Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w97 1.5. bls. 4-7
  • „Guð friðarins“ ber umhyggju fyrir hinum þjáðu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Guð friðarins“ ber umhyggju fyrir hinum þjáðu
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Jehóva ber umhyggju fyrir þér
  • Hvernig Guð hjálpar hinum þjáðu
  • Heimur án þjáninga í nánd
  • Öðlast þjáðir nokkurn tíma frið?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Jehóva frelsar hinn þjáða
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2006
  • Jehóva heyrir hróp okkar á hjálp
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
  • Varðveittu gleðina á erfiðum tímum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
w97 1.5. bls. 4-7

„Guð friðarins“ ber umhyggju fyrir hinum þjáðu

Biblían sýnir greinilega að Davíð konungur þekkti þjáningar. Í nokkur ár var hann flóttamaður, hundeltur af illum og þrjóskum konungi sem var staðráðinn í að myrða hann. Davíð faldi sig á afskekktum stöðum meðan þessar raunir stóðu yfir. En hann gerði meira. Hann bað til Jehóva í einlægni í ógæfu sinni. „Ég hrópa hátt til [Jehóva],“ skrifaði hann seinna um þrekraun sína. „Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.“ — Sálmur 142:2, 3.

Nú á dögum myndu margir hæðast að Davíð fyrir að treysta Guði. Þeir segja að bænin sé aðeins sálfræðileg hækja og að það sé raunverulega tímasóun að biðja. En Davíð veitti ekki óverðugum traust sitt því að lokum biðu óvinir hans ósigur. Þegar Davíð horfði yfir farinn veg skrifaði hann: „Hér er volaður maður sem hrópaði, og [Jehóva] heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.“ (Sálmur 34:7) Hinn sanni Guð, sem Davíð sneri sér til, er annars staðar kallaður „Guð friðarins.“ (Filippíbréfið 4:9; Hebreabréfið 13:20) Losar hann okkur við þjáningar og veitir okkur frið?

Jehóva ber umhyggju fyrir þér

Jehóva er ekki tómlátur um ógæfu fólks síns. (Sálmur 34:16) Hann sinnir ekki bara þörfum þjóna sinna í heild heldur hverjum einstökum sem óttast hann. Þegar Salómon vígði musterið í Jerúsalem til forna sárbændi hann Jehóva að heyra „ef þá einhver maður af öllum lýð þínum Ísrael ber fram einhverja bæn eða grátbeiðni, af því að hann finnur til angurs [„sinnar plágu,“ Biblían 1859] og sársauka.“ (2. Kroníkubók 6:29) Eins og Salómon viðurkenndi hefur hver sínar sérstöku raunir við að glíma. Hjá einum gætu þær verið líkamleg veikindi. Hjá öðrum gætu þær verið tilfinningakvöl. Sumir eru hryggir vegna dauða ástvinar. Atvinnuleysi, efnahagserfiðleikar og fjölskylduvandamál eru líka algengar raunir á þessum erfiðu tímum.

Hugsaðu eitt andartak um ‚plágur þínar og sársauka.‘ Stundum hefur þér ef til vill liðið eins og sálmaritaranum Davíð sem skrifaði: „Ég vonaði, að einhver mundi sýna meðaumkun, en þar var enginn, og að einhverjir mundu hugga, en fann engan.“ Samt getur þú verið viss um að Guði er umhugað um ástand þitt því að síðar í sama sálmi skrifaði Davíð: „[Jehóva] hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína.“ — Sálmur 69:21, 34.

Ef orð Davíðs eru notuð í víðara samhengi, getum við verið fullviss um að skapari mannkyns hlusti á bænir þeirra sem eru svo að segja bandingjar þjáninga sinna. Það sem meira er, hann bregst við neyð þeirra. Íhugaðu eftirfarandi yfirlýsingar sem lýsa meðaumkun Jehóva með hinum þjáðu.

„Þér skuluð ekki leggjast á ekkjur eða munaðarleysingja. Ef þú leggst á þau, og þau hrópa til mín, mun ég vissulega heyra neyðarkvein þeirra. Þá skal reiði mín upptendrast.“ — 2. Mósebók 22:22-24.

„Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim?“ — Lúkas 18:7.

„Hann bjargar hinum snauða er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.“ — Sálmur 72:12-14.

„Hver sá er snertir yður [fólk Guðs á jörðinni], snertir augastein minn.“ — Sakaría 2:8.

Þessi fáu dæmi lýsa miklum áhuga skaparans á velferð þjóna sinna. Við höfum þess vegna gilda ástæðu til að fylgja hvatningu Péturs postula: „Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ (1. Pétursbréf 5:7) En hvernig hjálpar Guð okkur á raunastund?

Hvernig Guð hjálpar hinum þjáðu

Eins og við höfum séð bað Davíð til Guðs í einlægni um leiðsögn þegar hann lenti í þrautum. Um leið tók hann frumkvæðið til að bæta ástandið og sýndi hugvitssemi til að flýja þá sem eltu hann. Traust á Jehóva ásamt persónulegri viðleitni gerðu Davíð þannig kleift að þola þjáningar sínar. Hvað lærum við af þessu?

Þegar við eigum í erfiðleikum er að sjálfsögðu ekki rangt af okkur að taka skynsamlegt frumkvæði til að leysa vandamálið. Ef kristinn maður er til dæmis atvinnulaus, reynir hann þá ekki að leita sér að vinnu? Eða ef hann er líkamlega veikur, leitar hann þá ekki læknishjálpar? Jafnvel Jesús, sem hafði mátt til að lækna alls konar sjúkdóma, viðurkenndi að ‚hinir sjúku þurfi læknis við.‘ (Matteus 9:12; samanber 1. Tímóteusarbréf 5:23.) En á sumum erfiðleikum er auðvitað ekki hægt að sigrast; þá verður einfaldlega að þola. Engu að síður lítur sannkristinn maður ekki á þjáningar sem dyggð í sjálfu sér eins og sumir gera. (Samanber 1. Konungabók 18:28.) Þvert á móti gerir hann það sem hann getur til að glíma við þrautir sínar.

En þó er skynsamlegt að leggja málið fyrir Jehóva í bæn. Hvers vegna? Í fyrsta lagi vegna þess að með því að treysta á skapara okkar fáum við hjálp til að ‚meta þá hluti rétt, sem máli skipta.‘ (Filippíbréfið 1:10) Til dæmis þegar við erum að leita að vinnu, mun guðrækið traust hjálpa okkur til að hafna vinnu sem stangast á við meginreglur Biblíunnar. Við vörumst einnig að ‚villast frá trúnni‘ vegna fégirndarinnar. (1. Tímóteusarbréf 6:10) Þegar við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir — hvað varðar atvinnu eða eitthvað annað í lífinu — þurfum við að fylgja hvatningu Davíðs: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ — Sálmur 55:23.

Bænin hjálpar okkur einnig að halda hugarró okkar þannig að raunirnar gagntaki okkur ekki. Páll postuli skrifaði: „Gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ Með hvaða árangri? „Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Já, friður, friður Guðs. Þessi friður „er æðri öllum skilningi,“ þannig að hann getur róað okkur þegar erfiðleikar íþyngja okkur. Hann ‚varðveitir hjörtu okkar og hugsanir,‘ og forðar okkur þannig frá því að vera fljótfær og ógætin sem gæti aukið við erfiðleika okkar. — Prédikarinn 7:7.

Bænin getur gert meira. Hún getur haft áhrif á það hvernig málin þróast. Íhugaðu dæmi úr Biblíunni. Þegar Páll postuli var fangi í Róm hvatti hann trúbræður sína til að biðja fyrir sér. Hvers vegna? „Ég bið yður enn rækilegar um að gjöra þetta,“ skrifaði hann þeim, „til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan.“ (Hebreabréfið 13:19) Páll vissi að stöðugar bænir trúbræðra hans gætu haft áhrif á hvenær hann yrði leystur úr haldi. — Fílemonsbréfið 22.

Breytir bænin einhverju um það hvort og hvenær raunum þínum linnir? Það getur verið. Við ættum þó að gera okkur ljóst að Jehóva svarar bænum okkar ekki alltaf á þann hátt sem við búumst við. Til dæmis bað Páll Guð margsinnis að losa sig við ‚fleininn í holdinu‘ — ef til vill líkamlegt vandamál tengt sjóninni. Í stað þess að losa Pál við þjáningarnar sagði Guð honum: „Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ — 2. Korintubréf 12:7-9.

Stundum verðum við því að búa við raunirnar en það gefur okkur tækifæri til að sanna traust okkar til skaparans. (Postulasagan 14:22) Enn fremur getum við verið viss um að jafnvel þótt Jehóva losi okkur ekki við þjáningarnar, muni hann ‚sjá um, að við fáum staðist.‘ (1. Korintubréf 10:13) Já, það er ekki að ástæðulausu að Jehóva er kallaður „Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri.“ (2. Korintubréf 1:3, 4) Hann veitir okkur það sem við þurfum til að búa við allgóðan frið og þrauka.

Heimur án þjáninga í nánd

Skaparinn lofar að útrýma þjáningum mannkyns bráðlega fyrir milligöngu ríkis síns. Hvernig gerir hann það? Með því að fjarlægja Satan djöfulinn, frumkvöðul þjáninga og fremsta óvin friðar, sem Biblían kallar „guð þessarar aldar.“ (2. Korintubréf 4:4) En bráðum lýkur stjórn hans yfir mannkyninu. Með eyðingu Satans opnast leiðin fyrir ótalmargar blessanir handa þeim sem óttast Guð. Biblían lofar að Jehóva ‚muni þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘ — Opinberunarbókin 21:1-4.

Finnst þér ótrúlegt að heimurinn geti losnað við allar þjáningar? Við erum svo vön að lifa við ógæfu að við eigum erfitt að ímynda okkur að hún hverfi. En frelsi frá ótta, kvíða og hörmungum er einmitt það sem Guð fyrirhugaði mannkyninu við sköpunina og tilgangur hans nær fram að ganga. — Jesaja 55:10, 11.

Þetta er sú von sem Sonia, Fabiana og Ana, er nefndar voru í byrjun greinarinnar, öðluðust. Sonia missti syni sína tvo úr alnæmi, en vonin sem Biblían veitir um upprisu réttlátra og ranglátra veitti henni frið. (Postulasagan 24:15) „Eitt er víst,“ segir hún, „von okkar er meiri en nokkur kvöl.“

Meðan Ana bjó enn á munaðarleysingjahælinu heimsótti hana kona sem var vottur Jehóva. „Hún sýndi mér nafn Jehóva í Biblíunni,“ segir Ana, „og ég grét af gleði. Ég þurfti mjög á hjálp að halda og ég lærði að til er Guð sem ber umhyggju fyrir okkur.“ Eftir að Ana yfirgaf munaðarleysingjahælið þáði hún biblíunámskeið og lærði meira um loforð Jehóva. Þá vígði hún líf sitt Jehóva og gaf tákn um það með skírn. „Síðan þá hef ég haldið áfram að reiða mig á Jehóva með hjálp bænarinnar, og hef fundið huggun í því loforði að hann hjálpi mér.“

Fabiana hefur líka fundið mikla huggun og hugarró í þjáningum sínum með því að læra um framtíðarloforð Guðs. „Að læra sannleikann frá Biblíunni er eins og að yfirgefa mjög dimman og drungalegan stað og koma inn í hreint, bjart og notalegt herbergi.“ — Samanber Sálm 118:5.

En hvernig og hvenær verður komið á bókstaflegum friði um alla jörðina? Athugum það í greinunum á eftir.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Bænin getur hjálpað okkur til að beina athygli okkar að loforði Guðs um heim án þjáninga.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila