-
‚Tjónið verður mjög verulegt‘Varðturninn – 1987 | 1. október
-
-
‚Tjónið verður mjög verulegt‘
Fyrri heimsstyrjöldin olli gífurlegu mann- og eignatjóni. Sá hnekkir, sem styrjöldin varð fyrir ímynd kristniboða kristna heimsins í Afríku, er síður þekkt. Kaþólski trúboðinn Francis Schimlek segir í bók sinni Medicine Versus Witchcraft að fréttirnar af þessari heimsstyrjöld hafi „verið eins og jarðskjálfti sem fannst fyrir allt til síðustu trúboðsstöðvar í óbyggðum Afríku. . . . Sendiboðar Krists fóru hjá sér og innfæddir kristnir menn voru forviða.“
Hver var ástæðan? Schimlek hefur eftir trúboðanum Albert Schweitzer: „Okkur er öllum ljóst að margir innfæddir skilja ekki í því að hvítu mennirnir, sem færðu þeim guðspjall kærleikans, skuli nú vera að myrða hver annan og láta boðorð Drottins Jesú út í veður og vind. Við erum ráðþrota þegar þeir spyrja okkur um það. . . . Ég óttast að tjónið verði mjög verulegt.“
-
-
Spurningar frá lesendumVarðturninn – 1987 | 1. október
-
-
Spurningar frá lesendum
◼ Þegar Jesús hékk á aftökustaurnum hrópaði hann: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ Skorti hann trú? Hélt hann að Guð hefði yfirgefið hann?
Við að lesa þessi orð í Matteusi 27:46 eða Markúsi 15:34 hafa sumir komist á þá skoðun að traust Jesú til Guðs hafi brostið þegar hann stóð frammi fyrir kvalafullum dauðdaga. Aðrir hafa sagt að þetta hafi einungis verið mannleg viðbrögð Jesú, skiljanlegt örvæntingaróp sárkvalins manns af holdi og blóði. Það er þó ærin ástæða til að skyggnast undir yfirborðið og athuga málið betur. Þótt enginn nútímamaður geti vitað með vissu um allt sem lá því að baki að Jesús skyldi hrópa þannig, þá má benda á tvær líklegar skýringar.
Jesú var fullkunnugt um að hann yrði að „fara til Jerúsalem, líða þar margt . . . og verða líflátinn, en rísa upp á þriðja degi.“ (Matteus 16:21) Af himnum hafði sonur Guðs séð jafnvel ófullkomna menn deyja kvalafullum dauðdaga en varðveita þó ráðvendni sína. (Hebreabréfið 11:36-38) Það er því engin ástæða til að ætla að Jesús — fullkominn maður — hafi verið gripinn skelfingu yfir því sem í vændum var, eða að dauði á kvalastaur væri honum tákn þess að faðir hans hefði hafnað honum. Jesús vissi fyrir „með hvaða hætti hann átti að deyja,“ það er að segja á kvalastaur. (Jóhannes 12:32, 33) Hann var líka viss um að hann yrði reistur upp á þriðja degi. Hvernig gat Jesús þá sagt að Guð hefði yfirgefið hann?
Í fyrsta lagi kann hann að hafa átt við að í takmörkuðum skilningi hefði Jehóva tekið frá honum vernd sína, til að ráðvendni hans yrði reynd til hins ýtrasta í gegnum kvalafullan og smánarlegan dauða. En þótt Guð ofurseldi Jesú reiði óvinanna undir stjórn Satans gaf það ekki til kynna að hann hefði snúið alveg við honum baki. Jehóva hélt áfram að sýna Jesú ástúð eins og sannaðist á þriðja degi þegar hann reisti son sinn upp frá dauðum, eins og reyndar Jesús vissi fyrir. — Postulasagan 2:31-36; 10:40; 17:31.
Í tengslum við þetta er önnur líkleg ástæða fyrir orðum Jesú á kvalastaurnum, sú að með þessum orðum gat hann uppfyllt spádóm um Messías. Klukkustundum fyrr hafði Jesús sagt postulunum að svo myndi fara „sem um hann er ritað.“ (Matteus 26:24; Markús 14:21) Já, hann vildi uppfylla það sem ritað var, þar á meðal í Sálmi 22. Þér kann að þykja athyglisvert að bera saman Sálm 22:8, 9 og Matteus 27:39, 43; Sálm 22:16 og Jóhannes 19:28, 29; Sálm 22:17 og Markús 15:25 og Jóhannes 20:27; Sálm 22:19 og Matteus 27:35. Sálmur 22, sem geymir svo marga spádóma um Messías, hefst með þessum orðum: „Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig?“ Þegar Jesús hrópaði þessi orð var hann að bæta við enn einum spádómi sem hann uppfyllti. — Lúkas 24:44.
Sálmaritarinn Davíð trúði ekki að Guð hans hefði einfaldlega hafnað honum eða yfirgefið hann, því að hann sagði í framhaldinu að hann myndi ‚kunngera bræðrum sínum nafn Guðs‘ og hvatti aðra til að lofa Jehóva. (Sálmur 22:23, 24) Á líkan hátt hafði Jesús, sem þekkti Sálm 22 vel, ástæðu til að treysta því að faðir hans hefði enn velþóknun á honum og elskaði hann, enda þótt hann leyfði að hann yrði líflátinn á aftökustaur.
-