Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Að semja ræður ætlaðar almenningi
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
    • Að semja ræður ætlaðar almenningi

      Í FLESTUM söfnuðum Votta Jehóva er fluttur opinber fyrirlestur í hverri viku um biblíulegt efni. Öldungum og safnaðarþjónum er gjarnan boðið að flytja slíkan fyrirlestur ef þeir reynast góðir ræðumenn og kennarar, og Boðunarskólinn hefur þjálfað tugþúsundir bræðra til þessa hlutverks. Á hverju áttu að byrja þegar þér er falið að flytja opinberan fyrirlestur?

      Kynntu þér uppkastið

      Áður en þú hefst handa við rannsóknir og efnisleit skaltu lesa uppkastið og velta því fyrir þér til að glöggva þig vel á því. Hugfestu stef ræðunnar, það er að segja titilinn. Hvað ætlarðu að kenna áheyrendum? Hvaða markmið hefurðu með ræðunni?

      Millifyrirsagnir segja til um aðalatriði ræðunnar. Skoðaðu þær vel og brjóttu til mergjar. Hvernig tengjast þær stefinu, hver um sig? Undir hverri millifyrirsögn eru nokkrir stuðningspunktar og undir hverjum stuðningspunkti nokkrir skýringaliðir. Taktu eftir hvernig hver liður í ræðuuppkastinu byggist á þeim sem á undan er og leiðir af sér þann næsta, og sjáðu hvernig hann á þátt í því að ræðan nái markmiði sínu. Eftir að þú hefur glöggvað þig á stefi ræðunnar, markmiði hennar og því hvernig aðalatriðin ná fram markmiðinu geturðu farið að vinna úr efninu.

      Í byrjun getur verið gott að líta á ræðuna sem fjórar eða fimm stuttar ræður, hverja með einu aðalatriði, og semja hverja fyrir sig.

      Uppkastið, sem þér er látið í té, er ætlað til undirbúnings. Hugmyndin er ekki sú að þú notir það sem minnispunkta þegar þú flytur ræðuna. Uppkastið er eins og beinagrind ef svo má að orði komast, og þú þarft að klæða hana holdi og blása lífi í hana.

      Að nota Biblíuna

      Jesús Kristur og lærisveinar hans byggðu kennslu sína á Ritningunni. (Lúk. 4:16-21; 24:27; Post. 17:2, 3) Þú getur líka gert það. Biblían ætti að vera undirstaða ræðunnar. Í stað þess að útskýra hreinlega það sem sagt er í uppkastinu þarftu að glöggva þig á því hvernig það á sér stuðning í Biblíunni og nota hana síðan til að kenna.

      Skoðaðu hvert vers sem vísað er til í uppkastinu þegar þú undirbýrð þig. Athugaðu samhengið. Sumar vísanir eru kannski hugsaðar sem gagnlegar grunnupplýsingar, og þú þarft ekki að lesa eða skýra alla ritningarstaðina þegar þú flytur ræðuna. Veldu úr þá sem eiga mest erindi til áheyrenda. Ef þú einbeitir þér að þeim ritningarstöðum, sem vísað er til í uppkastinu, þarftu sennilega ekki að auka við þá.

      Hvernig þér tekst til með ræðuna veltur ekki á því hve marga ritningarstaði þú lest heldur því hve góð kennslan er. Þegar þú kynnir ritningarstaði skaltu sýna fram á hvers vegna þú gerir það, og gefðu þér svo tíma til að skýra þá og heimfæra. Eftir að þú hefur lesið ritningartexta skaltu hafa Biblíuna opna á meðan þú ræðir um hann. Þá gera áheyrendur það sennilega líka. Með útskýringum, líkingum og heimfærslu geturðu örvað áhuga þeirra og hjálpað þeim að hafa sem mest gagn af orði Guðs. — Nehem. 8:8, 12.

      Útskýring. Þegar þú býrð þig undir að útskýra lykilritningarstað er gott að spyrja: ‚Hvað merkir hann? Hvers vegna nota ég hann í ræðunni? Hvaða spurninga ætli áheyrendur spyrji sig þegar versið er lesið?‘ Þú getur þurft að skoða samhengi orðanna, forsögu, umgjörð, kraft og ætlun hins innblásna ritara. Þetta kallar á rannsóknir og leit. Geysimikinn fróðleik er að finna í ritum hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matt. 24:45-47) Reyndu ekki að útskýra versið í þaula en varpaðu ljósi á það hvers vegna þú last það í samhengi við umræðuefnið.

      Líking. Líking á að þjóna þeim tilgangi að dýpka skilning áheyrenda eða hjálpa þeim að muna atriði eða meginreglu sem þú fjallar um. Líkingar auðvelda fólki að skilja það sem þú hefur fram að færa og tengja það einhverju sem það þekkir. Jesús gerði þetta í hinni frægu fjallræðu. ‚Fuglar himinsins,‘ ‚liljur vallarins,‘ ‚þröngt hlið,‘ ‚hús á bjargi‘ og margt í þeim dúr gerði kennslu hans áhrifamikla, skýra og ógleymanlega. — Matt. 5.-7. kafli.

      Heimfærsla. Skýringar og líkingar eru til þekkingarauka en það er heimfærsla þekkingarinnar sem skilar árangri. Það er að vísu á ábyrgð áheyrenda sjálfra að fara eftir boðskap Biblíunnar en þú getur leitt þeim fyrir sjónir hvað þeir þurfa að gera. Þegar þú ert viss um að áheyrendur skilji versið sem til umræðu er og átti sig á því hvernig það snertir efnið, þarftu að gefa þér nægan tíma til að sýna þeim fram á áhrif þess á trú þeirra og hegðun. Bentu á kosti þess að leggja af rangar hugmyndir eða hegðun sem stangast á við þau sannindi sem eru til umræðu.

      Mundu að áheyrendur eiga sér margs konar bakgrunn og búa við mjög breytilegar aðstæður og taktu mið af því þegar þú hugleiðir hvernig þú heimfærir ritningarstaði. Vel má vera að í hópnum sé fólk sem hefur nýlega sýnt áhuga, unglingar, aldraðir og ýmsir sem eiga við alls konar persónuleg vandamál að glíma. Gerðu ræðuna raunhæfa og raunsæja og gefðu ekki leiðbeiningar sem hljóma eins og þær séu ætlaðar einhverjum fáeinum í hópnum.

      Það sem ræðumaður þarf sjálfur að ákveða

      Sumt er búið að ákveða fyrir þig varðandi ræðuna. Aðalatriðin koma skýrt fram og tiltekið er hve mikinn tíma þú átt að nota til að ræða um efnið undir hverri millifyrirsögn. En þú þarft sjálfur að ákveða ýmislegt annað. Kannski viltu fjalla misítarlega um stuðningspunktana. Þú þarft ekki endilega að fara jafnítarlega yfir hvern einasta stuðningspunkt. Ef þú gerir það gætirðu þurft að fara á harðaspretti yfir eitthvað af efninu og þá myndirðu drekkja áheyrendum. Hvernig geturðu ákveðið hvað skuli fjalla ítarlega um og hvað stuttlega eða lauslega? Spyrðu þig: ‚Hvaða atriði hjálpa mér að koma kjarnanum í ræðunni til skila? Hvað er líklegast til að koma áheyrendum að mestu gagni? Slitnar rökþráðurinn í ræðunni ef ég sleppi ákveðnum ritningarstað, sem vísað er til, og skýringunni við hann?‘

      Gættu þess vandlega að skjóta ekki tilgátum eða persónulegum skoðunum inn í ræðuna. Sonur Guðs, Jesús Kristur, talaði ekki einu sinni ‚af sjálfum sér.‘ (Jóh. 14:10) Mundu að fólk kemur á samkomur Votta Jehóva til að heyra biblíulega umfjöllun. Ef þú ert álitinn góður ræðumaður má líklega rekja það til þess að þú hefur tamið þér að vekja athygli á orði Guðs en ekki sjálfum þér. Og fyrir vikið eru ræður þínar vel metnar. — Fil. 1:10, 11.

      Þegar þú ert búinn að breyta einföldu uppkasti í kjarngóða biblíuskýringu þarftu að æfa þig í að flytja ræðuna, helst upphátt. Aðalatriðið er að þú sért örugglega vel heima í efninu. Þú þarft að geta flutt ræðuna með sannfæringu, gætt efnið lífi og flutt sannleikann með eldmóði. Áður en þú flytur ræðuna skaltu spyrja þig: ‚Hverju vonast ég til að áorka?‘ Spyrðu síðan: ‚Eru aðalatriðin skýr og skera þau sig úr? Hefur mér tekist að byggja ræðuna vel á Biblíunni? Mynda ég eðlilega brú frá einu aðalatriði yfir til þess næsta? Eflir ræðan virðingu fyrir Jehóva og ráðstöfunum hans? Eru niðurlagsorðin í samræmi við stefið? Benda þau áheyrendum á hvað þeir þurfi að gera og hvetja þá til þess?‘ Ef þú getur svarað öllum þessum spurningum játandi, þá ertu í aðstöðu til að miðla ‚þekkingu,‘ söfnuðinum til gagns og Jehóva til lofs. — Orðskv. 15:2.

  • Þjálfaðu þig sem kennari
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
    • Þjálfaðu þig sem kennari

      HVAÐA markmið hefurðu sem kennari? Ef þú ert nýlega orðinn boðberi langar þig eflaust til að læra að halda biblíunámskeið í heimahúsi, því að Jesús fól fylgjendum sínum það verkefni að gera menn að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20) Ef þú ert búinn að afla þér nokkurrar reynslu á þessu sviði stefnirðu kannski að því að ná betur til hjartna þeirra sem þú reynir að aðstoða. Foreldrum er örugglega mikið í mun að kenna börnunum þannig að þau langi til að vígjast Guði. (3. Jóh. 4) Ef þú ert öldungur eða stefnir að því að uppfylla hæfniskröfurnar langar þig kannski til að ná góðum tökum á því að flytja opinbera fyrirlestra, þannig að þú getir aukið virðingu áheyrenda fyrir Jehóva og starfsháttum hans. Hvernig geturðu náð þessum markmiðum?

      Jesús Kristur var afburðasnjall kennari og þú getur lært margt af honum. (Lúk. 6:40) Kennsla hans og kennsluaðferðir höfðu djúpstæð áhrif á fólk, hvort sem hann talaði til mikils mannfjölda í fjallshlíð eða við fáeina samferðamenn á göngu. Hann örvaði hugi áheyrenda, snart hjörtu þeirra og sýndi þeim fram á hagnýtt gildi þess sem hann kenndi. Getur þú líka gert það?

      Reiddu þig á Jehóva

      Snilli Jesú sem kennari stafaði meðal annars af nánu sambandi hans við himneskan föður sinn og blessun frá anda hans. Biður þú Jehóva innilega um hjálp til að veita góða kennslu á biblíunámskeiði? Ef þú ert foreldri, biðurðu þá reglulega um leiðsögn Guðs við að kenna börnunum? Biður þú innilega þegar þú býrð þig undir að flytja ræður eða stjórna samkomum? Þú verður betri kennari ef þú leitar hjálpar Jehóva í bæn.

      Þú reiðir þig einnig á Jehóva með því að styðjast við orð hans, Biblíuna. „Ég hef gefið þeim orð þitt,“ sagði Jesús í bæn til föður síns síðasta kvöldið sem hann var maður á jörð. (Jóh. 17:14) Þótt Jesús byggi yfir víðtækri reynslu hélt hann aldrei fram eigin hugmyndum heldur talaði það eitt sem faðirinn kenndi honum. Það er fordæmi sem við ættum að fylgja. (Jóh. 12:49, 50) Orð Guðs, sem varðveitt eru í Biblíunni, geta haft kröftug áhrif á atferli fólks, leyndustu hugsanir og tilfinningar. (Hebr. 4:12) Með vaxandi þekkingu á orði Guðs og með því að þjálfa þig í að nota það vel í þjónustunni lærirðu að laða fólk að Guði með kennslu þinni. — 2. Tím. 3:16, 17.

      Heiðraðu Jehóva

      Að líkja eftir kennslu Krists er meira en að flytja góða fyrirlestra. Vissulega undruðust menn hin „hugnæmu orð“ sem þeir heyrðu af vörum Jesú, en hvaða markmið hafði hann með því að tala þannig? (Lúk. 4:22) Hann vildi ekki beina athygli að sjálfum sér heldur heiðra Jehóva. (Jóh. 7:16-18) Og hann sagði við fylgjendur sína: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ (Matt. 5:16) Þessi ráðlegging ætti að hafa áhrif á kennslu okkar og við ættum að forðast hvaðeina sem gæti dregið úr því að Jehóva fái þann heiður sem honum ber. Þegar við veltum fyrir okkur hvað við ætlum að segja og hvernig, ættum við því að spyrja okkur: ‚Ýtir það undir virðingu fyrir Jehóva eða beinir það athyglinni að sjálfum mér?‘

      Líkingar og raunsannar frásögur geta verið mjög áhrifarík kennslutæki. En ef líkingin verður langdregin eða frásagan mjög ítarleg getur hún skyggt á það sem hún á að kenna. Og gamansögur spilla fyrir markmiði þjónustunnar. Með gamansögum er kennarinn eiginlega að beina athyglinni að sjálfum sér og nær ekki því markmiði sínu að fræða.

      Bentu á mismun og andstæður

      Til að nemandi verði lærisveinn þarf kennslan að vera skýr og skilmerkileg. Hann þarf að heyra sannleikann og sjá muninn á honum og annarri trú. Andstæður geta verið mjög skilningsaukandi.

      Jehóva hvatti þjóð sína margsinnis til að „gjöra greinarmun á“ hreinu og óhreinu. (3. Mós. 10:9-11) Þeir sem áttu að þjóna í hinu mikla andlega musteri myndu fræða fólkið um „muninn á óhreinu og hreinu.“ (Esek. 44:23) Í Orðskviðunum er bent á ótal andstæður milli réttlætis og ranglætis og milli visku og heimsku. Það er jafnvel hægt að gera greinarmun á ýmsu sem er ekki beinar andstæður. Í Rómverjabréfinu 5:7 benti Páll til dæmis á að það væri munur á réttlátum manni og góðum. Í Hebreabréfinu sýndi hann fram á hvílíka yfirburði æðstaprestsþjónusta Krists hefði yfir þjónustu Arons. Uppeldis- og kennslufræðingurinn Johannes Amos Comenius skrifaði á 17. öld: „Að kenna merkir einfaldlega að sýna fram á hvernig hlutir eru ólíkir að tilgangi, formi og uppruna. . . . Góður kennari gerir því skýran greinarmun á hlutum.“

      Skýrum þetta með dæmi: Segjum að þú sért að fræða mann um Guðsríki en hann skilur ekki hvað Guðsríki er. Þá gætirðu sýnt honum fram á muninn á lýsingu Biblíunnar og þeirri hugmynd að Guðsríki sé aðeins hið góða í manninum. Þú gætir líka bent honum á muninn á Guðsríki og stjórnum manna. Ef nemandinn eða áheyrendur þekkja þessi undirstöðusannindi gætirðu farið nánar út í málið. Þú gætir til dæmis bent á muninn á Messíasarríkinu og konungdómi Jehóva yfir alheimi sem er lýst í Sálmi 103:19 og á ‚ríki hins elskaða sonar Guðs‘ sem nefnt er í Kólossubréfinu 1:13 og þeirri framkvæmd að safna öllu undir eitt höfuð í Kristi sem nefnt er í Efesusbréfinu 1:10. Með því að benda á andstæður geturðu skerpt skilning áheyrenda á þessari mikilvægu biblíukenningu.

      Jesús beitti þessari kennslutækni margoft. Hann bar saman raunverulega þýðingu lögmálsins og almennan skilning á því. (Matt. 5:21-48) Hann gerði greinarmun á sannri guðrækni og hræsnisverkum faríseanna. (Matt. 6:1-18) Hann benti á muninn á fórnfýsi fylgjenda sinna og hugarfari þeirra sem ‚drottnuðu yfir‘ öðrum. (Matt. 20:25-28) Í Matteusi 21:28-32 segir frá því að Jesús hafi hvatt áheyrendur til að sjá sjálfir muninn á sjálfréttvísi og sannri iðrun. Þar komum við að öðrum mikilvægum þætti góðrar kennslu.

      Hvettu áheyrendur til að hugsa

      Við lesum í Matteusi 21:28 að Jesús hafi spurt: „Hvað virðist yður?“ áður en hann benti á vissar andstæður. Góður kennari þylur ekki aðeins upp staðreyndir eða veitir svör heldur hvetur áheyrendur til að rökhugsa og draga ályktanir. (Orðskv. 3:21, NW; Rómv. 12:1, NW ) Þetta má að nokkru leyti gera með því að spyrja spurninga. Í Matteusi 17:25 spyr Jesús: „Hvað líst þér, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?“ Spurningar Jesú örvuðu hugsun Péturs og hjálpuðu honum að draga rétta ályktun í sambandi við musterisskattinn. Þegar maður spurði Jesú hver væri náungi sinn bar hann saman framkomu prests og levíta annars vegar og Samverja hins vegar. Síðan spurði hann: „Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?“ (Lúk. 10:29-36) Hér er annað dæmi um að Jesús hafi hvatt áheyrandann til að svara sinni eigin spurningu sjálfur, í stað þess að hugsa fyrir hann. — Lúk. 7:41-43.

      Náðu til hjartans

      Kennari, sem skilur andann í orði Guðs, gerir sér ljóst að sönn tilbeiðsla er meira en að læra ákveðnar staðreyndir og fylgja vissum reglum. Sönn tilbeiðsla er byggð á því að eiga gott samband við Jehóva og hafa mætur á vegum hans. Hjartað þarf að vera með í tilbeiðslunni. (5. Mós. 10:12, 13; Lúk. 10:25-27) Í Biblíunni er orðið „hjarta“ oft notað um hinn innri mann, þar á meðal langanir, tilfinningar, kenndir og hvatir.

      Jesús vissi að Guð sér hvað í hjartanu býr þótt menn sjái aðeins ytra útlit. (1. Sam. 16:7) Við ættum að þjóna Guði af kærleika til hans en ekki til að sýnast fyrir mönnum. (Matt. 6:5-8) Farísearnir gerðu hins vegar margt í þeim tilgangi að sýnast. Þeir lögðu ofurkapp á að fylgja lögmálinu út í ystu æsar og höfðu mikið dálæti á reglum sem þeir settu sjálfir. Hins vegar sýndu þeir ekki af sér þá eiginleika sem Guð leitar í fari þeirra sem segjast tilbiðja hann. (Matt. 9:13; Lúk. 11:42) Jesús kenndi að það væri vissulega mikilvægt að hlýða kröfum Guðs en benti á að gildi hlýðninnar réðist af því sem byggi í hjartanu. (Matt. 15:7-9; Mark. 7:20-23; Jóh. 3:36) Við náum mestum árangri með kennslunni ef við líkjum eftir fordæmi Jesú. Það er mikilvægt að kenna fólki hvaða kröfur Jehóva gerir, en það er líka mikilvægt fyrir fólk að kynnast honum sem persónu og elska hann, þannig að hegðun þess endurspegli hve mikils það metur velþóknun hans og gott samband við hann.

      Til að hafa gagn af slíkri kennslu þarf fólk auðvitað að horfast í augu við það sem býr í hjarta þess. Jesús hvatti fólk til að grannskoða áhugahvatir sínar og tilfinningar. Hann leiðrétti röng sjónarmið með því að spyrja áheyrendur hvers vegna þeir hugsuðu, segðu eða gerðu þetta eða hitt. En hann lét ekki staðar numið þar heldur tengdi spurninguna við ábendingu, dæmisögu, líkingu eða athöfn sem hvatti þá til að sjá hlutina í réttu ljósi. (Mark. 2:8; 4:40; 8:17; Lúk. 6:41, 46) Við getum líka hjálpað áheyrendum með því að hvetja þá til að spyrja sig spurninga eins og: ‚Af hverju langar mig til að gera þetta? Af hverju bregst ég svona við?‘ Síðan skaltu hvetja þá til að sjá málið með augum Jehóva.

      Heimfærðu kennsluna

      Góður kennari veit að viska er verðmæt. (Orðskv. 4:7) Viska er það að kunna að beita þekkingu til að leysa vandamál, forðast hættur, ná markmiðum og hjálpa öðrum. Kennari á að kenna nemendum þetta en ekki að taka ákvarðanir fyrir þá. Hjálpaðu nemandanum að rökhugsa þegar þú ræðir um ýmsar meginreglur Biblíunnar. Þú gætir vitnað í aðstæður úr daglegu lífi og síðan spurt nemandann hvernig hann gæti notfært sér meginregluna, sem þið voruð að ræða, ef hann lenti í þessum aðstæðum. — Hebr. 5:14.

      Ræða Péturs postula á hvítasunnu árið 33 er dæmi um raunhæfa heimfærslu sem snerti fólk. (Post. 2:14-36) Fyrst ræddi hann um þrjár ritningargreinar, sem mannfjöldinn kvaðst trúa á, og síðan heimfærði hann þær miðað við þá atburði sem allir höfðu orðið vitni að. Áheyrendur skildu að þeir þurftu að breyta samkvæmt því sem þeir heyrðu. Hefur þú svipuð áhrif á fólk með kennslu þinni? Læturðu þér nægja að tíunda staðreyndir eða sýnirðu áheyrendum fram á ástæðurnar fyrir þeim? Hveturðu þá til að hugleiða hvaða áhrif það sem þeir læra ætti að hafa á þá? Þeir hrópa kannski ekki: „Hvað eigum vér að gjöra?“ eins og gerðist á hvítasunnunni, en ef þú hefur heimfært ritningargreinarnar vel finna þeir hvöt hjá sér til að fara eftir þeim. — Post. 2:37.

      Að lesa í Biblíunni með börnunum býður upp á kjörið tækifæri til að kenna þeim að heimfæra meginreglur Biblíunnar á sig. (Ef. 6:4) Þú gætir til dæmis valið fáein vers úr biblíulestri vikunnar, rætt um merkingu þeirra og síðan spurt: ‚Hvaða leiðbeiningar eru í þessum versum? Hvernig getum við notað þau í boðunarstarfinu? Hvað segja þau um Jehóva og starfshætti hans og hvernig auka þau virðingu okkar fyrir honum?‘ Hvettu börnin til að tjá sig um þetta þegar fjallað er um lesefni vikunnar í Boðunarskólanum. Líklega muna börnin vel eftir þeim versum sem þau tjá sig um.

      Vertu góð fyrirmynd

      Þú kennir ekki aðeins með orðum heldur einnig með verkum. Þau eru eins og sýnidæmi um það hvernig á að fara eftir því sem þú segir. Af því læra börnin sem fyrir þeim er haft. Þau herma eftir foreldrunum og sýna þannig að þau vilja líkjast þeim. Þau eru óðfús að vita hvernig það er að gera eins og foreldrarnir. Þegar nemendur þínir ‚breyta eftir þér eins og þú breytir eftir Kristi‘ kynnast þeir því hve gott það er að ganga á vegum Jehóva. (1. Kor. 11:1) Þeir kynnast blessun hans af eigin raun.

      Þetta er alvarleg áminning um mikilvægi góðs fordæmis. Að „ganga fram í heilagri breytni og guðrækni“ á drjúgan þátt í því að gefa þeim sem við kennum lifandi sýnidæmi um það hvernig eigi að fara eftir meginreglum Biblíunnar. (2. Pét. 3:11) Ef þú hvetur biblíunemanda til að lesa að staðaldri í orði Guðs skaltu vera duglegur að lesa sjálfur. Ef þú vilt að börnin læri að fara eftir meginreglum Biblíunnar skaltu gæta þess að hegða þér sjálfur í samræmi við vilja Guðs. Ef þú hvetur söfnuðinn til að vera ötull í boðunarstarfinu skaltu vera duglegur boðberi sjálfur. Þú ert betur í stakk búinn til að hvetja aðra ef þú ferð eftir því sem þú kennir. — Rómv. 2:21-23.

      Viljirðu bæta þig sem kennari skaltu spyrja þig: ‚Kenni ég þannig að það hafi áhrif á viðhorf, mál og verk þeirra sem heyra? Skýri ég málin með því að gera greinarmun á ólíkum hugmyndum og atferli? Hvað geri ég til að hjálpa nemendum mínum, börnum eða áheyrendum á samkomu til að muna eftir því sem ég segi? Sýni ég áheyrendum greinilega fram á hvernig þeir eigi að fara eftir því sem þeir læra? Geta þeir séð það af fordæmi mínu? Skilja þeir hvernig viðbrögð þeirra við því sem til umræðu er geta haft áhrif á samband þeirra við Jehóva?‘ (Orðskv. 9:10) Haltu áfram að gefa þessu gaum og leggðu þig fram um að þjálfa þig sem kennari. „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ — 1. Tím. 4:16.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila