Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Hvers vegna eru þessir tímar svona slæmir?
    Varðturninn – 1997 | 1. apríl
    • rændu hann kyrrlátum svefni. Adnan er ekki tölfræðileg stærð. Hann er barn sem þjáist og við getum ekki annað en fundið til með honum.

      Þannig er það líka með annað heimsböl. Eitt er það að lesa um hungursneyð en annað að sjá mynd af fimm ára stelpu með uppblásinn kvið og magra útlimi, naumast lifandi fórnarlamb hungurs. Það er eitt að lesa tölur um glæpi en allt annað að heyra um roskna ekkju sem var hrottalega barin, rænd og nauðgað. Það er eitt að lesa um hnignun fjölskyldunnar en allt annað að heyra að móðir svelti og misþyrmi börnum sínum grimmilega af ásettu ráði.

      Það er erfitt að lesa um slíkt. En það er miklu verra þegar einhver þessara alheimsplágna leggst á okkur sjálf! Þegar maður sjálfur þarf að þjást getur sú heimsmynd sem við sjáum í fréttunum orðið yfirþyrmandi. Það er skelfilegt að standa andspænis því að þjáningar af völdum glæpa, styrjalda, hungurs og sjúkdóma séu meiri en nokkru sinni í sögu mannkyns. Ringulreið, ótti og þunglyndi eru algengar afleiðingar þess að glíma við veruleika tuttugustu aldarinnar.

      Áhangendur margra trúarbragða leita svara við spurningunum hvers vegna ástandið sé svona slæmt og hvert mannkynið stefni.

      Því miður veita trúarbrögð nú til dags sjaldan fullnægjandi svör. Þegar þú sást fyrst spurninguna á forsíðu þessa tímarits varðstu kannski tortrygginn og er það skiljanlegt. Bókstafstrúarmenn reyna oft að lesa út úr Biblíunni það sem hún segir alls ekki — þann dag og stund sem þessi heimur ferst. (Sjá Matteus 24:36.) Útgefendur þessa tímarits vilja heldur láta Biblíuna útskýra sjálfa sig. Það kemur þér kannski á óvart að umfjöllun Biblíunnar um hina síðustu daga er rökrétt og byggð á staðreyndum. Og Biblían gerir meira en aðeins að útskýra hvers vegna ástandið sé svona slæmt. Hún gefur von um framtíðina, von sem er sannarlega hughreystandi. Við hvetjum þig til að lesa eftirfarandi greinar til að athuga það.

  • Eru þetta virkilega síðustu dagar?
    Varðturninn – 1997 | 1. apríl
    • Eru þetta virkilega síðustu dagar?

      ÞÚ SITUR í stafni lítils árabáts sem lendir í straumþungum árkafla. Það glyttir í gríðarstóra hnullunga gegnum úðann og hvítfyssandi ána. Þú reynir að bægja bátnum frá þeim. Maðurinn fyrir aftan þig á að hjálpa þér að stýra bátnum en hann hefur litla reynslu. Það sem verra er, þú hefur ekkert kort og þar með enga hugmynd um hvort þessar flúðir enda í lygnum polli eða fossi.

      Þetta er ekki mjög skemmtileg atburðarás. Við skulum því breyta henni. Ímyndaðu þér að með þér sé reyndur leiðsögumaður sem þekkir hvern krók og kima árinnar. Hann vissi vel að þessi hvítfyssandi vatnselgur var framundan, hann veit hvert hann leiðir og hvernig á að komast klakklaust í gegnum hann. Fyndist þér þú ekki vera mun öruggari?

      Reyndar erum við öll í svipuðum ógöngum. Við lifum á straumhörðum kafla mannkynssögunnar, þótt ekki sé það okkur að kenna. Flestir hafa enga hugmynd um hve lengi ástandið verði svona, hvort það batni eða hvernig best sé að þrauka. En við þurfum ekki að finnast við glötuð eða hjálparvana. Skapari okkar hefur látið okkur í té leiðbeinanda sem sagði fyrir um þetta ömurlega tímabil sögunnar, sem spáir því hvernig það endi og býður okkur þá leiðsögn sem við þurfum til að lifa af. Þessi leiðbeinandi er bók — Biblían. Höfundur hennar, Jehóva Guð, sá sem kennir okkur, fullvissar okkur fyrir munn Jesaja: „Eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“(Jesaja 30:20, 21) Myndir þú ekki þiggja slíka leiðsögn? Við skulum því athuga hvort Biblían spáði í raun og veru um atburði okkar daga.

      Fylgjendur Jesú spyrja þýðingarmikillar spurningar

      Fylgjendur Jesú hljóta að hafa verið furðu lostnir. Jesús hafði nýlokið við að segja þeim skýrt og greinilega að hinu glæsilega musteri Jerúsalemborgar yrði algerlega eytt! Þetta var furðulegur spádómur. Stuttu seinna þegar þeir sátu á Olíufjallinu spurðu fjórir lærisveinanna Jesú: „Segðu okkur, hvenær verður þetta og hvert verður tákn nærveru þinnar og endaloka heimskerfisins?“ (Matteus 24:3 NW; Markús 13:1-4) Hvort sem þeim var það ljóst eða ekki hafði svar Jesú margþætta uppfyllingu.

      Eyðing musterisins í Jerúsalem og endalok gyðingakerfisins var ekki það sama og tími nærveru Krists og endaloka alls heimskerfisins. Engu að síður svaraði Jesús í ítarlegu máli öllum þáttum spurningarinnar. Hann sagði þeim hvernig ástandið yrði fyrir eyðingu Jerúsalem, hann sagði þeim líka hvernig búast mætti við að heimurinn yrði á meðan á nærveru hans stæði þegar hann ríkti sem konungur á himni og væri um það bil að binda enda á allt heimskerfið.

      Endalok Jerúsalem

      Íhugum fyrst hvað Jesús sagði um Jerúsalem og musterið. Meira en þrem áratugum fyrirfram spáði hann hræðilegum erfiðleikatímum fyrir eina mestu borg heimsins. Taktu sérstaklega eftir orðum hans í Lúkasi 21:20, 21: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana.“ Ef herfylkingar áttu að umkringja Jerúsalem, hvernig áttu þeir ‚sem í borginni væru‘ þá að ‚flytjast burt‘ eins og Jesús hafði fyrirskipað? Jesús var bersýnilega að gefa til kynna að flóttaleið myndi opnast. Gerðist það?

      Árið 66 hafði rómverski herinn undir stjórn Cestíusar Gallusar rekið uppreisnarhópa Gyðinga aftur til Jerúsalem og hélt þeim þar innikróuðum. Rómversku hermennirnir ruddu sér jafnvel braut inn í borgina og komust alla leið að musterisveggnum. En þá fyrirskipaði Gallus hernum að gera það sem var illskiljanlegt. Hann skipaði honum að hörfa! Kampakátir veittu hermenn Gyðinga þeim eftirför og hrelldu óvini sína á flóttanum. Þannig opnaðist leiðin sem Jesús hafði sagt fyrir um. Sannkristnir menn gáfu gaum að viðvörun hans og fóru út úr Jerúsalem. Það var skynsamleg ákvörðun því aðeins fjórum árum síðar var rómverski herinn snúinn aftur undir stjórn Títusar hershöfðingja. Nú var engrar undankomu auðið.

      Aftur umkringdi rómverski herinn Jerúsalem og reisti víggirðingu úr oddhvössum staurum umhverfis hana. Jesús hafði spáð um Jerúsalem: „Þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu.“a (Lúkas 19:43) Áður en langt um leið féll Jerúsalem og hið dýrlega musteri hennar varð að rjúkandi rústum. Orð Jesú uppfylltust í smáatriðum.

      Jesús hafði þó mun meira í huga en aðeins eyðingu Jerúsalem. Lærisveinar hans höfðu einnig spurt hann um tákn nærveru hans. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því þá að spurningin vísaði til þess tíma þegar hann myndi ríkja sem konungur á himni. Hverju spáði hann?

      Stríð á hinum síðustu dögum

      Ef þú lest Matteus kafla 24 og 25, Markús kafla 13 og Lúkas kafla 21 sérðu óyggjandi sannanir þess að Jesús var að tala um okkar tíma. Hann sagði fyrir um styrjaldartíma, ekki bara „hernað og ófriðartíðindi“ sem hafa alltaf einkennt mannkynssöguna, heldur stríð sem hefði í för með sér að ‚þjóð risi gegn þjóð og ríki gegn ríki‘ —  já, miklar alþjóðlegar styrjaldir. — Matteus 24:6-8.

      Hugleiddu eitt augnablik hvernig hernaður hefur breyst á okkar öld. Stríð voru nógu slæm þegar herir tveggja óvinaþjóða tókust á og hjuggu hver aðra niður með riddarasverðum eða skutu jafnvel hver á annan á vígvellinum. En árið 1914 braust stríðið mikla út. Hver þjóðin á fætur annarri hljóp í bardagann, —  þetta var fyrsta heimsstyrjöldin. Hönnuð voru sjálfvirk vopn til að drepa æ fleira fólk úr meiri fjarlægð. Vélbyssur spýttu kúlum af óhugnanlegum krafti, sinnepsgas brenndi, kvaldi og drap þúsundir hermanna, skriðdrekar ruddust miskunnarlaust í gegnum raðir óvinanna skjótandi á allt. Flugvélar og kafbátar komu einnig til sögunnar en það var aðeins undanfari þess sem koma skyldi.

      Síðari heimsstyrjöldin var hrikalegri en nokkurn gat órað fyrir — hún skyggði á fyrri styrjöldina með drápum á tugum milljóna manna. Stór flugvélamóðurskip, nánast fljótandi borgir, sigldu um höfin með herflugvélar sem stráðu sprengjum af himni á skotmörk óvinanna. Kafbátar skutu tundurskeytum á óvinaskip og sökktu þeim. Og kjarnorkusprengjum var varpað sem tortímdu þúsundum manna í einu vetfangi. Eins og Jesús spáði hafa „ógnir“ vissulega auðkennt þessa stríðandi öld. — Lúkas 21:11.

      Hefur dregið úr styrjöldum eftir síðari heimsstyrjöldina? Naumast. Jafnvel núna á tíunda áratugnum geisa oft fjölmörg stríð á sama árinu og milljónir manna láta lífið. Og fórnarlömb styrjalda eru ekki þau sömu og áður. Nú eru hinir látnu ekki aðallega hermenn heldur eru meira en 90 af hundraði þeirra sem falla í styrjöldum óbreyttir borgarar.

      Önnur einkenni táknsins

      Styrjaldir eru aðeins eitt einkenni táknsins sem Jesús nefndi. Hann varaði við því að það yrði „hungur.“ (Matteus 24:7) Og þannig hefur það verið þótt jörðin gefi af sér meiri fæðu en þarf til að sjá öllu mannkyni farborða, þótt búvísindi séu háþróaðri en nokkru sinni í sögu mannkyns, þótt hraðvirk og kröftug flutningatæki séu fáanleg til að flytja mat hvert sem er í heiminum. Þrátt fyrir allt þetta er fimmtungur jarðarbúa hungraður dag hvern.

      Jesús spáði einnig að „á ýmsum stöðum“ yrðu „drepsóttir.“ (Lúkas 21:1) Á okkar öld hafa menn upplifað óvenjulega þversögn. Læknisþjónustan er betri en nokkru sinni, tæknilegar uppgötvanir hafa átt sér stað, fundin hafa verið bóluefni til að koma í veg fyrir marga algenga sjúkdóma — en samt hafa farsóttir aldrei verið fleiri. Spænska veikin fylgdi fast á hæla fyrri heimsstyrjaldarinnar og fleiri létust af völdum hennar en í stríðinu. Þessi sjúkdómur var svo smitandi að í stórborgum eins og New York voru menn sektaðir eða stungið í steininn fyrir það eitt að hnerra! Nú á tímum deyja milljónir manna ár hvert af völdum krabbameins og hjartasjúkdóma — sem eru raunverulegar drepsóttir. Og alnæmi heldur áfram að stráfella menn án þess að læknavísindin fái rönd við reist.

      Jesús ræddi aðallega um hina síðustu daga í sögulegu og pólitísku samhengi, Páll postuli beindi athyglinni meira að þjóðfélagsvandamálum og algengum viðhorfum. Hann skrifaði meðal annars: „Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, . . . vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, . . . taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

      Hljómar þetta kunnuglega? Íhugaðu aðeins eitt dæmi þjóðfélagslegrar hnignunar í heimi nútímans, sundrun fjölskyldunnar. Ofbeldi gagnvart maka, ill meðferð aldraðra foreldra, misnotkun barna og sundruð heimili er eins og flóðbylgja og ber vitni um að menn eru „kærleikslausir,“ „grimmir“ og jafnvel „sviksamir,“ „ekki elskandi það sem gott er“! Já, þessi einkenni breiðast út eins og faraldur nú á tímum.

      Er okkar kynslóð sú sem spáð var um?

      Þér er kannski spurn hvort þetta ástand hafi ekki alltaf þjakað mannkynið. Hvernig vitum við að okkar kynslóð er sú sem þessir fornu spádómar lýsa? Við skulum skoða þrjá sönnunarflokka sem renna stoðum undir það að Jesús hafi átt við okkar tíma.

      Enda þótt spádómurinn uppfylltist að hluta til við eyðingu Jerúsalem og musterisins beindust orð Jesú fyrst og fremst að síðari tímum. Um 30 árum eftir hina hörmulegu eyðingu Jerúsalem sýndi Jesús hinum aldraða Jóhannesi postula í sýn hvernig ástandið sem spáð var um, styrjaldir, hungur og farsóttir sem leiddu af sér dauða, kæmi yfir alla heimsbyggðina í framtíðinni — já, þetta böl leggðist ekki bara á einhvern ákveðinn stað heldur á ‚jörðina‘ í heild. — Opinberunarbókin 6:2-8.

      Í öðru lagi eru nokkrir þættir táknsins að rætast að fullu á þessari öld. Tökum dæmi: Geta styrjaldir orðið mikið verri en þær hafa verið síðan 1914? Ef þriðja heimsstyrjöldin skylli á og kjarnorkuveldi nútímans beittu vopnum sínum óspart þyrfti ekki að spyrja að leikslokum — jörðin yrði sviðin auðn og mannkynið útdautt. Á svipaðan hátt spáði Opinberunarbókin 11:18 því fyrir að á okkar dögum þegar þjóðirnar „reiddust“ yrði mannkynið að því komið að „eyða jörðina.“ Í fyrsta sinn í sögunni eru mengun og umhverfisspjöll að gera jörðina óbyggilega — þannig að þessi þáttur er að uppfyllast að fullu eða að nálgast það. Gætu styrjaldir og mengun haldið áfram að versna þar til maðurinn hefur tortímt sjálfum sér og jörðinni? Nei, því að Biblían segir að jörðin muni standa að eilífu, byggð hjartahreinum mönnum. — Sálmur 37:29; Matteus 5:5.

      Í þriðja lagi er táknið um hina síðustu daga sérstaklega sannfærandi þegar það er tekið í heild sinni. Þegar við leggjum saman þættina sem Jesús talaði um í guðspjöllunum þrem, þá sem nefndir eru í ritum Páls og í Opinberunarbókinni skipta þeir tugum. Menn gætu deilt um einstaka þætti og fært rök fyrir því að svipuð vandamál hafi einkennt önnur tímabil. En þegar við íhugum þá alla saman benda þeir greinilega á eitt tímabil — okkar eigið.

      Hvað merkir þá allt þetta? Er Biblían eingöngu að uppmála okkar öld sem tíma örvæntingar og vonleysis? Því fer fjarri!

      Fagnaðarerindið

      Eitt eftirtektarverðasta einkenni táknsins um hina síðustu daga er að finna í Matteusi 24:14: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ Á þessari öld hafa vottar Jehóva unnið verk sem á sér enga hliðstæðu í sögu mannkyns. Þeir hafa viðurkennt boðskap Biblíunnar um ríki Jehóva Guðs, hvað það er og hverju það mun áorka, og þeir hafa breitt þann boðskap út um alla jörðina. Þeir hafa gefið út rit um þetta efni á meira en 300 tungumálum og hafa fært þau fólki í heimahúsum, á götum úti og á vinnustöðum í nánast hverju landi á jörðinni.

      Þannig hafa þeir verið að uppfylla þennan spádóm. En þeir hafa líka verið að útbreiða von. Taktu eftir að Jesús kallaði þetta „fagnaðarerindi“ ekki sorgartíðindi. Hvernig má það vera á þessum myrku tímum? Vegna þess að aðalboðskapur Biblíunnar fjallar ekki um það hversu slæmt ástandið verði við lok þessa gamla heims. Aðalboðskapur hennar er um Guðsríki og þetta ríki heitir öllum friðelskandi mönnum því sem þeir þrá — frelsun.

      En hvað felur þessi frelsun í sér og hvernig getur þú öðlast hana? Við hvetjum þig til að lesa eftirfarandi greinar um þetta efni.

      [Neðanmáls]

      a Títus hafði öll spilin á hendi sér. En í tveim mikilvægum málum fékk hann vilja sínum ekki framgengt. Hann bauð stjórnendum borgarinnar að gefast upp friðsamlega en þeir þrjóskuðust við og höfnuðu því, þótt óskiljanlegt sé. Og þegar borgarmúrarnir voru loks rofnir skipaði hann að musterinu yrði hlíft. Samt brann það til kaldra kola! Jesús hafði spáð skýrt og greinilega að Jerúsalem yrði lögð í rúst og að musterinu yrði gereytt. — Markús 13:1, 2.

      [Innskot á blaðsíðu 5]

      Margir leita svara við spurningunum hvers vegna ástandið sé svona slæmt og hvert mannkynið stefni.

      [Innskot á blaðsíðu 6]

      Meira en 90 af hundraði fallinna eru óbreyttir borgarar.

      [Mynd á blaðsíðu 7]

      Spádómur Jesú um eyðingu Jerúsalem uppfylltist í smáatriðum.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila