Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Áhrif vísindanna á líf þitt
    Varðturninn – 2015 | 1. júlí
    • Ökutæki, GPS-tæki, gervihnettir, flugvélar og heilaskimun er meðal þess sem vísindin hafa fært okkur.

      FORSÍÐUEFNI | HAFA VÍSINDIN KOMIÐ Í STAÐ BIBLÍUNNAR?

      Áhrif vísindanna á líf þitt

      Samkvæmt einni orðabók eru vísindi „kerfisbundnar rannsóknir á eðli og atferli hins efnislega alheims sem byggðar eru á athugunum, tilraunum og mælingum“. Slík vinna er krefjandi og útheimtir oft á tíðum mikla þolinmæði. Vísindamenn fást við tilraunir og athuganir í margar vikur, mánuði og jafnvel ár. Stundum er vinna þeirra til einskis en oft leiðir hún til góðs fyrir mennina. Skoðum nokkur dæmi.

      Fyrirtæki í Evrópu hefur búið til tæki úr sterku plasti og háþróuðum síum sem hreinsar mengað drykkjarvatn og kemur þannig í veg fyrir að fólk veikist. Slík tæki hafa verið notuð í kjölfar náttúruhamfara líkt og þegar jarðskjálfti reið yfir Haítí árið 2010.

      Hátt yfir jörðu svífa fjölmargir gervihnettir og mynda það sem kallað er GPS-staðsetningarkerfi. Þetta kerfi, sem fyrst var þróað í hernaðarlegum tilgangi, hjálpar ökumönnum, flugmönnum, siglingafræðingum og jafnvel veiðimönnum og fjallgöngumönnum að rata rétta leið. GPS-kerfið auðveldar fólki að komast leiðar sinnar, þökk sé vísindamönnunum sem fundu það upp.

      Vísindin hafa auðveldað mönnum lífið á margan hátt. Notar þú farsíma, tölvu eða Netið? Hefurðu náð heilsu á ný eða hefur heilsan batnað vegna framfara í læknavísindum? Hefurðu ferðast með flugvél? Þá hefurðu notið góðs af framförum sem hafa orðið á sviði vísinda. Vísindin hafa á marga vegu góð áhrif á líf þitt.

      ÞAÐ SEM VÍSINDUNUM ER UM MEGN

      Vísindamenn kafa djúpt í efnisheiminn til að afla sér meiri þekkingar. Kjarneðlisfræðingar grandskoða innri starfsemi atómsins og stjarneðlisfræðingar leita milljónir ára aftur í tímann í þeirri von að geta skilið hvernig heimurinn varð til. Vísindamenn geta jafnvel rannsakað það sem er ósýnilegt og ósnertanlegt og sumir þeirra telja því að þeir ættu að geta fundið Guð, sem Biblían talar um, ef hann er til.

      Sumir vel þekktir vísindamenn og heimspekingar ganga skrefinu lengra. Þeir halda á lofti því sem vísindarithöfundurinn Amir D. Aczel kallar „vísindalega rökfærslu gegn tilvist Guðs“. Heimsþekktur eðlisfræðingur fullyrðir til dæmis að „skortur á sönnunum fyrir því að til sé Guð, sem gegni mikilvægu hlutverki í alheiminum, taki af allan vafa um að slíkan guð sé að finna“. Aðrir gefa í skyn að máttarverk Guðs, sem talað er um í Biblíunni, séu aðeins „blekkingar“ og „klækir“.a

      Við ættum þó að spyrja okkur: Vita vísindamenn nógu mikið um efnisheiminn til að geta fullyrt að þeir hafi komist að endanlegri niðurstöðu? Svarið er einfaldlega nei. Gríðarlegar framfarir hafa orðið í vísindum en margir vísindamenn segja þó enn mörgu ósvarað og að sumu verði kannski aldrei hægt að svara. „Við munum aldrei geta skilið allt til fulls,“ sagði eðlisfræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Steven Weinberg um skilning manna á efnisheiminum. Prófessor Martin Rees, konunglegur stjörnufræðingur Bretlands, skrifaði: „Sumt munu mennirnir ef til vill aldrei komast til skilnings á.“ Sannleikurinn er sá að margt í efnisheiminum, allt frá örsmárri frumunni til hins feiknastóra alheims, er enn ekki hægt að skilja með hjálp nútímavísinda. Skoðaðu eftirfarandi dæmi:

      • DNA

        Líffræðingar skilja ekki til fulls hvernig lifandi frumur starfa. Vísindamenn hafa ekki enn fundið skýr svör við því hvernig frumur taka til sín orku, framleiða prótín og skipta sér.

      • Strákur skoppar bolta.

        Þyngdaraflið hefur áhrif á okkur öllum stundum. Samt reynist það vísindamönnum enn hálfgerð ráðgáta. Þeir geta ekki skýrt til fullnustu hvernig þyngdaraflið dregur okkur aftur niður á jörðina þegar við hoppum eða hvernig það heldur tunglinu á sporbraut umhverfis jörðu.

      • Alheimurinn

        Heimsfræðingar áætla að um 95 prósent af því sem alheimurinn er búinn til úr sé ósýnilegt og ógreinanlegt með tækjum sem notuð eru til vísindarannsókna. Þeir skipta þessum einkennilegu fyrirbærum í tvo flokka, hulduorku og hulduefni. Eðli þeirra er enn óþekkt.

      Margt annað veldur vísindamönnum heilabrotum. Af hverju er það umhugsunarvert? Vinsæll rithöfundur, sem skrifar um vísindi, segir: „Þekking okkar kemst ekki í hálfkvisti við vanþekkingu okkar. Vísindi ættu að vekja með okkur aðdáun og löngun til að vita meira í stað þess að gera okkur þröngsýn.“

      Ef þú veltir fyrir þér hvort vísindin eigi eftir að koma í stað Biblíunnar og geri þar af leiðandi trúna á Guð óþarfa skaltu hugleiða eftirfarandi: Fyrst snjallir vísindamenn, sem nota háþróuð rannsóknartæki, geta aðeins aflað sér takmarkaðrar þekkingar á efnisheiminum ætti ég þá að hafna með öllu því sem vísindamönnum er um megn að útskýra? Í lok ítarlegrar greinar um sögu og framfarir í stjörnufræði segir í alfræðiorðabókinni Encyclopedia Britannica: „Eftir næstum 4.000 ára reynslu í stjörnufræði er alheimurinn nánast jafn ókunnur mönnunum nú og hann virtist í augum Babýloníumanna.“

      Vottar Jehóva virða rétt hvers og eins til að ákveða hverju þeir trúa. Við reynum eftir fremsta megni að fylgja þessum biblíulegu ráðum: „Látið sanngirni ykkar verða kunnuga öllum mönnum.“ (Filippíbréfið 4:5, New World Translation) Með það í huga hvetjum við þig til að kynna þér hvernig vísindin og Biblían samræmast og styðja hvort annað.

      a Sumir hafna Biblíunni vegna ýmissa kirkjukenninga eins og þeirri að jörðin sé miðja alheimsins eða að Guð hafi skapað jörðina á sex bókstaflegum sólarhringum. – Sjá rammann „Biblían og vísindalegar staðreyndir“.

      Biblían og vísindalegar staðreyndir

      Í Biblíunni er því hvergi haldið fram að hún sé kennslubók í vísindum. Hins vegar gáfu ritarar hennar nákvæmar upplýsingar um mál sem ættu að vekja forvitni vísindamanna nú á tímum. Skoðum nokkur dæmi.

      • Alheimurinn

        Aldur jarðar og alheimsins

        Vísindamenn áætla að jörðin sé um það bil fjögurra milljarða ára gömul og að alheimurinn hafi orðið til fyrir um það bil 13 til 14 milljörðum ára. Í Biblíunni kemur hvergi fram hvenær sköpun alheimsins hófst og hún fullyrðir ekki að jörðin sé aðeins nokkurra þúsunda ára gömul. Biblían byrjar á þessum orðum: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:1) Þessi almenna staðhæfing gerir vísindamönnum kleift að ákvarða aldur alheimsins með vísindalega viðurkenndum aðferðum.

      • Fjöll, gróður og vatn.

        Jörðin búin undir ábúð mannsins

        Í fyrsta kafla 1. Mósebókar er orðið „dagur“ notað til að afmarka mismunandi tímabil þegar jörðin var búin undir lífið í öllum sínum fjölbreytileika. Lokaatburðurinn í þeirri einföldu lýsingu var sköpun mannsins. Biblían segir ekkert um lengd þeirra sex „daga“ sem það tók Guð að skapa heiminn. Það gefur vísindamönnum rúm til að rannsaka málið og ákvarða lengd þeirra. Við vitum að hver „dagur“ spannaði miklu lengri tíma en 24 klukkustundir.

      • Jörðin

        Hvernig jörðin svífur í geimnum

        Í Biblíunni er sagt að jörðin ,svífi í geimnum‘. (Jobsbók 26:7) Þar kemur hvergi fram að jörðin hvíli á herðum risa eða á baki fíla sem standa á skjaldböku líkt og fornar goðsögur herma. Þess heldur gefur Biblían mönnum tækifæri til að leita svara með vísindarannsóknum. Með tímanum komust Nikulás Kóperníkus og Jóhannes Kepler að því að reikistjörnurnar snúast um sólina með ósýnilegum krafti. Isaac Newton sýndi seinna fram á að þyngdaraflið stýri hreyfingum allra hluta í geimnum.

      • Staflaga bakteríur

        Leiðbeiningar um sjúkdómavarnir og hreinlæti

        Í 3. Mósebók er að finna leiðbeiningar sem Ísraelsmenn fengu um varnir gegn útbreiðslu smitsjúkdóma, þar á meðal leiðbeiningar um sóttkví sjúklinga. Í lögmáli Gyðinga voru ýmis ákvæði um hreinlæti. Í 5. Mósebók 23:12, 13 er ákvæði um að Ísraelsmenn ættu að ganga frá úrgangi sínum á afviknum stað fyrir utan tjaldbúðirnar. Þeir áttu að grafa holu og ,moka yfir hægðir sínar‘. Það eru aðeins um 200 ár síðan vísindamenn og læknar komust að nauðsyn slíkra varúðarráðstafana.

      Upplýsingarnar, sem þú varst að lesa, voru færðar í letur fyrir mörgum öldum. Hvernig gátu ritarar Biblíunnar gefið svo nákvæmar upplýsingar þegar jafnvel hámenntað samtímafólk þeirra bjó ekki yfir slíkri vitneskju? Höfundur Biblíunnar svarar því með þessum orðum: „Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni eru mínir vegir hærri yðar vegum og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum.“ – Jesaja 55:9.

  • Vísindunum eru takmörk sett
    Varðturninn – 2015 | 1. júlí
    • Vísindamaður á rannsóknarstofu.

      FORSÍÐUEFNI | HAFA VÍSINDIN KOMIÐ Í STAÐ BIBLÍUNNAR?

      Vísindunum eru takmörk sett

      Nýju trúleysingjarnir, sem svo eru kallaðir, hafa á síðustu árum skrifað allmargar bækur um skoðanir sínar. Þessi rit hafa vakið talsverða athygli og kveikt miklar umræður og deilur. Taugasérfræðingurinn David Eagleman skrifaði af þeim sökum: „Sumir lesendur ganga út frá því ... að vísindamenn hafi fundið svörin við öllu því sem við þurfum að vita.“ Síðan bætti hann við: „En góðir vísindamenn hafa ávallt opinn huga og saga vísindanna sýnir að það er alltaf eitthvað sem kemur á óvart.“

      Stjörnufræðingur horfir í stjörnusjónauka.

      Í gegnum aldirnar hafa færir vísindamenn vissulega gert undraverðar uppgötvanir í leit sinni að svörum við flóknum spurningum um efnisheiminn. Sumir þeirra hafa hins vegar einnig gert alvarleg glappaskot í þeirri leit. Isaac Newton er talinn einn merkasti vísindamaður allra tíma. Hann uppgötvaði hvernig þyngdaraflið bindur saman plánetur, stjörnur og vetrarbrautir í einn alheim. Hann fann upp örsmæðareikning – stærðfræði sem er notuð í tölvusmíði, geimferðum og kjarneðlisfræði. Newton lagði hins vegar einnig stund á gullgerðarlist, en það eru gervivísindi þar sem notast er við stjörnuspeki og töfraformúlur í tilraun til að breyta blýi og öðrum málmum í gull.

      Rúmum 1.500 árum áður en Newton kom fram á sjónarsviðið kannaði stjörnufræðingurinn Ptólemeos himingeiminn með berum augum. Hann rakti ferðir himintunglanna um næturhimininn og var mjög fær kortagerðamaður. En hann hélt því fram að jörðin væri miðpunktur alheimsins. Stjarneðlisfræðingurinn Carl Sagan skrifaði um Ptólemeos: „Jarðmiðjukenning hans hélt velli í 1.500 ár og er góð áminning um að gáfur eru engin trygging fyrir því að maður hafi ekki kolrangt fyrir sér.“

      Vísindamaður les í Biblíunni.

      Nú á tímum standa vísindamenn frammi fyrir svipuðum áskorunum í rannsóknum sínum. Munu þeir einhvern tíma komast að öllu um alheiminn? Það er auðvitað við hæfi að viðurkenna þær framfarir sem hafa orðið í vísindum og gagnið sem við höfum haft af þeim en það er líka mikilvægt að hafa í huga að vísindunum eru takmörk sett. Eðlisfræðingurinn Paul Davies komst þannig að orði: „Leitin að lokuðu rökfræðikerfi, sem gefur okkur fullkomna og mótsagnalausa skýringu á öllu, er dæmd til að mistakast.“ Þessi orð undirstrika óyggjandi sannleika: Mennirnir geta ekki skilið efnisheiminn að fullu. Það er því skynsamlegt að taka með fyrirvara öllum staðhæfingum um að vísindin geti fært okkur svörin við öllu.

      Biblían uppfyllir augljóslega þarfir okkar á sviðum sem vísindin geta ekki.

      Biblían segir um undur alheimsins: „Sjá, þetta eru aðeins ystu takmörk vega [Guðs], og hversu lágt hvísl er það, sem vér heyrum!“ (Jobsbók 26:14, Biblían 1981) Til er gríðarleg uppspretta þekkingar sem liggur fyrir utan mannlegan skilning og skynjun. Það sem Páll postuli skrifaði fyrir næstum 2.000 árum eru enn orð að sönnu: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ – Rómverjabréfið 11:33.

      Leiðbeiningar sem vísindin geta ekki veitt

      Vísindin veita okkur þekkingu á efnisheiminum en Biblían hefur að geyma meginreglur og leiðbeiningar sem hjálpa okkur að eiga friðsamleg samskipti við aðra og hamingjuríkt líf. Hugleiddu eftirfarandi dæmi.

      • Hönd sem bannmerki

        Vörn gegn glæpum

        Berðu virðingu fyrir lífinu

        „Þú skalt ekki morð fremja.“ – 2. Mósebók 20:13.

        „Hver sem hatar bróður sinn eða systur er manndrápari.“ – 1. Jóhannesarbréf 3:15.

        Stuðlaðu að friði

        „Forðastu illt og gerðu gott, leitaðu friðar og leggðu stund á hann.“ – Sálmur 34:15.

        „Friðflytjendur uppskera réttlæti og frið.“ – Jakobsbréfið 3:18.

        Forðastu ofbeldi

        „Drottinn reynir réttlátan og ranglátan, hann hatar þann sem elskar ofríki [„ofbeldi“, Biblían 1859].“ – Sálmur 11:5.

        „Öfundaðu ekki ofbeldismanninn og sækstu ekki eftir neinum verkum hans. Því að andstyggð er sá Drottni sem afvega fer.“ – Orðskviðirnir 3:31, 32.

      • Fjölskylda

        Hamingjuríkt fjölskyldulíf

        Hlýddu foreldrum þínum

        „Börn, hlýðið foreldrum ykkar vegna Drottins því að það er rétt. ,Heiðra föður þinn og móður‘ – það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: ,til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni‘.“ – Efesusbréfið 6:1-3.

        Leiðbeindu börnunum á réttan hátt

        „Reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin.“ – Efesusbréfið 6:4.

        „Verið ekki höstugir við börn ykkar, það gerir þau ístöðulaus.“ – Kólossubréfið 3:21.

        Elskaðu og virtu maka þinn

        „Hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri lotningu fyrir manni sínum.“ – Efesusbréfið 5:33.

      • Tré

        Verndun náttúrunnar

        Biblían sagði um þá sem menguðu umhverfi sitt á einhvern hátt í Ísrael til forna: „Jörðin vanhelgast undir fótum íbúa sinna ... íbúar hennar verða sekir.“ (Jesaja 24:5, 6) Guð mun láta þá sem spilla umhverfinu taka afleiðingum gerða sinna. Hann mun „eyða þeim sem jörðina eyða“. (Opinberunarbókin 11:18) Þeir munu ekki komast upp með verk sín.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila