Grafið dýpra niður í orð Guðs
‚Ef þú leitar að þeim eins og fólgnum fjársjóðum munt þú öðlast þekkingu á Guði.‘ — Orðskviðirnir 2:4, 5.
1. Hver er hin sanna uppspretta hamingjunnar og hvers vegna?
„SÆLL er sá maður, sem öðlast hefir speki, sá maður, sem hyggindi hlotnast. Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs, og arðurinn af henni ágætari en gull. Hún er dýrmætari en perlur, og allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana. Langir lífdagar eru í hægri hendi hennar . . . Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.“ — Orðskviðirnir 3:13-18.
2. Hvers vegna eru vottar Jehóva hamingjusamir en hvaða ráð er þeim gefið fyrir skírn sína?
2 Sannkristnum mönnum er það sannarlega fagnaðarefni að hafa fundið viskuna. Þessi viska er hæfileiki þeirra til að nota þekkingu sína á orði Guðs í virkri tilbeiðslu sinni, við að leysa sín daglegu vandamál og taka ákvarðanir sem varða markmið þeirra í lífinu. Áður en vottar Jehóva taka menn til skírnar er undirstöðuþekking sérhvers skírnþega í Biblíunni prófuð með yfirgripsmiklum og markvissum spurningum. Ein af lokaspurningunum hljóðar svo: „Hvers vegna er mikilvægt fyrir þig, að lokinni skírn þinni í vatni, að hafa góða dagskrá fyrir einkanám og reglulega þátttöku í þjónustunni á akrinum?“ Þessi spurning undirstrikar við skírnþegann nauðsyn þess að halda áfram að nema þar sem frumatriðunum sleppir, og ‚stíga skrefi framar svo að skilningur hans og þroski aukist.‘ (Hebreabréfið 6:1, Lifandi orð) Fara allir eftir þessu ráði?
3, 4. (a) Hvað sagði Páll um suma kristna menn í Korintu og Júdeu? (b) Hvert virðist vera ástand sumra kristinna manna núna?
3 Í fyrra bréfi sínu til kristinna manna í Korintu kvartaði Páll undan því að hann gæti ekki talað við þá „eins og við andlega menn“ heldur þyrfti hann að tala við þá eins og „ómálga í Kristi.“ (1. Korintubréf 3:1) Hann lét svipað í ljós í bréfi sem hann líklega skrifaði kristnum mönnum í Júdeu: „Um þetta höfum vér langt mál að segja og torskilið, af því að þér hafið gjörst heyrnarsljóir. Þó að þér tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þér þess enn á ný þörf, að einhver kenni yður undirstöðuatriði Guðs orða. Svo er komið fyrir yður, að þér hafið þörf á mjólk, en ekki fastri fæðu. En hver sem á mjólk nærist er barn og skilur ekki boðskap réttlætisins. — Hebreabréfið 5:11-13.
4 Eins virðist það vera núna að sumir þroski ekki með sér alvarlegar, langtímanámsvenjur eftir að þeir hafa aflað sér nægrar þekkingar til að vígjast Jehóva með von um eilíft líf í paradís á jörð. Þeim finnst kannski að þeir viti nógu mikið til að „spjara sig“ andlega. Þeir komast aldrei af ‚mjólkurstiginu.‘ Páll segir hreinskilnislega að slíkir menn ‚skilji ekki boðskap réttlætisins,‘ það er að segja þeir eru ekki vanir því að nota „boðskap réttlætisins“ við að sannprófa hlutina. Páll bætir við: „Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ — Hebreabréfið 5:14.
‚Föst fæða‘ er nauðsynleg til vaxtar
5, 6. (a) Hvað má segja um suma, sem hafa verið í sannleikanum um árabil, og hvers vegna er það óeðlilegt? (b) Hvað sagði Páll slíkum einstaklingum og hvað ættu þeir því að gera?
5 Hversu mörg ár hefur þú verið vígður þjónn Jehóva? Renndu í huganum yfir andlegan vöxt þinn á þeim árum. Getur þú útskýrt út af Biblíunni aðeins grunnsannindin, „undirstöðuatriði Guðs orða“? Fáeinir, sem hafa verið á vegi kristninnar í 10 eða 20 ár, eru enn á ‚mjólkurstiginu.‘ Hvað myndi fólki finnast ef 10 ára gamalt barn eða tvítugur maður eða kona léti enn næra sig af mjólkurpela? Myndi það ekki teljast afbrigðilegt? Myndi ekki slíkur mjólkurmatur kippa úr vexti þessa einstaklings? Hann myndi kannski lifa, en hann myndi ekki ná vexti sterks og heilbrigðs fullvaxta manns. Hið sama gildir í andlegum efnum.
6 Hvers vegna eru sumir, sem hafa verið kristnir menn um árabil, ekki nægilega sterkir andlega til að taka virkan þátt í að hjálpa hinum eðlilegu „börnum,“ þeim sem eru nýbúnir að taka afstöðu með Jehóva? Þeir sem hafa ekki tekið út þroska hafa um árabil notið við tíma og athygli kristinna öldunga og annarra þroskaðra kristinna manna. Þeir ættu, eins og Páll segir, „tímans vegna . . . að vera kennarar.“ Til að verða kennarar þurfa þeir að hætta að nærast á „mjólk“ og venja sig á að neyta ‚fastrar fæðu.‘ Hvernig geta þeir gert það? — Hebreabréfi 5:12.
7. Fyrir hverja er ‚föst fæða‘ viðeigandi samkvæmt Hebreabréfinu 5:14, og hvernig verður kristinn maður einn af þeim?
7 Páll segir að ‚fasta fæðan sé fyrir fullorðna‘ og hann segir það vera þá „sem jafnt og þétt hafa tamið [með notkun] skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ Með öðrum orðum, þeir sem temja sér að nota hverja þá biblíuþekkingu, sem þeir hafa, til að greina gott frá illu, munu smám saman þjálfa skilningarvit sín og öðlast kristilegan þroska. Þeir munu venjast því að nota „boðskap réttlætisins“ til að sannprófa hlutina, og þannig greina á milli þess sem er heilnæmt og þess sem er skaðlegt siðferðilega, andlega og jafnvel líkamlega. Með því að heimfæra á sig það sem þeir læra munu þeir fara að ‚skilja boðskap réttlætisins.‘ Þeir verða ‚fullorðnir,‘ þroskaðir menn, sem ætluð er ‚föst fæða.‘ — Hebreabréfið 5:13, 14.
Þroskaðu góðar „matarvenjur“
8. Með hvaða hætti gæti kristinn maður einskorðað sig við ‚mjólk,‘ en hvernig getur hann breytt andlegum „matarvenjum“ sínum?
8 Sjúklingar, sem hafa þurft að nærast á mjólkurmat um langan tíma, verða að venja líkamann aftur á að neyta fastrar fæðu. Þeir sem hafa vanið sig á að „narta í“ andlegu fæðuna, sem hinn ‚trúi og hyggni þjónn‘ ber fram, og skilja eftir á diskbrúninni úrvalsbitana sem þarf að „tyggja“ (hugsa og rannsaka) örlítið betur, þurfa að leggja svolítið á sig til að temja sér góðar andlegar „matarvenjur.“ Þeir munu þurfa að ‚vekja sína skýru hugsun‘ og ‚leggja sig kappsamlega fram.‘ — Matteus 24:45; 2. Pétursbréf 3:1, 2, NW; Lúkas 13:24.
9. Hvað getur hjálpað þeim sem hefur misst matarlystina?
9 Það er þrennt sem getur hjálpað manni, sem hefur verið veikur, að endurheimta lyst sína á fastri, næringarríkri fæðu: (1) rétt tilefni, það er að segja löngun til að verða aftur heill og hraustur, (2) lystugur matur borinn fram með reglulegu millibili og (3) nóg af fersku lofti og hreyfingu. Hvernig getur þetta hjálpað manni sem hefur misst lyst sína á hinum djúpu sannindum í orði Guðs?
10. Hvað rétt tilefni ætti að koma okkur til að auka þekkingu okkar á orði Guðs?
10 Sérhver maður, sem hefur vígt líf sitt Jehóva, ætti að hafa sterka hvöt til að auka þekkingu sína á orði Guðs. Kærleikur okkar til Jehóva knýr okkur til að kynnast betur hinum mikilfenglegu eiginleikum hans, vilja og tilgangi. Það útheimtir rækilegt nám og hugleiðingu. (Sálmur 1:1, 2; 119:97) Enn fremur er von okkar um að lifa að eilífu á paradísarfjörð Guðs háð því að við öflum okkur stöðugt ‚þekkingar á hinum eina sanna Guði og syni hans, Jesú Kristi.‘ (Jóhannes 17:3) En löngun okkar í eilíft líf ætti ekki að vera aðalhvötin til að nema Ritninguna. Það voru mistökin sem sumir trúlausir Gyðingar gerðu. Að við ‚rannsökum Ritningarnar‘ þarf að koma fyrst og fremst af kærleika til Guðs og löngun til að gera vilja hans. — Jóhannes 5:39-42; Sálmur 143:10.
11. Hvernig er okkur borin lystug fæða reglulega?
11 Hið mikla magn lystugrar andlegrar fæðu, sem borin er fram reglulega og „á réttum tíma“ af ‚hinum trúa og hyggna þjóni,‘ ætti að koma okkur öllum til að sýna þakklæti með því að notfæra okkur sem best þau gæði sem okkur eru veitt. (Matteus 24:45) Við ættum að temja okkur góðar andlegar „matarvenjur“ með því að ætla okkur hæfilegan tíma til að lesa og nema allt hið góða efni sem birtist í bókum og tímaritum Varðturnsfélagsins. Andleg fæða er borin fram reglulega á fimm vikulegum samkomum sem skipulagðar eru í söfnuðum votta Jehóva út um allan heiminn. Ert þú viðstaddur allar þessar samkomur og vel undirbúinn að tileinka þér fæðuna sem fram er borin?
12. (a) Nefnið aðra leið fyrir kristinn mann til að byggja upp andlega matarlyst sína. (b) Hvaða spurninga getum við því spurt okkur?
12 Kærleikur til Guðs og kærleikur til náungans ætti að koma okkur til að nema orð hans. (Lúkas 10:27) Sá sem hefur misst matarlystina getur haft gott af fersku lofti og hreyfingu. Kristinn maður, sem vill byggja upp lyst og löngun í ‚fasta fæðu,‘ getur einnig fengið hjálp með því að fara út í prédikunarstarfið og nota þekkingu sína til að útbreiða „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ og til að ‚gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum.‘ (Matteus 24:14; 28:19, 20) Mundu að Páll sagði þeim sem höfðu orðið „þörf á mjólk“ eða voru andleg börn, að þeir ‚tímans vegna ættu að vera kennarar.‘ (Hebreabréfið 5:12) Hvar stendur þú með tilliti til þess tíma sem þú hefur verið sannkristinn maður? Ef þú ert bróðir, hefur þú tekið framförum að því marki að þú getir orðið að gagni sem „kennari“ úti á akrinum, og kannski einnig sem öldungur í söfnuðinum? Ef þú ert kristin systir, ert þú fær um að stjórna uppbyggilegu biblíunámi á heimilum fólks sem sýnir áhuga á sannleika Guðs, eða kannski að hjálpa kristnum systrum þínum í vitnisburðarstarfinu?
Gerðu nám ánægjulegt
13. Hver er munurinn á því að lesa og nema?
13 Sagt hefur verið að lestur sé ánægja en nám sé vinna. Það er nokkur sannleikur í því. Uppbyggilegur lestur getur að töluverðu leyti verið ánægjuleg afþreying. Hvað getur verið ánægjulegra en ein eða tvær klukkustundir í þægilegum stól við að lesa frásögn úr árbókum votta Jehóva eða grein í tímaritinu Vaknið!? Nám er hins vegar vinna. Orðabók segir: „Nám felur í sér viðvarandi, markvissa einbeitingu tengda slíkri athygli gagnvart smáatriðum sem líklegt er að leiði í ljós möguleika, notagildi, breytileika eða skyldleika þess sem numið er.“ Já, nám krefst áreynslu. En alveg eins og vel unnið verk getur verið ánægjulegt og arðsamt getur nám verið ánægjulegt og veitt andlega umbun. Það er þér til hagsbóta að gera það þannig. Hvernig?
