Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.9. bls. 15-20
  • Farðu ekki á mis við tilganginn með frelsinu sem guð gefur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Farðu ekki á mis við tilganginn með frelsinu sem guð gefur
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Frelsið sem Guð hefur
  • Frelsi manna sett takmörk
  • Hvers vegna afstætt frelsi?
  • Raunverulegt frelsi gert mögulegt
  • Farðu ekki á mis við tilganginn með frelsinu sem Guð gefur
  • Notaðu vel frelsið sem Guð hefur gefið þér
  • Þjónum Jehóva, Guði frelsisins
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
  • Frjálst fólk en ábyrgt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Leiðin að sönnu frelsi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2018
  • Frelsið sem dýrkendur Jehóva njóta
    Sameinuð í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.9. bls. 15-20

Farðu ekki á mis við tilganginn með frelsinu sem guð gefur

„Þar sem andi [Jehóva] er, þar er frelsi.“ — 2. KORINTUBRÉF 3:17.

1. Hvers vegna á Jesaja 65:13, 14 við votta Jehóva?

JEHÓVA er Guð frelsisins og frelsið sem Guð gefur er mikil blessun! Þar eð vígðir þjónar hins alvalda Drottins Jehóva njóta slíks frelsis eiga eftirfarandi orð hans við þá: „Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna, sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorg og æpa af hugarkvöl.“ — Jesaja 65:13, 14.

2. Hvers vegna búa þjónar Jehóva við andlega velmegun?

2 Þjónar Guðs búa við þessa andlegu velsæld vegna þess að þeir láta leiðast af anda hans eða starfskrafti. Páll postuli sagði: „[Jehóva] er andinn, og þar sem andi [Jehóva] er, þar er frelsi.“ (2. Korintubréf 3:17) Hver er tilgangurinn með frelsinu sem Guð gefur og hvers er krafist af okkur til að nota það til fulls?

Frelsið sem Guð hefur

3. Hvers konar frelsi hefur Guð og hvers vegna?

3 Jehóva einn hefur algert frelsi. Engin sköpunarvera hans getur takmarkað frelsi hans vegna þess að hann er drottinvaldur alheimsins. Eins og hinn trúfasti Job sagði: „Hver vill . . . aftra honum, hver vill segja við hann: ‚Hvað gjörir þú?‘“ (Jobsbók 9:12) Eins neyddist Nebúkadnesar, konungur Babýlonar, til að viðurkenna: „Enginn er sá, er fái honum tálmun gjört og við hann sagt: ‚Hvað gjörir þú?‘“ — Daníel 4:35.

4. Hvernig setur Jehóva frelsi sínu skorður?

4 Réttlátar meginreglur Jehóva sjálfs halda þessu algera frelsi samt sem áður innan ákveðinna marka. Það sýndi sig þegar Abraham lét í ljós áhyggjur sínar af Sódómubúum og spurði: „Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?“ Svar Jehóva sýnir að hann viðurkennir ábyrgð sína að gera það sem er rétt. Hann hefði ekki eytt Sódómu ef nokkur réttlátur maður hefði verið eftir í henni. (1. Mósebók 18:22-33) Guð heldur líka frelsi sínu innan vissra marka vegna þess að kærleikur hans og viska kemur honum til að vera seinn til reiði og hann iðkar sjálfstjórn. — Jesaja 42:14.

Frelsi manna sett takmörk

5. Nefndu nokkur atriði sem takmarka frelsi manna.

5 Þótt Jehóva hafi algert frelsi lifa allir aðrir og hrærast innan þeirra marka sem eðli þeirra, hæfni og tilverusvið setur, og eins atriði svo sem hið takmarkaða æviskeið syndugra manna. Guð skapaði manninn með fullkomið frelsi til að lifa og hrærast á því tilverusviði sem Jehóva hafði gefið honum. Það eru nokkrar aðrar ástæður fyrir því að frelsi manna er takmarkað, ekki algert.

6. Hvernig áhrif hefur ábyrgð gagnvart Guði á frelsi okkar?

6 Í fyrsta lagi er frelsi mannsins takmarkað vegna þess að hann var skapaður til að þjóna tilgangi Guðs. Jehóva er ‚verður að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að hann hefur skapað alla hluti og fyrir hans vilja urðu þeir til að voru skapaðir.‘ (Opinberunarbókin 4:11) Maðurinn er því ábyrgur gagnvart skapara sínum sem hefur með réttu sett lög sem maðurinn á að láta stjórnast af. Í Forn-Ísrael undir Móselögunum krafðist Guð þess að sumir einstaklingar yrðu líflátnir ef þeir misbuðu nafni hans eða brutu hvíldardagslögin. (2. Mósebók 20:7; 31:14, 15; 3. Mósebók 24:13-16; 4. Mósebók 15:32-36) Þótt við, kristnir menn, séum ekki undir lögmálinu er frelsi okkar takmarkað vegna þess að við erum ábyrg frammi fyrir Jehóva sem er dómari okkar, löggjafi og konungur. — Jesaja 33:22; Rómverjabréfið 14:12.

7, 8. (a) Hvernig takmarka náttúrulögmálin frelsi manna? (b) Hvaða önnur lög Guðs takmarka frelsi okkar mannanna?

7 Í öðru lagi takmarka náttúrulögmál Guðs frelsi manna. Til dæmis veldur þyngdarlögmálið því að maður getur ekki stokkið af þaki háhýsis án þess að slasa sig eða drepa. Ljóst er að náttúrulögmál Guðs takmarka frelsi mannsins til að gera ýmsa hluti.

8 Í þriðja lagi takmarka siðferðislög Guðs frelsi manna. Þú hefur sennilega veitt athygli sannleiksgildi þess sem Páll postuli skrifaði í Galatabréfinu 6:7, 8: „Villist ekki. Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.“ Það er óumbreytanlegt að siðferðislög Jehóva Guðs takmarka líka frelsi okkar.

9. Hvernig takmarkar það frelsi okkar að við skulum vera hluti af mannlegu samfélagi?

9 Í fjórða lagi er frelsi mannsins takmarkað vegna þess að hann er hluti mannlegs samfélags. Þess vegna ætti hann að hafa frelsi aðeins að því marki sem frelsi hans skerðir ekki á ranglátan hátt frelsi annarra. Kristnir menn vera að vera undirgefnir „yfirvöldum“ og hlýða þeim svo lengi sem þau krefjast þess ekki að þeir brjóti lög Guðs. (Rómverjabréfið 13:1; Postulasagan 5:29) Við ættum til dæmis að hlýða lögum um greiðslu skatta, um hámarkshraða ökutækja og svo framvegis. Sú staðreynd að við verðum að hlýða slíkum lögum „keisarans“ sýnir einnig hvers vegna frelsið, sem Guð hefur gefið okkur, er ekki algert. — Markús 12:17; Rómverjabréfið 13:7.

Hvers vegna afstætt frelsi?

10, 11. Hvers vegna gaf Jehóva mönnum afstætt frelsi?

10 Hvers vegna gaf Jehóva manninum afstætt frelsi? Ein ástæðan var sú að skaparinn gæti átt sér viti bornar sköpunarverur á jörðinni sem myndu heiðra og lofa skapara sinn með góðri hegðun og orðum. Menn geta gert þetta en dýrin ekki. Dýrin láta stjórnast af eðlishvöt og vita ekkert um siðferði. Hægt er að þjálfa hund til að sækja hluti, en það er ekki hægt að kenna honum að það sé rangt að stela. Dýr, sem er ásköpuð ákveðin hegðun, getur ekki tekið ákvarðanir sem heiðra og lofa Jehóva Guð, en maðurinn getur hins vegar af frjálsum vilja kosið að þjóna skapara sínum vegna kærleika og þakklætis.

11 Guð gaf mönnum líka þetta frelsi þeim sjálfum til gagns og gleði. Maðurinn getur beitt afstæðu frelsi sínu með því að vera skapandi, góðgerðarsamur og samstarfsfús. Maðurinn hefur valfrelsi hvað varðar atvinnu og búsetu. Efnahagslegar og stjórnmálalegar aðstæður takmarka oft valfrelsi manna nú á dögum, en það getur stafað af ágirnd mannanna, ekki því hvernig Guð gerði manninn úr garði í upphafi.

12. Hvers vegna er meirihluti mannkyns í fjötrum?

12 Enda þótt Jehóva Guð hafi gefið mönnum mikið frelsi er yfirgnæfandi meirihluti mannkyns nú á dögum hnepptur í fjötra sem eru mönnum til mikillar skapraunar. Hvernig stendur á því? Fyrstu mannhjónin, Adam og Eva, fóru á mis við tilganginn með frelsinu sem Guð gaf. Þau fóru út fyrir þau takmörk sem Guð hafði sett frelsi þeirra og véfengdu réttmætt drottinvald Jehóva yfir sér. (1. Mósebók 3:1-7; Jermía 10:10; 50:31) Þau gerðu sig ekki ánægð með að nota frelsi sitt til að heiðra Jehóva Guð og notuðu það í eigingirni til að ákveða óháð honum hvað væri rétt og hvað væri rangt. Þar með slógust þau í lið með Satan í uppreisn hans gegn Jehóva. Í stað þess að öðlast meira frelsi máttu hin syndugu Adam og Eva hins vegar þola hömlur og fjötra sem takmörkuðu frelsi þeirra, og að lokum dauða. Afkomendur þeirra erfðu þennan frelsismissi. „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ „Laun syndarinnar er dauði.“ — Rómverjabréfið 3:23; 5:12; 6:23.

13. Hvers vegna hefur Satan getað þrælkað menn?

13 Vegna þessarar uppreisnar voru Adam og Eva og afkomendur þeirra hnepptir í fjötra Satans djöfulsins. „Allur heimurinn er á valdi hins vonda“! (1. Jóhannesarbréf 5:19) Vegna síns mikla máttar og hæfni hefur Satan verið fær um að blekkja og þrælka allt mannkynið sem er fjarlægt Guði. Þar við bætist að eigingjarnir menn hafa drottnað yfir samborgurum sínum þeim til ógæfu. (Prédikarinn 8:9) Þess vegna er mannkynið almennt í fjötrum syndar og dauða, fjötrum Satans og illra anda hans og í fjötrum stjórnmála-, efnahags- og trúarkerfa heimsins.

Raunverulegt frelsi gert mögulegt

14. Hverju er von mannkynsins um raunverulegt frelsi bundin?

14 Það að öðlast frelsi frá synd, dauða, djöflinum og þessum heimi er bundið þeim ásetningi Guðs að útkljá deiluna um réttmæti síns eigin drottinvalds yfir alheimi. Vegna þess að Satan vakti upp þetta deilumál hefur Jehóva leyft honum að standa, líkt og hann leyfði Faraó að standa um tíma. Það er til þess gert að Jehóva geti sýna mátt sinn að fullu og látið kunngera nafn sitt um alla jörðina. (2. Mósebók 9:15, 16) Guð mun brátt réttlæta sig sem drottinvald alheimsins og helga heilagt nafn sitt með því að afmá þá háðung sem það hefur mátt þola vegna uppreisnar Satans, Adams og Evu. Þannig verða þeir sem óttast Jehóva leystir úr fjötrum syndar og dauða og leiddir inn í nýjan heim þar sem ríkja mun frelsi er Guð gefur. — Rómverjabréfið 8:19-23.

15. Hvaða hlutverki gegndi Jesús í því að veita mönnum frelsi á ný?

15 Til að endurveita mannkyninu frelsi sendi Jehóva son sinn til jarðar sem mann. Með því að leggja fullkomið mannslíf sitt fúslega í sölurnar færði sonur Guðs, Jesús Kristur, lausnarfórn, grundvöllinn að frelsun mannkyns. (Matteus 20:28) Hann boðaði líka frelsisboðskap. Í upphafi þjónustu sinnar heimfærði hann á sjálfan sig orðin: „Andi [Jehóva] er yfir mér, af því að [Jehóva] hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn.“ — Jesaja 61:1; Lúkas 4:16-21.

16. Hvaða skref urðu Gyðingar á fyrstu öld að stíga til að eignast hið sanna frelsi?

16 Hvernig áttu menn að öðlast þetta frelsi? Jesús sagði: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Þannig hafa fylgjendur Jesú hlotið andlegt frelsi. (Jóhannes 8:31, 32, 36) Enn fremur sagði Jesús rómverska landstjóranum Pontíusi Pílatusi: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.“ (Jóhannes 18:37) Gyðingar sem tóku við sannleikanum, eins og Jesús Kristur prédikaði hann og var sjálfur lifandi dæmi um, iðruðust synda sinna, leiðréttu sína röngu breytni, buðu sig Jehóva og létu skírast eins og Jesús. (Matteus 3:13-17; Postulasagan 3:19) Á þennan hátt öðluðust þeir afstætt frelsi sem Guð gaf þeim.

17. Hvers vegna gefur Jehóva þjónum sínum frelsi?

17 Jehóva gefur drottinhollum þjónum sínum frelsi fyrst og fremst til að réttlæta sitt eigið drottinvald en einnig þeim sjálfum til gagns og hughreystingar. Hann frelsaði Ísraelsmenn úr Egyptalandi til að þeir gætu vegsamað hann sem konungsríki presta, sem vottar hans. (2. Mósebók 19:5, 6; Jesaja 43:10-12) Eins leysti Jehóva þjóna sína úr útlegðinni í Babýlon fyrst og fremst í þeim tilgangi að endurbyggja musteri hans og endurreisa sanna tilbeiðslu. (Esra 1:2-4) Þegar útlagarnir hugsuðu einungis um eigin þægindi sendi Jehóva spámennina Haggaí og Sakaría til að minna þá á skyldur þeirra frammi fyrir Guði. Að sjá í réttu samhengi frelsið sem Guð gaf þeim varð til þess að þeir luku endurbyggingu musterisins, Guði til dýrðar og einnig þjónum hans til þæginda og velfarnaðar.

Farðu ekki á mis við tilganginn með frelsinu sem Guð gefur

18. Hvers vegna má segja að nútímaþjónar Jehóva hafi ekki farið á mis við tilganginn með frelsinu sem Guð gefur þeim?

18 Hvað um nútímaþjóna Jehóva? Sem skipulag hafa þeir ekki farið á mis við tilganginn með frelsinu sem Guð gefur. Á áttunda áratug síðustu aldar byrjuðu þeir að losna úr fjötrum babýlonskra villukenninga og njóta aukins kristins frelsis. Það var í samræmi við Orðskviðina 4:18 sem segir: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ Samt sem áður voru þjónar Jehóva að nokkru hnepptir í fjötra Babýlonar hinnar miklu árið 1918, líkt og þjónar Guðs til forna voru hnepptir í fjötra Babýlonar um tíma. (Opinberunarbókin 17:1, 2, 5) Meðlimir þessa heimsveldis falskra trúarbragða fögnuðu er hinir táknrænu ‚tveir vottar‘ lágu andlega dauðir. En vegna óverðskuldaðrar náðar Guðs lifnuðu þessir smurðu vottar aftur og var veitt andlegt frelsi árið 1919. (Opinberunarbókin 11:3, 7-11) Þeir notuðu frelsið sem Guð gaf þeim og urðu kostgæfir vottar hins hæsta. Þess vegna var það mjög viðeigandi að þeir skyldu fagnandi taka sér nafnið vottar Jehóva árið 1931. (Jesaja 43:10-12) Einkum frá 1935 hefur slegist í lið með hinum smurðu vottum „mikill múgur“ sem vonast eftir eilífu lífi á jörðinni. Þeir fara ekki heldur á mis við tilganginn með frelsinu sem Guð gefur þeim. — Opinberunarbókin 7:9-17.

19, 20. (a) Á hvaða eftirtektarverðan hátt hafa þjónar Jehóva notað vel það frelsi sem Guð gefur? (b) Á hvaða annan hátt nota vottar Jehóva vel frelsið sem Guð gefur þeim?

19 Þjónar Jehóva nota vel frelsið sem Guð gefur þeim einkum á tvo eftirtektarverða vegu. Í fyrsta lagi nota þeir það til að gera það sem er rétt. (1. Pétursbréf 2:16) Og þeir hafa sannarlega getið sér góðan orðstír. Til dæmis kom maður einu sinni inn í ríkissal í Zürich í Sviss og sagðist vilja verða einn af vottum Jehóva. Aðspurður sagði hann að systir hans hefði verið vottur en hefði verið gerð ræk úr söfnuðinum fyrir siðleysi. Hann sagði: ‚Það eru svona samtök sem ég vil ganga í — sem umbera ekki vonda breytni.‘ Það er ærin ástæða fyrir því að The Catholic Encyclopedia skuli segja að vottar Jehóva hafi getið sér orð fyrir að vera „einhver best siðaði hópur í heimi.“

20 Vottar Jehóva nota líka vel frelsið er Guð hefur gefið með því að framfylgja því boði að prédika fagnaðarerindi frelsisins eins og Jesús gerði. (Matteus 4:17) Bæði í ræðu og riti, bæði formlega og óformlega kunngera þeir ríki Jehóva. Með því gera þeir sjálfum sér mjög gott því að þeir styrkja trú sína og efla von sína. Enn fremur er starf þeirra bæði sjálfum þeim og þeim sem hlusta á þá til bjargar. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Bókin Dynamic Religious Movements segir um þetta starf: „Erfitt yrði að finna meðlimi nokkurs annars hóps sem vinna af jafnmikilli elju í þágu trúar sinnar og vottarnir.“

21. Hvað sýnir að Jehóva blessar starf þjóna sinna?

21 Og Jehóva blessar okkur ríkulega í því að framfylgja tilganginum með því frelsi sem hann hefur gefið okkur! Það má sjá af þjónustuskýrslu síðastliðins árs — hámarkstala boðbera var yfir fjórar milljónir og yfir tíu milljónir voru viðstaddar minningarhátíðina um dauða Jesú. Í einni yfirlitskönnun hafði Írland haft 29 boðberahámörk í röð; Mexíkó 78 hámörk á 80 mánuðum og Japan hafði haft 153 hámörk í röð!

Notaðu vel frelsið sem Guð hefur gefið þér

22. Hver er kjarni nokkurra umhugsunarverðra spurninga sem við gætum spurt okkur?

22 Ef þú ert einn af vígðum vottum Jehóva, notar þú þá vel frelsið sem Guð hefur gefið þér? Einn og sérhver ætti að spyrja sjálfan sig: ‚Gæti ég þess vandlega að nota frelsi mitt þannig að ég forðist að hneyksla nokkurn með rangri breytni? Hlýði ég samviskusamlega lögum keisarans þótt ég láti lög Guðs ganga fyrir? Er ég fullkomlega samstarfsfús við öldungana í söfnuðinum? Nota ég frelsið, sem Guð hefur gefið mér, til fullnustu til að prédika fagnaðarerindið? Er ég alltaf ‚síauðugur í verki Drottins‘? Legg ég kapp á veraldlegan starfsframa meðan ég gæti notað frelsið, sem Guð hefur gefið mér, betur með því að auka þjónustu mína og sækjast eftir aukinni ábyrgð í söfnuðunum eða þjónustu í fullu starfi?‘ — 1. Korintubréf 15:58.

23. Hvað ættum við að gera til að fara ekki á mis við tilganginn með frelsinu sem Guð gefur?

23 Megum við öll ‚finna og sjá að Jehóva er góður.‘ (Sálmur 34:9) Við skulum treysta honum, hlýða lögum hans og vegsama heilagt nafn hans með því að kunngera ríki hans kostgæfilega. Munum að þeir sem ‚sá ríflega munu ríflega uppskera.‘ (2. Korintubréf 9:6) Þess vegna skulum við þjóna Jehóva af allri sálu og sýna að við höfum ekki farið á mis við tilganginn með frelsinu sem Guð hefur gefið.

Hverju svarar þú?

◻ Hvers konar frelsi hefur Guð?

◻ Hvaða takmörk eru frelsi manna sett?

◻ Hvernig opnaðist mönnum tækifæri til að öðlast raunverulegt frelsi?

◻ Hvað verðum við að gera til að fara ekki á mis við tilganginn með frelsinu sem Guð gefur?

[Mynd á blaðsíðu 16]

Frelsi manna takmarkast meðal annars af þyngdarlögmálinu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila