Tölum af djörfung
1 Á undanförnum árum hefur boðberum á sumum svæðum reynst æ erfiðara að hitta fólk á heimilum þess. Margir greina svo frá að á starfssvæðum þeirra sé meira en helmingur fólks ekki heima þegar þeir starfa hús úr húsi. Tíminn fer því oft fyrir lítið.
2 Á árum áður hittu boðberarnir marga heima á sunnudögum enda var almennt litið á hann sem hvíldardag. Nú er öldin önnur. Algengt er orðið að fólk sé útivinnandi, sinni innkaupum eða sé að skemmta sér sem tekur það líka frá heimilum sínum. Þess vegna er jafnvel á sunnudögum orðið erfitt að hitta fólk heima.
3 Þeir sem ekki eru heima eru augljóslega annars staðar. Þar sem markmið okkar er að ræða við fólk skulum við tala við þá sem við hittum — á götu úti, í verslunum eða í vinnunni. Páll lagði það í vana sinn að taka þá tali sem „urðu á vegi hans“ til þess að bera vitni fyrir þeim. (Post. 17:17) Þessi leið til að bera vitni bar góðan árangur þá og hún gerir það líka nú á tímum.
4 Þegar við erum í starfinu hús úr húsi má yfirleitt sjá fólk sem gengur í rólegheitum eða er ef til vill að bíða eftir einhverjum. Á góðvirðisdögum sitja menn kannski á garðbekk eða eru að þvo bílinn sinn. Bros, eins og frá góðum granna, eða vingjarnleg kveðja getur verið allt sem þarf til að hefja samræður. Ef þeir búa í nágrenninu getum við jafnvel nefnt að við höfum líklega bankað upp á hjá þeim án þess að finna nokkurn heima, og núna er það okkur ánægja að fá tækifæri til að tala við þá. Með því að taka sig til og sýna svolítið meiri djörfung hafa margir átt árangursrík samtöl.
5 Djörfung leiðir til árangurs: Bróðir nokkur segir svo frá að hann taki tali fólk sem stendur kyrrt, bíður eftir strætisvagni, gengur í makindum eða situr í kyrrstæðum bíl sínum. Með hlýlegu brosi og glaðlegri röddu lætur hann eins og vingjarnlegur nágranni sem langar aðeins til að koma í stutta heimsókn. Á þennan hátt hefur hann ekki aðeins útbreitt mörg rit heldur líka stofnað allmörg biblíunám.
6 Annar bróðir og konan hans voru að starfa hús úr húsi þegar þau rákust á konu á gangi með stóran matvörupoka. Þau fóru að tala við hana og létu falla hrósunarorð vegna dugnaðar hennar við að sjá fyrir þörfum fjölskyldu sinnar. „En hver,“ spurðu þau, „getur séð mannkyninu fyrir nauðsynjum?“ Þetta kveikt áhuga hjá konunni. Stutt samtal leiddi til þess að hún bauð þeim heim þar sem þau stofnuðu biblíunám með henni.
7 Þegar þú ferð næst í boðunarstarfið hús úr húsi, hvort sem það er á sunnudegi eða virkum degi, og kemst að því að fólk er ekki heima, væri þá ekki ráð að hleypa í sig auknum kjarki og djörfung og tala við fólk sem þú hittir — á götunni eða annars staðar? (1. Þess. 2:2) Boðunarstarf þitt kann þá að bera ríkulegri ávöxt og þú munt hafa meiri ánægju af þjónustu þinni.