Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g87 8.1. bls. 18-22
  • Að ástunda frið við alla menn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Að ástunda frið við alla menn
  • Vaknið! – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hið ófriðsama hlutverk trúarbragðanna
  • Ég finn fjársjóð
  • Kennsl borin á konuna
  • Tími ákvarðana
  • Andi Guðs — afl til friðar
  • „Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð“
  • Megi „friður Guðs“ varðveita hjarta þitt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
  • Sannur friður — hvaðan?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Ástundaðu sannan frið og kepptu eftir honum!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Friðartími framundan
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
Sjá meira
Vaknið! – 1987
g87 8.1. bls. 18-22

Að ástunda frið við alla menn

Á uppvaxtarárum mínum í Danmörku hafði ég alltaf brennandi áhuga á hafinu. Það er ekki óeðlilegt í landi sem er að mestu umlukið hafi að mörgum sé sjómennskan í blóð borin. Hugur minn stefndi því til þess að fara í siglingar.

Sem drengur hugsaði ég oft um víkingana sem sigldu um höfin á öldum áður. Kannski voru einhverjir forfeðra minna í þeirra hópi. Síðar, þegar ég var í siglingum, sigldi ég oft sjóleiðir sem sagt er að víkingarnir hafi farið.

Hið ófriðsama hlutverk trúarbragðanna

En víkingarnir trúðu á stríð og sigur. Slík var grimmd þeirra að Alkuin, enskur fræðimaður á áttundu öld, sagði: „Aldrei áður hefur slík plága herjað á Bretland.“ Næstu 250 ár báðu margir Evrópubúar í bænum sínum: „Ó Drottinn, frelsa oss frá grimmd Norðmannanna!“

Trúarbrögð víkinganna, ásatrúin, áttu mikinn þátt í hernaðaranda þeirra. Þeir trúðu að þeir einir, sem dæju í bardaga, fengju inngöngu í Valhöll, hina ímynduðu paradís víkinganna. Valhöll var sögð standa í heimkynnum guðanna en æðstur þeirra var Óðinn, guð bardaga og dauða. Trú víkinganna hvatti þá því til hernaðar og ofbeldis. Heimildarrit nokkurt kallaði hana „blóði drifna trú.“

Það kom róti á hug minn að trúarbrögð skyldu ýta undir ofbeldi með slíkum hætti. Ég velti oft fyrir mér hvort menn allra þjóða og trúarbragða myndu nokkurn tíma geta búið saman í sátt og samlyndi. Þurfti sagan að halda áfram að endurtaka sig svona oft í hatri, styrjöldum og voveiflegum dauða sem trúarbrögðin annaðhvort hvöttu til, studdu eða að minnsta kosti létu sér standa á sama um?

Mestu skipti mig þó starf mitt á sjónum sem ég stundaði frá því að ég var unglingur. Í gegnum árin sigldi ég á ýmsum skipum og sótti líka sjómannaskóla til að geta gegnt ákveðnum störfum.

Ég finn fjársjóð

En árið 1960, þá 25 ára gamall, gekk ég niður landganginn á skipi mínu í Kaupmannahöfn í síðasta sinn. Síðustu sjóferð minni var lokið. Hvers vegna? Hvað fékk mig til að hætta svona skyndilega störfum á sjónum?

Til að skýra það þarf ég að fara aftur til sumarsins 1941. Ég var þá enn á barnsaldri er fjölskylda mín var viðstödd mót votta Jehóva í Óðinsvéum. Mikillar varúðar var gætt í sambandi við mótið því að landið var hersetið af Þjóðverjum sem höfðu hernumið það árið áður.

Mér er sérstaklega minnistæð hin prentaða dagskrá mótsins. Á baksíðunni var mynd af konu sitjandi á grimmúðlegu villidýri með sjö höfuð og tíu horn. Ég vissi ekki þá hvað konan og þetta óvenjulega dýr táknuðu. Ég átti eftir að komast að því mörgum árum síðar.

Fjórtán ár liðu áður en ég var viðstaddur annað mót votta Jehóva. Það var árið 1955 í Stokkhólmi. Skipinu, sem ég var á, var ekki ætlað að koma til Stokkhólms fyrr en eftir mótið. Skipafélagið var hins vegar svo vinsamlegt að leyfa mér að fara með öðru skipi frá Hamborg sem komst þangað fyrr. Því gat ég verið viðstaddur allt mótið.

Að mótinu loknu sneri ég heim til Danmerkur, brennandi af áhuga að læra meira um það sem ég hafði heyrt þar. Ég þáði það fúslega þegar einn af vottunum bauðst til að nema Biblíuna með mér. Ég komst að því að Biblían hafði endur fyrir löngu sagt fyrir þá tíma sem við lifum þegar friðurinn yrði tekinn burt af jörðinni. Illskuverk víkinganna blikna í samanburði við þær miklu styrjaldir og annað böl sem hefur þjakað mannkynið frá 1914. Þessar ógnir okkar tíma merkja að við lifum þá ‚síðustu daga,‘ sem Biblían spáir um, nálægt endalokum þessa núverandi heimskerfis. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; Matteus 24:3-14; Opinberunarbókin 6:3-8.

Það var mér mikið fagnaðarefni að uppgötva að Jehóva Guð myndi koma á varanlegum friði á jörðinni á okkar tímum, eftir lok þessa heimskerfis. Biblían segir að í nýrri skipan muni menn geta lifað endalaust við paradísarskilyrði, án veikinda, sorga eða tára. (Sálmur 37:29; 46:9, 10; Lúkas 23:43; Opinberunarbókin 21:3, 4) Hvílíkan fjársjóð hafði ég fundið í þessum stófenglegu fyrirheitum Biblíunnar!

Kennsl borin á konuna

Hvað um konuna sitjandi á villidýrinu sem mér var minnistæð af dagskráni fjórtán árum áður? Nú, Opinberunarbókin 17:18 segir: „Konan, sem þú sást, er borgin mikla, sem heldur ríki yfir konungum jarðarinnar.“ Og í þeirri ‚borg‘ segir Opinberunarbókin 18:24 hafa fundist „blóð . . . allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni.“

Hver var þessi kona? Svarið kom mér á óvart — hún táknaði heimsveldi falskra trúarbragða! En hvernig geta heimstrúarbrögðin, sem almennt eru álitin gott afl, verið sek um slík voðaverk? Ég ákvað að rannsaka málið smávegis upp á eigin spýtur. Svo kaldhæðnislegt sem það kann að hljóma voru það orð ýmissa trúarleiðtoga sem tóku af allan vafa í huga mér. Ekki aðeins víkingarnir höfðu látið fölsk trúarbrögð leiða sig á villigötur heldur líka þjóðir 20. aldarinnar!

Til dæmis hafði erkibiskupinn í Köln sagt þýskum hermönnum í fyrri heimsstyrjöldinni: „Vér bjóðum yður í nafni Guðs að berjast til síðasta blóðdropa, landi voru til heiðurs og dýrðar.“ Hinum megin víglínunnar hvatti biskupinn í London: „Drepið Þjóðverja — drepið þá . . . Eins og ég hef sagt þúsund sinnum lít ég á þetta sem stríð hreinleikans, og á sérhvern fallinn sem píslarvott.“

Á styrjaldartímum drápu því kaþólskir kaþólska og mótmælendur mótmælendur — skýr sönnun þess að þeir voru ekki sannir kristnir menn því að Jesús Kristur sagði fylgjendum sínum: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Kærleikurinn, sem ég sá meðal votta Jehóva á mótinu í Stokkhólmi og þeir báru hver til annars út um allan heim óháð þjóðerni, var greinilegt kennimerki þess að þeir væru sannir lærisveinar Jesú. Aldrei myndu þeir fara í stríð og drepa kristna bræður sína eða nokkurn annan. Biblían sýnir greinilega að börn Guðs drepa ekki hvert annað. — 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.

Ég komst því að þeirri niðurstöðu að trúarbrögð þessa heims gætu aldrei orðið afl til friðar um alla jörðina. Þau styðja sundraðan, stríðandi heim sem Guð hefur ‚vegið á skálum og fundið léttvægan,‘ heim sem brátt verður knosaður og feykt burt ásamt þeim trúarbrögðum sem styðja hann. (Daníel 2:44; 5:27) Á hinn bóginn bæði trúa vottar Jehóva því sem Jesús kenndi og stunda það. Þeir eru í sannleika alþjóðlegt bræðrafélag þar sem ríkir ósvikinn friður og eining. Já, trúarbrögð geta verið afl til friðar — þó ekki trúarbrögð þess heims.

Ég byrjaði að sækja samkomur votta Jehóva í Kaupmannahöfn. Innan tíðar var ég farinn að tala við nágranna mína um þau fögru sannindi sem ég var að læra. Næsta ár, 1956, lét ég skírast á móti þar sem fluttur var opinber fyrirlestur undir heitinu: „Nýr friðarheimur á okkar tímum — hvers vegna?“ Ég hreifst af því að vera á meðal þessara friðsömu áheyrenda og tilheyra sameinuðu alþjóðaskipulagi Jehóva. Ég hafði fundið fjársjóð sem ekki varð metinn til verðs! — Samanber Matteus 13:44.

Tími ákvarðana

Þann 15. október 1960 gekk ég niður landganginn í síðasta sinn. Það hafði ekki verið auðveld ákvörðun því að hafið heillaði mig. Auk þess fannst mér ég enn of ungur til að gerast ráðsettur. Mér var hins vegar ljóst að ég gæti átt ríkari þátt í að gera það sem Guði er þóknanlegt með því að vera ekki alltaf á faraldsfæti.

Árið 1965 sótti ég nokkur af hinum mörgu alþjóðamótum votta Jehóva sem haldin voru í Evrópu. Eftir að hafa hlýtt á ræður sem fjölluðu um prédikun í fullu starfi gerði ég mér ljóst að önnur mikilvæg ákvörðun væri framundan. Næsta ár afréð ég að láta skrá mig sem boðbera fagnaðarerindisins í fullu starfi. (Matteus 24:14) Ég valdi mér því nýjan starfsferil við að hjálpa öðrum við að kynnast tilgangi Guðs um að koma á varanlegum friði á jörðinni á okkar tímum.

Á næstu árum var að brjótast í mér enn ein mikil ákvörðun. Á alþjóðamóti votta Jehóva í Kaupmannahöfn árið 1969, „Friður á jörð,“ var í nokkrum erindum fjallað um möguleikann á að auka hlut sinn í þjónustunni með því að fara til annarra heimshluta. Það hjálpaði mér að gera upp hug minn. Ég sótti um að fá þjálfun sem trúboði í biblíuskóla Varðturnsins, Gíleað, í New York.

Næsta ár sótti ég 50. bekk Gíleaðskólans. Eftir fimm mánaða strangt en ánægjulegt nám var ég sendur til Guatemala í Mið-Ameríku. Í prófskírteinum okkar sagði að við værum „sérþjálfaðir til fræðslustarfa, til að vinna að góðvild og varanlegum friði og lögum fullkominnar reglu og réttlætis meðal allra manna.“

Að því hef ég unnið í Guatemala síðan ég kom þangað árið 1971. Það hafa verið sérréttindi mín að hjálpa fjölda auðmjúkra manna í þessu landi að kynnast friðarboðskap Jehóva og sjá þá láta hann hafa áhrif á sig. Með því að samlaga líf sitt lögum Guðs og meginreglum hafa þeir öðlast frið jafnvel í þessum ófriðsama heimi. Auk þess eiga þeir örugga von um varanlegan frið í nýrri skipan Guðs. Sannarlega rætast orð Jesú: „Sælir eru friðflytjendur.“ Sú sæla verður enn ríkulegri í náinni framtíð því að Jesús sagði líka: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ — Matteus 5:5, 9.

Andi Guðs — afl til friðar

Hinn máttugi starfskraftur Guðs gerir þjónum hans kleift að eignast og viðhalda sönnum friði og einingu, þótt þeir eigi sér mjög ólíkan uppruna. Milljónir dæma eru um það hve djúptæk áhrif það hefur haft á líf fólks að leggja stund á frið.

Michael Molina er eitt dæmi um það. Michael hafði verið vélbyssuskytta á flugvél í Víetnam og verið sæmdur 29 heiðursmerkjum. En þegar hann kynntist tilgangi Guðs ákvað hann að gera vilja Guðs og ástunda frið við alla menn. Nokkrum árum síðar sótti Michael Gíleaðskólann og var sendur til Guatemala sem trúboði. Núna þjónum við á deildarskrifstofunni í Guatemalaborg, svo og sem umsjónarmenn í sama söfnuði.

Já, þegar fólk ástundar frið að hætti Guðs styður heilagur andi hans við bakið á þeim svo að þeir geta gert stórkostlegar breytingar á lífi sínu. — Postulasagan 5:32; Galatabréfið 5:22, 23.

„Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð“

Nálega aldarfjórðungur er liðinn síðan ég flutti minn fyrsta opinbera fyrirlestur í Danmörku. Hann var nefndur: „‚Plógjárn úr sverðum‘ — á okkar tímum.“ Ég hafði litla hugmynd um það þá að ég ætti eftir að tala um þennan frið í aldarfjórðung á ýmsum stöðum, meðal annars í löndum þar sem lítill friður ríkir núna.

Mér er minnisstætt að í landi einu í Mið-Ameríku, sem ég heimsótti, lágu þrjú lík við veg sem ég fór um eftir að ég hafði flutt biblíuerindi. Það kom til af pólitísku ofbeldi þar í landi. Það minnti mig á hversu átakanlega þörf við höfum fyrir að sjá rætast fyrirheit Biblíunnar um líf í nýrri skipan Guðs þar sem „hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:11.

Það ævistarf mitt að vinna að friði meðal allra manna hefur veitt mér langtum meiri lífsfyllingu en störf mín til sjós. Þótt skipin og hafið heilli mig enn sé ég aldrei eftir því að hafa breytt um ævistarf. Það að ástunda frið að hætti Guðs hefur í för með sér að ég mun ekki vera í hópi hinna táknrænu ‚skipstjóra‘ í Opinberunarbók Biblíunnar sem ‚gráta og harma‘ þegar þeir sjá gereytt ‚konunni‘ sem ég sá fyrst mynd af í mótsdagskránni árið 1941. (Opinberunarbókin 18:17-19) Ég mun ekki gráta og kveina yfir því að sjá falstrúarbrögðin tortímast fyrir hendi Guðs. Hvers vegna? Vegna þess að Opinberunarbókin 18:20 segir: „Fagna . . . því að Guð hefur rekið réttar yðar á henni.“

Þegar öllum fölskum trúarbrögðum, svo og hinum stríðandi stjórnmálaöflum og efnahagskerfum þessa heims, verður svipt burt, mun loksins komast á algjör friður á jörðinni. Biblíuspádómur segir: „Hann [Jehóva] mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ Milljónir manna, sem dýrka Jehóva núna, uppfylla nú þegar þennan spádóm! — Jesaja 2:4.

Vilt þú líka fá að lifa í paradís á jörð þegar ríkja mun sannur friður? Þá vilt þú líka teljast til þeirra manna sem ástunda frið á þessari stundu! — Frásögn Frede E. Bruun.

[Innskot á blaðsíðu 19]

Víkingarnir trúðu að þeir fengju inngöngu í Valhöll aðeins ef þeir féllu í bardaga.

[Innskot á blaðsíðu 20]

Ekki aðeins víkingarnir höfðu látið fölsk trúarbrögð leiða sig á villigötur heldur líka þjóðir 20. aldarinnar.

[Innskot á blaðsíðu 20]

Jesús Kristur sagði fylgjendum sínum: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“

[Innskot á blaðsíðu 22]

Ég sótti um að fá þjálfun sem trúboði í biblíuskóla Varðturnsins, Gíleað, í New York.

[Innskot á blaðsíðu 22]

Það ævistarf mitt að vinna að friði meðal allra manna hefur veitt mér langtum meiri lífsfyllingu en störf mín til sjós.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Frede E. Bruun með ungum vottum og vinum í Guatemala.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila