Spurningar frá lesendum
Þiggja vottar Jehóva sprautur af blóðþáttum svo sem ónæmisglóbúlíni eða albúmíni?
Sumir gera það, þar sem þeir álíta að Ritningin útiloki ekki afdráttarlaust að sprautað sé í mann litlum efnisþætti blóðs sem samsvarar aðeins smáu broti þess.
Skaparinn lagði fyrstur þá skyldu á allt mannkynið að forðast neyslu blóðs: „Allt sem hrærist og lifir, skal vera yður til fæðu, . . . Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta.“ (1. Mósebók 9:3, 4) Blóð var heilagt og mátti þar af leiðandi aðeins nota til fórnar. Ef það var ekki notað þannig átti að hella því niður. — 3. Mósebók 17:13, 14; 5. Mósebók 12:15, 16.
Þetta voru ekki bara tímabundnar hömlur lagðar á Gyðinga. Nauðsyn þess að halda sér frá blóði var ítrekuð við kristna menn. (Postulasagan 21:25) Í Rómaveldi umhverfis þá var lagaboð Guðs almennt brotið því að fólk neytti matar sem var blandaður blóði. Það var einnig brotið af „læknisfræðilegum“ ástæðum; Tertúllíanus segir að sumir hafi drukkið blóð þar eð þeir héldu það lækna flogaveiki. ‚Þeir svolgruðu með græðgisþorsta blóð glæpamanna sem vegnir voru á leikvanginum.‘ Hann bætti við: „Fyrirverðið ykkur fyrir viðurstyggilegt háttarlag ykkar fyrir augliti kristinna manna sem nota ekki einu sinni blóð skepnanna til matar.“ Vottar Jehóva nú á tímum eru jafnákveðnir í að brjóta ekki lög Guðs, óháð því hve algengt er að aðrir neyti matar sem blóð er notað í. Á fimmta áratugnum var farið að beita blóðgjöfum í stórum stíl og vottarnir gerðu sér þá grein fyrir að það að hlýða Guði útheimti að þeir forðuðust líka blóðgjafir, jafnvel þótt læknar hvettu til þeirra.
Í fyrstu voru flestar blóðgjafirnar heilblóð. Síðar tóku rannsóknarmenn að greina blóð í meginhluta sína því að læknar komust að þeirri niðurstöðu að ákveðinn sjúklingur þyrfti kannski ekki að fá alla aðalblóðhlutana. Það væri hættuminna fyrir hann ef þeir gæfu honum aðeins einn blóðhluta, og læknar gætu nýtt fáanlegt blóð betur.
Mannablóð er hægt að skilja sundur í dökkleitt frumuefni og gulleitan vökva (blóðvökva eða sermi). Frumuhlutinn (45 prósent rúmmáls) er myndaður úr því sem er almennt kallað rauðkorn, hvítkorn og blóðflögur. Hin 55 prósentin eru blóðvökvinn. Hann er 90 prósent vatn, en í honum er lítið eitt af mörgum prótínum, hormónum, söltum og ensímum. Núna er stór hluti blóðs frá blóðgjöfum aðskilinn í meginhluta sína. Einum sjúklingi kann að vera gefinn blóðvökvi (ferskur, frosinn blóðvökvi) gegn losti, en blóðlitlum sjúklingi kynni að vera gefið rauðkornaþykkni, það er að segja rauðkorn sem hafa verið geymd en síðan þynnt út í vökva og gefin í æð. Blóðflögur og hvítkorn eru líka gefin en sjaldnar.
Á biblíutímanum höfðu menn ekki fundið upp slíka tækni til að nota þessa blóðhluta. Guð fyrirskipaði einfaldlega: ,Haldið yður frá blóði.‘ (Postulasagan 15:28, 29) En hvers vegna ætti nokkrum að detta í hug að það breytti einhverju hvort blóðið væri óskipt eða hefði verið skilið sundur í þessa hluta? Þótt sumir menn drykkju blóð neituðu kristnir menn að gera það jafnvel þótt það kostaði þá lífið. Heldur þú að þeir hefðu brugðist öðruvísi við ef einhver hefði safnað blóði, leyft því að skiljast og síðan boðið þeim bara blóðvökvann eða þann hluta sem hafði hlaupið, kannski í blóðpylsu? Nei, alls ekki! Þess vegna þiggja vottar Jehóva ekki heilblóð í æð eða aðalhluta þess (rauðkorn, hvítkorn, blóðflögur eða blóðvökva) sem notaðir eru í áþekkum tilgangi.
Eins og spurningin gefur í skyn hafa vísindamenn hins vegar uppgötvað sérhæfða blóðþætti og hvernig megi nota þá. Algengt er að spurningin vakni í tengslum við blóðvökvaprótínin — glóbúlín, albúmín og fíbrínógen. Líklega er algengast að ónæmisglóbúlínin séu notuð í lækningaskyni. Hvers vegna er það gert?
Líkami þinn getur myndað mótefni gegn ákveðnum sjúkdómum og veitt þér virkt ónæmi. Það er undirstaðan undir bólusetningum gegn mænusótt, hettusótt, rauðum hundum, barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og taugaveiki. En hafi einhver nýlega verið í smithættu af vissum alvarlegum sjúkdómum getur verið að læknar mæli með því að hann fái sprautu af sermi (móteitri eða antitoxíni) til að gefa honum strax óvirkt eða skýlandi ónæmi. Þar til fyrir skemmstu var slíkt móteitur fengið með því að vinna ónæmisglóbúlín, sem inniheldur mótefni, úr blóði manns sem er þegar ónæmur.a Hið óvirka ónæmi, sem fengið er með sprautunni, er ekki varanlegt því að aðfengnu mótefnin hverfa úr líkamanum með tímanum.
Í ljósi fyrirmælanna að ’halda sér frá blóði’ hefur sumum kristnum mönnum fundist að þeir ættu ekki að þiggja sprautu af ónæmisglóbúlínum (prótínum), jafnvel þótt aðeins væri um að ræða agnarlítinn blóðþátt. Afstaða þeirra er skýr og einföld — enginn blóðhluti í nokkurri mynd eða magni.
Öðrum hefur fundist að sermi (móteitur), svo sem ónæmisglóbúlín er inniheldur aðeins agnarlítið brot af blóðvökva blóðgjafans og er notað til að efla varnir þeirra gegn sjúkdómum, sé ekki það sama og blóðgjöf til að viðhalda lífi þeirra. Samviska þeirra bannar þeim því ekki að þiggja ónæmisglóbúlín eða svipaða blóðþætti.b Þeir hugsa kannski sem svo að ákvörðun þeirra byggist fyrst og fremst á því hvort þeir séu fúsir til að taka einhverja þá heilsuáhættu sem er samfara því að fá sprautu með efni sem er unnið úr blóði annars.
Það er þýðingarmikið að blóðrásarkerfi barnshafandi konu er aðskilið frá blóðrásarkerfi fóstursins í kviði hennar; blóðflokkar þeirra eru oft ólíkir. Blóð móðurinnar gengur ekki yfir til fóstursins. Heilar frumur úr blóði móðurinnar fara ekki yfir í blóðrás fóstursins gegnum þann skilvegg sem fylgjan myndar, né heldur blóðvökvinn sem slíkur. Meira að segja, ef blóð móður og fósturs blandast vegna einhverra meiðsla, geta síðar komið upp heilsuvandamál (Rh- eða ABO-ósamrýmanleiki). Sum efni úr blóðvökvanum flytjast hins vegar yfir í blóðrás fóstursins. Komast blóðvökvaprótínin, svo sem ónæmisglóbúlín og albúmín, yfir? Já, sum þeirra.
Hjá barnshafandi konu er virkur búnaður sem veldur því að sum ónæmisglóbúlín færast frá blóði hennar yfir í blóð fóstursins. Þar eð mótefni flytjast þannig með náttúrlegum hætti yfir í blóð fósturs í öllum þungunum fæðast börn með eðlilegt ónæmi að ákveðnu marki gegn vissum sýkingum.
Hið sama gildir um albúmín sem læknar mæla stundum með til meðferðar á losti eða ýmsu öðru.c Rannsóknarmenn hafa sannað að albúmín úr blóðvökvanum flyst einnig yfir fylgjuna frá móður til fósturs, þótt í minni mæli sé.
Það að sumir prótínþættir úr blóðvökvanum skuli flytjast með náttúrlegum hætti yfir í blóðrásarkerfi annars einstaklings (fóstursins) getur verið annað atriði, sem hafa má í huga, þegar kristinn maður ákveður hvort hann þiggur ónæmisglóbúlín, albúmín eða svipaða inngjöf blóðþátta. Einum kann að finnast hann geta það með góðri samvisku; öðrum kann að finnast hann ekki geta það. Hver og einn verður að ráða persónulega fram úr því frammi fyrir Guði.
[Neðanmáls]
a Með erfðatækni eru vísindamenn að þróa svipuð efni sem eru ekki unnin úr blóði.
b Eitt dæmi er Rh-ónæmisglóbúlín sem læknar kunna að mæla með þegar upp kemur Rh-ósamrýmanleiki milli konu og fósturs hennar. Annað dæmi er storkuþáttur VIII sem er gefinn dreyrasjúklingum.
c Rannsóknir sýna að nota má með áhrifaríkum hætti blóðþenslulyf, sem eru ekki unnin úr blóði (svo sem hetasterkju eða HES), til að meðhöndla lost og annað ástand sem albúmínlausnir kunna að hafa verið notaðar til áður.