiðingjanna eru á enda, konungar þeirra hafa runnið sitt skeið.“ Systir, sem var viðstödd, segir að hann hafi bætt við: „Við vitum því ekki hvað bíður okkar.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila