Sönn hamingja — Hver er lykillinn?
MÖNNUM var ætlað að vera hamingjusamir. Hvernig getum við verið viss um það? Við skulum athuga hvernig búið var að manninum í upphafi.
Jehóva Guð áskapaði fyrstu mannhjónunum hæfileikann til að vera hamingjusöm. Adam og Eva voru sett í paradís, unaðsgarð sem kallaðist Eden. Skaparinn sá þeim fyrir öllum efnislegum nauðsynjum. Í garðinum uxu „alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af.“ (1. Mósebók 2:9) Adam og Eva voru hraust, sterk og falleg — þau voru fullkomin og hamingjusöm að öllu leyti.
En hver var lykillinn að hamingju þeirra? Var það paradísarheimilið eða kannski líkamlegur fullkomleiki þeirra? Þessar gjafir frá Guði stuðluðu vissulega að lífsnautn þeirra. En hamingjan var ekki háð þessum áþreifanlegu hlutum. Edengarðurinn var meira en fagur lystigarður. Hann var helgidómur, staður til að tilbiðja Guð. Lykillinn að eilífri hamingju Adams og Evu var hæfni þeirra til að eignast og viðhalda kærleikssambandi við skapara sinn. Til að vera hamingjusöm þurftu þau að vera andlega sinnuð. — Samanber Matteus 5:3, NW.
Andleg viðleitni stuðlar að hamingju
Í upphafi átti Adam andlegt samband við Guð. Þetta var kærleiksríkt, blíðlegt samband líkt og sonar við föður. (Lúkas 3:38) Adam og Eva bjuggu við kjörskilyrði í Edengarðinum þar sem þau gátu fullnægt tilbeiðsluþrá sinni. Með fúsri og kærleiksríkri hlýðni sinni myndu þau heiðra og vegsama Jehóva miklu meir en nokkur dýr gátu gert. Þau gátu notað gáfur sínar til að lofa Guð fyrir stórkostlega eiginleika hans og gátu stutt drottinvald hans. Þau gátu líka haldið áfram að njóta kærleiksríkrar og blíðrar umhyggju Jehóva.
Þetta nána, andlega samband við skaparann og hlýðni við lög hans veitti fyrstu foreldrum okkar sanna hamingju. (Lúkas 11:28) Adam og Eva þurftu ekki að prófa sig áfram um margra ára skeið uns þau fyndu lykil hamingjunnar. Þau voru hamingjusöm allt frá sköpunardegi sínum. Þau áttu frið við Guð og voru undirgefin yfirráðum hans og það veitti þeim hamingju.
En hamingjan tók enda jafnskjótt og þau óhlýðnuðust Guði. Með uppreisn sinni slitu Adam og Eva andlegt samband sitt við Jehóva. Þau voru ekki lengur vinir hans. (1. Mósebók 3:17-19) Jehóva virðist hafa hætt öllum samskiptum við þau sama dag og þau voru rekin út úr garðinum. Þau glötuðu fullkomleika sínum, möguleikanum á eilífu lífi og garðinum sem var heimili þeirra. (1. Mósebók 3:23) Síðast en ekki síst glötuðu þau lykli hamingjunnar um leið og þau misstu sambandið við Guð.
Hæfileikinn til að velja
Áður en Adam og Eva dóu eignuðust þau börn sem erfðu mannlega eiginleika þeirra, meðfædda samvisku og hæfnina til andlegrar viðleitni. Mannkyninu var ekki skipað á bekk með dýrunum. Við getum sæst við skaparann. (2. Korintubréf 5:18) Sem viti bornar verur halda menn hæfileikanum til að velja hvort þeir þjóni Guði eða ekki. Það sýndi sig mörgum öldum síðar þegar Jehóva gaf hinni nýmynduðu Ísraelsþjóð kost á að velja líf eða dauða. Fyrir munn talsmanns síns, Móse, sagði Guð: „Ég hefi í dag lagt fyrir þig líf og heill, dauða og óheill.“ — 5. Mósebók 30:15-18.
Enn í dag, árþúsundum eftir hinn upphaflega paradísarmissi, erum við mennirnir færir um að velja rétt. Við höfum samvisku sem virkar og erum fær um að hlýða lögum Guðs. Biblían talar um ‚hinn innri mann.‘ (2. Korintubréf 4:16; Rómverjabréfið 7:22) Þetta orðalag lýsir meðfæddri hæfni okkar allra til að endurspegla persónuleika Guðs, til að hugsa eins og hann, til að vera andlega sinnuð.
Páll postuli skrifaði um siðferðilegt eðli okkar og samvisku: „Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál. Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka.“ — Rómverjabréfið 2:14, 15.
Lykillinn er viska frá Guði og hlýðni
En spyrja má hvers vegna óhamingja sé svona útbreidd fyrst við höfum öll tilhneigingu til að tilbiðja Guð og afleiðingin af því eigi að vera sönn hamingja. Því er til að svara að við þurfum öll að þroska okkur andlega til að vera hamingjusöm. Enda þótt maðurinn sé upphaflega skapaður í Guðs mynd er hann orðinn fjarlægur skapara sínum. (Efesusbréfið 4:17, 18) Þess vegna verðum við hvert og eitt að gera markvissar ráðstafanir til að eignast andlegt samband við Guð og viðhalda því. Slíkt samband myndast ekki af sjálfu sér.
Jesús benti á tvær mikilvægar meginreglur andlegs þroska. Önnur er sú að afla sér nákvæmrar þekkingar á Guði og hin er sú að lúta vilja hans í hlýðni. (Jóhannes 17:3) Jesús vitnaði í orð Guðs og sagði: „Ritað er: ‚Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.‘“ (Matteus 4:4) Við annað tækifæri sagði Jesús: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Við þurfum ekki að eyða mörgum áratugum í að prófa okkur áfram í hamingjuleitinni. Reynslan er ekki lykill hamingjunnar. Það er aðeins viska frá Guði og hlýðni við hann sem getur veitt okkur sanna lífsgleði. — Sálmur 19:8, 9; Prédikarinn 12:13.
Ljóst er að sú hamingja, sem stafar af því að sýna visku frá Guði og vera í góðu áliti hjá honum, er ekki utan seilingar. (Postulasagan 17:26, 27) Þekkingin á Jehóva og tilgangi hans stendur öllum til boða. Biblían er til í milljörðum eintaka á fjölda tungumála og er enn í dag útbreiddasta bók í heimi. Hún getur hjálpað þér að verða vinur Guðs og öðlast sanna hamingju, því að hún segir okkur að ‚sæl sé sú þjóð sem á Jehóva að Guði.‘ — Sálmur 144:15.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Skref til hamingju
1. Ræktaðu með þér andlegt hugarfar. Jesús sagði: „Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ — Lúkas 11:28.
2. Gerðu þér ljóst að velþóknun Guðs er mikilvægari en peningar eða munaður. Páll skrifaði: „Guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. . . . Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:6-8.
3. Leitastu við að þroska með þér biblíufrædda samvisku og hlýða rödd hennar. — Rómverjabréfið 2:14, 15.
4. Einsettu þér að hlýða Jehóva Guði svo að þú getir tilheyrt fólki hans. Davíð skrifaði endur fyrir löngu: „Sæl er sú þjóð, sem á [Jehóva] að Guði.“ — Sálmur 144:15.
[Mynd á blaðsíðu 7]
„Sælir eru þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína.“ — Matteus 5:3, NW.