Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Allar þessar þjáningar
    Varðturninn – 1997 | 1. júní
    • Þáttur í tilgangi Guðs?

      Getur hugsast, eins og sumir hafa haldið fram, að þessar þrotlausu þjáningar séu þáttur í einhverjum óskiljanlegum tilgangi Guðs? Þurfum við að þjást til að kunna að meta lífið í ‚öðrum heimi‘? Er það rétt sem franski heimspekingurinn Teilhard de Chardin hélt fram að „þjáningarnar, sem drepa og sundra, séu manninum nauðsynlegar til að hann geti lifað og orðið andi“? (The Religion of Teilhard de Chardin; leturbreyting okkar.) Örugglega ekki!

      Hefði hugulsamur skapari af ásettu ráði skapað banvænt umhverfi og síðan sagst vera meðaumkunarsamur þegar hann bjargaði fólki undan áhrifunum af því? Auðvitað ekki! Hví skyldi kærleiksríkur Guð gera slíkt? Hvers vegna leyfir Guð þá þjáningar? Taka þjáningar einhvern tíma enda? Þessar spurningar eru ræddar í greininni á eftir.

  • Þegar þjáningar heyra sögunni til
    Varðturninn – 1997 | 1. júní
    • Þegar þjáningar heyra sögunni til

      ÞJÁNINGAR voru ekki hluti af upphaflegum tilgangi Guðs með mannkynið. Hann fann þær ekki upp og vill ekki að menn þjáist. En þér kann að vera spurn hvernig þjáningar hafi þá komið til og hvers vegna Guð hafi leyft þær fram til þessa. — Samanber Jakobsbréfið 1:13.

      Svarið er að finna í elstu heimildum mannkynssögunnar, Biblíunni, einkum 1. Mósebók. Hún greinir frá því að fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, hafi fylgt Satan djöflinum í uppreisn hans gegn Guði. Með athæfi þeirra komu upp deilumál sem vörðuðu sjálfan grundvöll laga og reglna alheimsins. Þegar þau kröfðust réttar til að ákveða sjálf hvað væri gott og hvað væri illt véfengdu þau drottinvald Guðs. Þau véfengdu rétt hans til að stjórna og vera eini dómari „góðs og ills.“ — 1. Mósebók 2:15-17; 3:1-5.

      Af hverju framfylgdi Guð ekki vilja sínum strax?

      ‚En af hverju framfylgdi Guð þá ekki vilja sínum strax?‘ spyrð þú kannski. Mörgum finnst málið nauðaeinfalt. ‚Guð hafði mátt til þess. Hann hefði átt að beita honum og útrýma uppreisnarseggjunum,‘ segja þeir. (Sálmur 147:5) En ertu alltaf sáttur við að þeir sem æðri eru beiti valdi til að framfylgja vilja sínum? Finnur þú ekki ósjálfrátt til viðbjóðs þegar einræðisherra sendir dauðasveitir til að útrýma óvinum sínum? Flest rétthugsandi fólk hefur andúð á slíku.

      ‚En ef Guð beitti þessu valdi myndi enginn véfengja gerðir hans,‘ segir þú. Ertu nú viss? Hefur fólk ekki einmitt efasemdir um að Guð beiti valdi sínu rétt? Það spyr hvers vegna hann hafi ekki beitt því við sumar aðstæður, til dæmis af hverju hann umberi illskuna. Og svo spyr það hvers vegna hann hafi beitt því við aðrar aðstæður. Jafnvel hinn trúfasti Abraham kunni því illa að Guð beitti valdi gegn óvinum sínum. Þú manst að Guð ákvað að eyða Sódómu. Abraham óttaðist ranglega að góðir færust með vondum. Hann hrópaði: „Fjarri sé það þér að gjöra slíkt, að deyða hina réttlátu með hinum óguðlegu.“ (1. Mósebók 18:25) Jafnvel réttsýnt fólk eins og Abraham þurfti að fá vissu fyrir því að alræðisvaldi yrði ekki misbeitt.

      Guð hefði auðvitað getað eytt Adam, Evu og Satan þegar í stað. En hugsaðu þér hvaða áhrif það hefði getað haft á aðra engla eða á sköpunarverur framtíðarinnar sem kynnu að verða vísari um verk hans síðar. Er ekki hugsanlegt að þær hefðu setið uppi með áleitnar spurningar um réttmæti stjórnar Guðs? Hefði það ekki gert Guð berskjaldaðan fyrir þeirri ásökun að hann væri í rauninni einhvers konar alræðisharðstjóri eins og Nietzsche lýsti honum, Guð sem útrýmir öllum andstæðingum vægðarlaust?

      Af hverju ekki að láta fólk gera rétt?

      ‚Gat Guð ekki bara látið fólk gera rétt?‘ spyr einhver. Hugsaðu málið. Alla mannkynssöguna hafa ríkisstjórnir reynt að beygja fólk undir vilja sinn. Sumar stjórnir eða einstakir valdhafar hafa beitt heilaþvotti og öðrum aðferðum, jafnvel lyfjum eða skurðaðgerðum, til að stjórna huga og hugsun manna og rænt fórnarlömb sín frjálsum vilja. Er okkur ekki mikils virði að hafa frjálsa siðgæðisvitund, jafnvel þótt hægt sé að misbeita henni? Sættum við okkur við að einhver stjórn eða valdhafi reyni að svipta okkur þessu frelsi?

      Hvers átti Guð þá úrkosti annars en að beita valdi þegar í stað til að framfylgja lögum sínum? Jehóva Guð úrskurðaði að best yrði tekið á uppreisninni með því að leyfa þeim sem höfnuðu lögum hans að vera sjálfstæðir um hríð. Mannkynið, sem kæmi af Adam og Evu, fengi takmarkaðan tíma til að stjórna sér sjálft án þess að þurfa að lúta lögum Guðs. Af hverju gerði hann það? Af því að hann vissi að með tíð og tíma myndi hlaðast upp óvéfengjanlegur vitnisburður þess að stjórnarfar hans sé alltaf rétt og réttlátt, jafnvel þegar hann beitir takmarkalausum mætti sínum til að framfylgja vilja sínum, og að sérhver uppreisn gegn honum leiði fyrr eða síðar til ógæfu. — 5. Mósebók 32:4; Jobsbók 34:10-12; Jeremía 10:23.

      Hvað um öll saklausu fórnarlömbin?

      ‚En hvað um öll saklausu fórnarlömbin?‘ spyrð þú. ‚Er það virkilega þess virði að leggja allar þessar þjáningar á fólk til að sanna eitthvert lagalegt smáatriði?‘ Guð hefur reyndar ekki leyft tilvist illskunnar aðeins til að sanna einhvern lítt þekktan lagakrók. Það er einmitt til að sanna í eitt skipti fyrir öll þann grundvallarsannleika að hann einn sé alvaldur, og að það sé nauðsynlegt að hlýða lögum hans til að varðveita frið og hamingju allra sköpunarvera hans.

      Mikilvægt er að hafa í huga að Guð veit að hann getur afturkallað algerlega hvert það tjón sem tilvist illskunnar hefur valdið mannkyninu. Hann veit að til langs tíma litið er það til góðs að leyfa sársauka og þjáningar um tíma. Hugsaðu um móðurina sem heldur þéttingsfast á barni sínu meðan læknirinn veldur því sársauka með því að stinga í það sprautunál og bólusetja það gegn einhverjum sjúkdómi sem myndi að öðrum kosti verða því að bana. Engin móðir vill láta barn sitt kenna til. Enginn læknir vill valda sjúklingum sínum þjáningum. Meðan á stendur skilur barnið ekki ástæðuna fyrir sársaukanum, en síðar skilur það hvers vegna hann var leyfður.

      Hughreysting handa þjáðum?

      Sumir segja að það sé lítil huggun fyrir þjáða að vita þetta. Hans Küng segir að röklegar skýringar á tilvist þjáninga „geri þjáðum ámóta gagn og fyrirlestur um efnafræði matvæla gagni sveltandi manni.“ Hann spyr: „Geta kænlegar röksemdafærslur virkilega uppörvað mannkyn sem er næstum bugað af þjáningum?“ Vissulega hafa „kænlegar röksemdafærslur“ manna, sem hunsa orð Guðs Biblíuna, ekki uppörvað þjáða. Slík rök manna hafa einungis gert illt verra því að þeir hafa haldið því fram að Guð hafi ætlað manninum að þjást, og að jörðin hafi verið hugsuð sem táradalur eða reynslustaður handa öllum þeim sem eigi eftir að öðlast líf á himnum. Hvílíkt guðlast!

      En Biblían hughreystir. Hún gefur mótsagnalausa skýringu á tilvist þjáninga og byggir upp traust á öruggu fyrirheiti Guðs um að hann afturkalli allt það tjón sem tímabundnar þjáningar manna hafa valdið.

      ‚Endurreisn allra hluta‘

      Mjög bráðlega endurreisir Guð allt í það ástand sem hann ætlaði því áður en fyrstu mennirnir gerðu uppreisn. Sá tími, sem hann hefur leyft manninum að stjórna sjálfur, er næstum útrunninn. Við lifum á þeim tíma þegar Guð sendir ‚Jesú sem á að vera í himninum allt til þess tíma, þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli.‘ — Postulasagan 3:20, 21.

      Hvað gerir Jesús Kristur? Hann losar jörðina við alla óvini Guðs. (2. Þessaloníkubréf 1:6-10) Þetta verður engin skyndiaftaka að hætti mennskra einræðisherra. Sannanirnar hafa hrannast upp fyrir hörmulegum afleiðingum óstjórnar mannsins, og þær sýna að Guð er fullkomlega réttlættur í því að beita bráðlega takmarkalausum mætti til að framfylgja vilja sínum. (Opinberunarbókin 11:17, 18) Í byrjun hefur það í för með sér þvílíka ‚þrengingu‘ sem hefur aldrei áður gengið yfir jörðina, áþekka flóðinu á dögum Nóa en mun meiri. (Matteus 24:21, 29-31, 36-39) Þeir sem lifa af þessa ‚miklu þrengingu‘ fá að njóta ‚endurlífgunartíma‘ er þeir sjá öll fyrirheit Guðs fyrir „munn sinna heilögu spámanna“ rætast. (Postulasagan 3:19, 20; Opinberunarbókin 7:14-17) Hverju hefur Guð heitið?

      Spámenn Guðs að fornu segja að þjáningar af völdum styrjalda og blóðsúthellinga taki enda. Til dæmis segir Sálmur 46:10: „Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ Saklaus fórnarlömb og hörmungar flóttamanna verða ekki til framar; enginn verður limlestur, engum nauðgað og enginn drepinn í grimmilegum styrjöldum! Spámaðurinn Jesaja segir: „Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ — Jesaja 2:4.

      Spámennirnir sögðu líka fyrir að þjáningar af völdum glæpa og ranglætis skyldu taka enda. Orðskviðirnir 2:21, 22 lofa: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið [„jörðina,“ NW]“ og þeim sem valda þjáningum og kvöl verður „útrýmt þaðan.“ Aldrei framar skal ‚einn maðurinn drottna yfir öðrum honum til ógæfu.‘ (Prédikarinn 8:9) Öllum vondum mönnum verður útrýmt í eitt skipti fyrir öll. (Sálmur 37:10, 38) Allir munu geta búið við frið og öryggi, án þjáninga. — Míka 4:4.

      Og spámennirnir lofa því einnig að þjáningar af völdum líkamlegra og geðrænna kvilla heyri sögunni til. (Jesaja 33:24) Jesaja heitir að blindir, heyrnarlausir, fatlaðir og allir sjúkir læknist. (Jesaja 35:5, 6) Guð snýr jafnvel áhrifum dauðans við. Jesús spáði að ‚allir þeir sem í gröfunum væru myndu heyra raust hans og ganga fram.‘ (Jóhannes 5:28, 29) Jóhannes postuli sá „nýjan himin og nýja jörð“ í sýn og var sagt að ‚Guð sjálfur myndi þerra hvert tár af augum manna. Og dauðinn myndi ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl vera framar til.‘ (Opinberunarbókin 21:1-4) Hugsaðu þér! Hvorki kvöl, tár, harmur né dauði — alls engar þjáningar framar!

      Bætt verður fyrir alla harmleiki sem hafa orðið meðan illskan hefur verið leyfð um tíma. Jafnvel minningar manna um sársauka og þjáningar — sem Guð hafði aldrei í hyggju — verða þurrkaðar út með öllu. „Hinar fyrri þrautir eru þá gleymdar . . . og hins fyrra skal ekki minnst verða,“ spáði Jesaja. (Jesaja 65:16, 17) Þá verður sá upphaflegi tilgangur Guðs að veruleika að fullkomið mannkyn búi í algerum friði og hamingju í paradís á jörð. (Jesaja 45:18) Traustið á drottinvaldi hans verður algert. Hvílík sérréttindi að lifa þann tíma þegar Guð bindur enda á allar þjáningar manna, þann tíma þegar hann sýnir að hann er enginn „harðstjóri, svikari, svindlari og böðull“ eins og Nietzsche hélt fram, heldur beitir almætti sínu alltaf í kærleika, visku og réttvísi!

      [Mynd á blaðsíðu 5]

      Sumir valdhafar hafa beitt heilaþvotti og rænt fórnarlömb sín frjálsum vilja.

      [Rétthafi]

      UPI/Bettmann

      [Mynd á blaðsíðu 7]

      Allir munu njóta lífsins til fulls þegar þjáningar heyra sögunni til.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila