Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.1. bls. 6-11
  • Gefstu ekki upp í kapphlaupinu um lífið!

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Gefstu ekki upp í kapphlaupinu um lífið!
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Gefið því enn betur gaum‘
  • ‚Áminnið hver annan‘
  • „Þolgæðis hafið þér þörf“
  • Við getum verið þolgóð
  • Þú getur verið þolgóður allt til enda
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • Keppum þolgóð að eilífa lífinu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Varastu vantrú
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Þreytum kapphlaupið af þolgæði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.1. bls. 6-11

Gefstu ekki upp í kapphlaupinu um lífið!

„Þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“ — HEBREABRÉFIÐ 12:1.

1, 2. Hvaða spennandi atburðir hafa hrifið þjóna Jehóva núna á síðustu dögum?

VIÐ lifum spennandi en jafnframt erfiða tíma. Fyrir meira en átta áratugum, árið 1914, var Jesús settur í hásæti sem konungur himnaríkis Guðs. ‚Drottins dagur‘ hófst og ásamt honum ‚endalokatími‘ þessa heimskerfis. (Opinberunarbókin 1:10; Daníel 12:9) Síðan þá hefur kapphlaup kristins manns um lífið orðið æ mikilvægara. Þjónar Guðs hafa lagt sig ötullega fram um að halda í við himneskan stríðsvagn Jehóva, himneskt skipulag hans, sem stefnir óstöðvandi fram til að uppfylla tilgang hans. — Esekíel 1:4-28; 1. Korintubréf 9:24.

2 Hafa þjónar Guðs haft gleði af kapphlaupi sínu til eilífa lífsins? Svo sannarlega! Þeim finnst hrífandi að sjá þeim síðustu af bræðrum Jesú safnað saman og fagna þeirri vitneskju að lokainnsiglun þeirra sem eftir eru af hinum 144.000 sé vel á veg komin. (Opinberunarbókin 7:3, 4) Og það er spennandi fyrir þá að gera sér grein fyrir að skipaður konungur Jehóva skuli hafa brugðið sigð sinni til að uppskera „sáðland jarðarinnar.“ (Opinberunarbókin 14:15, 16) Og hvílík uppskera! (Matteus 9:37) Fram til þessa hefur verið safnað saman meira en fimm milljónum sálna — ‚miklum múgi, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.‘ (Opinberunarbókin 7:9) Enginn veit hve mikill múgurinn verður áður en yfir lýkur því að enginn getur komið tölu á hann.

3. Þrátt fyrir hvað verðum við alltaf að rækta með okkur gleði?

3 Satan reynir að vísu að fella okkur eða tefja í kapphlaupinu. (Opinberunarbókin 12:17) Og það hefur ekki verið auðvelt að halda hlaupinu áfram gegnum stríð, hungursneyð, drepsóttir og allar aðrar þrengingar sem einkenna endalokatímann. (Matteus 24:3-9; Lúkas 21:11; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Engu að síður hoppar hjarta okkar af gleði þegar líður að því að kapphlaupið taki enda. Við kappkostum að hafa sama hugarfar og Páll hvatti kristna menn til í sinni tíð: „Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.“ — Filippíbréfið 4:4.

4. Hvers konar hugarfar sýndu kristnir menn í Filippí?

4 Enginn vafi leikur á að kristnir menn, sem Páll ávarpaði með þessum orðum, höfðu yndi af trú sinni því að hann sagði þeim: „Haldið áfram að gleðjast í Drottni.“ (Filippíbréfið 3:1, NW) Söfnuðurinn í Filippí var örlátur og ástríkur og þjónaði af kappi og kostgæfni. (Filippíbréfið 1:3-5; 4:10, 14-20) En ekki höfðu allir kristnir menn fyrstu aldar þetta hugarfar. Til dæmis var ástæða til að hafa áhyggjur af sumum kristnum Gyðingum sem Páll skrifaði Hebreabréfið til.

‚Gefið því enn betur gaum‘

5. (a) Hvers konar hugarfar sýndu kristnir Hebrear þegar fyrsti kristni söfnuðurinn var stofnsettur? (b) Lýstu hugarfari sumra kristinna Hebrea um árið 60.

5 Fyrsti kristni söfnuðurinn í heimi var stofnsettur í Jerúsalem árið 33 og í honum voru Gyðingar að holdinu og menn sem tekið höfðu gyðingatrú. Hvernig var hugarfar þeirra? Nóg er að lesa fyrstu kafla Postulasögunnar til að uppgötva eldmóð þeirra og gleði, jafnvel í ofsóknum. (Postulasagan 2:44-47; 4:32-34; 5:41; 6:7) En áratugirnir liðu og ýmislegt breyttist og margir kristnir Gyðingar hægðu greinilega á í kapphlaupinu um lífið. Heimildarrit lýsir því hvernig komið var fyrir þeim um árið 60: „Deyfð og lúi, óuppfylltar væntingar og vonir, vísvitandi vanræksla og ótryggð í daglegum málum. Þeir voru kristnir en kunnu lítið að meta dýrlega köllun sína.“ Hvernig gátu smurðir kristnir menn orðið þannig? Athugun á hluta af bréfi Páls til Hebrea svarar því en það var skrifað um árið 61. Slík athugun hjálpar okkur öllum, sem nú lifum, að sökkva ekki niður í sams konar andlegan veikleika.

6. Lýstu muninum á tilbeiðslunni undir Móselögmálinu og tilbeiðslu byggðri á trú á Jesú Krist.

6 Kristnir Hebrear höfðu tilheyrt gyðingdómnum, trúarkerfi sem taldi sig fylgja lögmálinu er Jehóva gaf fyrir milligöngu Móse. Margir kristnir Gyðingar virtust enn hrifnir af lögmálinu, kannski vegna þess að um margra alda skeið hafði það verið eina leiðin til að nálgast Jehóva, og gyðingdómurinn hafði tilkomumikið tilbeiðslukerfi með prestastétt, reglubundnum fórnum og heimsfrægu musteri í Jerúsalem. Kristnin er ólík. Hún krefst andlegra sjónarmiða eins og Móse hafði en hann „horfði fram til launanna“ sem voru ókomin, og „var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (Hebreabréfið 11:26, 27) Marga kristna Gyðinga virðist hafa skort slíka andlega sjón. Þeir höltruðu áfram í stað þess að hlaupa stefnufastir.

7. Hvernig gæti heimskerfið, sem við erum komin úr, haft áhrif á hvernig við hlaupum í kapphlaupinu um lífið?

7 Er ástandið svipað núna? Ekki alveg. Kristnir menn eru samt komnir úr heimskerfi sem lætur mikið yfir sér. Heimurinn býður upp á spennandi tækifæri en gerir samtímis miklar kröfur til fólks. Margir búa auk þess í löndum þar sem efahyggja er algeng og fólk er sjálfselskt og álítur sjálft sig eiga að ganga fyrir í einu og öllu. Ef við leyfum slíku kerfi að hafa áhrif á okkur gæti „sálarsjón“ okkar hæglega orðið óskýr. (Efesusbréfið 1:18) Hvernig getum við hlaupið vel í kapphlaupinu um lífið ef við sjáum ekki lengur greinilega hvert við erum að fara?

8. Á hvaða hátt var kristnin fremri tilbeiðslunni undir lögmálinu?

8 Kristnum Gyðingum til hvatningar minnti Páll þá á yfirburði kristninnar yfir Móselögin. Þegar Ísraelsmenn að holdinu voru fólk Jehóva undir lögmálinu talaði Jehóva að vísu við þá fyrir milligöngu innblásinna spámanna. En Páll bendir á að núna tali hann „í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört.“ (Hebreabréfið 1:2) Jesús er auk þess meiri en allir konungar af ætt Davíðs, ‚jafningjar‘ hans. Hann er meira að segja englunum æðri. — Hebreabréfið 1:5, 6, 9.

9. Af hverju þurfum við að „gefa því enn betur gaum“ sem Jehóva segir, líkt og kristnir Gyðingar á dögum Páls?

9 Páll ráðlagði því kristnum Gyðingum: „Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis.“ (Hebreabréfið 2:1) Enda þótt það væri stórkostleg blessun að læra um Krist var það ekki nóg. Þeir þurftu að gefa nákvæman gaum að orði Guðs til að sporna gegn áhrifum gyðingaheimsins umhverfis. Við þurfum líka að „gefa því enn betur gaum“ sem Jehóva segir, í ljósi hins stöðuga áróðurs sem við verðum fyrir frá þessum heimi. Það þýðir að temja sér góðar námsvenjur og fylgja góðri biblíulestraráætlun. Eins og Páll segir síðar í bréfi sínu til Hebrea þýðir það líka að sækja samkomur og boða öðrum trú okkar að staðaldri. (Hebreabréfið 10:23-25) Slík starfsemi hjálpar okkur að halda okkur andlega vakandi svo að við missum ekki sjónar á dýrlegri von okkar. Ef við fyllum hugann af fyrirætlunum Jehóva látum við ekkert sem þessi heimur getur gert buga okkur eða setja okkur úr jafnvægi. — Sálmur 1:1-3; Orðskviðirnir 3:1-6.

‚Áminnið hver annan‘

10. (a) Hvernig getur farið fyrir þeim sem gefa ekki enn betur gaum að orði Jehóva? (b) Hvernig getum við haldið áfram að ‚áminna hver annan‘?

10 Ef við gefum ekki nákvæman gaum að því sem andlegt er getur vel verið að okkur fari að þykja loforð Guðs óraunveruleg. Það gerðist jafnvel á fyrstu öld þegar allir safnaðarmenn voru andasmurðir og sumir postulanna voru enn á lífi. Páll varaði Hebrea við: „Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði. Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir ‚í dag‘, til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar.“ (Hebreabréfið 3:12, 13) Orð Páls, „gætið þess,“ leggja áherslu á hve mikilvægt það er að halda vöku sinni. Sú hætta vofir yfir að trúarskortur — ‚synd‘ — gæti þróast í hjarta okkar og við fjarlægðumst Guð í stað þess að nálægjast hann. (Jakobsbréfið 4:8) Páll minnir okkur á að ‚áminna hver annan.‘ Við þörfnumst hlýju bræðrafélagsins. „Sérlyndur maður [„sá sem einangrar sig,“ NW] fer að sínum munum, hann illskast við öllu, sem hyggilegt er.“ (Orðskviðirnir 18:1) Þörfin fyrir slíkan félagsskap hvetur kristna menn nú á tímum til að sækja safnaðarsamkomur, svæðismót og umdæmismót reglulega.

11, 12. Af hverju ættum við ekki að láta okkur nægja að þekkja bara undirstöðukenningar kristninnar?

11 Síðar í bréfi sínu gefur Páll þessi verðmætu ráð: „Þó að þér tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þér þess enn á ný þörf, að einhver kenni yður undirstöðuatriði Guðs orða. Svo er komið fyrir yður, að þér hafið þörf á mjólk, en ekki fastri fæðu. . . . Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ (Hebreabréfið 5:12-14) Ljóst er að sumir kristnir Gyðingar höfðu ekki þroskað skilning sinn. Þeir höfðu verið seinir til að taka við vaxandi ljósi í sambandi við lögmálið og umskurnina. (Postulasagan 15:27-29; Galatabréfið 2:11-14; 6:12, 13) Sumir hafa kannski enn haft mætur á gömlum hefðum eins og vikulegum hvíldardegi og hinum hátíðlega, árlega friðþægingardegi. — Kólossubréfið 2:16, 17; Hebreabréfið 9:1-14.

12 Páll segir því: „Þess vegna skulum vér sleppa byrjunar-kenningunum um Krist og sækja fram til fullkomleikans.“ (Hebreabréfið 6:1) Maraþonhlaupari heldur frekar út hið langa og erfiða hlaup ef hann hugsar vel um mataræði sitt. Kristinn maður á auðveldara með að halda sig á réttri braut og ljúka hlaupi ef hann gefur nákvæman gaum að andlegu mataræði sínu og einskorðar sig ekki við ‚byrjunarkenningarnar‘. (Samanber 2. Tímóteusarbréf 4:7.) Það þýðir að þroska með sér áhuga á ‚vídd og lengd og hæð og dýpt‘ sannleikans og ná þar með þroska. — Efesusbréfið 3:18.

„Þolgæðis hafið þér þörf“

13. Hvernig höfðu kristnir Hebrear sýnt trú sína forðum daga?

13 Á tímabilinu strax eftir hvítasunnuna árið 33 stóðu kristnir Gyðingar fastir fyrir þrátt fyrir harðvítuga mótspyrnu. (Postulasagan 8:1) Vera má að Páll hafi haft það í huga þegar hann skrifaði: „Minnist fyrri daga, er þér höfðuð tekið á móti ljósinu, hvernig þér urðuð að þola mikla raun þjáninga.“ (Hebreabréfið 10:32) Slík trúfesti og þolgæði bar vott um kærleika þeirra til Guðs og veitti þeim djörfung frammi fyrir honum. (1. Jóhannesarbréf 4:17) Páll hvetur þá til að varpa henni ekki frá sér vegna trúarskorts. Hann hvetur þá og segir: „Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum.“ — Hebreabréfið 10:35-37.

14. Hvaða staðreyndir ættu að hjálpa okkur að vera þolgóð, jafnvel eftir margra ára þjónustu við Jehóva?

14 Hvað um okkur nú á tímum? Flest okkar voru kostgæfin þegar við kynntumst sannleika kristninnar. Erum við enn jafnkostgæfin eða höfum við ‚afrækt okkar fyrri kærleika‘? (Opinberunarbókin 2:4) Höfum við hægt á okkur, kannski orðið eilítið vonsvikin eða þreytt á að bíða eftir Harmagedón? En hugsaðu málið. Sannleikurinn er jafnstórkostlegur og hann var. Jesús er enn himneskur konungur okkar. Við höfum enn von um eilíft líf í paradís á jörð og við eigum enn samband við Jehóva. Og gleymum aldrei að ‚sá mun koma, sem koma á, og ekki dvelst honum.‘

15. Hvernig hafa sumir kristnir menn þolað hatrammar ofsóknir líkt og Jesús?

15 Þess vegna eru orð Páls í Hebreabréfinu 12:1, 2 mjög við hæfi: „Léttum . . . af oss allri byrði og viðloðandi synd [trúarskorti] og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.“ Þjónar Guðs hafa þurft að þola margt núna á síðustu dögum. Líkt og Jesús, sem var trúfastur allt til kvalafulls dauða, hafa sum bræðra okkar og systra þolað harkalegustu ofsóknir — fangabúðavist, pyndingar, nauðgun og jafnvel dauða. (1. Pétursbréf 2:21) Þykir okkur ekki innilega vænt um þau þegar við hugleiðum ráðvendni þeirra?

16, 17. (a) Hvaða andstöðu gegn trúnni þurfa flestir kristnir menn að berjast gegn? (b) Hvað hjálpar okkur að halda áfram kapphlaupinu um lífið?

16 En orð Páls í framhaldinu eiga við flest okkar: „Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið.“ (Hebreabréfið 12:4) Engu að síður er vegur sannleikans ekki auðfarinn fyrir neitt okkar í þessu heimskerfi. Sumir eru kjarklitlir vegna ‚fjandskapar gegn sér af syndurum‘ í veraldlegri vinnu eða í skóla þar sem gert er gys að þeim eða þrýst á þá til að syndga. (Hebreabréfið 12:3) Sterk freisting hefur grafið undan staðfestu sumra í því að halda háar kröfur Guðs. (Hebreabréfið 13:4, 5) Fráhvarfsmenn hafa haft áhrif á andlegt jafnvægi fáeinna sem hlusta á eitraðan áróður þeirra. (Hebreabréfið 13:9) Ágreiningur við aðra hefur rænt suma gleði sinni. Óhófleg áhersla á skemmtun og afþreyingu hefur veikt suma kristna menn. Og flestum finnst vandamál lífsins í þessu heimskerfi íþyngja sér.

17 Engar þessara aðstæðna hafa þó kostað að „blóð hafi runnið.“ Og sumar þeirra má kannski rekja til rangra ákvarðana sem við tökum sjálf. En allar reyna þær trú okkar. Þess vegna ættum við að hafa augun á stórfenglegu fordæmi Jesú í því að sýna þolgæði. Megum við, líkt og hann, aldrei gleyma hve dásamleg von okkar er. Megum við aldrei glata þeirri sannfæringu að Jehóva „umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Þá höfum við andlegan styrk til að halda áfram að hlaupa í kapphlaupinu um lífið.

Við getum verið þolgóð

18, 19. Hvaða sögulegar staðreyndir benda til að kristnir Hebrear í Jerúsalem hafi tekið innblásnar ráðleggingar Páls til sín?

18 Hvernig brugðust kristnir Gyðingar við bréfi Páls? Um sex árum eftir að Hebreabréfið var skrifað var Júdea í stríði. Árið 66 settist rómverskur her um Jerúsalem og uppfyllti orð Jesú: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd.“ (Lúkas 21:20) En Jesús hvatti kristna menn sem væru í Jerúsalem á þeim tíma: „Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana.“ (Lúkas 21:21) Stríðið við Róm var því prófraun: Ætluðu þessir kristnu Gyðingar að yfirgefa Jerúsalem sem var tilbeiðslumiðstöð gyðingdómsins og þar sem hið dýrlega musteri stóð?

19 Skyndilega, án nokkurrar þekktrar ástæðu, hörfuðu Rómverjar. Sennilega litu trúaðir Gyðingar á það sem sönnun þess að Guð héldi verndarhendi yfir heilagri borg þeirra. Hvað um kristna menn? Mannkynssagan segir að þeir hafi flúið. Árið 70 komu Rómverjar aftur og gereyddu Jerúsalem og ollu gríðarlegum mannfelli. ‚Dagur Jehóva,‘ sem Jóel spáði, var kominn yfir Jerúsalem. En trúfastir kristnir menn voru ekki lengur þar. Þeir ‚frelsuðust‘ eða komust undan. — Jóel 3:3-5; Postulasagan 2:16-21.

20. Hvað ætti vitneskjan um nálægð hins mikla ‚dags Jehóva‘ að fá okkur til að gera?

20 Við vitum að annar ‚dagur Jehóva‘ kemur bráðlega yfir allt heimskerfið. (Jóel 3:17-19) Við vitum ekki hvaða dag hann kemur en orð Guðs fullvissar okkur um að hann komi örugglega! Jehóva segir að hann dragist ekki. (Habakkuk 2:3; 2. Pétursbréf 3:9, 10) Við skulum þess vegna „gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt.“ Forðumst trúarskort, hina „viðloðandi synd.“ Verum staðráðin í að halda út svo lengi sem við þurfum. Munum að hið mikla, himneska skipulag Jehóva, sem líkist stríðsvagni, sækir fram. Það nær fram tilgangi sínum. Megum við því öll halda áfram og hlaupa og gefast ekki upp í kapphlaupinu um lífið!

Manstu?

◻ Hvaða hvatning Páls til Filippímanna hjálpar okkur að vera þolgóð í kapphlaupinu um lífið?

◻ Hvað hjálpar okkur að sporna gegn viðleitni þessa heims til að glepja okkur?

◻ Hvernig getum við hjálpað hvert öðru að vera þolgóð í kapphlaupinu?

◻ Nefndu sumt af því sem gæti hægt á kristnum manni.

◻ Hvernig getur fordæmi Jesú hjálpað okkur að vera þolgóð?

[Mynd á blaðsíðu 9]

Líkt og hlauparar mega kristnir menn ekki láta neitt trufla sig.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Ekkert getur komið í veg fyrir að hinn mikli, himneski stríðsvagn Jehóva nái fram tilgangi hans.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila