Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.4. bls. 30-31
  • Spurningar frá lesendum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Spurningar frá lesendum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Svipað efni
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • Lífi bjargað með blóði – hvernig?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
  • Mettu lífið að verðleikum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
  • Líf og blóð — virðir þú það sem er heilagt?
    Sameinuð í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.4. bls. 30-31

Spurningar frá lesendum

Leyfa vottar Jehóva notkun eigin blóðs (eiginblóðgjafir), svo sem í þeirri mynd að þeirra eigið blóð sé geymt og síðan gefið þeim aftur?

Læknar gera oft greinarmun á framandi blóði (úr öðrum manni) og eigin blóði (sjúklingsins sjálfs). Alkunna er að vottar Jehóva þiggja ekki blóð úr öðrum mönnum. En hvað um eiginblóðgjöf, hugtak sem er notað um ýmsar læknisaðferðir?

Sumar þessara aðferða eru óaðgengilegar fyrir kristna menn af því að þær stríða greinilega gegn Biblíunni, en aðrar vekja spurningar. Að sjálfsögðu voru blóðgjafir og önnur áþekk notkun blóðs í lækningaskyni óþekkt á þeim tíma þegar Biblían var skrifuð. Eigi að síður gaf Guð leiðbeiningar sem gera þjónum hans kleift að ákveða hvort vissar læknisaðferðir, þar sem blóð er notað, gætu verið honum vanþóknanlegar.

Það er ákvörðun Guðs að blóð tákni lífið og sé þar af leiðandi heilagt. Hann fyrirskipaði að enginn maður mætti viðhalda lífi sínu með því að innbyrða blóð. Til dæmis sagði Guð: „Allt sem hrærist og lifir, skal vera yður til fæðu. . . . Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta.“ (1. Mósebók 9:3, 4; 3. Mósebók 7:26, 27) Að sögn lífgjafans mátti nota blóð til fórnar en einskis annars: „Því að líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu. Fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ‚Enginn maður meðal yðar skal blóðs neyta.‘“ — 3. Mósebók 17:11, 12.

Þótt kristnir menn séu ekki bundnir af Móselögunum segir Biblían að það sé „nauðsynlegt“ fyrir okkur að ‚halda okkur frá blóði‘ og líta á það sem heilagt. (Postulasagan 15:28, 29) Það er skiljanlegt af því að fórnir undir lögmálinu fyrirmynduðu blóð Krists sem er leið Guðs til að við getum hlotið eilíft líf. — Hebreabréfið 9:11-15, 22.

Hvernig átti að fara með blóð samkvæmt lögmálinu ef það var ekki notað til fórnar? Við lesum að þegar veiðimaður dræpi dýr til matar yrði hann að „hella niður blóðinu og hylja það moldu.“ (3. Mósebók 17:13, 14; 5. Mósebók 12:22-24) Blóðið átti því ekki að nota til næringar eða á annan hátt. Ef það væri tekið úr skepnu og ekki notað til fórnar átti að hella því niður á jörðina, fótskör Guðs. — Jesaja 66:1; samanber Esekíel 24:7, 8.

Þetta útilokar greinilega eina algenga notkun eigin blóðs — þá að draga sjúklingi blóð fyrir aðgerð, geyma það og gefa honum síðan aftur sitt eigið blóð. Í slíkum tilvikum er farið þannig að: Fyrir valaðgerð eru dregnar nokkrar einingar af blóði einstaklingsins og geymdar sem heilblóð eða rauðkornin skilin frá, fryst og geymd. Síðan, ef sjúklingurinn virðist þurfa blóð í eða eftir aðgerð, er hægt að gefa honum aftur sitt eigið blóð. Áhyggjur manna um þessar mundir af sjúkdómum, sem berast með blóði, hafa gert eiginblóðgjafir af þessu tagi vinsælar. Vottar Jehóva þiggja hins vegar EKKI þessa læknisaðferð. Við höfum lengi gert okkur grein fyrir að slíkt blóð, sem er geymt, sé ekki lengur hluti af eintaklingnum. Það hefur verið tekið algerlega úr honum þannig að það ætti að farga því í samræmi við lög Guðs: „Þú skalt hella því á jörðina sem vatni.“ — 5. Mósebók 12:24.

Önnur allólík aðferð felst í því að leiða blóð sjúklings frá honum gegnum blóðskilju (gervinýra) eða hjarta- og lungnavél. Blóðið rennur þá eftir slöngu til gervilíffærisins sem dælir og síar (eða súrefnismettar) það og skilar því svo aftur inn í blóðrás sjúklingsins. Sumir kristnir menn hafa leyft þetta ef ekki er fyllt á dælubúnaðinn með geymdu blóði. Þeir hafa litið á slöngurnar utan líkamans sem framlengingu á blóðrásarkerfi sínu þannig að blóðið gæti gengið gegnum gervilíffærið. Þeir hafa litið svo á að blóðið í þessari lokuðu hringrás væri enn hluti af þeim og þyrfti ekki að ‚hella niður.‘a

En hvað þá ef blóðstreymið um slíka rás stöðvaðist stutta stund, svo sem þegar hjarta- og lungnavél er stöðvuð meðan skurðlæknir skoðar hvort ágrædd kransæðarhjáveita sé í lagi?

Áhersla Biblíunnar er reyndar ekki á það hvort blóðstreymi sé stöðugt. Jafnvel þótt ekki sé um skurðaðgerð að ræða getur hjarta einstaklings stöðvast stutta stund og síðan farið af stað aftur.b Það þyrfti ekki að tæma blóðrásarkerfi hans og farga blóðinu aðeins af því að blóðflæðið stöðvaðist meðan hjartastoppið stóð yfir. Þess vegna ætti kristinn maður, sem þarf að ákveða hvort hann leyfir að blóð hans sé leitt gegnum eitthvert tæki utan líkama hans, ekki að hugsa fyrst og fremst um það hvort blóðrennslið kynni að stöðvast um stutta stund, heldur hvort honum fyndist með góðri samvisku að blóðið í þessari framlengingu sé enn hluti af blóðrásarkerfi hans. — Galatabréfið 6:5.

Hvað þá um blóðvökvaaukningu? Sumir skurðlæknar telja heppilegt að þynna blóð sjúklingsins í aðgerð. Það er gert þannig að í upphafi aðgerðar leiða þeir eitthvað af blóði sjúklings í geymslupoka utan líkama hans og bæta síðan upp vökvamissinn með blóðþenslulyfi; síðar er blóðið látið renna úr pokunum í sjúklinginn aftur. Þar eð kristnir menn láta ekki geyma blóð sitt hafa sumir læknar aðlagað þessa aðferð þannig að um sé að ræða hringrás sem er tengd blóðrásarkerfi sjúklingsins allan tímann. Sumir kristnir menn hafa þegið þetta, aðrir hafnað. Enn sem fyrr verður hver einstakur að ákveða hvort hann liti blóðið, sem er veitt í slíka vökvaaukningarhringrás, svipuðum augum og blóð sem fer gegnum hjarta- og lungnavél, eða hvort hann liti svo á að blóðið hefði yfirgefið líkama hans og ætti því að farga.

Síðasta dæmið um notkun eigin blóðs er fólgið í því að vinna og endurnota blóð í aðgerð. Þá er notað tæki til að soga upp blóð úr skurðsárinu, dæla því gegnum síu (til að sía úr því kekki og agnir) eða skilvindu (til að draga úr því umframvökva) og veita því síðan aftur inn í sjúklinginn. Margir kristnir menn haft miklar áhyggjur af því hvort slík blóðvinnsla fæli í sér einhverja stutta stöðvun blóðrennslisins. En eins og nefnt var skiptir meira máli út frá Biblíunni hvort blóð, sem rennur út í skurðsárið, er enn hluti af einstaklingnum. Merkir sú staðreynd, að blóðið hefur runnið úr blóðrásarkerfi hans út í sárið, að það ætti að ‚hella því niður‘ eins og blóðinu sem nefnt er í 3. Mósebók 17:13? Ef einstaklingur telur svo vera myndi hann sennilega ekki leyfa slíka vinnslu blóðs. En annar kristinn maður (sem myndi ekki heldur leyfa að honum væri dregið blóð sem væri geymt og síðan gefið honum aftur) gæti hugsað sem svo að hringrásin frá skurðstaðnum og óslitið rennsli inn í líkama hans aftur stríddi ekki gegn æfðri samvisku hans.

Eins og við sjáum er beitt æ fjölbreyttari tækni og tækjum í sambandi við notkun eigin blóðs. Við getum ekki og ættum ekki að reyna að fjalla um sérhvert afbrigði. Hver einstakur kristinn maður, sem stendur frammi fyrir spurningu á þessu sviði, ber ábyrgð á því að afla sér nánari upplýsinga frá læknum og taka síðan persónulega ákvörðun.

Þótt margt hafi verið sagt hér um læknisfræðilegar hliðar á málinu eru það trúarlegu atriðin sem skipta mestu máli. Þegar kristinn maður ræður fram úr sérhverjum efasemdum eða spurningum um læknisaðferðir, sem fela í sér notkun blóðs, ætti það að ráða ferðinni að hann sýni trú, að hann virði fyrirmæli Guðs um að ‚halda sér frá blóði‘ og að hann varðveiti góða samvisku. Hvers vegna? Vegna þess að grundvallarleiðin til að bjarga lífi með blóði er ekki með tækni læknisfræðinnar heldur með björgunarmætti blóðs Krists. Páll postuli skrifaði: „Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina.“ (Efesusbréfið 1:7 Opinberunarbókin 7:14, 17) Enda þótt nútímalæknisfræði kunni að geta hjálpað okkur að framlengja líf okkar um tíma viljum við sannarlega ekki framlengja núverandi líf okkar með því að gera nokkuð það sem myndi brjóta gegn kristinni samvisku okkar eða misþóknast lífgjafa okkar. — Matteus 16:25; 1. Tímóteusarbréf 1:18, 19.

[Neðanmáls]

a Sjá Varðturninn, enska útgáfu, 15. júní 1978, bls. 30.

b Það gæti stafað af hjartaáfalli, raflosti eða mjög mikilli líkamskælingu, til dæmis við það að sökkva í ískalt vatn.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Hringrás hjarta- og lungnavélar er í meginatriðum sem hér segir: (1) slöngur frá æðakerfi sjúklings, (2) sogdælur, (3) súrefnisblandari, (4) blóðsía, (5) aðaldæla, (6) slöngur að blóðrásarkerfi sjúklings.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila