4. kafli
Hin ótrausta „Babýlon“ dæmd til eyðingar
1. (a) Hver er merking orðsins „Babýlon“ og hver lagði grunn að borg með því nafni? (b) Hvaða byggingu tók hinn metnaðargjarni Nimrod að reisa og hvernig tókst til?
HEIMURINN einkennist af glundroða — á sviði stjórnmála, félagsmála og trúmála. Í Biblíunni er borgin Babel eða Babýlon tengd ruglingi og ringulreið. Þessa borg byggði Nimrod sem var uppreisnarmaður gegn Jehóva. (1. Mósebók 10:8-10) Undir forystu hins metnaðargjarna Nimrods tóku menn sér fyrir hendur að reisa turn er skyldi gnæfa til himins og ögra Jehóva. Jehóva ónýtti þessa ráðagerð með því að rugla sameiginlegu tungumáli turnsmiðanna, þannig að þeir skildu ekki lengur hver annan og gátu því ekki unnið saman að verkinu. — 1. Mósebók 11:1-9.
2. (a) Hvernig fór fyrir heimsveldinu Babýlon árið 539 f.o.t., og leið samnefnd borg þá undir lok? (b) Hvað reyndist hin forna Babýlon ekki vera?
2 Löngu síðar er greint frá annarri borg að nafni Babýlon á sama stað við Efratfljót. (2. Konungabók 17:24; 1. Kroníkubók 9:1) Árið 539 f.o.t. sigraði Kýrus mikli, konungur Medíu-Persíu, heimsveldið Babýlon og uppfyllti þar með spádóm Jehóva í Jesaja 45:1-6. Þótt Babýlon væri þar með fallin var henni leyft að standa sem borg. Hennar er getið á síðari helmingi fyrstu aldar okkar tímatals og var þá enn til. (1. Pétursbréf 5:13) Þessi borg var þó ekki „Babýlon hin mikla“ sem Jóhannes postuli talar um í 17. kafla Opinberunarbókarinnar.
3. Hver eða hvað er Babýlon hin mikla?
3 „Babýlon hin mikla“ Opinberunarbókarinnar birtist í gervi siðlausrar konu sem ríður „skarlatsrauðu dýri.“ Hún táknar heimsveldi falskra trúarbragða, þeirra á meðal trúarbragða hins svonefnda kristna heims.a (Opinberunarbókin 17:3-5) Samkvæmt því sem Jóhannes postuli sá hefur þetta táknræna heimsveldi drýgt andlegan saurlifnað með öllum pólitískum valdhöfum jarðar. Heimsveldi falskra trúarbragða, Babýlon hin mikla, hefur enn geysimikil áhrif.
„Vinur heimsins“ — ekki Guðs
4. Hvernig jók Babýlon hin mikla á glæpi sína gegn mannkyninu í fyrri heimsstyrjöldinni?
4 Þetta trúarlega heimsveldi stendur samt sem áður mjög ótraustum fótum og þannig hefur það verið sérstaklega frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Í þeirri styrjöld bætti það verulega við glæpi sína gegn mannkyninu. Klerkar kristna heimsins, sem játa sig fylgjendur Jesú Krists, notuðu prédikunarstólinn til að hvetja unga menn til að fara út á blóðvöllinn. Kunnur mótmælendaprestur, sem nú er látinn, Harry Emerson Fosdick, studdi stríðið á sínum tíma en viðurkenndi seinna meir: „Jafnvel í kirkjum okkar höfum við veifað stríðsfána . . . með öðru munnvikinu höfum við lofað Friðarhöfðingjann og með hinu vegsamað styrjaldir.“ Klerkar og kennimenn kristna heimsins báðu fyrir herjum þjóða sinna við guðsþjónustur og þjónuðu sem herprestar í landher, sjóher og flugher.b
5. (a) Hvaða orð Jakobsbréfsins 4:4 hefur kristni heimurinn ekki tekið til sín? (b) Hvernig hlýtur Guð að dæma hann?
5 Undir forystu slíkra trúarleiðtoga hafði kristni heimurinn látið sem hann sæi ekki orðin í Jakobsbréfinu 4:4: „Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ Kristni heimurinn gengur því enn þann dag í dag fram sem óvinur hins hæsta Guðs. Víst er að hann nýtur ekki verndar Guðs og stendur þar af leiðandi mjög svo ótraustum fótum. Hann getur ekki treyst pólitískum vinum sínum og stendur frammi fyrir vaxandi andstöðu gegn trúarbrögðum. Það er ekki um kristna heiminn sem Guð segir: „Snertið eigi við mínum smurðu.“ — 1. Kroníkubók 16:22.
„Gangið út, mitt fólk“
6, 7. (a) Hvaða kall ómar í Opinberunarbókinni 18:4 og til hverra? (b) Hvenær fengu Gyðingar, sem bjuggu í Babýlon fortíðarinnar, svipaða hvatningu?
6 Það er til þessara smurðu þjóna Guðs og samverkamanna þeirra nú við endalok veraldar sem áríðandi hvatning Guðs hljómar: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar.“ (Opinberunarbókin 18:4) Já, gangið út úr heimsveldi falskra trúarbragða, Babýlon hinni miklu.
7 Hér enduróma orðin í Jeremía 50:8 og 51:6, 45 beint til leifa Gyðinganna sem Jehóva dæmdi til 70 ára fjötra og útlegðar í Babýloníu. Þessi orð byrjuðu að rætast á Gyðingum sem bjuggu í Babýloníu árið 537 f.o.t., eftir að Kýrus mikli hafði látið medísk-persneskar hersveitir sínar ganga næstum þurrum fótum inn í Babýlonborg eftir farvegi Efratfljótsins, eins og sagt hafði verið fyrir.
8. (a) Hvernig uppfyllti Kýrus mikli Jesaja 45:1-6? (b) Hvers vegna þurfti sá sem Kýrus mikli var táknmynd um að breyta samkvæmt þessu spádómlega fordæmi?
8 Á fyrsta stjórnarári sínu gaf Kýrus mikli út tilskipun til uppfyllingar spádóminum í Jesaja 45:1-6. Með sama hætti lét sá sem Kýrus konungur var táknmynd um en var honum langtum máttugri, Jesús Kristur, til skarar skríða í samræmi við hið spádómlega fordæmi. Það gerðist á tilsettum tíma eftir að hann hafði sest í konungshásæti á himnum við hægri hönd Jehóva Guðs við lok ‚heiðingjatímanna‘ í október árið 1914. (Lúkas 21:24) Í fyrri heimsstyrjöldinni 1914-18 voru leifar andlegra Ísraelsmanna hnepptar í fjötra Babýlonar hinnar miklu og pólitískra friðla hennar.
9, 10. (a) Hvað var gert við átta einstaklinga úr starfsliði aðalstöðva Félagsins? (b) Hvað liggur fyrir um að Babýlon hin mikla hafi staðið að baki tilraununum til að stöðva starf þjóna Jehóva?
9 Í Bandaríkjunum var nýjasta bók Varðturnsfélagsins, The Finished Mystery, bönnuð á þeim forsendum að hún færi með uppreisnaráróður. Höfundarnir tveir voru leiddir fyrir alríkisrétt í Brooklyn í New York og ranglega dæmdir til 20 ára fangavistar í hegningarhúsinu í Atlanta í Georgíu. Forseti útgáfufélagsins, féhirðir og þrír aðrir úr starfsliði aðalstöðvanna fengu sams konar dóm. Þýðandi var dæmdur til 10 ára hegningarhússvistar.
10 Því var það að þann 4. júlí 1918 voru þessir átta vígðu kristnu menn sendir með járnbrautarlest til Atlanta í Georgíu þar sem fangelsi beið þeirra. Þeir sem eftir voru úr starfsliði aðalskrifstofu Varðturnsfélagsins í Brooklyn urðu að bjarga málum sem best þeir gátu. Hver átti sök á því að svona fór? Bókin Preachers Present Arms svarar: „Athugun á málinu í heild leiðir í ljós að kirkjurnar og klerkastéttin stóðu upphaflega að baki tilraununum til að gera út af við Russellítana [vottana]. . . . Þegar fréttir af 20 ára fangelsisdómi bárust útgefendum trúmálablaða fögnuðu þau nánast öll, stór sem smá, þeim atburði. Mér hefur ekki tekist að finna nokkur samúðarorð í nokkrum rétttrúnaðartímaritanna.“ — Ray H. Abrams, bls. 183, 184.
Fall en ekki eyðing
11, 12. (a) Hvað hafði Babýlon hin mikla ætlað sér að gera? (b) Hvernig féll Babýlon án þess þó að verða eyðilögð? (c) Hvaða áhrif hafði það á frelsaða þjóna Jehóva?
11 En fögnuður Babýlonar hinnar miklu varð skammær. Vorið 1919 féll Babýlon hin mikla. Það var upphaf örlagaríkrar þróunar sem er undanfari endanlegrar gereyðingar hennar. Babýlon hin mikla hugðist kúga þjóna Jehóva og halda í fjötrum að eilífu. En svo fór að í mars árið 1919 var fangelsisdyrunum lokið upp og hinum átta fulltrúum Varðturnsfélagsins sleppt gegn tryggingu. Síðar fengu þeir fullkomna uppreisn æru.
12 Fögnuður Babýlonar hinnar miklu var búinn! Bókin Preachers Present Arms segir um þann úrskurð réttarins að leysa vottana úr haldi: „Kirkjurnar þögðu þunnu hljóði við þessum úrskurði.“ En fögnuður þjóna Jehóva var mikill. Alheimsskipulag þeirra hafði fengið bót sinna mála. Á móti þeirra í Cedar Point í Ohio árið 1919 hvatti forseti Félagsins þær þúsundir, sem viðstaddar voru, til verka með ræðu sinni um að kynna boðskapinn um ríkið. Vottar Jehóva voru frjálsir á ný og boðuðu hugrakkir Guðsríki fyrir opnum tjöldum! Babýlon hin mikla var fallin þótt hún væri enn ekki eyðilögð. Hinn meiri Kýrus, Jesús Kristur, hafði sigrað hana og frelsað trúa fylgjendur sína.
13. Hvað gerði Babýlon hin mikla þegar Þjóðabandalagið kom fram á sjónarsviðið?
13 Babýlon hinni miklu var þannig leyft að standa eftir stríðið. Þegar fram kom tillaga um Þjóðabandalagið til varðveislu friðar í heiminum lýsti Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku sig fylgjandi því og kallaði það opinberlega „pólitíska ímynd Guðsríkis á jörð.“ Þegar Þjóðabandalaginu var loks komið á laggirnar klöngraðist Babýlon hin mikla á bak því og tók að ríða þessu ‚skarlatsrauða dýri.‘ — Opinberunarbókin 17:3.
14. (a) Hvaða stefnu tók Babýlon hin mikla í síðari heimsstyrjöldinni? (b) Hvað gerði Babýlon hin mikla þegar friðarsamtök manna stigu upp úr undirdjúpinu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar?
14 Þegar þessi magnlausu friðargæslusamtök hurfu niður í undirdjúp aðgerðarleysis við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar stóð Babýlon hin mikla uppi án fararskjóta. (Opinberunarbókin 17:8) Hún rauk þó út á vígvöllinn með þeim 57 þjóðum sem drógust inn í síðari heimsstyrjöldina. Hún hafði engar áhyggjur af því að hún þyrfti að deila hollustu sinni milli þeirra aðila sem börðust hver við annan, ekki frekar en það hefur valdið henni hugarangri að hún skuli sundurskipt í mörg hundruð óskipulega sértrúarflokka og kirkjudeildir. Þegar ráð manna til varðveislu friðarins steig upp úr undirdjúpi aðgerðarleysis í mynd Sameinuðu þjóðanna, beið Babýlon hin mikla ekki boðanna að stíga á bak því og byrja að hafa áhrif á það.
Stjórnmálaöflin snúast gegn Babýlon
15, 16. (a) Hvaða ógnþrungið sjónarspil á mannkynið nú í vændum? (b) Hvað hefur alvaldur Guð ákveðið í samræmi við Opinberunarbókina 17:15-18?
15 Innan tíðar mun mannheimurinn fá að horfa upp á ógnvekjandi sjónarspil. Það verður þegar stjórnmálaöflin snúast gegn Babýlon hinni miklu í því augnamiði að þurrka hana út. Þeim sem trúa í einlægni að öll trúarbrögð séu góð kann að þykja það skelfilegt tilhugsunar. Drottinvaldur alheimsins, Jehóva Guð, hefur samt sem áður ákveðið að Babýlon hin mikla eigi hvergi heima í öllum alheiminum og hafi nógu lengi saurgað sköpunarverkið með tilvist sinni. Hana verður að fjarlæga með valdi og að engu gera.
16 Á sjónarsviðinu eru nú þegar öflug verkfæri sem Guð getur notað til að eyða henni, það er að segja stjórnmálaöfl heimsins. Hin innblásna Opinberunarbók segir fyrir að Jehóva muni snúa elskendum hennar gegn henni, þeir muni svipta hana klæðum og afhjúpa hvernig hún í raun er — svikamylla búin til af illum öndum! Þá munu þeir eins og brenna hana í eldi og gera að öskuhaug. Þeir munu fara með hana eins og hún hefur farið með staðfasta dýrkendur hins sanna Guðs. — Opinberunarbókin 17:15-18; 18:24.
17. Eru aðgerðir stjórnmálaaflanna gegn Babýlon merki þess að þau taki að tilbiðja Jehóva Guð? Hvernig vitum við það?
17 Þótt stjórnmálaöflin beiti þannig valdi sínu gegn trúarbrögðunum þýðir það ekki að þau fari eftir það að dýrka Jehóva Guð. Grimmd þeirra gegn Babýlon þýðir ekki að þau ætli að afla sér hylli Guðs. Ef svo væri myndu þau ekki gera það sem Opinberunarbókin segir þau munu gera þessu næst. (Opinberunarbókin 17:12-14) Þótt þau láti miklum fagnaðarlátum yfir happasælli herför sinni gegn trúarbrögðunum, sem Jehóva Guð hefur leyft þeim að fara, láta þau enn sem fyrr „Guð þessarar aldar,“ Satan djöfulinn, hinn óforbetranlega erkiandstæðing Jehóva Guðs, afvegaleiða sig. — 2. Korintubréf 4:4.
18, 19. (a) Hver lifir það ekki að sjá Friðarhöfðingjann upphefja drottinvald Jehóva yfir alheimi? (b) Hverjir verða eilífir vottar um réttlætingu Jehóva og sigur yfir Babýlon hinni miklu?
18 Babýlon hin mikla mun ekki lifa það að sjá hinn stórkostlega atburð þegar drottinvald Jehóva yfir alheimi verður upphafið fyrir atbeina Friðarhöfðingjans, sem nú er „Guðhetja“ við hægri hönd hins alvalda og æðsta guðdóms, Jehóva. — Jesaja 9:6.
19 Vottar Jehóva fylgjast með þessum atburðum úr fjarlægð undir öruggri verndarhendi Guðs. (Jesaja 43:10, 12) Þeir hafa gengið út úr Babýlon hinni miklu hlýðnir boði ofan af hinum réttlátu himnum. (Opinberunarbókin 18:4) Réttmæt gleði þeirra yfir því sem þeir hafa orðið vitni að verður takmarkalaus. Eftir það munu þeir um alla eilífð vera vottar Jehóva og geta borið vitni um það hvernig hann hefur upphafið sig og fullnægt réttlátum dómi á Babýlon hinni miklu. — Opinberunarbókin 19:1-3.
[Neðanmáls]
a Ítarlega umræðu um þetta er að finna í bókinni „Babylon the Great Has Fallen!“ God’s Kingdom Rules! bls. 468-500, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Stuðningur klerka við stríðsrekstur fyrri heimsstyrjaldarinnar er ræddur ítarlega í bókinni Preachers Present Arms eftir Ray H. Abrams (New York 1933). Í bókinni segir: „Kennimenn gáfu stríðinu sína ástríðufullu andlegu merkingu og hvöt. . . . Stríðið sjálft var heilagt stríð háð til eflingar Guðsríki á jörð. Að láta líf sitt fyrir föðurlandið varð eitt og hið sama og að leggja það í sölurnar fyrir Guð og ríki hans. Guð og föðurlandið urðu samheiti. . . . Þjóðverjar og bandamenn voru álíka að þessu leyti. Báðir aðilar töldu sig eiga einkarétt á Guði. . . . Fæstir guðfræðingar áttu í nokkrum erfiðleikum með að tefla Jesú fram í fremstu víglínu og leiða her sinn til sigurs. . . . Kirkjan varð þannig einn af meginhlutum stríðsvélarinnar. . . . Leiðtogar kirkjunnar voru ekki seinir á sér að skipuleggja störf sín með tilliti til stríðsins. Innan sólarhrings frá því að lýst var yfir stríði hafði Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku tilbúna áætlun um fullkomið samstarf. . . . Margar kirkjur gengu miklu lengra en farið var fram á. Þær urðu að herskráningarmiðstöðvum fyrir nýja hermenn.“ — Bls. 53, 57, 59, 63, 74, 80, 82.