Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 44 bls. 236-bls. 239 gr. 5
  • Að beita spurningum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Að beita spurningum
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Að nota spurningar
    Leggðu þig fram við að lesa og kenna
  • Tökum framförum í að boða trúna – beitum spurningum á áhrifaríkan hátt
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2018
  • Líktu eftir kennaranum mikla
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Gefurðu gaum að spurningum Jehóva?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 44 bls. 236-bls. 239 gr. 5

Námskafli 44

Að beita spurningum

Hvað þarftu að gera?

Beittu spurningum þannig að þú náir tilætluðum árangri. Þú vilt annaðhvort fá áheyrendur til að svara upphátt eða örva hugsun þeirra. Áhrifin ráðast mjög af því hvernig þú spyrð og um hvað þú spyrð.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Spurningar eru áhrifaríkt tæki til að gera áheyrendur að þátttakendum. Svör við vel völdum spurningum geta jafnframt gefið kennara gagnlegar upplýsingar.

SPURNINGAR kalla á svör — annaðhvort munnleg eða huglæg — þannig að þær gera áheyrendur að þátttakendum. Spurningar geta verið góð leið til að koma af stað samræðum og eiga lífleg skoðanaskipti. Sem kennari og ræðumaður geturðu notað spurningar til að vekja áhuga, hjálpa áheyranda að rökhugsa eða auka áhrif orða þinna. Með því að beita spurningum vel hveturðu aðra til að hugsa, ekki aðeins hlusta. Hafðu ákveðið markmið í huga og spyrðu spurninganna þannig að þú náir því.

Til að glæða samræður. Þegar þú boðar fagnaðarerindið ættirðu að grípa öll tækifæri til að hvetja fólk til að tjá sig, ef það er á annað borð fúst til þess.

Mörgum vottum hefur tekist að koma af stað skemmtilegum samræðum með því að spyrja einfaldlega: „Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér . . . ?“ Með því að spyrja um eitthvað sem er mörgum ofarlega í huga er næstum öruggt að maður á fyrir sér ánægjulega stund í boðunarstarfinu. Spurningin getur líka vakið forvitni þó að viðmælandinn hafi aldrei fyrr leitt hugann að málinu. Hægt er að hefja máls á ótalmörgu með því að spyrja eitthvað í þessum dúr: „Hvað heldurðu að . . . ?,“ „Hvað finnst þér um . . . ?“ og „Álítur þú að . . . ?“

Þegar Filippus trúboði kom að máli við eþíópískan hirðmann, sem var að lesa upphátt í spádómi Jesaja, spurði hann einfaldlega: „Skilur þú það, sem þú ert að lesa?“ (Postulasagan 8:30) Þessi spurning gaf Filippusi tækifæri til að útlista sannleikann um Jesú Krist. Með því að spyrja áþekkra spurninga hafa boðberar stundum fundið fólk sem hungraði eftir að skilja boðskap Biblíunnar vel.

Margir eru fúsari til að hlusta á þig ef þú gefur þeim tækifæri til að segja skoðun sína. Hlustaðu vel eftir að hafa spurt spurningar. Vertu vingjarnlegur en ekki gagnrýninn þegar þú tekur undir svar viðmælandans. Hrósaðu honum ef þú getur gert það í einlægni. Er fræðimaður nokkur „svaraði viturlega“ hrósaði Jesús honum og sagði: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“ (Mark. 12:34) Þú getur þakkað viðmælandanum fyrir að segja hvað honum býr í brjósti, þó að þú sért honum ekki sammála. Það sem hann sagði getur vakið athygli þína á sjónarmiði sem þú þarft að taka tillit til þegar þú kemur boðskap Biblíunnar á framfæri við hann.

Til að koma mikilvægum hugmyndum á framfæri. Þegar þú ávarpar hóp eða ræðir við eina manneskju skaltu reyna að nota spurningar sem undanfara mikilvægra atriða. Gættu þess að spurningarnar fjalli um raunveruleg áhugamál áheyrenda. Þú gætir líka vakið forvitni viðmælandans með því að spyrja spurninga þar sem svarið liggur ekki í augum uppi. Ef þú gerir örstutt hlé á eftir spurningu er líklegt að áheyrendur hlusti með meiri athygli á framhaldið.

Spámaðurinn Míka varpaði einhverju sinni fram nokkrum spurningum. Eftir að hafa spurt til hvers Guð ætlist af þeim sem tilbiðja hann bar hann fram fjórar spurningar í viðbót sem allar innihéldu hugsanlegt svar. Spurningarnar búa lesandann svo undir hið viturlega svar sem Míka kemur með í lokin. (Míka 6:6-8) Geturðu gert eitthvað svipað þegar þú kennir? Reyndu það.

Til að rökræða málin. Hægt er að nota spurningar til að auðvelda öðrum að skilja vissa rökfærslu. Jehóva gerði þetta er hann flutti Ísrael alvarlega yfirlýsingu, eins og sjá má í Malakí 1:2-10. Fyrst segir hann: „Ég elska yður.“ En þjóðin kunni ekki að meta kærleika hans þannig að hann spurði: „Var ekki Esaú bróðir Jakobs?“ Því næst benti Jehóva á auðnina í Edóm sem merki þess að illska Edómíta hefði komið í veg fyrir að hann gæti elskað þá. Síðan kom hann með líkingar og spurningar þar inn á milli til að leggja áherslu á að Ísrael hefði ekki brugðist rétt við kærleika hans. Sumar þessara spurninga eru settar fram eins og hinir ótrúu prestar séu að spyrja. Öðrum spurningum beinir Jehóva sjálfur til prestanna. Þetta tvítal hreyfir við tilfinningum okkar og grípur athyglina. Rökfærslan er óhrekjandi og boðskapurinn ógleymanlegur.

Sumir ræðumenn beita spurningum á viðlíka hátt. Þó að ekki sé ætlast til þess að spurningunum sé svarað upphátt gera áheyrendur það í huganum, rétt eins og um samtal sé að ræða.

Þegar við kennum biblíunemanda beitum við aðferð þar sem gert er ráð fyrir þátttöku nemandans. Að sjálfsögðu er best að nemandinn svari með eigin orðum en lesi ekki upp svörin. Þú getur rökrætt í vingjarnlegum tón við nemandann með því að spyrja aukaspurninga. Þegar um aðalatriði er að ræða geturðu hvatt hann til að nota Biblíuna sem grundvöll að svarinu. Þú gætir líka spurt: „Hvernig tengist þetta öðrum atriðum sem við höfum farið yfir? Af hverju er það mikilvægt? Hvaða áhrif ætti það að hafa á líf okkar?“ Þetta er mun áhrifaríkari aðferð en að þú lýsir þinni eigin sannfæringu eða komir sjálfur með ítarlega skýringu. Með þessum hætti hjálparðu nemandanum að beita ‚rökhyggjunni‘ til að tilbiðja Guð. — Rómv. 12:1, NW.

Vertu þolinmóður ef nemandinn grípur ekki ákveðna hugmynd. Kannski er hann að reyna að bera það sem þú segir saman við hugmyndir sem hann hefur trúað í mörg ár. Ef til vill geturðu hjálpað honum með því að nálgast viðfangsefnið frá nýrri hlið. En stundum þarf að beita mjög einfaldri rökfærslu. Notaðu Biblíuna sem mest. Komdu með líkingar og dæmi. Og beittu síðan einföldum spurningum til að auðvelda nemandanum að draga réttar ályktanir af fyrirliggjandi upplýsingum.

Til að draga fram tilfinningar. Fólk segir ekki alltaf hvað því býr í brjósti þegar það svarar spurningum. Kannski svarar það hreinlega eins og það heldur að þú viljir. Þú þarft að sýna hyggindi og góða dómgreind. (Orðskv. 20:5) Þú gætir spurt líkt og Jesús: „Trúir þú þessu?“ — Jóh. 11:26.

Þegar margir af lærisveinum Jesú hneyksluðust á orðum hans og yfirgáfu hann bauð hann postulunum að tjá sig um málið. „Ætlið þér að fara líka?“ spurði hann. Pétur lýsti hvernig þeim var innanbrjósts og svaraði: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“ (Jóh. 6:67-69) Öðru sinni spurði Jesús lærisveinana: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“ Síðan bauð hann þeim upp á að segja hvað þeim byggi í brjósti og spurði: „En þér, hvern segið þér mig vera?“ „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs,“ svaraði Pétur þá. — Matt. 16:13-16.

Þegar þú kennir biblíunemanda gæti verið gott að nálgast viss mál á svipaðan hátt með spurningum. Þú gætir spurt: „Hvernig líta bekkjarfélagar (eða vinnufélagar) þínir á þetta mál?“ Síðan gætirðu spurt: „Hvað finnst þér um það?“ Þegar þú veist hvernig nemandinn hugsar í raun og veru ertu í góðri aðstöðu til að hjálpa honum.

Til áhersluauka. Spurningar eru líka áhrifarík áhersluaðferð. Páll postuli beitti spurningum í þessu skyni eins og sjá má í Rómverjabréfinu 8:31, 32: „Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum?“ Báðar spurningarnar útfæra nánar það sem stendur í setningunni á undan.

Eftir að hafa skrásett dóm Jehóva yfir konungi Babýlonar lýsir Jesaja spámaður sterkri sannfæringu sinni og segir: „Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta; hver má ónýta það? Það er hans hönd, sem út er rétt. Hver má kippa henni aftur?“ (Jes. 14:27) Spurningarnar eru þess eðlis að það er ekki hægt að andmæla þeim. Það er ekki ætlast til að þeim sé svarað.

Til að afhjúpa rangan hugsunarhátt. Vel úthugsaðar spurningar eru líka áhrifaríkt tæki til að afhjúpa rangan hugsunarhátt. Áður en Jesús læknaði mann nokkurn spurði hann faríseana og nokkra lögfróða menn: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Eftir að hafa læknað manninn spurði hann áfram: „Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?“ (Lúk. 14:1-6) Jesús ætlaðist ekki til að fá svar og fékk það ekki. Spurningarnar afhjúpuðu rangan hugsunarhátt þeirra.

Það getur jafnvel hent sannkristinn mann að hugsa ekki rétt. Til dæmis gerðist það í Korintuborg á fyrstu öld að sumir drógu bræður sína fyrir dómstóla til að útkljá ágreiningsmál sem þeir hefðu átt að geta leyst sjálfir. Hvernig tók Páll postuli á málinu? Hann spurði nokkurra hnitmiðaðra spurninga til að leiðrétta hugsunarhátt þeirra. — 1. Kor. 6:1-8.

Með æfingunni geturðu lært að beita spurningum á áhrifaríkan hátt. En mundu að sýna öðrum tilhlýðilega virðingu, einkum ef þú ert að tala við þér eldra fólk, fólk sem þú þekkir ekki persónulega, og við valdamenn. Beittu spurningum til að kynna sannleika Biblíunnar á aðlaðandi hátt.

ÞANNIG FERÐU AÐ

  • Komdu af stað samræðum með því að spyrja spurninga um mál sem eru viðmælandanum ofarlega í huga.

  • Reyndu að varpa fram þannig spurningu að viðmælandann langi til að heyra mikilvægan hlut sem þú vilt koma á framfæri.

  • Notaðu spurningar til að auðvelda fólki að skilja forsendur þess sem þú segir, rökin fyrir því og þau góðu áhrif sem það getur haft á líf þess.

  • Spyrðu spurninga til að hvetja nemandann til að segja skoðun sína á því sem hann er að læra, ekki aðeins til að lýsa staðreyndum.

ÆFINGAR: (1) Semdu nokkrar spurningar sem þú gætir notað til að hefja samræður við fólk á starfssvæði þínu. (2) Lestu 3. kafla Rómverjabréfsins og taktu sérstaklega eftir hvernig Páll notar spurningar til að rökræða um stöðu Gyðinga og heiðingja frammi fyrir Guði.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila