-
Af hverju ættirðu að kynna þér Biblíuna?Varðturninn – 2015 | 1. maí
-
-
FORSÍÐUEFNI | LANGAR ÞIG TIL AÐ KYNNA ÞÉR BIBLÍUNA?
Af hverju ættirðu að kynna þér Biblíuna?
Hver er tilgangur lífsins?
Af hverju þarf fólk að þjást og deyja?
Þarf ég að kvíða framtíðinni?
Hefur Guð áhuga á mér?
Hefurðu einhvern tíma spurt þig slíkra spurninga? Ef svo er ertu ekki einn um það. Fólk um allan heim veltir fyrir sér stóru spurningunum í lífinu. En er einhver svör að fá?
Milljónir manna hafa þegar fengið fullnægjandi svör. Hvernig? Með því að kynna sér Biblíuna. Langar þig til að vita hvaða svör Biblían gefur? Vottar Jehóvaa bjóða fólki upp á ókeypis biblíunámskeið. Væri það kannski eitthvað fyrir þig?
Þegar fólki er boðið að kynna sér Biblíuna segja sumir: „Ég hef ekki tíma.“ „Það er allt of erfitt.“ „Ég vil ekki skuldbinda mig.“ Aðrir bregðast þó öðruvísi við. Þeir fagna því að fá tækifæri til að kynna sér það sem Biblían segir. Lítum á nokkur dæmi:
„Ég sótti kirkju hjá kaþólikkum og mótmælendum, heimsótti síkahof og búddaklaustur og lagði stund á guðfræðinám í háskóla. Samt var mörgum spurningum mínum um Guð ósvarað. Dag einn bankaði vottur Jehóva upp á hjá mér. Það hafði mikil áhrif á mig þegar hún sýndi mér svör Biblíunnar og ég þáði biblíunámskeið.“ – Gill, Englandi.
„Ég hafði margar spurningar um lífið og tilveruna en mér fannst presturinn í kirkjunni minni ekki gefa mér skýr og fullnægjandi svör. Einn af vottum Jehóva svaraði þó spurningum mínum með því að nota eingöngu Biblíuna. Þegar hann spurði mig hvort ég vildi kynna mér Biblíuna nánar þáði ég það með þökkum.“ – Koffi, Benín.
„Ég hafði mikinn áhuga á að vita hvað yrði um þá sem deyja. Ég trúði því að hinir dánu gætu gert hinum lifandi mein en mig langaði að vita hvað Biblían segði um það. Þess vegna fór ég að kynna mér Biblíuna með vini mínum sem var vottur.“ – José, Brasilíu.
„Ég reyndi að lesa Biblíuna en ég skildi ekki það sem ég las. Vottar Jehóva bönkuðu síðar upp á hjá mér og útskýrðu fyrir mér nokkra biblíuspádóma á skýran og einfaldan hátt. Það vakti forvitni mína og mig langaði til að vita meira.“ – Dennize, Mexíkó.
„Mig langaði að vita hvort Guð hefði áhuga á mér og bað því til Guðs sem sagt er frá í Biblíunni. Daginn eftir bönkuðu vottar Jehóva á dyrnar hjá mér og buðu mér biblíunámskeið sem ég þáði.“ – Anju, Nepal.
Þessar frásögur minna á það sem Jesús sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:4) Já, mennirnir hafa meðfædda þörf fyrir að kynnast Guði. Enginn nema Guð getur fullnægt þessari þörf og hann gerir það með orði sínu, Biblíunni.
En hvað felur biblíunámskeið í sér? Hvernig getur það gagnast þér? Þessum spurningum er svarað í næstu grein.
a Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.
-
-
Biblíunámskeið fyrir allaVarðturninn – 2015 | 1. maí
-
-
FORSÍÐUEFNI | LANGAR ÞIG TIL AÐ KYNNA ÞÉR BIBLÍUNA?
Biblíunámskeið fyrir alla
Vottar Jehóva eru þekktir fyrir að boða fólki trúna. En vissirðu að við höldum líka biblíunámskeið út um allan heim?
Árið 2014 héldu rúmlega 8.000.000 votta Jehóva biblíunámskeið í hverjum mánuði með tæplega 9.500.000 manns í 240 löndum.a Þeir sem sækja biblíunámskeið hjá okkur eru því fleiri en íbúar 140 einstakra landa!
Til að sinna þessu fræðslustarfi gefa Vottar Jehóva út tæplega einn og hálfan milljarð biblía, bóka, tímarita og annarra biblíunámsgagna á hverju ári – á um það bil 700 tungumálum! Þessi útgáfustarfsemi, sem á sér enga hliðstæðu í heiminum, gerir fólki kleift að kynna sér Biblíuna á því tungumáli sem það skilur best.
SVÖR VIÐ ALGENGUM SPURNINGUM UM BIBLÍUNÁMSKEIÐIÐ
Hvernig fer námskeiðið fram?
Við tökum fyrir mismunandi viðfangsefni og könnum biblíuvers sem tengjast því. Biblían svarar til dæmis spurningum eins og þessum: Hver er Guð? Hvernig er hann? Heitir hann eitthvað? Hvar er hann? Er hægt að eiga náið samband við hann? Til að fá svörin þarf maður að vita hvar í Biblíunni þau er að finna.
Til að auðvelda fólki að finna svörin notum við yfirleitt bókina Hvað kennir Biblían?b Þessi 224 blaðsíðna bók var sérstaklega samin til að auðvelda fólki að öðlast skilning á grundvallarkenningum Biblíunnar. Í bókinni eru kaflar sem fjalla meðal annars um Guð, Jesú Krist, bænir, upprisu frá dauðum, af hverju mennirnir þjást og margt fleira.
Hvar og hvenær fer námskeiðið fram?
Námskeiðið er haldið á stað og tíma sem hentar þér.
Hve langar eru námsstundirnar?
Flestir velja að nota um það bil klukkutíma í biblíunámsstundina í hverri viku. En það getur verið breytilegt. Hægt er að aðlaga námstímann að þinni dagskrá. Hjá sumum er námsstundin aðeins 10 eða 15 mínútna löng í hverri viku.
Hvað kostar námskeiðið?
Námskeiðið og námsgögnin eru ókeypis. Það er í samræmi við leiðbeiningarnar sem Jesús gaf lærisveinum sínum: „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.“ – Matteus 10:8.
Hve lengi stendur námskeiðið yfir?
Það er undir þér komið hve lengi námskeiðið stendur yfir. Í bókinni Hvað kennir Biblían? eru 19 kaflar. Þú getur farið yfir alla kaflana í bókinni, eða farið yfir valda kafla, og gert það á þeim hraða sem þér hentar.
Verð ég að gerast vottur Jehóva?
Nei. Við gerum okkur fulla grein fyrir að hver og einn hefur rétt til að ákveða sjálfur hverju hann kýs að trúa. Þeir sem hins vegar afla sér grunnþekkingar á Biblíunni geta tekið upplýsta ákvörðun.
Hvar get ég fengið meiri upplýsingar?
Á vefsíðunni jw.org/is er að finna áreiðanlegar upplýsingar um trúarskoðanir og starfsemi Votta Jehóva.
Hvernig get ég óskað eftir biblíunámskeiði?
Fylltu út beiðni um biblíunámskeið á vefsíðunni www.jw.org/is.
Skrifaðu beiðni og sendu á póstfangið á bls. 2 í þessu blaði.
Hafðu samband við söfnuð Votta Jehóva á þínu landsvæði með því að fletta upp á „Vottar Jehóva“ í símaskránni.
-