-
Hverjir lifa af ‚dag Jehóva‘?Varðturninn – 1997 | 1. nóvember
-
-
Við skulum taka örvar sannleikans og slá kostgæfilega með þeim — aftur og aftur — já, uns Jehóva segir að starfi okkar með þeim sé lokið.
18. Hvernig ættum við að bregðast við orðunum í 2. Pétursbréfi 3:11, 12?
18 ‚Dagur Jehóva‘ bindur bráðlega enda á hið núverandi illa heimskerfi. Við skulum því láta hvatningarorð Péturs postula knýja okkur til verka. „Þar eð allt þetta leysist þannig upp, hvers konar menn ættuð þið að vera í heilagri breytni og guðræknisverkum, meðan þið væntið og hafið stöðugt í huga návist dags Jehóva!“ (2. Pétursbréf 3:11, 12, NW) Þegar þetta heimskerfi leysist algerlega upp í reiðieldi Guðs fyrir atbeina Jesú Krists, þá komast þeir einir undan sem hafa getið sér orð fyrir rétta breytni og guðrækni. Siðferðilegur og andlegur hreinleiki er nauðsynlegur, svo og kærleikur til náungans sem birtist í því að sinna þörfum hans, sérstaklega andlega í kristinni þjónustu okkar.
19. Hvað verðum við að gera til að lifa ‚dag Jehóva‘ af?
19 Bera orð þín og verk vitni um að þú sért trúfastur og kostgæfinn þjónn Guðs? Ef svo er geturðu átt von um að lifa af ‚dag Jehóva‘ og ganga inn í nýja heiminn sem hann hefur lofað. Já, þú getur bjargast ef þú gerir andlegum bræðrum Krists gott af því að þeir eru fylgjendur hans, eins og hjónin í Súnem voru gestrisin við Elísa. Til að bjargast verður þú einnig að vera eins og Naaman sem fór auðmjúkur eftir fyrirmælum Jehóva og gerðist tilbiðjandi hans. Ef þú þráir að lifa að eilífu í jarðneskri paradís, þá verður þú að sýna hugheilan stuðning þinn við sanna tilbeiðslu eins og Jónadab gerði. Þá getur þú orðið meðal trúfastra þjóna Jehóva sem kynnast bráðlega af eigin raun uppfyllingu orða Jesú: „Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ — Matteus 25:34.
-
-
Ert þú vinur Guðs? — það sem bænir þínar leiða í ljósVarðturninn – 1997 | 1. nóvember
-
-
Ert þú vinur Guðs? — það sem bænir þínar leiða í ljós
HEFUR þú einhvern tíma af tilviljun heyrt tvær manneskjur ræða saman? Það tók þig eflaust ekki langan tíma að komast að því hvers eðlis samband þeirra var — hvort þær voru nánar eða ókunnugar, bara kunningjar eða góðir trúnaðarvinir. Á svipaðan hátt geta bænir okkar leitt í ljós hvernig samband okkar er við Guð.
Biblían fullvissar okkur um að Guð sé „eigi . . . langt frá neinum af oss.“ (Postulasagan 17:27) Reyndar býður hann okkur að kynnast sér. Við getum jafnvel verið vinir hans. (Sálmur 34:9; Jakobsbréfið 2:23) Við getum átt innilegt samband við hann! (Sálmur 25:14) Samband við Guð er greinilega það dýrmætasta sem við ófullkomnir menn getum hugsanlega átt. Og Jehóva metur vináttu okkar mikils. Það er augljóst af því að vinátta okkar við hann er byggð á trú á eingetinn son hans, sem gaf líf sitt í okkar þágu. — Kólossubréfið 1:19, 20.
Bænir okkar ættu því að endurspegla djúpan kærleika og þakklæti til Jehóva. En hefur þér einhvern tíma fundist að bænir þínar, þótt þær séu auðmjúkar, skorti einlæga tilfinningu? Það er ekki óalgengt. Hver er lykillinn að bættu sambandi? Að efla vináttu þína við Jehóva Guð.
Að finna tíma til að biðja
Í fyrsta lagi tekur það tíma að efla og rækta vináttu. Það getur verið að þú heilsir eða jafnvel ræðir daglega við margt fólk — nágranna, vinnufélaga, strætisvagnstjóra og afgreiðslumenn. Þrátt fyrir það ert þú varla raunverulegur vinur þeirra. Vinátta eflist þegar þú ræðir lengi og ítarlega við einhvern, þegar þú færir þig frá yfirborðslegu spjalli og ferð að tjá innstu tilfinningar og hugsanir.
Á svipaðan hátt hjálpar bænin okkur að nálgast Jehóva. En verja þarf nægilegum tíma í hana; það þarf meira en stutta þakkarbæn á matartímum. Því meir sem þú talar við Jehóva, því betur ertu fær um að greiða úr tilfinningum, hvötum og verkum þínum. Lausnir á erfiðum vandamálum byrja að koma í ljós þegar andi Guðs minnir á meginreglur í orði hans. (Sálmur 143:10; Jóhannes 14:26) Ennfremur verður Jehóva raunverulegri fyrir þér þegar þú biður og þú gerir þér betur grein fyrir kærleiksríkum áhuga og umhyggju hans fyrir þér.
Þannig er það sérstaklega þegar þú finnur að bænum þínum er svarað. Jehóva megnar meira að segja „að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum“! (Efesusbréfið 3:20) Það merkir ekki að Guð geri kraftaverk fyrir þig. Samt sem áður getur hann gefið þér nauðsynleg ráð eða leiðbeiningar í rituðu orði sínu, ritum hins trúa og hyggna þjónshóps eða af munni kærleiksríkra bræðra og systra. Eða þá að hann getur gefið þér þann styrk sem þú þarft til að þola eða standast freistingu. (Matteus 24:45; 2. Tímóteusarbréf 4:17) Slík reynsla fyllir hjörtu okkar þakklæti fyrir himneskan vin okkar!
Því verður að taka sér tíma til að biðja. Satt er það að skortur er á tíma á þessum erfiðu dögum. En þegar okkur þykir mjög vænt um einhvern reynum við yfirleitt að finna tíma til að vera með honum. Taktu eftir því hvernig sálmaritarinn tjáði sig: „Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð. Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?“ (Sálmur 42:2, 3) Hefur þú slíka löngun til að tala við Guð? Þá skaltu taka þér tíma til að gera það! — Samanber Efesusbréfið 5:16.
Þú gætir til dæmis reynt að fara snemma á fætur til að fá dálítinn tíma til að biðja einslega. (Sálmur 119:147) Ertu stundum andvaka á næturnar? Þá getur þú, líkt og sálmaritarinn, litið á slíkar stundir sem tækifæri til að tjá Guði áhyggjur þínar. (Sálmur 63:7) Eða það getur einfaldlega verið spurning um að fara með nokkrar stuttar bænir yfir daginn. Sálmaritarinn sagði við Guð: „Þig ákalla ég allan daginn.“ — Sálmur 86:3.
Að bæta bænir okkar
Stundum mun þér einnig reynast gagnlegt að biðja í lengri tíma í senn. Í stuttri bæn hefur þú kannski tilhneigingu til að ræða yfirborðsleg mál. En þú tjáir hugsanir þínar og innstu tilfinningar mun auðveldar þegar þú biður lengur og innilegar. Jesús var að minnsta kosti einu sinni á bæn næturlangt. (Lúkas 6:12) Þú kemst örugglega að raun um að bænir þínar verða innilegri og innihaldsríkari ef þú forðast að biðja í flýti.
Það merkir hvorki að tala sundurlaust þegar þú hefur lítið að segja né að grípa til merkingalausrar endurtekningar. Jesús varaði við: „Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann.“ — Matteus 6:7, 8.
Bænin verður innihaldsríkari þegar þú hugsar fyrirfram um hvað þú viljir ræða. Möguleikarnir eru óteljandi — gleði okkar í boðunarstarfinu, veikleiki okkar og gallar, vonbrigði okkar, fjárhagsáhyggjur, álag í vinnu eða skóla, velferð fjölskyldu okkar og andlegt ástand safnaðar okkar svo að fátt eitt sé nefnt.
Reikar hugurinn stundum þegar þú ert að biðja? Þá skaltu leggja þig betur fram um að einbeita þér. Þegar öllu er á botninn hvolft er Jehóva fús til að ‚hlýða á hróp okkar.‘ (Sálmur 17:1) Ættum við þá ekki að leggja okkur í einlægni fram um að gefa okkar eigin bænum gaum? Já, þú skalt „hyggja á það sem andans er“ og ekki leyfa huganum að reika. — Rómverjabréfið 8:5.
Það er líka mikilvægt hvernig við ávörpum Jehóva. Þótt hann vilji að við lítum á sig sem vin megum við aldrei gleyma því að við erum að tala við drottinvald alheimsins. Lestu og hugleiddu hina tilkomumiklu sýn sem er að finna í Opinberunarbókinni kafla 4 og 5. Þar sá Jóhannes í sýn mikilfengleika hans sem við nálgumst í bæn. Hvílík sérréttindi að mega nálgast og fá aðgang að honum „er í hásætinu sat“! Við viljum alls ekki að málfar okkar verði einum of kumpánlegt eða ósæmilegt. Við ættum frekar að leggja okkur af alefli fram um að gera ‚orðin af munni okkar og hugsanir hjarta okkar Jehóva þóknanleg.‘ — Sálmur 19:15.
Við ættum þó að gera okkur ljóst að við vekjum ekki hrifningu Jehóva með skrúðmælgi. Hann er ánægður með virðuleg og einlæg orð okkar hversu einföld sem þau eru. — Sálmur 62:9.
Huggun og skilningur á neyðartímum
Þegar við þurfum á hjálp og huggun að halda leitum við oft eftir stuðningi og samúð hjá nánum vini. Enginn vinur er aðgengilegri en Jehóva. Hann er „örugg hjálp í nauðum.“ (Sálmur 46:2) Sem „Guð allrar huggunar“ skilur hann betur en nokkur annar hvað við erum að ganga í gegnum. (2. Korintubréf 1:3, 4; Sálmur 5:2; 31:8) Og hann er fullur hluttekningar og meðaumkunar gagnvart þeim sem eru örvæntingarfullir. (Jesaja 63:9; Lúkas 1:77, 78) Er við skiljum að Jehóva er skilningsríkur vinur finnst okkur við geta óhikað talað innilega og ákaft við hann. Við erum knúin til að tjá þyngstu áhyggjur okkar og ótta. Þannig fáum við milliliðalaust að finna ‚huggun Jehóva hressa sálu okkar.‘ — Sálmur 94:18, 19.
Stundum getur okkur fundist við vera óverðug þess að nálgast Guð vegna synda okkar. En hvað ef náinn vinur þinn syndgaði gegn þér og sárbændi þig um fyrirgefningu? Myndirðu ekki hughreysta hann og hugga? Hvers vegna ættirðu þá að vænta minna af Jehóva? Hann fyrirgefur ríkulega vinum sínum sem syndga vegna mannlegs ófullkomleika. (Sálmur 86:5; 103:3, 8-11) Sú vitneskja fær okkur til að viðurkenna syndir okkar fúslega fyrir honum; við getum verið fullviss um kærleika hans og miskunn. (Sálmur 51:19) Ef við erum niðurdregin vegna galla okkar getum við leitað hughreystingar í orðunum í 1. Jóhannesarbréfi 3:19, 20: „Af þessu munum vér þekkja, að vér erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu vor frammi fyrir honum, hvað sem hjarta vort kann að dæma oss fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.“
Við þurfum hins vegar ekki að vera örvæntingarfull til að njóta ástríkrar umhyggju Guðs. Jehóva hefur áhuga á hverju því er gæti haft áhrif á andlega eða tilfinningalega velferð okkar. Já, við þurfum aldrei að halda að tilfinningar okkar, hugsanir og áhyggjur séu of smávægilegar til að hægt sé að nefna þær í bæn. (Filippíbréfið 4:6) Ræðir þú aðeins stærstu atburði lífs þíns þegar þú ert með nánum vini? Talar þú ekki líka um tiltölulega smávægileg mál? Á svipaðan hátt getur þú óhikað talað við Jehóva um hvað sem er í lífi þínu, vitandi að ‚hann ber umhyggju fyrir þér.‘ — 1. Pétursbréf 5:7.
Það er ósennilegt að vinátta endist lengi ef þú talar aðeins um sjálfan þig. Eins ættu bænir okkar ekki að snúast einungis um okkur sjálf. Við ættum einnig að láta í ljós kærleika okkar og umhyggju fyrir Jehóva og hagsmunum hans. (Matteus 6:9, 10) Bænin gefur ekki aðeins tækifæri til að biðja Guð um hjálp heldur líka til að tjá þakkir og lof. (Sálmur 34:2; 95:2) Að afla sér þekkingar með reglulegu einkanámi er okkur mikil hjálp að þessu leyti því að þannig kynnumst við Jehóva og vegum hans betur. (Jóhannes 17:3) Það er sérstaklega gagnlegt að lesa Sálmana og taka eftir hvernig aðrir trúfastir þjónar Jehóva tjáðu honum hug sinn.
Vinátta Jehóva er sannarlega dýrmæt gjöf. Megum við sýna að við kunnum að meta hana með því að gera bænir okkar enn nánari, einlægari og persónulegri. Þá munum við finna þá hamingju sem sálmaritarinn lýsti: „Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig.“ — Sálmur 65:5.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Við getum beðið til Guðs þegar tækifæri gefast á daginn.
-