Heimur án kvala er í nánd!
EIGA allar kvalir og þjáningar að hverfa innan skamms? Það eru gleðitíðindi fyrir þá sem eiga við langvinnar þjáningar að stríða — hvort heldur þjáningarnar eru líkamlegar, hugarfarslegar eða tilfinningalegar! Milljónir manna myndu vart ráða sér af gleði ef þær miklu kvalir, sem fylgja sumum tegundum krabbameins, hjartakveisu og liðagiktar, ættu eftir að hverfa. Þeir sem eiga við að stríða alvarleg, huglæg vandamál myndu taka því fagnandi ef þeir gætu losnað við hina ólýsanlegu kvöl sem þeir oft þurfa að þola. Og milljónir manna til viðbótar myndu gleðjast og fagna ef tilfinningakvöl þeirra vegna ótta, sorgar, sektar, áhyggna eða vonbrigða tæki enda. En viljum við losna við allan sársauka?
„Það er stórskaðlegt að hafa alls ekkert sársaukaskyn,“ segir líffærafræðingurinn Allan Basbaum við University of California í San Fransisco. Hann segir það af ærnu tilefni því að líkamlegur sársauki er viðvörunarmerki um að einhver hætta sé á ferðum.
Í grein í tímaritinu Time kemur glögglega fram hve sársaukaskynið er mikilvægt: „Blítt bros þessa tólf ára drengs stingur átakanlega í stúf við útlitið sem er að öðru leyti aumkunarvert. Handleggir og fótleggir eru afmyndaðir eins og hann hafi þjáðst af beinkröm. Nokkra fingur vantar. Annað hnéð er eitt gapandi sár og brosandi varirnar eru sundurbitnar. Það er engu líkara en að honum hafi verið misþyrmt hrottalega . . . Hann fæddist með afarsjaldgæfan erfðagalla sem gerir hann ónæman fyrir sársauka. Fingurnir hafa annaðhvort brotnað eða brunnið vegna þess að hann kippti ekki að sér höndum þar eð hann gat ekki fundið hvort það sem hann snerti var heitt eða hættulegt. Bein hans og liðamót eru aflöguð vegna þess að hann sló fótunum of harkalega niður er hann hljóp eða gekk. Hnén voru flakandi í sárum af því að hann skreið yfir oddhvassa hluti sem hann fann ekki fyrir. Ef hann beinbrotnaði eða fór úr mjaðmarlið fann hann ekki fyrir nægum sársauka til að hrópa á hjálp.“
Sumir eru fljótir til að kenna Guði um eitthvað þessu líkt og þá þjáningu og kvöl sem milljónir manna mega þola. En getum við réttilega kennt Guði um þær kvalir sem mannkynið þarf að þola?
Er Guði um að kenna?
Í um það bil 6000 ár hefur mannkynið verið í fjötrum líkamlegra, huglægra og tilfinningalegra kvala. Fyrir nítján öldum sagði kristni postulinn Páll réttilega: „Öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“ (Rómverjabréfið 8:22) Þrátt fyrir hin mörgu kvalastillandi lyf, sem eru fáanleg í lyfjaverslunum, og þrátt fyrir viðleitni lækna og sálfræðinga, eru menn eftir sem áður í fjötrum alls kyns kvala og þjáninga. Sumir hafa jafnvel formælt Guði fyrir þjáningar sínar, líkt og eiginkona Jobs hvatti hann til að gera fyrir alda öðli! En Job gerði sér ljóst að það væri heimskulegt og rangt. — Jobsbók 2:9, 10.
Ekki er með réttu hægt að kenna Guði um þær þjáningar sem menn þurfa að þola núna. Sökin liggur hjá ósýnilegum lygara og fyrstu foreldrum okkar. Hvernig þá?
Ritningin segir frá því að andavera, sem upphaflega var réttlát, hafi tekið að ágirnast völd og frama. Við upphaf mannkynssögunnar sá þessi andavera fyrir sér hvernig jörðin yrði öll paradís byggð mannkyni sem þjónaði alvöldum Guði, Jehóva, af heilum huga. Hjarta þessarar andaveru hafði spillst og hún gerði uppreisn gegn skapara sínum og vildi fá til sín tilbeiðslu og hollustu manna. Þessi illskeyttu markmið birtust er hann laug með slægð og undirferli. Við það kom síðan synd inn í heiminn.
Jehóva Guð sagði hinum fyrsta manni, Adam, að það myndi hafa dauða í för með sér ef hann æti ávöxtinn af skilningstrénu góðs og ills. (1. Mósebók 2:15-17) En eiginkona Admas, Eva, lét tælast til óhlýðni. Hinn ósýnilegi blekkingarmeistari notaði höggorm sem málpípu er hann sagði henni: „Vissulega munuð þið ekki deyja! En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar [Evu og eiginmanns hennar] upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ (1. Mósebók 3:1-5) Þetta var fyrsta lygin og hún brennimerkti þessa óguðlegu andaveru sem ‚föður lyginnar.‘ (Jóhannes 8:44) Þar eð hann notaði höggorm sem málpípu í Edengarðinum talar Biblían um hann sem ‚hinn gamla höggorm sem heitir djöfull og Satan.‘ — Opinberunarbókin 12:9.
Syndin hafði í för með sér kvöl og þjáningar. Trúr orðum sínum felldi Guð dauðadóm yfir syndurunum sama dag og Adam gerðist brotlegur. Í lagalegum skilningi dóu Adam og Eva samdægurs í augum Jehóva. (Samanber Lúkas 20:37, 38.) Síðan sagði Jehóva fyrstu syndugu konunni: „Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða.“ (1. Mósebók 3:16) Adam yrði að strita til að draga fram lífið utan Edengarðsins á jörð sem var allt annað en paradís. Jehóva sagði: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:17-19) Alla tíð síðan hafa menn orðið að þola kvalir og þjáningar.
Kvalir og þjáningar eru því tengdar ófullkomleika, synd og dauða sem við höfum tekið í arf frá Adam. Eins og Páll postuli orðaði það: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) En orð Guðs hjálpar okkur að bera sársaukann því að það segir okkur hvers vegna Guð hefur leyft hann og fullvissar okkur um að hann muni brátt taka enda. Guð leyfði höggorminum, ‚föður lyginnar,‘ Satan djöflinum, að þjá hinn réttláta Job og reyna þannig ráðvendni hans. Djöfullinn hafði fullyrt að Job þjónaði Guði af eigingjörnum hvötum, en ekki kærleika. (Jobsbók 1:8-12) En Job varðveitti trúfesti við Guð og sannaði þannig að ófullkomnir menn geta þjónað honum af kærleika og stutt drottinvald hans með hollustu þrátt fyrir erfiðar trúarraunir. Þolgæði Jobs sem ráðvandur maður stuðlaði að því að helga nafn Jehóva, sannaði Satan lygara og ættfaðirinn hlaut ríkulega umbun fyrir. (Jobsbók 42:12-17; Jakobsbréfið 5:11) Út frá reynslu Jobs getum við ályktað að kvalir og þjáningar mannkynsins muni taka enda þegar tilgangi Guðs er náð. En hvernig getum við verið viss um það?
Hvernig kvalir munu taka enda
Jehóva hefur séð til þess að kvalir mannkynsins taki enda í eitt skipti fyrir öll þegar þar að kemur. Það hefur hann gert á grundvelli lausnarfórnar sonar síns, Jesú Krists. Jesús er „Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“ (Jóhannes 1:29) Hann kom til jarðar „ekki . . . til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt [fullkomið mannslíf] til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Vegna óhlýðni sinnar glataði Adam fullkomnu mannslífi með öllum sínum réttindum og framtíðarhorfum. Það er nákvæmlega það sem er endurkeypt með lausnarfórn Jesú. (1. Tímóteusarbréf 2:5, 6; Hebreabréfið 7:26) Já, „svo elskaði Guð heiminn [mannheiminn], að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilít líf.“ — Jóhannes 3:16.
Guð hefur einnig heitið berum orðum að kvalir og þjáningar skuli taka enda. Kristni postulinn Jóhannes lýsir þeim tíma er kvalir af völdum syndarinnar verða horfnar og skrifaði vegna innblásturs:
„Ég sá nýjan himinn og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til. . . . Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: ‚Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘ Og sá, sem í hásætinu sat, [Jehóva Guð] sagði: ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,‘ og hann segir: ‚Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ — Opinberunarbókin 21:1-5.
Hlýðnir menn munu bráðlega hljóta fullt gagn af lausnarfórn Jesú. Það mun gerast undir stjórn Guðsríkis sem hjartahreinir menn hafa löngum beðið um: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Jesús Kristur mun fara með völd í ríkinu á himnum uns hann hefur lagt allar fjendur undir fætur sér, einnig kvalir og þjáningar og síðasta óvininn, dauðann. — 1. Korintubréf 15:25, 26.
Hlýðnir menn munu bráðlega fá að njóta þess er Guð ‚þerrar hvert tár og hvorki dauði, harmur, vein né kvöl verða framar til.‘ (Opinberunarbókin 21:4) Þá munu einnig rætast bókstaflega spádómsorðin sem núna rætast andlega: „Lofa þú [Jehóva], sála mín, . . . Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein.“ „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ — Sálmur 103:1-3; Jesaja 33:24.
Hvenær mun það gerast?
Þess er mjög skammt að bíða að menn verði frelsaðir úr fjötrum kvala og þjáninga. Það mun gerast á okkar dögum; núverandi kynslóð mun sjá það. Uppfylling biblíuspádómanna sýnir að við lifum við endalok þessa óguðlega heimskerfis. Styrjaldir, hungur og jarðskjálftar, svo og prédikun fagnaðarerindisins um alla jörðina sem vottar Jehóva sjá um, eru þættir í samsettu ‚tákni‘ ósýnilegrar nærveru Jesú sem konungur Guðsríkis á himnum. — Matteus 24:3-14, 21, 34.
Bráðlega munu „hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð,“ heimsskipulag Satans djöfulsins og stjórnkerfi þess, líða undir lok. Hið ólgusama ‚haf‘ óguðlegs mannkyns mun hverfa af sjónarsviðinu. Við stöndum því við þröskuld hins ‚nýja himins,‘ sem er ný stjórn undir blessun Guðs, yfir ‚nýrri jörð‘ sem er réttlátt mannfélag. Þar mun ‚réttlæti búa.‘ — Opinberunarbókin 21:1; 2. Pétursbréf 3:13.
Við getum því verið hugrökk úr því að slík blessun undir nýrri stjórn — Guðsríki — er svo nálæg. Aflaðu þér frekari upplýsinga um hinn nýja heim þar sem hvorki verður kvöl né dauði. Þú getur hlakkað til þess dags, sem nú er svo nálægur, er allir sem elska Jehóva Guð og hlýða honum munu lifa í heimi án kvala og þjáninga.