Griðaborgirnar — Miskunnarráðstöfun Guðs
„Skulu þessar sex borgir vera griðastaðir . . . svo að þangað megi flýja hver sá, er orðið hefir manni að bana óviljandi.“ — 4. MÓSEBÓK 35:15.
1. Hver er afstaða Guðs til lífs og blóðskuldar?
JEHÓVA GUÐ álítur mannslífið heilagt. Og lífið er í blóðinu. (3. Mósebók 17:11, 14) Kain, fyrsti maðurinn sem fæddist á jörð, bakaði sér þess vegna blóðskuld er hann myrti Abel bróður sinn. Þar af leiðandi sagði Guð við Kain: „Blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni!“ Blóðið, sem litaði jörðina á morðstaðnum, bar þögult en þó kröftugt vitni um lífið sem endi hafði verið bundinn á með hrottafengnum hætti. Blóð Abels hrópaði til Guðs á hefnd. — 1. Mósebók 4:4-11.
2. Hvernig var lögð áhersla eftir flóðið á virðingu Jehóva fyrir lífinu?
2 Áhersla var lögð á virðingu Guðs fyrir mannslífinu er hinn réttláti Nói og fjölskylda hans stigu úr örkinni eftir heimsflóðið. Jehóva bætti þá dýrakjöti við fæðuval mannkyns en undanskildi blóðið. Hann fyrirskipaði jafnframt: „Yðar eigin blóðs mun ég hins vegar krefjast. Af hverri skepnu mun ég þess krefjast, og af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins. Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn.“ (1. Mósebók 9:5, 6) Jehóva viðurkenndi að nánasti ættingi myrts manns hefði rétt til að lífláta manndráparann ef hann yrði á vegi hans. — 4. Mósebók 35:19.
3. Hvaða áherslu lögðu Móselögin á heilagleika lífsins?
3 Í lögmálinu, sem spámaðurinn Móse miðlaði Ísraelsmönnum, var hvað eftir annað lögð áhersla á heilagleika lífsins. Guð fyrirskipaði til dæmis: „Þú skalt ekki morð fremja.“ (2. Mósebók 20:13) Virðing fyrir lífinu kom einnig fram í því sem Móselögin sögðu um þungaða konu og banaslys. Lögmálið tilgreindi að ef áflog tveggja karla yrðu þess valdandi að hún eða barnið dæi ættu dómarar að meta aðstæður og skoða hvort um ásetning hefði verið að ræða, en refsingin gat verið „líf fyrir líf.“ (2. Mósebók 21:22-25) En gat ísraelskur morðingi einhvern veginn komist undan afleiðingum ofbeldisverks síns?
Hæli handa morðingjum?
4. Hvaða griðastaðir voru til forna utan Ísraels?
4 Meðal annarra þjóða en Ísraels voru til hæli eða griðastaðir handa morðingjum og öðrum glæpamönnum. Musteri gyðjunnar Artemisar í Efesus til forna var dæmi um slíkan griðastað. Sagt er um aðra áþekka staði: „Sumir helgidómar voru gróðrarstíur glæpamanna og oft reyndist nauðsynlegt að takmarka fjölda griðastaða. Í Aþenu voru aðeins vissir helgidómar viðurkenndir að lögum sem griðastaðir (til dæmis musteri Þeseifs þar sem þrælar áttu hæli). Á dögum Tíberíusar voru söfnuðir ófyrirleitinna glæpamanna í helgidómunum orðnir svo hættulegir að griðarétturinn var takmarkaður við fáeinar borgir (árið 22).“ (The Jewish Encyclopedia, 1909, II. bindi, bls. 256) Síðar urðu kirkjur kristna heimsins griðastaðir en við það færðust völd frá borgaralegum yfirvöldum til prestastéttarinnar sem vann gegn því að réttvísinni væri framfylgt með eðlilegum hætti. Þetta fyrirkomulag var að lokum afnumið sökum misnotkunar.
5. Á hverju sést að lögmálið viðurkenndi ekki gáleysi sem gilda ástæðu til að biðjast miskunnar fyrir manndráp?
5 Þeir sem frömdu morð af ráðnum hug áttu hvergi hæli eða griðastað í Ísrael. Jafnvel levítaprestur, sem þjónaði við altari Guðs, skyldi leiddur burt til aftöku fyrir yfirvegað morð. (2. Mósebók 21:12-14) Lögmálið viðurkenndi ekki heldur gáleysi sem gilda ástæðu til að biðjast miskunnar fyrir manndráp. Sem dæmi má nefna að maður átti að gera brjóstrið á flötu þaki húss sem hann byggði. Að öðrum kosti yrði húsið blóðsekt ef einhver félli ofan af þakinu og biði bana. (5. Mósebók 22:8) Og ef maður átti mannýgan uxa og hafði verið varaður við en gætti dýrsins ekki þannig að það varð manni að bana, þá var eigandinn blóðsekur og hægt var að taka hann af lífi. (2. Mósebók 21:28-32) Sá sem barði innbrotsþjóf til bana var blóðsekur ef það gerðist að degi til þegar hægt var að sjá þjófinn og bera kennsl á hann, og það er enn ein sönnun fyrir því hve mikils Guð metur lífið. (2. Mósebók 22:2, 3) Ljóst er því að ákvæði Guðs, þar sem gætt var fullkomins jafnvægis, leyfðu vísvitandi morðingjum ekki að komast undan dauðarefsingu.
6. Hvernig var ákvæðinu um „líf fyrir líf“ framfylgt í Forn-Ísrael?
6 Ef morð var framið í Forn-Ísrael varð að hefna blóðs fórnarlambsins. Lagaákvæðinu um „líf fyrir líf“ var framfylgt þegar „hefndarmaðurinn“ líflét morðingjann. (4. Mósebók 35:19) Hefndarmaðurinn var nánasti ættingi hins myrta í karllegg. En hvernig var litið á óviljamanndráp?
Miskunnarráðstöfun Jehóva
7. Hvaða ráðstafanir gerði Guð handa þeim sem varð manni óviljandi að bana?
7 Griðaborgirnar voru kærleiksrík ráðstöfun Guðs handa þeim sem varð manni að bana óviljandi eða fyrir slysni. Móse var sagt um þessar borgir: „Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér eruð komnir yfir um Jórdan inn í Kanaanland, þá veljið yður haganlegar borgir. Skulu það vera yður griðastaðir, að þangað megi flýja vegendur, þeir er óviljandi hafa orðið manni að bana. Borgirnar skulu vera yður hæli fyrir hefnanda, svo að vegandinn týni eigi lífi áður en hann hefir komið fyrir dóm safnaðarins. En griðastaðirnir, sem þér látið af hendi, skulu vera sex. Skuluð þér láta þrjár borgir hinumegin Jórdanar og þrjár borgir í Kanaanlandi. Griðastaðir skulu þær vera . . . svo að þangað megi flýja hver sá, er orðið hefir manni að bana óviljandi.“ — 4. Mósebók 35:9-15.
8. Hvar voru griðaborgirnar og hvernig var óviljamanndrápurum hjálpað að komast þangað?
8 Þegar Ísraelsmenn settust að í fyrirheitna landinu hlýddu þeir Guði og völdu sex griðaborgir. Þrjár þessara borga — Kedes, Síkem og Hebron — voru vestan Jórdanar. Austan Jórdanar voru griðaborgirnar Gólan, Ramót og Beser. Griðaborgirnar sex voru þægilega staðsettar við vel viðhaldna vegi. Á viðeigandi stöðum meðfram þessum vegum voru merki með áletruninni „griðastaður.“ Þessi merki vísuðu þeim, sem hafði óviljandi orðið manni að bana, á næstu griðaborg. Hann gat hlaupið þangað til að bjarga lífi sínu og jafnframt notið verndar gegn hefnandanum. — Jósúabók 20:2-9.
9. Hvers vegna sá Jehóva fyrir griðaborgunum og hverjir nutu góðs af því?
9 Hvers vegna lét Guð griðaborgirnar í té? Hann gerði það til að landið saurgaðist ekki af saklausu blóði og til að blóðsök félli ekki á þjóðina. (5. Mósebók 19: 10) Hverjum voru griðaborgirnar ætlaðar? Lögmálið sagði: „Skulu þessar sex borgir vera griðastaðir bæði fyrir Ísraelsmenn og dvalarmenn og hjábýlinga meðal yðar, svo að þangað megi flýja hver sá, er orðið hefir manni að bana óviljandi.“ (4. Mósebók 35:15) Það var því í þágu sanngirni, réttvísi og miskunnar að Jehóva sagði Ísraelsmönnum að velja sér griðaborgir handa óviljamanndrápurum, og þær voru ætlaðar (1) innfæddum Ísraelsmönnum, (2) dvalarmönnum sem voru búfastir innflytjendur í Ísrael og (3) hjábýlingum sem voru útlendir landnemar er búsettir voru í landinu.
10. Af hverju má segja að griðaborgirnar hafi verið miskunnarráðstöfun Guðs?
10 Athygli vekur að jafnvel óviljamanndrápari var dauðasekur samkvæmt tilskipun Guðs: „Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða.“ Það var því aðeins vegna miskunnarráðstöfunar Jehóva Guðs sem sá er varð manni óviljandi að bana gat flúið í eina af griðaborgunum. Greinilega hafði fólk almennt samúð með þeim sem var á flótta undan hefndarmanninum því að öllum var ljóst að þeir gætu sjálfir framið slíkt óviljabrot og þarfnast hælis og miskunnar.
Flótti á griðastað
11. Hvað gat sá maður gert í Forn-Ísrael sem varð samverkamanni sínum óviljandi að bana?
11 Tökum dæmi sem gæti hjálpað þér að meta þessa miskunnarráðstöfun Guðs að verðleikum. Ímyndaðu þér að þú byggir í Forn-Ísrael. Setjum sem svo að þú værir að höggva eldivið og að öxin hryti skyndilega af skaftinu og yrði samverkamanni að bana. Hvað myndirðu gera? Lögmálið fjallaði einmitt um þessar aðstæður. Vafalaust myndirðu notfæra þér þessa ráðstöfun Guðs: „Svo skal vera um veganda þann, er þangað flýr [til griðaborgar] til þess að forða lífi sínu: Ef maður drepur náunga sinn óviljandi og hefir eigi verið óvinur hans áður, svo sem þegar maður fer með náunga sínum í skóg að fella tré og hann reiðir upp öxina til að höggva tréð, en öxin hrýtur af skaftinu og lendir á náunga hans, svo að hann fær bana af — sá maður má flýja í einhverja af borgum þessum og forða svo lífi sínu.“ (5. Mósebók 19:4, 5) En jafnvel þótt þú kæmist í griðaborg værirðu ekki laus allrar ábyrgðar á því sem gerðist.
12. Hvað gerðist eftir að óviljamanndrápari kom í griðaborg?
12 Þótt þér væri tekið vel yrðir þú að gera öldungunum í hliði griðaborgarinnar grein fyrir máli þínu. Eftir komuna til borgarinnar yrðir þú sendur til öldunga safnaðar Ísraels í borgarhliði þess staðar sem hefði lögsögu á svæðinu þar sem manndrápið átti sér stað, og þar yrði réttað í máli þínu. Þar hefðir þú tækifæri til að sanna sakleysi þitt.
Manndrápari fyrir rétti
13, 14. Nefndu sumt af því sem öldungarnir hafa viljað ganga úr skugga um er þeir yfirheyrðu manndrápara.
13 Við réttarhöldin frammi fyrir öldungunum í hliði lögsagnarborgarinnar værir þú eflaust þakklátur fyrir þá áherslu sem væri lögð á fyrri breytni þína. Öldungarnir myndu vega og meta vandlega samband þitt við fórnarlambið. Hataðirðu manninn, sastu fyrir honum og greiddir honum banahögg af ásettu ráði? Ef svo var myndu öldungarnir framselja þig hefndarmanninum til lífláts. Þessum ábyrgu mönnum var fullljós sú krafa lögmálsins að „hreinsa Ísrael af saklausra manna blóði.“ (5. Mósebók 19:11-13) Eins þurfa kristnir öldungar nú á tímum að vera gagnkunnugir Ritningunni og fara eftir henni er þeir fjalla um dómsmál, en jafnframt að taka tillit til fyrri viðhorfa og breytni syndarans.
14 Með vingjarnlegum spurningum myndu öldungar borgarinnar draga fram hvort þú sast fyrir fórnarlambinu. (2. Mósebók 21:12, 13) Réðstu á manninn úr launsátri? (5. Mósebók 27:24) Varstu honum svo reiður að þú bruggaðir honum banaráð? Ef svo var verðskuldaðirðu að deyja. (2. Mósebók 21:14) Öldungarnir þyrftu sérstaklega að komast að raun um hvort verið hefði fjandskapur eða hatur milli þín og fórnarlambsins. (5. Mósebók 19:4, 6, 7; Jósúabók 20:5) Þú hefðir orðið innilega þakklátur fyrir miskunnina, sem þér hefði verið sýnd, ef öldungarnir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að þú værir saklaus og sent þig aftur til griðaborgarinnar!
Lífið í griðaborginni
15. Hvaða kvaðir voru lagðar á óviljamanndrápara?
15 Óviljamanndrápari varð að dvelja í griðaborginni eða innan 1000 álna (um 440 metra) frá borgarveggnum. (4. Mósebók 35:2-4) Færi hann lengra frá borginni gæti hann rekist á hefndarmanninn. Þá gat hefndarmaðurinn drepið manndráparann sér að saklausu. En manndráparinn var hvorki fjötraður né fangelsaður. Sem búfastur íbúi griðaborgarinnar varð hann að læra iðn, starfa við eitthvað og vera nýtur þjóðfélagsþegn.
16. (a) Hve lengi þurfti óviljamanndápari að dvelja í griðaborginni? (b) Hvers vegna gat manndrápari yfirgefið griðaborgina eftir að æðsti presturinn dó?
16 Hve lengi þurfti óviljamanndrápari að dvelja í griðaborginni? Hugsanlega það sem eftir var ævinnar. Lögmálið sagði: „Vegandi skal dvelja í griðastað sínum uns æðsti prestur deyr, en eftir dauða æðsta prests má hann hverfa aftur til óðalslands síns.“ (4. Mósebók 35:26-28) Hvers vegna mátti óviljamanndrápari yfirgefa griðaborgina þegar æðsti presturinn dó? Æðsti presturinn var einn þekktasti maður þjóðarinnar. Dauði hans teldist slíkur viðburður að hann yrði heyrinkunnur meðal allra ættkvísla Ísraels. Allir flóttamenn í griðaborgunum gátu þá snúið til síns heima án þess að stafa hætta af hefndarmönnunum. Hvers vegna? Vegna þess að lögmál Guðs tiltók að tækifæri hefndarmannsins til að vega manndráparann rynni út við dauða æðsta prestsins og allir vissu það. Ef nánasti ættingi hins látna hefndi dauða hans eftir það var hann morðingi og yrði fyrr eða síðar að gjalda fyrir.
Varanleg áhrif
17. Hvaða áhrif hafa hömlurnar, sem settar voru á óviljamanndrápara, sennilega haft?
17 Hvaða áhrif er sennilegt að hömlurnar, sem lagðar voru á óviljamanndrápara, hafi haft? Þær minntu á að hann hafði valdið dauða annars manns. Líklega hefur hann ævinlega upp frá því litið á mannslífið sem heilagt. Og varla gat hann gleymt þeirri miskunn sem honum hafði verið sýnd. Þar sem honum hafði verið miskunnað hlaut hann að vilja vera miskunnsamur við aðra. Griðaborgirnar ásamt þeim hömlum, sem fylgdu þeim, hafa líka verið fólki almennt til góðs. Hvernig þá? Það hlýtur að hafa innprentað mönnum að þeir ættu ekki að vera kærulausir eða skeytingarlausir gagnvart mannslífinu. Þetta ætti að minna kristna menn á að þeir megi ekki sýna kæruleysi sem gæti valdið dauðaslysi. Og sú miskunnarráðstöfun Guðs að sjá fyrir griðaborgunum ætti að hvetja okkur til að sýna miskunn þegar við á. — Jakobsbréfið 2:13.
18. Á hvaða vegu voru griðaborgirnar gagnleg ráðstöfun Guðs?
18 Þessi ráðstöfun Guðs var líka gagnleg á aðra vegu. Fólkið kom ekki upp eigin löggæslusveitum í þeim tilgangi að elta uppi manndrápara áður en réttað var í máli hans, undir því yfirskini að hann væri sekur. Þess í stað var hann talinn saklaus af morði að yfirlögðu ráði og var jafnvel hjálpað að flýja á öruggan stað. Og griðaborgirnar voru alger andstæða þess fyrirkomulags sem nú er, að hneppa morðingja í fangelsi og hegningarhús þar sem séð er fyrir þeim með almannafé og þeir forherðast oft í glæpamennskunni vegna náinna samvista við aðra afbrotamenn. Í griðaborgafyrirkomulaginu þurfti ekki að byggja, viðhalda og gæta dýrra fangelsa með háum múrum og rimlum fyrir gluggum sem fangar reyna svo oft að flýja. Segja má að manndráparinn hafi leitað til „fangelsisins“ og haldið sig þar þann tíma sem tiltekinn var. Hann þurfti líka að vinna fyrir sér og gera eitthvað til gagns fyrir meðborgara sína.
19. Hvaða spurninga er spurt um griðaborgirnar?
19 Griðaborgirnar í Ísrael, sem vernduðu óviljamanndrápara, voru mjög miskunnsöm ráðstöfun af hendi Jehóva. Hún stuðlaði vissulega að virðingu fyrir lífinu. En hafa griðaborgir fortíðar eitthvert gildi fyrir fólk núna á 20. öldinni? Gætum við verið blóðsek frammi fyrir Jehóva Guði án þess að gera okkur grein fyrir því að við þörfnumst miskunnar hans? Hafa griðaborgir Ísraels einhverja þýðingu fyrir okkur nú á tímum?
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig lítur Jehóva á mannslífið?
◻ Hvaða miskunnarráðstöfun gerði Guð handa óviljamanndrápurum?
◻ Hvernig fékk manndrápari aðgang að griðaborg og hve lengi átti hann að vera þar?
◻ Hvaða áhrif hafa hömlurnar, sem settar voru á óviljamanndrápara, sennilega haft?
[Kort á blaðsíðu 10]
Griðaborgir Ísraels voru vel staðsettar.
[Sjá uppraðaðann texta í blaðinu]
KEDES Jórdan GÓLAN
SÍKEM RAMÓT
HEBRON BESER