Sýnið öðrum tillitssemi — 2. hluti
1 Við viljum varðveita gott samband við fólkið í okkar byggðarlagi að svo miklu leyti sem hægt er innan skynsamlegra marka. Það krefst þess að við sýnum tillitssemi og virðingu gagnvart rétti þeirra og tilfinningum.
2 Vottar Jehóva eru þekktir fyrir góða mannasiði. Farið hefur verið mörgum mjög lofsamlegum orðum um háttprýði okkar á heimaslóðum, í skólanum, á vinnustað, svo og á mótum okkar. — Sjá Varðturninn, 1. desember 1989, blaðsíðu 17.
3 Góð hegðun felur að sjálfsögðu margt í sér, og má þar meðal annars nefna heiðarleika, dugnað og gott siðferði. Hún nær einnig yfir það að sýna virðingu þeim sem búa í næsta nágrenni við ríkissalinn okkar. Ef við látum undir höfuð leggjast að sýna nágrönnum okkar virðingu kann það að valda því að menn líti fram hjá frómri hegðun okkar á öðrum sviðum. Páll postuli hvatti okkur til að ‚hegða okkur eins og samboðið er fagnaðarerindinu.‘ — Fil. 1:27.
4 Af og til hafa íbúar í nágrenni við vissa ríkissali borið fram kvartanir vegna þess sem þeim finnst vera tillitsleysi af hálfu þeirra sem sækja samkomurnar. Bræður og systur ættu að forðast að hópa sig saman á gangstéttinni fyrir framan ríkissalinn og halda upp svo fjörugum samræðum að þær heyrist inn í nærliggjandi hús. Börnum ætti ekki að leyfast að hlaupa inn og út úr ríkissalnum. Sé bílhurðum í hugsunarleysi skellt eða flautur þeyttar getur það ónáðað nágrannana. Slík hegðun varpar miður heppilegu ljósi á söfnuðinn. Einnig er mikilvægt að við fylgjum öllum umferðarreglum þegar við ökum um svæðið. — Rómv. 13:1, 2, 5.
5 Bílum skyldi ekki lagt á einkalóðir eða einkabílastæði, of nálægt gatnamótum eða þar sem þeir hindra umferð eða akstur um gangstíga eða innkeyrslur. Ekki skyldi heldur nota bílastæði, sem fyrirtæki í nágrenninu sjá um rekstur á, nema leyfi hafi verið veitt til þess. Þegar þrír eða fjórir söfnuðir nota sama ríkissalinn eru samkomur í salnum svo til á hverjum degi vikunnar og það kallar á nána samvinnu öldungaráðanna. — Sjá Varðturninn, 1. maí 1989, blaðsíðu 26, grein 13.
6 Biblían hvetur okkur til að ‚gera allt Guði til dýrðar‘ og í því felst að sýna þeim sem fyrir utan standa tillitssemi. (1. Kor. 10:31-33) Ef við ‚lítum á annarra hag‘ göngum við ekki í hugsunarleysi á rétt þeirra. (Fil. 2:4) Við munum einnig forðast að trufla starfsemi verslunareigenda í nágrenninu.
7 Þegar við sýnum öðrum tillitssemi — bæði innan og utan safnaðarins — látum við í ljós hvað okkur finnst innst inni. Það sem við gerum og segjum ætti að sýna að við ‚elskum náunga okkar eins og sjálfa okkur.‘ — Matt. 7:12; 22:39.