Námskafli 18
Notaðu biblíuna til að svara
VIÐ reynum að nota Biblíuna til að svara fólki þegar það spyr um trú okkar, líferni, framtíðarvon og afstöðu til atburða líðandi stundar. Hvers vegna gerum við það? Vegna þess að Biblían er orð Guðs og við sækjum trú okkar til hennar. Við byggjum líferni okkar á henni. Hún mótar afstöðu okkar til heimsatburðanna og framtíðarvon okkar á sér sterkar rætur í innblásnum fyrirheitum hennar. — 2. Tím. 3:16, 17.
Við finnum mjög til þeirrar ábyrgðar sem fylgir nafninu sem við erum nefnd. Við erum vottar Jehóva. (Jes. 43:12, NW) Þar af leiðandi tökum við ekki mið af heimspeki manna þegar við svörum spurningum heldur af því sem Jehóva segir í innblásnu orði sínu. Við höfum að vísu ólíkar skoðanir á ýmsum málum en við látum Biblíuna móta viðhorf okkar vegna þess að við trúum því staðfastlega að hún sé sannleikurinn. Biblían gefur okkur auðvitað svigrúm til þess að hafa eigin smekk í mörgu. Og við viljum ekki þröngva okkar eigin smekk upp á aðra heldur kenna þær meginreglur sem settar eru fram í Biblíunni, og leyfa áheyrendum að njóta sama valfrelsis og við. Við reynum, eins og Páll postuli, að „vekja hlýðni við trúna.“ — Rómv. 16:26.
Jesús Kristur er kallaður „votturinn trúi og sanni“ í Opinberunarbókinni 3:14. Hvernig svaraði hann spurningum og hvernig brást hann við ólíkum aðstæðum sem hann lenti í? Stundum tók hann líkingar sem örvuðu hugsun fólks. Stundum spurði hann fyrirspyrjanda hvernig hann skildi ákveðinn ritningarstað. Oft vitnaði hann í ritningarstaði, endursagði þá eða vísaði óbeint til þeirra. (Matt. 4:3-10; 12:1-8; Lúk. 10:25-28; 17:32) Bókrollur Ritningarinnar voru yfirleitt geymdar í samkunduhúsunum á fyrstu öld. Ekkert bendir til þess að Jesús hafi átt sitt eigið safn af þessum bókrollum, en hann þekkti Ritninguna vel og vitnaði mjög oft í hana þegar hann kenndi. (Lúk. 24:27, 44-47) Þess vegna gat hann með sanni sagt að hann talaði ekki af sjálfum sér heldur kenndi það sem hann heyrði frá föður sínum. — Jóh. 8:26.
Við viljum fylgja fordæmi Jesú. Við höfum að vísu ekki heyrt Guð sjálfan tala, líkt og Jesús. Biblían er hins vegar orð Guðs. Þegar við sækjum svör okkar til hennar beinum við ekki athygli að sjálfum okkur. Við sýnum að við viljum ekki túlka skoðanir ófullkomins manns heldur erum við ákveðin í að láta Guð segja til um hvað sé sannleikur. — Jóh. 7:18; Rómv. 3:4.
En markmið okkar er ekki einungis að nota Biblíuna heldur viljum við nota hana þannig að áheyrandinn hafi sem mest gagn af því. Við viljum að hann hlusti með opnum huga. Ef sjónarmið viðmælandans bjóða upp á það gætirðu beint athygli að Biblíunni á þessa leið: „Ertu mér ekki sammála um að sjónarmið Guðs skipti mestu máli?“ Þú gætir líka sagt: „Vissirðu að það er fjallað um þessa spurningu í Biblíunni?“ Sértu að tala við manneskju sem ber ekki mikla virðingu fyrir Biblíunni þarftu kannski að nota öðruvísi inngangsorð. Til dæmis gætirðu spurt: „Má ég sýna þér þennan forna spádóm?“ Eða þá: „Útbreiddasta bók mannkynssögunnar segir . . . “
Í sumum tilfellum gæti hreinlega verið heppilegt að endursegja ritningartexta. Verði því við komið er hins vegar best að opna sjálfa Biblíuna og lesa beint upp úr henni. Sýndu viðmælandanum ritningarstaðinn í hans eigin biblíu ef það hentar. Það getur haft sterk áhrif á fólk ef Biblían er notuð á þennan hátt. — Hebr. 4:12.
Það er sérstök ábyrgð safnaðaröldunga að nota Biblíuna til að svara spurningum. Sú krafa er meðal annars gerð til öldungs að hann sé „maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni.“ (Tít. 1:9) Verið getur að safnaðarmaður taki alvarlega ákvörðun eftir að hafa leitað ráða hjá öldungi. Það er því afar mikilvægt að ráðleggingar öldungsins séu að öllu leyti byggðar á Biblíunni. Þetta fordæmi öldungs hvað varðar notkun á Biblíunni getur haft áhrif á kennsluaðferðir margra.