14. Hvað má vera að þú þurfir að gera til að láta einkanám þitt verða ánægjulegra og gagnlegra?
14 Til að nám sé ánægjulegt og til verulegs gagns er nauðsynlegt að verja hæfilegum tíma til þess. Þar eð nám felur í sér „viðvarandi, markvissa einbeitingu“ og „athygli gagnvart smáatriðum,“ hversu oft getur þú sagt í fullri hreinskilni að þú hafir numið Varðturninn þinn eða ritin sem notuð eru í safnaðarbóknáminu? Væri ekki réttara að segja að oft renndir þú í fljótheitum í gegnum námsefnið og undirstrikaðir í flýti svörin við spurningunum, án þess í rauninni að gefa gaum að smáatriðum og ástæðunum fyrir þeim skýringum sem gefnar eru? Ef það er þannig hjá þér ætti sennilega fyrsta skrefið tl að bæta andlegar „matarvenjur“ þínar að vera það að ‚nota hverja stundina‘ eða taka þér tíma til náms. (Efesusbréfið 5:15-17) Það getur útheimt róttæka tilfærslu á tíma frá athöfnum sem eru minna virði. En þig kann að undra hversu ánægjulegt nám getur orðið þegar þú hefur tíma til að meta námsefnið að verðleikum í stað þess að fara í gegnum það í flýti.
15. Hvað annað er ómissandi til að nám sé bæði ánægjulegt og andlega gagnlegt?
15 Bænin stendur í tengslum við tímann. Blessun Jehóva er nauðsynleg til að nám sé gagnlegt í andlegu tilliti. Við þurfum að biðja til hans í nafni Jesú, og biðja hann að opna hugi okkar og hjörtu og gera þau móttækileg fyrir sannindunum sem nema á. Hversu oft hefur þú ekki þurft að setjast niður stutta stund til að undirbúa þig í flýti fyrir samkomu, og gert þér svo ljóst eftir á að þú gleymdir að biðja Jehóva um blessun hans og visku til að heimfæra á daglegt líf þitt það sem þú lærðir? Hvers vegna að neita sjálfum þér um hjálp Jehóva þegar hún veitist þeim sem biðja um hana? — Jakobsbréfið 1:5-7.
Grafið dýpra
16. Hvað verðum við að gera, í samræmi við ritningarstef þessa námsefnis, til að finna þekkingu, hyggindi og skynsemi?
16 Orðskviðirnir 2:4, 5 segja: ‚Ef þú leitar að þeim eins og fólgnum fjársjóðum munt þú öðlast þekkingu á Guði.‘ Þessi ritningargrein er í því samhengi að talað er um nauðsyn þess að leita að „orðum“ Jehóva, ‚boðorðum,‘ „spekinni,“ „hyggindum“ og ‚skynsemi.‘ Leit að fjársjóðum krefst áreynslu og þolgæðis. Hún krefst þess að mikið sé grafið. Það er ekkert frábrugðið þegar leitað er að ‚þekkingu á Guði,‘ ‚skynsemi‘ og ‚hyggindum.‘ Það krefst þess líka að mikið sé grafið eða kafað undir yfirborðið. Láttu þér ekki finnast að það nægi að renna lauslega yfir yfirborðið á orði Guðs.
17. Hvað segir Ritningin um hugsanir Jehóva og hvað ættum við því að vera þakklát fyrir?
17 Sálmaritarinn sagði: „Hversu mikil eru verk þín, [Jehóva], harla djúpar hugsanir þínar.“ (Sálmur 92:6) Páll postuli skrifaði fullur aðdáunar: „Hvílík djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs!“ (Rómverjabréfið 11:33) Í öðru bréfi talaði hann um „djúp Guðs.“ (1. Korintubréf 2:10) Að vísu, eins og Páll bendir á, opinberar Guð slík djúp sannindi „fyrir andann“ eða starfskraft sinn sem hefur sterk áhrif á smurða kristna menn skipaða af Kristi Jesú til að útbýta andlegri fæðu. Við ættum sannarlega að vera þakklát fyrir þær nákvæmnisrannsóknir sem ‚þjónninn‘ gerir til að gera okkur sífellt skýrari „hinar huldu dýptir tilgangs Guðs.“ — 1. Korintubréf 2:10, Today’s English Version.
18. Hvernig getur sérhver kristinn maður grafið dýpra niður í orð Guðs, og hvaða sérstök verkfæri höfum við fengið til þess?
18 En það leysir ekki hinn einstaka kristna mann undan þeirri ábyrgð að grafa dýpra í þeim tilgangi að skilja til fulls dýptina í hugsuninni sem fram kemur. Það felur í sér að fletta upp þeim ritningargreinum sem vísað er til. Það felur í sér að lesa neðanmálsathugasemdir við greinar í Varðturninum sem sumar hverjar vísa lesandanum á ákveðinni ritningargrein eða spádómi. Það krefst þess að grafa dýpra, leggja eitthvað á sig til að finna þetta eldra rit og síðan að nema þær blaðsíður sem vísað er til. Það felur í sér að notfæra sér til fullnustu sérhæfð biblíunámsrit sem ‚þjónninn‘ hefur látið gera í gegnum árin, svo sem efnisskrár, orðalykla, Aid to Bible Understanding og „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm.“ Já, kristnum mönnum hafa verið fengin afbragðsgóð verkfæri til að grafa, og hið nýjasta er hin nýja enska tilvísanabiblía sem mun, þegar fram líða stundir, verða fáanleg á fjölmörgum öðrum tungumálum. Við skulum nota þessi verkfæri okkur til gagns.
Að nema í ákveðnum tilgangi
19. Hvaða varnaðarorð eru nauðsynleg í sambandi við þekkingu?
19 Tilgangur okkar með því að grafa dýpra niður í orð Guðs er ekki sá að láta okkur finnast við standa bræðrum okkar ofar eða að flagga þekkingu okkar. Sá er hins vegar oft hátturinn hjá veraldlegu fólki. Í grundvallaratriðum á hér við það sem Páll skrifaði: „Þekkingin blæs menn upp, en kærleikurinn byggir upp.“ (1. Korintubréf 8:1) Kærleikur mun koma okkur til að nota þekkingu okkar í auðmýkt til að prédika og kenna öðrum og stuðla háttvíslega að andlegu gildi hinna kristnu samkoma.
20. Hvaða hvatningu gaf Páll í þessu sambandi?
20 Við skulum „ekki . . . halda áfram að vera börn“ heldur „vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, — Kristur.“ (Efesusbréfið 4:13-15) ‚Sækjum fram til fullkomleikans‘ eða þroska. (Hebreabréfið 6:1) Við skulum vera þroskaðir menn, færir um að meðtaka ‚fasta fæðu‘ sem mun gera okkur andlega sterka og nytsamlega innan kristna safnaðarins. Það felur hins vegar meira í sér en aðeins að afla sér þekkingar með námi. Það felur í sér að nærast á orðum Jehóva og meta þau að verðleikum, en það er námsefni greinarinnar sem á eftir fer. — Sálmur 110:1; Jesaja 56:8; 66:2.
Til upprifjunar
◻ Hvers vegna halda sumir áfram að vera andleg „börn“?
◻ Hvað getur hjálpað manni til að ná þroska?
◻ Hvernig getum við þroskað góðar, andlegar „matarvenjur“?
◻ Hvernig getum við gert einkanám okkar ánægjulegra?
◻ Hvers vegna er nauðsynlegt að grafa djúpt niður í orð Guðs?
[Rammi á blaðsíðu 11]
Atriði sem geta stuðlað að andlegu heilbrigði
1. Rétt tilefni: Þroskaðu með þér sterka löngun í að kynnast Jehóva betur.
2. Regluleg næring: Notfærðu þér hina andlegu fæðu sem hinn ‚trúi og hyggni þjónn‘ ber fram reglulega.
3. Þjálfunaræfing: Notaðu þekkinguna til að hjálpa öðrum, svo sem með því að fara út í prédikunarstarfið.